Síðan síðasti pistill um yngri liðin var birtur hefur mikið vatn runnið til sjávar.
Leikmanna hreyfingar
Fyrst er að nefna þá leikmenn sem hafa yfirgefið U23 ára leikmannahóp félagsins áður en félagaskiptaglugginn lokaði þann 1. september. Þeir eru eftirfarandi:
- Adnan Januzaj til Sunderland (lán)
- Andreas Pereira til Granada á Spáni (lán)
- James Wilson til Derby County (lán)
- Cameron Borthwick-Jackson til Wolves (lán)
- Joel Pereira til Belenense (lán)
- Dean Henderson til Grimsby Town (lán)
- Tyler Blackett til Reading (seldur)
- Will Keane til Hull City (seldur)
- James Weir til Hull City (seldur)
Við hér á Rauðu djöflunum munum svo fylgjast með hvernig þeim leikmönnum sem eru á láni farnast á nýjum vettvangi. Januzaj er til að mynda nú þegar búinn að spila fleiri leiki fyrir Sunderland en hann gerði fyrir Borussia Dortmund en hann var á láni þar í fyrra.
Hann tryggði liðinu 1-0 sigur í Deildarbikarnum nú á dögunum en var það hans fyrsta mark fyrir félagið.
https://twitter.com/peoplesperson_/status/768742345529524224
Það virðist sem að Sam Johnstone hafi ákveðið að taka slaginn með félaginu í vetur og vera þriðji markvörður liðsins ásamt því að spila U23 ára leikina. Í fyrra lýsti hann yfir áhuga á að fara frá félaginu til þess að spila en ef til vill hafa aukin gæði U23 ára deildarinnar eða nokkur vel valin orð frá þjálfarateyminu breytt skoðun hans.
Fréttir
Nýlega var tilkynnt að United hefði keypt unglingaliðs þjálfara frá Tottenham Hotspur, sá heitir Kieiran McKenna og er aðeins þrítugur að aldri. Er undirskrift hans hluti af yfirhalningu félagsins á yngri liða starfi sínu. Téður McKenna er talinn mjög fær í sínu starfi og var hann mikils metinn hjá Tottenham.
McKenna hefur áður sagt að að árangur sé ekki lykilatriði fyrir sig né félagið. Hann er að reyna finna einstaklinga sem standa út úr skaranum og gætu passað inn í hugmyndafræði og stíl þjálfara aðalliðsins. Það má ætla að þessi hugmyndafræði fylgi honum til United.
Nicky Butt var í viðtali um daginn þar sem hann segir að hann vonist til að hið fornfræga unglingastarf Manchester United sé aftur á réttri braut. Það muni þó taka tíma því það sé mikið af nýjum andlitum ásamt nýjum hlutverkum sem þurfi að fylla.
Æfingaraðstaðan hefur fengið andlitslyftingu en verið er að nútímavæða hana og gera hana samkeppnishæfari miðað við önnur stórlið í Evrópu. Butt talar um góðan árangur United þegar kemur að því að breyta ungum efnilegum leikmönnum í atvinnumenn, hvort sem það sé hjá United eða öðrum félögum. Þrátt fyrir þennan góða árangur þá virðist sem margt annað hafi verið sett til hliðar á síðustu árum. Nú á að lagfæra það.
Til að mynda hefur félagið fjölgað þjálfurum, sálfræðingum, greinendum (e. analysts) og íþróttavísinda (e. sport science) sérfræðingum. Einnig hefur njósnara net (e. scouting network) félagsins verið bætt til muna.
Butt var svo í öðru viðtali um það hvernig félagið krækti í tvo af heitustu bitum Evrópu í U18 ára aldursflokknum nú í sumar.
Tahith Chong kom frá Feyenoord og Nishan Burkart frá FC Zurich. Butt sagði að þetta væri í fyrsta skipti í dágóðan tíma sem United hefði í raun keypt leikmenn frá Evrópu í þessum aldursflokki. Undanfarin ár hefur félagið frekar einblínt á leikmenn heima fyrir í Englandi.
Hann telur að nánast öll enska úrvalsdeildin hafi verið á eftir drengjunum og er því mjög sáttur með að hafa nælt í því. Nefnir hann einnig að það sé óeðlilegt að leikmenn á þeirra aldri (nýorðnir 16 ára) fari beint í U18 ára liðið en tekur sömuleiðis fram að þeir séu nægilega góðir til þess. Með því sé hægt að brúa bilið þegar kemur að því að fara í U23 ára liðið og svo síðar meir aðalliðið.
Úrslit
U23 ára liðið tapaði 0-2 fyrir Southampton þann 22. ágúst. Warren Joyce var myrkur í máli eftir leik: Hann sagði að liðinu hefði í raun verið pakkað saman. Taldi hann að leikmenn væru að spila sem hópur af einstaklingum frekar en liðsheild og að kvartaði hann yfir skort á vilja frá leikmönnum. Hann sendi ákveðnum leikmönnum tóninn án þess að nefna nein nöfn með því að segja að menn væru að plata sjálfa sig ef þeir héldu að þeir gætu átt góðan feril án þess að þurfa leggja neitt á sig.
Þrátt fyrir allt þetta þá gerði Joyce aðeins eina skiptingu í leiknum. Undarlegt í meira lagi ef þú spyrð mig.
Í leiknum eftir það gerði liðið 1-1 jafntefli við Chelsea þar sem Sam Johnstone gerðist skúrkur en mistök hans leiddu til marksins sem Chelsea skoraði. Flestir sem sáu leikinn voru sammála um að Axel Tuanzebe og Regan Poole hafi verið bestu leikmenn United í leiknum.
Ég velti fyrir mér af hverju Joyce fær ekki aðgang að þeim leikmönnum sem eru ekki að spila með aðalliðinu, allavega þegar það er langt á milli leikja. Núna þegar margir leikmenn liðsins hafa verið seldir eða lánaðir er tilvalið að nýta það að það megi spila þremur leikmönnum yfir 23 ára aldri með liðinu, sérstaklega sóknarþenkjandi leikmönnum en liðinu sárvantar neista fram á við.
Það mætti hér nefna leikmenn eins og Marcus Rashford eða Memphis en báðir eru undir 23 ára svo það ætti ekki að hafa nein áhrif. Einnig gætu leikmenn á borð við Marcos Rojo, Ashley Young, Jesse Lingard og fleiri fengið mínútur með U23 ára liðinu til að viðhalda leikformi.
Ef José Mourinho vill ekki spila leikmönnum í U23 ára liðinu sökum þess að þeir gætu tekið því illa þá mega þeir hreinlega éta það sem úti frýs. Að því sögðu þá treysti ég Mourinho fullkomlega fyrir þessu.
Fyrir áhugasama er leikmannahópur U23 ára liðsins hér.
U18 ára liðið er búið að spila þrjá leiki frá því að síðasta grein birtist. Þeir töpuðu 2-1 fyrir Liverpool í leik þar sem mörg góð færi fóru forgörðum en enn og aftur var varnarleikur liðsins til vandræða. Það virðist þó hafa skánað töluvert.
Síðan liðið tapaði gegn Liverpool hefur það unnið tvo leiki, með markatölunni 10-2 samtals. Báðir leikirnir fóru 5-1. Voru það Everton og Middlesbrough sem lágu í valnum.
https://twitter.com/unitedreserves_/status/770282490988785664
https://twitter.com/ManUtd/status/772837981702934528
Þess má til gamans geta að 15 ár eru síðan einhver yngri en Angel Gomes skoraði þrennu fyrir Akademíu félagsins. Að sama skapi er vert að minnast á að bróðir Sam Johnstone, Max, er nú orðinn hluti af markvarðasveit Akademíunnar.
Þrátt fyrir að varnarleikur U18 ára liðsins hafi ekki verið upp á marga fiska í byrjun vetrar þá eru einstaklega færir sóknarþenkjandi leikmenn í þessum aldursflokki. Það verður því spennandi að fylgjast með liðinu í vetur en úrslit leikja gætu orðið ansi forvitnileg.
Fyrir áhugasama er leikmannahópur U18 ára liðsins hér.
Egill says
Ég hef fylgst með Angel Gomes í smá tíma og ég held ekki vatni yfir þessum leikmanni. Hann virðist alltaf vera einu liði ofar en jafnaldrar hans. Mig minnir að hann hafi verið 14 ára í U-18 liðinu, 15 ára í U-21 liðinu og er núna 16 ára og farinn að fá sénsa með varaliðinu. Get ekki beðið eftir því að sjá hann fá sénsinn í aðalliðinu sem verður líklegast á næstu 2 árum ef hann heldur sínu skriði áfram.
Haraldur says
Virkilega góður pistill og gaman að sjá að þið séuð farnir að fjalla meira um yngri lið liðsins. Mæli líka með því að menn horfi á þetta viðtal við Tony Park(@mrmujac), fáir sem vita meira um þessi mál en hann.
Haraldur says
https://www.youtube.com/watch?v=T-ibOYUNjPU