Liðið sem byrjaði fyrsta deildarleik José Mourinho var eilítið frábrugðið því sem búist var við. Jesse Lingard var meiddur og sat eftir heima í Manchester og Michael Carrick var hvíldur. Ander Herrera kom inn fyrir Carrick en það sem kom á óvart var að Juan Mata var valinn á kantinn en ekki Henrikh Mkhitaryan. Mourinho skýrði það með því að Mata hefði meiri deildarreynslu og væri því inni í þetta sinn.
Lið Bournemouth leit svona út
Leikurinn byrjaði rólega og fátt fréttnæmt gerðist, United var öllu betra en það var lítil sköpun í leik liðsins. Bournemouth hélt boltanum ágætlega og United varðist mjög aftarlega. Færslan fram á við þegar þeir fengu boltann var síðan ekki mjög áhrifarík, hraðann vantaði. Fyrsta skot United á mark kom ekki fyrr en á 27. mínútu, varið skot frá Rooney eftir ágætan undirbúning, m.a. Valencia úti á kantinum. Hlaup Valencia upp kantinn var það skásta við leikinn fyrsta hálftímann og raunar út leikinn
Á fertugustu mínútu kom loksins mark og það var eftir skelfileg mistök Bournemouth, langur bolti fram, Simon Francis ætlaði að gefa á Boruc en alltof laust, og Mata komst inn á milli. Boruc varði en boltinn fór til Francis sem skaut í eigið hné og stakk þannig boltanum á Mata sem þakkaði fyrir sig með að renna boltanum í opið markið!
Engar breytingar í hálfleik þó að leikur liðsins væri allt, allt of hægur i fyrri hálfleik. Í upphafi seinni hálfleiks var United var þó aðeins sókndjarfara, Rooney náði að komast inn fyrir eftir frábæra sendingu Zlatan, en Boruc kom vel út og varði. Rétt á eftir snerti varnarmaður Rooney nóg til að fella Rooney og hefði verið dæmt á það úti á velli, en ekki inni í teig.
Næsta mark var ekki síður með heppnisstimpli. Valencia kom vel upp, vann boltann og gaf góða sendingu. Martial var frír í teignum og en skot hans var algerlega misheppnað, í jörðina og í átt framhjá, en þar var bara Rooney fyrir á markteignum og skallaði nákvæmlega í netið. Undirbúningurinn undir markið var reyndar aðeins lengri eins og þessi mynd sýnir
https://twitter.com/TeleFootball/status/764823571495587840
Zlatan sjálfur setti svo þriðja markið af 25 metra færi, hárnákvæmt skot út við stöng sem Boruc komst hvergi nálægt. Sýnir vel að það má ekki gefa honum neitt svæði utan við teiginn, en vonandi að liðin læri ekki á það alveg strax. Þetta kom raunar ekki á óvart, því Zlatan hefur skorað í fyrsta leik sínum í Serie A, La Liga, Ligue 1, og meistaradeildinni.
https://twitter.com/sistoney67/status/764836142722256901
En United getur ekki gert neitt einfalt og fékk á sig mark svona til að gera þetta örlítið áhugavert. Smith fékk fína stungu inn í teiginn, lagði boltann fyrir sig þannig að Blind komst ekki fyrir og hamraði boltanum í netið, ekki nógu gott hjá Blind sem hafði annars átt mjög góðan leik.
Síðasta kortérið var síðan að mestu tilþrifalaust þó að Bournemouth sækti eilítið. United gerði sínar þrjár skiptingar, Mkhitaryan kom inn á fyrir Mata sme breytti ekki miklu í leiknum, augljóst að bæði lið vissu að leikurinn var unninn. Morgan Schneiderlin kom inn á fyrir Martial þegar fimm mínútur voru eftir og síðasta skiptingin var svo að taka Wayne Rooney útaf og setja Memphis inná. Rooney var arfaslakur í leiknum, þrátt fyrir markið. Bournemouth átti ágætis færi á síðustu mínútunum en De Gea varði vel og öruggur 3-1 sigur var í höfn.
Þegar liðið var kynnt var nokkuð um óánægju á Twitter en allir bestu menn liðsins í dag voru þeir sem kannske voru umdeildastir. Það sem skóp þennan sigur var fyrst og fremst góð varnarvinna. Eric Bailly sýndi enn á ný öruggan og góðan leik og var valinn maður leiksins á Sky. Mourinho sagði eftir leikinn að Bailly hefði verið meiddur alla vikuna, aðeins æft í gær og að sjúkraþjálfarinn ætti stóran hlut í þeim verðlaunum.. Marouane Fellaini var gríðaröruggur á miðjunni og átti jafnvel sinn besta leik fyrir United. Daley Blind var öruggur í blokkeringum, þó hann hefði hugsanlega getað verið meira vakandi í markinu.
https://twitter.com/DoronSalomon/status/764820405668474880
En maður leiksins að mínu mati var Antonio Valencia, sem var hvað eftir annað skeinuhættur á kantinum og átti þátt í tveim mörkum.
Þetta gefur alveg ágætis vonir um það sem koma skal. Gallarnir á liðinu eru fyrst og fremst hæg uppbygging og miðað við fyrirheit José Mourinho verður tekið á því. Juan Mata er alltaf frekar hægur og má óttast um sætið, þó hann hafi verið að mörgu leyti fínn í dag og áberandi slakasti maður liðsins í dag, Wayne Rooney þess þá heldur. Hann mun án efa fá fleiri tækifæri en nokkur annar, en ef þetta heldur svona áfram verður hann ekki fastamaður í liðinu.
Karl Gardars says
Líst vel à þetta Bournemouth lið. Hver á að taka miðjuna eftir fyrsta mark United? ;-)
Karl Gardars says
Og nú er liðið komið inn. Sorry Björn, ég bara varð :)
Þeir eru hraðir frammi og nú reynir á Herraini og miðverðina.
Siggi says
Þvílík hörmung fyrstu 45. Þetta er kannski það sem koma skal ömurlegur fótbolti en fín úrslit. Gjafamark og alltof hægur leikur.
Halldór Marteins says
Mjög góð byrjun á tímabilinu. Hefði fyrirfram þegið mun ósannfærandi sigur. Það má alveg byggja á þessari frammistöðu. Ánægður með Fellaini í þessum leik.
Gaman að sjá Mata fá tækifærið í byrjunarliðinu og nýta það svona vel.
Ég er núna enn spenntari fyrir tímabilinu en ég var fyrir leikinn. Held að bestu leikir liðsins muni verða mjög magnaðir.
Pillinn says
Takk fyrir þessa leikskýrslu, er nokkuð góð og ég sammála henni að stærstum hluta.
Fyrsti leikurinn hefði vart getað farið betur. Bailly valinn maður leiksins og var mjög góður nánast allan leikinn. De Gea átti flottar vörslur í lokinn þrátt fyrir að hafa ekkert að gera fram að því. Sýnir gæðin á honum. Valencia alveg solid í bakverðinum og kom vel upp. Shaw að sýna hve mikilvægur hann mun verða. Hraði, áræðni og tækni sem hann býr yfir verður allt mjög mikilvægt. Fellaini stóð sig bara vel ásamt Herrera. Blind að sýna enn og aftur að miðvörður þarf ekkert að vera sá hæsti í heimi eða hraðasti ef hann hefur skilninginn eins og Blind hefur.
Zlatan kom inn og sýndi hve öflugur hann getur verið. Lagði upp á Rooney sem átti að skora og Zlatan skoraði, sem var mjög sterkt. Einnig var fín aukaspyrnan hjá honum, fór allavega framhjá veggnum. Átti nú ekki von á að Mata myndi byrja en hann gerði gott betur, skoraði mark og var með betri mönnum á vellinum fannst mér, hélt boltanum mjög vel og var með gott spil.
Ronney og Martial fanns mér eiginlega vonbrigðin í leiknum. Góða við það er að þrátt fyrir að hafa ekki verið góður þá skoraði hann samt mark. Hefði hugsanlega geta fengið víti en mér fannst það persónulega aðeins og veikt, hefði orðið pirraður ef Utd hefði fengið svona dæmt gegn sér.
En var annars mjög ánægður með leikinn og gott að byrja vel. Sáum í gær bæði Leicester og City í vandræðum. Leicester tapaði auðvitað en þó að City hafi unnið var það með töluverðri heppni. Þetta gefur mér allavega töluverða trú fyrir tímabilið.
Ingi Utd says
Fannst þetta nú bara nokkuð solid seinni eftir prumpið í fyrri hálfleik. Fyrstu 2 mörkin bara meistaraheppni sem vonandi fylgir okkur í vetur. Liðið á bara eftir að verða betra, það er mín tilfinning og flott að eiga Pogba inni.
Audunn says
Allt of mikið um langar sendingar og minna um fótbolta. United leit út eins og gamalt kick and run fótboltalið á löngum köflum með lítil gæði.
Það jákvæða eru jú stígin þrjú og „spilamennskan“ getur ekki versnað.
Runar P says
Fyrsti leikur búinn og ég er strax kominn með leið á öllu þessu tali um að Blind hafi staðið sig ágætlega, þrátt fyrir að vera ekki sá besti.. Ferdinand varð ekki það varnatröll sem hann varð fyrr en hann fékk Vidic sér við hlið, leikmann sem engin hafði heyrt um þegar Fergi keypti hann.
Að það komi öllum á óvart að Mata fái að byrja og fjölmiðlar hætta ekki túðinu um að Móri hafi selt hann, þegar í raun hafi það verið Mata sem yfirgaf Chelský!
Að Zlatan sé að verða 35ára í Oktober, enski boltinn sé ekki sá sami og franski. Zlatan er fæddur meistari og hann ætlar sér að vinna allt sem hann getur með United, sem ég trúi að hann muni gera og ég hef líka alla trú á því að hann spili fyrir okkur í þrjú tímabil.
Að Rooney hafi verið lélegur, kannski var ég ekki að horfa á sama leik og aðrir, en mér fannst hann spila mjög fínan leik, átti tvö mjög góð færi (ég veit að hann skoraði ekki úr þeim, en það gerir hann ekki að lélegum leikmanni) skoraði og lagði mikla vinna í leikinn
Og að lokum.. Fellaini, afhverju ætti Móri að nota hann hef það væri ekki eitthvað sem hann getur gefið leiknum gildi, já eða að Móri er þriðji stjórinn hjá United sem sér Fellaini sem lykilmann í sínu liði?
Áfram ManU!
Cantona no 7 says
Góður sigur.
G G M U
Runólfur Trausti says
Á sama velli í fyrra kom Nick Powell inn á fyrir Fellaini sem var búinn að eiga mjög góðan leik í það sem mætti kalla svanasöng Powell´s fyrir United.
Í gær skoraði Powell fyrir Wigan í Championship, í dag átti Fellaini góðan leik og United vann.
Mætti kalla þetta Win-Win fyrir alla nema *Þann sem skal ekki nefna*
Fínasti sigur, spilamennskan ryðguð enda Mourinho sjálfur búinn að tala um að undirbúningstímabilið hafi engan veginn verið nægilega gott + Smalling, Pogba og Mkhitaryan eiga eftir að koma inn í myndina.
Væntingastjórnunin er engin á þessum bænum akkúrat núna. Zlatan skorar 50 mörk, við vinnum fernuna og Pogba vinnur Ballon d’or … sætti mig þó við það að vinna „bara“ deildina og kannski einn af hinum bikurnum!
Pétur GGMU says
Fínn seinni hálfleikur Zlatan með gott mark, Bailly var góður og Valencia var góður. GGMU.
Jón Sæm says
Myndin fyrir undirbúning marksins er bara röng. Þarna vilja þeir meina að Rúní hafi dribblað boltanum þvert yfir vítateig og skorað þar. Skotið hjá Martial gleymist hreinlega.