Paul Labile Pogba fæddist 15. mars 1993 í Lagny-sur-Marne í austurúthverfum Parísar og er af gínversku bergi brotinn. Hann lék með liðum í nágrenninu fram til 14 ára aldurs þegar hann flutti sig um set til Le Havre. Þar var hann stjarna yngri liðanna og og komst í U-16 ára landslið Frakklands.
Í júlílok 2009 tilkynnti Pogba hins vegar að hann hyggðist ganga til liðs við Manchester United. Le Havre urðu æfir og vildu meina að það væri brot á samkomulagi við Pogba og foreldrana um að Pogba myndi skrifa undir samning við Le Havre þegar hann hefði aldur til að gerast atvinnumaður, sem í Frakklandi er 17 ár. Le Havre ásakaði United um að hafa greitt Pogba undir borðið. Liðið sem Pogba var í áður kom þá með nákvæmlega sömu ásakanir á hendur Le Havre. Fifa hreinsaði United af kæru Le Havre og árið eftir komust félögin að samkomulagi um málið, United væntanlega greitt Le Havre einhverja upphæð
En Pogba var kominn til United og varð strax ein af stjörnum unglingaliðsins. Þegar Pogba var átján ára vann liðið unglingabikarinn í fyrsta skipti í átta ár og Pogba og Ravel Morrison voru stjörnunar. En í liðinu voru einnig Jesse Lingard, Keane tvíburarnir, Tyler Blackett, Sam Johnstone og fleiri leikmen sem gengið hefur þokkalega, svo sem Tom Thorpe, Ryan Tunnicliffe, Tom Lawrence, Larnell Cole og Zeki Fryers.
Veturinn 2011-12 var lykilvetur á ferli Pogba. Hann átti ekki nema ár eftir af samningi sínum og var orðinn fastur maður í varaliðinu. Fyrsta leik sinn með aðalliðinu lék hann svo 20. september 2011, kom inná í hálfleik móti Leeds í deildarbikarnum. Hann kom aftur inn á í næstu umferðum deildarbikarsins gegn Aldershot og síðan gegn Crystal Palace.
Fyrsta deildarleik sinn lék hann þegar hann kom inn á gegn Stoke City 31. janúar. En þá höfðu hlaðist upp óveðursský í sambandi hans og Fergie. 31. desember hafði United leikið gegn Blackburn Rovers á Old Trafford, leikur sem tapaðist 2-3. United átti við mikil meiðslavandræði að stríða og Michael Carrick spilaði miðvörð við hliðina á Phil Jones en á miðjuna voru settir Park Ji-sung og, af öllum mönnum, Rafael. Það var þá sem Pogba segist hafa orðið sannfærður um að hann ætti ekki framtíð fyrir sér hjá United. Í janúar var síðan Paul Scholes fagnað þegar hann tók skóna af hillunni og Pogba færðist aftar í goggunaröðina.
En þó þetta væri meginástæðan lá fleira að baki. Pogba var þá þegar kominn með umboðsmanninn Mino Raiola og gerði miklar kröfur um laun til að skrifa undir nýjan samning. Sir Alex var ekki á þeim buxunum að láta unglinginn vaða yfir sig og svo fór að um sumarið gekk Pogba til liðs við Juventus sem þurfti eingöngu að greiða United 800.000 pund í uppeldisbætur. Einhver sagnir eru um að Pogba hafi á endanum verið boðið það sem hann vildi en ef svo var þá var það um seinan. Þarna um vorið hafði hann meira að segja verið færður yfir á æfingar U-18 liðsins þar sem hann væri hvort eð er á förum og það var of mikil óvlid á milli Pogba og Ferguson til að hægt væri að bæta úr því.
Svo fór enda að þetta sumar skrifaði Pogba undir samning við Juventus sem þurfti eingöngu að greiða United 800.000 pund í uppeldisbætur.
Pogba varð á svipstundu fastamaður í liði Juve sem voru ríkjandi meistarar og þarf lítið annað að segja en að hann hefur verið lykilmaður í liðinu sem orðið hefur meistari öll fjögur ár hans þar. Það eru engin smámenni sem Pogba hefur verið að spila með þar og skína skærar en, menn á borð við Andrea Pirlo, Arturo Vidal, Emanuele Giaccherini. Claudio Marchisio og Sami Khedira.
Auk meistaratitlanna vann hann Coppa Italia árin 2015 og 2016, varð meistari meistaranna 2013 og 2015 og var auðvitað í liði Juve sem tapaði 3-1 fyrir Barcelona í úrslitaleik meistaradeildarinnar vorið 2015.
Vefritið In Bed With Maradona velur á hverju ári 100 leikmenn undir 22ja ára aldri sem dómnefnd finnst mest spennand. Listarnir þar eru ekkert slor. Ári síðar fer síðan yfir árið sem liðið er og hvort leikmenn hafa staðið undir væntingum. Þar er ekkert gefið eftir í dómum. En þau þrjú ár (2012-13, 2013-14 og 2014-5) sem Paul Pogba var á listanum fékk hann A, eini leikmaðurinn sem það hefur gert. í nóvember í fyrra sögðu þeir
…we’re thoroughly depressed he’s now too old for the 100. We’ll just have to watch him for fun instead.
En hvað er það sem við, og dómnefnd IBWM, fáum að gleðja okkur við að horfa á Old Trafford næstu fimm árin hið minnsta?
Stutta svarið er: hinn fullkomna miðjumann.
Langa svarið er: Mann sem getur spilað hvar sem er á miðjunni, nema það er sóun á hæfileikum hans að hafa hann í varnarmiðjumannsstöðunni og leyfa honum ekki að leika lausum hala.
Án þess að við týnum okkur í tölfræði þá er hér mynd sem sýnir síðasta tímabil Pogba í samanburði við helstu miðjumenn United, já og Juan Mata sem spilaðijú á kantinum mest allt síðasta tímabil
Hann gerir jafnvel á öllum sviðum og United mennirnir eru að gera á sínum sérsviðum. Þetta heitir að vera jafnvígur í öllum miðjuhlutverkum!
Öll fjögur árin hjá Juventus spilaði Pogba sem hluti af fimm manna miðju í 3-5-2 kerfinu sem Antonio Conte kom með til liðsins. Fyrri tvo veturna var hann alla jafna á miðri miðjunni, en seinni tvo færði hann sig eitt skref til vinstri og skeiðaði þar aðallega fram en líka svolitíð aftur við hliðina á bróður sínum af annari móður, Patrice Evra. Það verður spennandi að sjá hvernig José ætlar að nota hann. Í kerfinu 4-2-3-1 er Pogba klárlega annar þessara tveggja á miðjunni en það væri sem fyrr segir sóun að hafa ekki varnarsinnaðri mann við hliðina á honum, og þá líklega Carrick eða Schneiderlin. Það væri því meira við hæfi Pogba að 4-2-3-1 breyttist í 4-1-4-1 eða 4-1-1-3-1.
Manchester United er hins vegar að kaupa dýrasta leikmann heims og ef þú kaupir dýrasta leikmann heims án þess að hafa í huga hvernig hann nýtist best og ert ekki reiðubúinn að aðlaga kerfi liðsins til að nýta krafta hans þá er eitthvað skrýtið í gangi.
Og það virðist ekki nokkur vafi á því hvaða kerfi væri hentugast. 4-3-3 þar sem Pogba fengi frelsi vinstra megin á miðjunni, einn miðjumaður væri dýpri, þennan veturinn líklega Michael Carrick, og síðan Schneiderlin eða Herrera hægra megin. Í slíku kerfi er ekkert pláss fyrir leikmann í holunni og þá er einn leikmaður sem kemst ekki í liðið þar sem það staðan sem hann getur leikið. Það verður því enginn hissa ef kaupin á Pogba marka upphafið að enda ferils Wayne Rooney hjá Manchester United.
En hverjir eru gallar Paul Pogba, ef einhverjir. Jú sem fyrr segir var hann alltaf að spila með heimsklassa mönnum á miðjunni hjá Juve. En síðasta vetur voru Pirlo og Vidal farnir, og Marchisio og Khedira meiddir. Þá var hann stundum ekki nógu agaður til að leika lykilhlutverkið. Fundið var að tvennu, annars vegar reyndi hann of mikið, skorar þrisvar í sama skoti eins og sagt er eða reyna of flottar sendingar. Hins vegar átti hann það til að týnast. Í Evrópukeppninni í sumar var hann ekki ein af stjörnum mótsins eins og vonast hafði verið eftir. Hann átti þó betri leiki þegar hann var með N’Golo Kanté með sér á miðjunni og Kante gat unnið skítverkin, en þegar hann átti að vera á tveggja manna miðju með Matuidi kom einmitt það sama: Hann hvarf. Hann hafði ekki frelsið til að fara fram eins og hann vildi og gat ekki sett mark sitt á leikinn. Það er því líklegt að til að fá það besta úr honum sé alger nauðsyn að hafa vatnsbera með honum á miðjunni, mann sem getur frelsað Pogba úr viðjum og látið hann sýna sitt. Ó! að Carrick væri 28 ára!
En það eru ekki lengur vangaveltur heldur raunverulegt verkefni sem José Mourinho þarf nú að leysa. Það vildu allir þjálfarar í heiminum hafa slíkt verkefni á borðinu hjá sér.
Árið 2014 sagði Pogba í viðtali um það þegar hann ákvað að Sir Alex myndi ekki gefa honum þau tækifæri sem honum fannst hann eiga fyllilega skilið
It was a very, very difficult moment for me because I was in love with Manchester and I was a Mancunian.
Paul Pogba er kominn heim.
Bjarni says
Frábær samantekt. Get ekki beðið eftir því að sjá hann spila, hef tröllatrú á honum.
Dogsdieinhotcars says
Held því miður fyrir marga að það verði Fellaini/Carrick sem byrji á að taka þetta varnarmiðjumannshlutverk til að fría um Pogba. Hvort það verði Rooney, Herrera eða Mkhitaryan sem tekur þriðju stöðuna er síðan spurning.
Ég hélt persónulega að Schneiderlin myndi láta meira til sín taka, og vera framtíðarmiðjumaður fyrir okkur. Vonandi gerir hann meira á þessu ári. Annars hef ég tröllatrú á Fosu-Mensah sem svona ruslakalli í framtíðinni.
Karl Gardars says
Èg gæti trúað að tilkoma Pogba muni styrkja hina fransarana og sérstaklega Morgan.
Ég er orðinn verulega spenntur að sjá væntanlegar uppstillingar því möguleikarnir eru nánast óþrjótandi og gæðin í liðinu eru mikil. Það er ljóst að Park De Bus var ekki keyptur og það er sóknarbolti framundan á theatre of dreams.
Lúftpanzer says
Frábær pistill. Heimsklassa leikmaður – eitthver lýsti honum sem blöndu af Viera og Zidane og ég er ekki frá því að það sé ágætis lýsing. Það er ljóst að þessi leikmaður labbar inn í öll lið í deildinni.. ég tel okkur núna hafa allavega 3-4 leikmenn sem ættu tilköll í öll lið deildarinnar.. De Gea, Zlatan, Pogba og svo Luke Shaw (í topp-leikformi). Tilhugsunin með vinstri væng með Shaw, Martial (og svo pogba þarna vinstra meginn á miðri miðjunni einsog hjá Juve) hlýtur að hrella ansi mörg lið.
Það mun pottþétt taka hann eitthvern tíma að aðlagast liðinu og ná sínu leikformi, og því ekki ólíklegt að hann muni fá yfir eitthverjar gusur (sbr. Martial – http://cdn-football365.365.co.za/wp-content/uploads/2015/09/21112052/Martial.Mirror.Mediawatch-700×367.jpg), en hann mun pottþétt þagga niður í svoleiðis rugli fljótlega. Það talar enginn um Martial sem ‘Waste of Money’ lengur
Valdemar says
Erum við ekki bara að tala um:
Zlatan
Martial Rooney/Mkhitaryan
Pogba Mata/Herrera
Carrick/Schneiderlein
Shaw Bailly/Blind Smalling Valencia
?
Eins og Lúftpanzer, þessi vinstri vængur… vá!
Annars er ég svo mikill Mata fanboy að ég set hann í öll mín lið :)
Karl Gardars says
Stundum er gaman að kíkja í koppinn og þá sérstaklega þegar kunningjarnir skæla hvað mest yfir óréttlæti alheimsins eins og raunin varð eftir kaupin á Pogba. Þarna safnast saman sumir firrtustu einstaklingar þá- fram- og samtíðar en jafnframt einstaka snillingar eins og sá sem reit eftirfarandi:
„Það eru ótrúlega skrítnar tilfinningar hjá manni fyrir hvert einasta tímabil hjá Liverpool – oftar en ekki þá hefur maður sett væntingarnar í botn, ekki ólíkt því að fara á „blind date“ og búast við Beyoncé en enda með Leoncie!“
Touchè!
Cantona no 7 says
Velkominn heim Pogba,
Vonandi ertu lykilmaður okkar næstu árin.
Ég get varla beðið eftir þessu tímabili.
Guð blessi oss.
G G M U