Síðan Rauðu djöflarnir fóru fyrst í loftið hefur ritstjórnin líklega aldrei verið jafn spennt fyrir komandi tímabili.
Við byrjum þessa upphitun fyrir tímabilið með 25. þætti podkasts Rauðu djöflanna. Maggi, Björn, Sigurjón, Tryggvi Páll, og Halldór Marteins settust niður og rýndu í José, nýju leikmennina og hin liðin
Við spáðum fyrir um lokastöðuna eins og í fyrra og vonum að í þetta sinn standi liðið sem við spáum 19. sæti ekki uppi sem meistarar.
Og síðan settust allir ritstjórar niður og settu væntingar sínar um komandi tímabil í orð!
Podkast Rauðu djöflanna – 25.þáttur
Hægt er að hlusta á þáttinn í spilaranum hér fyrir ofan auk þess sem hægt er að hala honum niður í gegnum spilarann eða hér að neðan. Jafnframt má gerast áskrifandi að þættinum í gegnum ýmis podkast-forrit:
Gerast áskrifandi í iTunes
Gerast áskrifandi í öðrum forritum
MP3 niðurhal: 25. þáttur
Spá ritstjórnar
Hvernig verður svo veturinn?
Elvar Örn
Eftir leiðindin sem fylgdu FA bikarsigrinum og uppsögn Van Gaal þá hefur þetta sumar verið alveg hreint út sagt stórkostlegt fyrir okkur. Jose Mourinho er tekinn við stjórastöðunni af Van Gaal og er svo sannarlega búinn að nýta frítímann sinn síðasta vetur vel til að greina nákvæmlega hvað Manchester United skorti og hvernig hann ætlaði að leysa það. Fjórir leikmenn keyptir og þar af þrír sem fengu hæstu einkunn whoscored á síðasta tímabili í sínum deildum. Ef það gerir ykkur ekki spenntan fyrir þessu timabili þá hljótið þið að vera meðvitundarlaus akkurat núna.
Líkt og ég skrifaði þegar Mourinho var staðfestur þá er sumt sem hræðir mig við hans ráðningu en ég er alltaf að verða meira sáttur við kappann. Hann er búinn að rífa Woodward í gang með því að kaupa gífurlega efnilegan varnarmann sem heitir Eric Bailly, alveg hreint útsagt frábæra tíu/hægri kantmann í Mkhitaryan, einn besta sóknarmann allra tíma í Zlatan og svo efnilegasta og eftirsóttasta miðjumann heims um þessar mundir. Eins og við vitum þá eru þetta stöður sem við höfum viljað sjá styrktar í afskaplega langan tíma og staðreyndin er sú að Mourinho er gæjinn sem er búinn að taka við og skilar loksins styrkja liðið af viti.
Eins og ég hef nefnt oftar en einu sinni þá var á síðasta tímabili oft á tíðum erfitt að skrifa jákvæðar leikskýrslur en ég er fullviss um að þessi leikmannakaup og nýji stjórinn eru nú þegar búin að koma í veg fyrir slíkt á þessu tímabili. Það mun taka einhverja leiki fyrir Móra að heilaþvo leikmennina þannig að þeir gleymi Van Gaal og hans taktík og þegar það tekst mun United spila eins og við þekkjum það, með því að spila sóknarbolta og skora mörk. Jose, rétt eins og Ferguson, mun að sjálfsögðu nota mismunandi taktík gegn mismunandi mótherjum en ég blæs á það rugl að United sé að fara vera einhvers konar „park-the-bus“ lið (nefnið eitt stórlið sem er þekkt fyrir að spila alltaf þannig… einmitt). Að auki er nú oft (linkur 1, linkur 2) búið að afsanna það að Móri sé slíkur stjóri þó hann hafi alveg notast við þá taktík í einstaka leikjum.
Um leið og Pogba kaupin voru staðfest sagði ég við félaga mína hér í ritstjórninni að ég væri núna orðinn hinn opinberi Pogba-Fanboi síðunnar. Það er bara þannig. Hann er einfaldlega núna orðinn minn uppáhalds leikmaður og tekur þarmeð sæti Rooney (sem tók sæti Cantona árið 2004). Þrátt fyrir mikla pressu þá ætla ég að vera bjartsýnn og fullyrða að hann muni eiga mjög gott tímabil þó að örugglega munu einhverjir væla yfir því að hann hafi ekki spilað eins og 100m maður blah blah blah. Hann verður okkar mikilvægasti maður ef við eigum að eiga gott tímabil en það þarf meira til. Luke Shaw er hreint út sagt ótrúlegur leikmaður og karakter og hann mun halda áfram að brillera okkur og svo bind ég miklar vonir við Mkhitaryan og hans sköpunargáfu frammi.
Þegar Mourinho var ráðinn var ég orðinn temmilega bjartsýnn um að United gæti komist í meistaradeildina á næsta tímabili en eftir þessi frábæru leikmannakaup í sumar þá hef ég fulla trú á því að United verði í titilbaráttunni og spái ég að það verði City sem muni veita okkur helstu samkeppni. Ég hinsvegar þori einfaldlega ekki að spá okkar liði titlinum og því segi ég að United lendi í öðru á eftir City. En Jose er sigurvegari hvert sem hann fer og því vona ég að þessi spá verði röng hjá mér.
TLDR; Frábær stjóri tekinn við, geggjaðir leikmenn keyptir. spennandi tímabil í vændum og sóknarbolti. KOMASOO!!
Magnús Þór
Við erum búin að fá José Mourinho sem stjóra. Maðurinn er sigurvegari. Hann hefur unnið titla með öllum liðum sem hann stjórnað. Og ólíkt Van Gaal er hann meira relevant í nútímaboltanum. Fyrir utan Iker Casillas þá er hann oft dýrkaður og dáður af leikmönnum sem hann hefur þjálfað. Honum tekst ótrúlega oft að taka pressuna af leikmönnum þegar á móti blæs og það er alltaf séns að það muni reyna á það hjá United.
Mourinho vildi fá fjóra leikmenn og virðist hafa fengið nákvæmlega þá einstaklinga sem hann vildi fá. Eric Bailly er hrikalega spennandi efni í vörnina. Hann er hraður, sterkur og getur spilað boltanum frá sér og virðist vera alveg jafnfættur. Henrikh Mkhitaryan hefur áður verið orðaður við ensku úrvalsdeildina en fór til Dortmund þegar Klopp var það en blómstraði ekki fyrr en Tuchel tók við liðinu. Hrikalega skapandi leikmaður sem getur leikið allstaðar fyrir aftan sóknarmann. Zlatan til United orðrómar hófust í janúar þegar hann átti að hafa sagt að hann vildi fara til United svo framarlega sem Louis van Gaal væri ekki að stjórna liðinu. Svo var smá leikrít fyrir EM í sumar þegar hann vildi ekki segja hvað hann ætlaði að gera í vetur. En eins og Zlatan einum er lagið á tilkynnti hann það einhliða á instagram að vissulega væri hann að fara til Manchester United. Maðurinn er magnað fyrirbæri og skorar og vinnur titla hvert sem hann fer og það getur bara haft góð áhrif á hópinn. Paul Pogba þarf ekki mikið að ræða en hann er kominn heim og það er hreinlega bara æðislegt. Ég held að þetta sé besti glugginn hjá United síðan 2007 og betri en hjá hvaða liði sem er, ekki bara á Englandi.
Þegar Mourinho kom til United var strax byrjað að tala um hvað liðin hans væru leiðinleg og að hann legði rútunni . Það er ótrúlegt hvað þetta Liverpool væl hefur að síast inn í umræðuna sem einhver ófrávíkjanlegur sannleikur. Því að ef ferill Mourinho er skoðaður þá stenst það ekki skoðun. Ég býst við að hann vilji spila sóknarbolta hjá United því reynslan hefur sannað að það hentar liðinu best og kaupin á Pogba og Mkhitaryan styrkja bara þá trú.
Það er alltaf rosalega erfitt að spá í hvað leikmenn verða lykilleikmenn í vetur því maður veit aldrei hverjir stíga óvænt upp. Luke Shaw á eftir að byggja á góðri frammistöðu á undirbúningstímabilinu. Paul Pogba vill klárlega sýna Old Trafford hvað hann getur. Svo væri gaman ef Zlatan og Mkhitaryan myndu ná vel saman og myndi gott partnership.
Einhverjir þurfa að fara, maður veit ekki alveg hvaða menn Mourinho vill losna við en Adnan Januzaj er líklega búinn að vera hjá United ef eitthvað er marka fréttir af honum.
Ég ætla að vera heimskulega bjartsýnn og spá liðinu titilinum. Orsökin er líklega félagskiptagluggavíma. Helstu keppinautarnir verða líklegast Chelsea og Manchester City með Arsenal, Spurs og Tottenham handan við hornið.
Halldór
Ég er mjög ánægður með að José Mourinho sé kominn til Manchester United. Frábær knattspyrnustjóri og skemmtilegur karakter. Hann kann að vinna bæði leiki og titla og ég hef fulla trú á að hann geri hvort tveggja með United. Auðvitað hefur verið bent á að hann hafi nú stoppað stutt hjá fyrri liðum en ég held að hann ætli sér að stoppa lengur hjá Manchester United og byggja upp eitthvað sögulegt. En sjálfsagt hafa stuðningsmenn Chelsea hugsað eitthvað svipað fyrir ári síðan.
Í vor var einn leikmaður sem ég vildi umfram alla aðra fá, það var Zlatan Ibrahimović. Fæddur sigurvegari sem myndi koma með ákveðið hugarfar inn í félagið auk hæfileikanna og markanna. Þá reyndar bjóst ég ekki við því að Pogba væri hreinlega í boði. Ég hélt að hann myndi alveg pottþétt enda hjá Real Madrid. En ég verð að taka hattinn ofan fyrir Woodward og félögum. Maður hefur ekki alltaf verið sáttur við Woody en hann virðist vera kominn á næsta level í sínu starfi. Toppsumar í alla staði, flottir leikmenn fengnir inn í mikilvægar stöður og stór yfirlýsing frá United. Næst er bara að sjá hverjir fara upp á hvort það laumist inn eins og einn leikmaður til viðbótar.
Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig Mourinho ætlar að láta liðið spila. Ég býst við að það verði meiri hreyfanleiki á kantmönnunum og meiri ævintýragirni hjá bakvörðunum, eins og sést kannski helst á því að Mourinho virðist ætla að nota Valencia sem hægri bakvörð. Pogba mun koma með kraft og áræðni í miðjuna sem hefur sárlega vantað svo ótrúlega lengi. Zlatan er alltaf Zlatan. Það er helst að það þurfi að finna lausn á Rooney. Mourinho þarf að finna leið til að kveikja duglega í Rooney eða bekkja hann. Það gæti farið ansi langt með að ákvarða hvort leikur United verður skemmtilegur og árangursríkur eða ekki. Slæmur Rooney sem fær að hanga í byrjunarliðinu of lengi gæti mögulega kostað liðið titil.
Fyrir utan nýju hetjurnar okkar þá held ég að minn maður Jesse Lingard muni njóta góðs af komu Mourinho og vinar síns Pogba. Spái því að hann stígi upp á þessu tímabili og festi sig í sessi sem einn af lykilmönnum í hópnum. Valencia gæti líka átt sitt besta tímabil í lengri tíma. Þá hef ég líka á tilfinningunni að Mourinho geti alveg fundið eitthvað gott hlutverk fyrir Fan Favorite Fellaini. Ég er svartsýnni fyrir hönd leikmanna eins og Darmian, Memphis og Mata. Ég kaupi ekki að Mourinho sé strax búinn að ákveða að Mata sé ekki nógu góður, hins vegar gæti verið erfitt að finna pláss fyrir hann í liðinu með leikmennina sem eru til staðar.
Þetta verður skemmtileg barátta í deildinni í vetur. Mikið af flottum stjórum og skrautlegum karakterum. Helsta baráttan verður við Pep og Conte. Arsenal, Tottenham og Liverpool gætu þó alveg tekið upp á því að gera atlögu að titilbaráttu. Þar fyrir neðan gætu lið eins og Leicester, West Ham og Everton mögulega blandað sér inn í baráttuna um topp 4 ef allt gengur upp hjá þeim. Mjög erfitt að segja svona til um þetta fyrirfram, sérstaklega eftir að við sáum Leicester vinna deildina í fyrra.
Ég velti mikið fyrir mér því sem gæti gengið upp og því sem gæti klikkað hjá United á komandi vetri. Það er margt sem gæti sveiflað liðinu í sitt hvora áttina. En ég ætla bara að hafa trú á þessu og vera bjartsýnn. Við höfum Mourinho. Við höfum Pogba. Við höfum Zlatan! Höfuðið hátt, brjóstkassann út og njótum
Tryggvi Páll
Eftir að hafa upplifað 2-3 mánuði af stjóratíð José Mourinho verður það æ fáránlegra að maðurinn skildi ekki hafa tekið við Sir Alex Ferguson á sínum tíma. Í stað þess höfum við mátt þola Moyes og Louis van Gaal og undir styrkri stjórn þeirra höfum við bara ráfað lengra og lengra inn í eyðimörkina.
Nú glittir hins vegar í betri tíma og að sjá Mourinho sitja í stjórastólnum á Old Trafford, kaupandi bestu leikmenn heimsins, skjótandi á helstu keppinauta okkar og erkifjendur. Þetta passar einhvernveginn og loksins, loksins er kominn verðugur arftaki í starfið hans Sir Alex Ferguson. Stuðningsmenn annarra liða eiga ekki að gera grín að stjóra Manchester United. Þeir eiga að hata hann. Og þeir hata Mourinho.
Helsta gagnrýni sem hann hefur fengið á sig er að hann geti verið of varnarsinnaður sem er einföld gagnrýni sem virðist byggjast helst á tveimur leikjum Inter gegn Barcelona og einum leik Chelsea gegn Liverpool. Við þurfum ekkert að minnast á það að lið Mourinho hafa slegið stigamet og markamet.
Ég kýs frekar að líta á þetta þannig að Mourinho geri það sem þarf til þess að sigra og þess vegna sé hann óhræddur við að spila smá vörn þegar þess þarf. Persónulega fagna ég þessu viðhorfi, sérstaklega eftir að horft á leikmenn Manchester United spila nákvæmlega sama bolta gegn hvaða liði sem er, niðunjörvaðir í leikspeki Louis van Gaal. Menn þurfa að vera sveigjanlegir í heimsfótboltanum í dag.
Að sama skapi má gagnrýna Mourinho fyrir að sprengja allt upp á þriggja ára fresti og yfirgefa sín félög með sprengjum. Sú hætta er vissulega fyrir hendi núna. Það virðist vera eitthvað innbyggt í stjórastíl hans sem hleypur öllu upp í háaloft. Við skulum ekkert gera lítið úr því og það getur vel gerst hjá Manchester United.
Hin hliðin á peningnum er þó sú að nú er Mourinho með hið gullna tækifæri til þess að skapa þetta fræga ættarveldi sem hann hefur alltaf talað um að sé hans markið og það sem hann ætlaði að gera með Chelsea á síðasta tímabili. Það er ekki til neitt knattspyrnufélag sem hentar betur í nákvæmlega það en United. Allt félagið er bókstaflega gírað upp fyrir knattspyrnustjórann, alvaldinn sem ræður öllu.
Loksins er Mourinho kominn á þann stað. Hjá Chelsea var Abramovich með puttana í öllu og hjá Real Madrid sér knattspynustjórinn um að velja uppstillinguna og þá ellefu leikmenn sem byrja hverju sinni. Hjá United sér knattspyrnustjórinn um allt saman og þannig viljum við hafa það. Fergie style. Það er allt til alls til hér til þess að Mourinho klári ferilinn hjá United.
Hafa verður svo í huga að Mourinho klikkaði illilega hjá Chelsea og klikki hann hjá United er staða hans sem einn besti knattspyrnustjóri heimsins alvarlega löskuð. Þá er hann búinn sem toppstjóri. Hvatinn fyrir Mourinho til að standa sig vel hjá United er því gríðarlegur.
Og maður lifandi. Stjóratíð hans byrjar vel. Þetta er besti gluggi sem ég man eftir hjá United. Við höfum fengið besta leikmanninn á Ítalíu, besta leikmanninn í Frakklandi, besta leikmanninn í Þýskalandi og einn efnilegasta varnarmanninn á Spáni. Þetta verður varla betra.
Ég hef gagnrýnt Woodward frekar harðlega í gegnum tíðina, sérstaklega eftir fíaskóið 2013 þegar hann brást David Moyes allsvakalega. Sumarið 2015 stóð hann sig vel í að halda Real Madrid frá De Gea og sumarið 2016 er Woodward loksins loksins að skila sínu. Mourinho bað um fjóra leikmenn og Woodward skilaði nákvæmlega þessum fjórum leikmönnum heim í hús.
Pogba kemur með kraftinn á miðjuna sem liðið hefur skort í um það bil áratug. Bæði hann og Zlatan koma með persónuleika í liðið sem hefur verið algjörlega litlaust undanfarin ár. Mkhitaryan kemur með hraða og sköpunarkraft og Bailly virðist vera gríðarlegt efniþ
Hryggjarsúla liðsins er orðin ógnarsterk og kaupin í sumar hafa gert það að verkum að Uniter skyndilega orðið eitt af allra sigurstanglegustu liðunum á tímabilinu líkt og fótboltaskríbentar Guardian halda fram. Er það ekki nákvæmlega það sem á að gerast í hverjum sumarglugga?
Líkt og ég sagði hér að ofan er Mourinho óhræddur við að haga seglum eftir vindi og því mun spilamennskan breytast talsvert á milli leikja eftir því hver andstæðingurinn er. Í grunninn mun þetta þó án efa byggjast á sterkri vörn og eitruðum skyndisóknum með dass af possession þegar þess þarf. Þegar þessi leikstíll varð ofan á hjá Ferguson á árunum 2006-2008 spilaði United að mínu mati sinn allra besta og skemmtilegasta bolta
Ég hugsa því að tímabilið verði skemmtilegt en að við stuðningsmennirnir gætum þurf að sjá liðið liggja í vörn við og við þegar erfiðustu andstæðingarnir koma í heimsókn. Kannski verður erfitt að kyngja því en fótboltinn snýst um úrslit og þau eru fáir betri að næla í en José Mourinho.
Til að kaupa inn þarf að selja. Allt bendir til þess að Bastian Schweinsteiger og Adnan Januzaj muni fara. Það er kannski leiðinlegt hvernig farið hefur verið með Schweinsteiger en ef stjórinn sér ekki not fyrir hann er bara eitt í stöðunni. Það er enginn miskunn í þessum bolta og maður hefur nú séð Sir Alex Ferguson losa sig við stærri stjörnur en Schweinsteiger þegar þeirra var ekki not.
Hvað varðar Januzaj er gríðarlega svekkjandi að hann sé ekki að uppfylla sína hæfileika sem vissulega eru til staðar. Hann var einn af fáum sólskinsgeislum hið ömurlega tímabil 2013/14 og maður bjóst við miklu af honum undir stjórn Van Gaal og Ryan Giggs.
Því miður virðist bara vera að koma í ljós að hugarfar hans virðist vera frekar afleitt og þegar sú er raunin ná menn aldrei upp á topp. Þetta sést best þegar menn horfa á Jesse Lingard. Það sér það hver maður að þegar kemur að hráum hæfileikum er Januzaj mun hæfileikaríkari. Lingard er hins vegar samviskusamari og með hausinn á réttum stað. Hard work beats talent when talent doesn’t work hard. Þess vegna er Lingard ekki á förum eitt né neitt en Januzaj á leið til Sunderland.
Persónulega vil ég einnig sjá Marcos Rojo hverfa á brott. Maðurinn er bara engan veginn í United klassa og virðist búa yfir þeim ótrúlega hæfileika að gefa mark í hvert skipti sem hann gerir mistök.
Hvað varðar leikmenn United sem maður vonar að stígi upp bindur maður helstar vonir við Luke Shaw eftir erfið fyrstu tvö tímabil hjá United. Hann var gjörsamlega frábær áður en hann fótbrotnaði í fyrra og maður vonar svo innilega að hann komist klakklaus í gegnum þetta tímabil. Þá væri gaman að sjá Schneiderlin blómstra á miðjunni og svo verður mjög gaman að sjá hvernig Rashford bregst við því að vinna með Zlatan á hverjum degi.
Deildin hefur líklega aldrei verið jafn rosalega vel mönnuð stjóralega séð og nú. Það er svo magnað að Pep sé kominn til City og að hann og Mourinho, þessir fornu fjendur, muni berjast um yfirráðin í Manchester.
Einnig verður mjög áhugavert að sjá hvernig Chelsea spilar undir stjórn Antonio Conte. Frábær stjóri þar á ferð sem mun án efa rífa þetta Chelsea lið upp. Þá er Pochettino að vinna frábæra vinnu hjá Tottenham og þar sem Liverpool er ekki í neinni Evrópukeppni er hreinlega ekki hægt að útiloka að Liverpool verði þarna að þefa í kringum toppinn. Ég held þó að City og Chelsea muni veita United mesta samkeppni í vetur.
Það er þó ljóst að það má lítið út af bregða hjá liðinu sem mun standa uppi sem sigurvegari næsta vor og titilinn mun án efa ráðast mjög seint á næsta tímabili. Miðað við kaup United í sumar og með Mourinho við stjórnvölinn ætla ég að gerast svo djarfur að spá United titlinum. Í það minnsta verðum við í baráttunni fram á síðasta leikdag.
Sigurjón
Ég held að allir stuðningsmenn United séu svakalega spenntir fyrir komandi tímabili. Við erum loksins komin með stjóra af því kaliberi sem við vildum sjá strax eftir Sir Alex. Ég held að José Mourinho sé fullkominn fyrir United og ég held að Manchester United sé fullkomið fyrir José Mourinho.
Mourinho mun leggja upp með að vinna leiki númer 1, 2 og 3. Ef hann heldur að liðið geti gert það með því að spila blússandi sóknarbolta, þá gerir hann það. Ef hann heldur að varnarleiki þurfi til, þá spilum við varnarleik. Punktur. Þó svo ég vilji auðvitað sjá United spila skemmtilegan sóknarbolta öllum stundum þá er mér samt nokkuð sama hvernig við förum að því að vinna leiki svo framarlega sem þeir eru unnir.
Við erum með hráefnið sem til þarf til að gera hörku atlögu að titlinum, sérstaklega eftir þennan glæsilega leikmannaglugga þar sem United kom með stórt statement og fékk til sín frábæra leikmenn. Það reyndar verður til þess að einhverjir þurfa að víkja en þannig virkar þessi bransi. Þau nöfn sem maður hefur heyrt nefnd í því samhengi eru allt sem leikmenn sem manni þykir auðvitað vænt um, en enginn af þeim er samt ómissandi.
Þetta verður ein mest spennandi deild sem maður hefur nokkurn tímann séð. Það eru sex mjög sterk lið sem geta gert alögu að titlinum. Ég held að City verði okkar helstu keppinautar en ég held líka að Liverpool og Chelsea muni líka gera harða atlögu. Önnur lið eins og Arsenal, Tottenham, Leicester og Everton munu síðan fylgja mjög fast á eftir. Þetta verða bara nokkur stig sem mun skilja á milli topp 6-8 liðanna.
Runólfur
Það verður að viðurkennast að hér áður var ég ekki hrifinn af hugmyndinni um José Mourinho sem þjálfara Manchester United. Það hefur þó breyst mjög fljótt og núna get ég ekki beðið eftir sunnudeginum. Að venju virðist Mourinho hafa ótakmarkaðan aðgang að fjármagni þar sem hann þjálfar, en það er jú fylgifiskur þess að þjálfa stærstu félög í heimi.
United er búið að kaupa fjóra frábæra leikmenn, fyrst auðvitað Zlatan. Hvar á maður að byrja? Hann er kannski orðinn gamall og allt það en við erum að tala um Zlatan. Ég viðurkenni að ég er mjög lengi að samþykkja hype í kringum leikmenn en Zlatan er leikmaður sem ég hef viljað sjá í United treyju síðustu 5-6 árin. Hann er líka einn af fáum leikmönnum sem ég fyrirgef að vera hrokafullur, einfaldlega vegna þess að hann hefur efni á því.
Paul Pogba er Lebron fótboltans, það er bara þannig! Þetta er líklega einn mesti íþróttamaður sem er í boltaíþróttum í dag. Líkamlegt atgervi upp á 10 og vonandi the missing link í þessa Manchester United keðju. Það mun vera talað mikið um að hann hafi verið seldur á klink og keyptur á metfé en ef það hefði ekki átt sér stað væri hann ekki sami leikmaður og hann er í dag. Mjög einfalt.
Henrikh Mkhitaryan var valinn bestur í Bundesligunni í fyrra, er á besta aldri, og getur spilað allar stöðurnar á bakvið framherjann sem og verið á þriggja manna miðju. Smellpassar inn í hugmyndafræði Mourinho að ég held.
Eric Bailly er kannski stærsta spurningamerkið af þeim leikmönnum sem voru keyptir enda ungur að árum og mun eflaust ekki byrja alla leiki í vetur. Að því sögðu þá virðist hann hafa alla burði til að verða frábær varnarmaður í þessari deild + hann kemur úr vel skipulögðu liði en Villareal hélt 17 sinnum hreinu á síðasta tímabili og þar af í báðum leikjum sínum gegn Atlético Madrid (eina liðið í deildinni sem gerði það). Og ekki byrjaði drengurinn illa en hann var valinn maður leiksins í Góðgerðarskildinum um daginn.
Til að búa til pláss fyrir þessa leikmenn, og aðra unga og efnilega leikmenn félagsins, mun Mourinho örugglega taka til í hópnum. Nú þegar hafa tveir drengir, Paddy McNair og Donald Love, verið seldir og grunar mig að nokkrir aðrir muni fara sömu leið. Bastian Schweinsteiger fer hvað úr hverju, Marcos Rojo gæti fokið í sömu átt ásamt ungum leikmönnum sem hafa ekki náð að blómstra sem og Adnan Januzaj og Tyler Blackett. Svo virðist sem einhverjir leikmenn verði lánaðir en bæði James Wilson og Andreas Pereira hafa verið orðaðir í burtu á láni.
Spilamennskan verður ekkert í líkingu við síðustu tvö tímabil. Það er á hreinu. Hún verður mun hraðari, mun árásargjarnari en í vissum leikjum verður hún eflaust hrútleiðinleg og varnarsinnuð, en í öðrum verður hún gjörsamlega geggjuð. Ég get í raun ekki beðið eftir að sjá United-Hull í þriðju umferð, það gæti orðið eins og ein gamaldags rasskelling (er örugglega að jinxa allt núna samt).
Ég held að ég hafi sjaldan haft jafn litla hugmynd um hvernig toppbaráttan verður. Auðvitað var hún mjög óvænt í fyrra en ég sé ekki fyrir mér að Leicester verði í baráttunni aftur. Ég er í raun handviss um að titillinn endi í Manchester, einfaldlega vegna þess hversu margar breytingar eru að eiga sér stað í deildinni. Efstu þrjú liðin verða Manchester United, Manchester City og Chelsea (í hvaða röð veit ég ekki). Svo hef ég í raun enga hugmynd hvað gerist þar fyrir neðan, Arsenal, Tottenham, Liverpool og West Ham verða eflaust í einhverjum rosalegum pakka að reyna ná í fjórða meistaradeildarsætið.
Björn Friðgeir
Svo það sé strax sagt: Ég spái United titlinum! Það er vissulega spá með hjartanu, en raunveruleikinn er sá að öll þrjú liðin, United, City og Chelsea geta orðið meistarar, og hvert þeirra þriggja auk Arsenal, Tottenham og Liverpool getur lent í sjötta sæti, eða jafnvel neðar. Þetta verður nefnilega einhver mest spennandi deild frá upphafi. Sex af átta bestu stjórum í heimi eru á svæðinu og baráttan verður svakaleg.
United hefur átt stjörnuglugga. Fyrst með því að ráða besta stjórann sem var á lausu og síðan með að negla allar fjórar stöðurnar sem José bað um. Í grein í vor kvartaði ég undan innkaupaklúðrum fyrri ára, Í fimm ár hefur okkur vantað miðvörð, einn til tvo miðjumenn, kantmann og framherja. í sumar lítur út fyrir að fjórar af þessum fimm vandræðastöðum hafi verið nelgdar. Við erum búin að fá einn besta framherja í heimi síðustu 12 ár, einn mest spennandi framliggjandi miðjumann þýska boltans og miðvörðurinn sem er ungur og óskrifað blað var maður leiksins í Samfélagsskildinum. Og miðjumaðurinn sem okkur hefur vantað í mörg ár, og hugsað stíft hver gæti verið, og að hann þyrfti að vera í stíl við Paul Pogba? Jú við bara fórum og fengum Paul Pogba! Þrátt fyrir allan tímann sem tók að koma því í höfn var staðreyndin sú að þegar staðfestingin kom þá hækkað spennustigið um allan helming. Hann er enginn Di María sem getur ekki búið í Manchester, hann er bara að koma heim. Hann er næsta stórstjarna, ekki bara United, heldur fótboltans. Hann þarf bara að standa undir því.
Ef sölur ganga vel næstu tvær vikurnar, gæti jafnvel svo farið að það kæmi toppklassamiðvörður. Reyndar myndi það líklega þýða að Juan Mata hyrfi á braut sem er líklega sá leikmaður sem flestir myndu sjá eftir en af öðrum leikmönnum sem talað er um að yðru seldir frekar en lánaðir, þá er líklega ekki missir að neinum þeirra þegar horft er til frammistöðunnar á vellinum í vetur.
Nú þarf José að búa til lið úr nýju mönnunum og þeim sem fyrir eru. Fyrst verður þetta eflaust 4-2-3-1 en vonandi, vonandi verður úr þessu 4-3-3 lið sem gæti orðið það skemmtilegasta sem við höfum séð á Old Trafford síðan 2008. Við vitum að José vílar ekki fyrir sér að leggja rútunni þegar þarf, en það er af því að við styðjum United, sem er lið sem þarf stundum að leggja rútunni gegn, að við höldum að það sé megineinkenni hans. Það er alveg búið að sannfæra mig um að United stjórastaðan sé staðan sem José er búinn að bíða eftir í 15 ár. Hér þarf hann að sanna sig, hér þarf hann að skila starfi sem verður það sem hans verður helst minnst og það verður hann að gera með því að spila eins flottan bolta og hægt er. Ég er óhræddur við að stilla upp draumaliðinu:
Eitt af því betra sem gæti gerst fyrir United í vetur væri ef Schneiderlin vaknaði af doðanum. Hann gæti tekið stöðu Carrick hér að ofan, eða farið inn fyrir Mkhitaryan sem myndi þá taka stöðu Lingard.
Reynið ekki að segja mér að þetta yrði leiðinlegt lið!!
Andstæðingarnir verða erfiðir. Öll toppliðin voru í lægð í fyrra og hafa brugðist við því. Pep Guardiola og Antonio Conte eru mættir til leiks, City kaupir haug af skynsömum og flottum kaupum, Chelsea þéttir í veikum stöðum. Arsenal þarf að gefa í kaupum en lítur út fyrir að það gerist, Tottenham hefur stækkað hópinn fyrir Meistaradeildarátök og Klopp er búinn að þýska upp Liverpool svo um munar.
Þetta verður alger veisla í vetur.
Auðunn Atli says
Svolítið merkilegt að mönnum finnist leiðindi að vinna FA bikarinn, stærstu bikarkeppni í heimi og næst stærsta titil í UK.
Það er greinilega mikil bjartsýni í gangi hjá mörgum United mönnum, kannski eru menn aðeins að fara framúr sér en það á eftir að koma í ljós.
Ég er persónulega alveg niðri á jörðinni ennþá, er ekki ennþá sannfærður um að United sé í dag nógu gott til að vinna deildina, geri þó ráð fyrir hörku tímabili og að United verði að berjast uppá topp 3, allt annað en það yrði skandall.
Mér finnst ennþá vanta einhver púsl í þetta s´vo ég segi eins og er, mér finnst ennþá vanta hraðann og teknískan vængmann (ef Di Maria væri í þessu liði í dag þá væri það nánast fullkomið) eins finnst mér ennþá vanta einn miðvörð, nema Jones stígi nú loksins upp en efast einhvernig um það. Blind er ekki nógu góður miðvörður að mér finnst og þar eru brotalamir Man.Utd.
Annars verður þetta rugl spennandi tímabil og líklega ótrúlega jafnt, ég sé fyrir mér töluvert sálfræðistríð ég ætla bara rétt að vona að okkar maður gangi ekki of langt í því, haldi sér á jörðinni og sýna bæði virðingu og almenna kurteisi.
En er það rétt sem ég heyrði einhversstaðar að Zlatan væri búinn að selja treyjur fyrir umþb 60milj punda? Hefur einhver heyrt eða séð það einhversstaðar?
Björn Friðgeir says
Zlatan er eflaust að selja einhverjar treyjur, en United fær nær ekkert út þá það, nema auðvitað það sem selst í Megastore, Samningurinn við adidas er með nær engum prósentum
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Pogba í banni í fyrsta leiknum (2 gul spjöld í lokin með Juventus)
Omar says
Flottur pakki ađ vanda.
En hvađ segiđi, á ekki ađ henda í fantasy deild? ;)
ellioman says
@Auðunn Atli
„Svolítið merkilegt að mönnum finnist leiðindi að vinna FA bikarinn, stærstu bikarkeppni í heimi og næst stærsta titil í UK.“
Ég hef greinilega orðað textann minn smá kjánalega þarna. Leiðindin sem ég var að vísa í var alls ekki um bikarinn sjálfan heldur það að við og Van Gaal fengum ekki að njóta bikarsins í eina mínútu áður en fréttir um að hann væri hættur/rekinn/farinn og að Mourinho kæmi í staðinn. Það að mínu mati skyggði heilmikið á annars alveg stórkostlegan bikarsigur.
Læt greinina hans Iain Macintosh um þetta fyrir þá sem ekki muna.
„Saturday’s victory was undoubtedly the high-water mark of a disappointing season, and indeed a disappointing tenure for Van Gaal. But this was a trophy. This was a chance to celebrate again and Van Gaal was responsible for that moment. He deserved better than the aftermath of his victory tarnished by questions of his future.“
http://www.espnfc.us/english-fa-cup/40/blog/post/2877118/man-united-fa-cup-glory-overshadowed-by-van-gaal-and-mourinho
Karl Gardars says
Takk fyrir mjög góða samantekt.
Ég fæ panic attack þegar ég reyni að spá fyrir um deildina. Ég segi að besti stjórinn vinni deildina þetta árið en ekki endilega besta liðið eða liðsheildin eins merkilega og það kann að hljóma. Seasonið vinnst á litlu hlutunum en mig grunar að svefnpokafroskurinn eigi eftir að verða ofar en marga grunar með nallana þangað til hann rennur á rassgatið á lokametrunum og þeir enda í öðru sæti.
Minni lið eins og everton, stoke og liverpool munu stríða þeim stóru og Tottenham eru sýnd veiði en ekki gefin.
Eitthvað segir mér að Chelsea séu líklegri en city til að taka þetta en til þess að okkar menn eigi séns að enda ofar en 3 sæti þá tel ég líka að nokkrir leikmenn þurfi að eiga dúndur tímabil sbr. Martial, Lingard, Tony V, De gea og Rooney ásamt því að Bailly og Mkhitaryan þurfa að veni vidi vici þessa deild frá og með næsta leik og Shaw auk Smalling verða að vera í sínu besta formi.
Að vanda verð ég bara sáttur á meðan við endum í meistaradeildarsæti en fyrst og fremst fyrir ofan púðlurnar frá Merseyside!
Að lokum, hvað segið þið með Fantasy deildina?