Annað kvöld, klukkan 18:45 að íslenskum tíma, spilar Manchester United við Northampton Town í 3. umferð þess fróma bikars EFL Cup (eða í deildarbikarnum). Leikurinn fer fram á heimavelli Northampton, Sixfields Stadium. Völlurinn var byggður fyrir rúmum 20 árum, áður hafði Northampton deilt velli með krikketfélagi. Áhorfendametið á vellinum er frá 30. apríl á þessu ári þegar Northampton Town sigraði Luton Town í næst síðustu umferðinni í League Two (fjórða deildin) og tryggði sér sigur í deildinni. Þá mættu 7.664 áhorfendur. Til samanburðar komast u.þ.b 14.200 áhorfendur bara í Stretford End stúkuna á Old Trafford. Það á víst að vera hægt að koma fyrir 60 áhorfendum í viðbót í sæti áður en völlurinn er alveg fullur, verður fróðlegt að sjá hvort áhorfendametið verði slegið annað kvöld.
Northampton Town
Talandi um met þá á Northampton Town eitt ansi vafasamt met. Félagið á nefnilega metið í því að sveiflast frá fjórðu deild, upp í efstu og svo aftur niður í þá fjórðu á sem skemmstum tíma. Tímabilið 1960-61 var Northampton í 4. deildinni. Tímabilið 1965-66 spilaði það sitt eina tímabil í efstu deild. Tímabilið 1969-70 var það svo aftur komið í 4. deildina.
Northampton átti frábært tímabil í fyrra. Það vann deildina með töluverðum yfirburðum, 13 stig munaði á þeim og liðinu í 2. sæti. Northampton tapaði leik 19. desember 2015, eftir það komu 10 sigurleikir í röð og Northampton tapaði ekki síðustu 24 deildarleikjum sínum. Liðið hélt svo áfram þegar tímabilið byrjaði nú í haust, tapaði ekki fyrstu 7 leikjunum. En fyrsti tapleikurinn í deild frá því fyrir jól kom loks núna um helgina þegar liðið tapaði 3-1 á útivelli gegn Chesterfield. Northampton er sem stendur í 11. sæti deildarinnar, með 11 stig.
Northampton hóf leik í 1. umferð EFL bikarsins. Northampton spilaði þá á útivelli gegn Barnsley en Barnsley er í Championship deildinni, næstu deild fyrir ofan Northampton. Barnsley komst yfir í leiknum en sá svo um að jafna leikinn með sjálfsmarki. Þannig hélst staðan þar til var komið í seinni hálfleik framlengingar. Þá skoraði Írinn John-Joe O’Toole sigurmark Northampton. Í 2. umferð var svo komið að úrvalsdeildarliðinu West Bromvich Albion. Northampton komst yfir í fyrri hálfleik en West Brom náði að snúa stöðunni við með 2 mörkum. Northampton jafnaði hins vegar undir lok leiksins. Meira var ekki skorað í venjulegum leiktíma og framlengingu þannig að vítaspyrnukeppni tók við. Áðurnefndur John-Joe O’Toole klúðraði víti fyrir Northampton en allir hinir skoruðu. Hjá West Brom klikkuðu Saido Berahino og James Morrison en Rondón, Fletcher og Phillips skoruðu. Northampton var því búið að slá út efstudeildarlið. Það er alveg ljóst að þetta er lið sem borgar sig ekki að vanmeta.
Alex Revell skoraði markið sem tryggði Northampton framlenginguna gegn WBA. Hann kom til liðsins frá MK Dons á frjálsri sölu síðasta sumar. Hann hefur skorað 4 mörk í 10 leikjum síðan þá og er markahæstur í liðinu. Markahæsti leikmaður liðsins á síðasta tímabili, framherjinn Marc Richards, er ekki enn kominn á blað í ár.
Besti leikmaður félagsins á síðasta ári var Írinn með stórskemmtilega nafnið, John-Joe O’Toole. Sá kom upp í gegnum unglingastarfið hjá Watford og fór þaðan meðal annars til Colchester og Bristol Rovers áður en hann fór til Northampton Town árið 2014. Hann er gríðarlega vinsæll meðal stuðningsmanna félagsins og hafa þeir tekið upp á því að mæta með hárkollur til að líkjast honum meira.
Í september 2010 var Northampton Town búið að vera í basli í 4. deildinni. Aðeins einn sigurleikur kominn á þeim tímapunkti. Liðið fór þá á Anfield og vann Liverpool í 3. umferð deildarbikarsins eftir framlengdan leik og vítaspyrnukeppni. Að vísu dugði það ekki langt því liðið féll úr keppni strax í næstu umferð, gegn Ipswich Town. Það er ekki mjög langt síðan þetta gerðist. Og það er ennþá styttra frá síðustu vandræðum Manchester United í þessari keppni. Það eitt og sér gæti gefið Northampton auka kraft og aukið sjálfstraust.
United
Manchester United hefur ekki átt mjög góða viku. Þrír tapleikir í röð hafa sett ansi mikla pressu á bæði stjóra og leikmannahóp. Það er alls ekkert í boði að tapa þessum leik líka, því gæti það orðið ansi freistandi að stilla upp byrjunarliði í sterkara kantinum gegn þessu Northampton liði.
Hér er svona nokkurn veginn liðið eins og ég væri til í að sjá það:
Ég hefði þó alltaf verið til í að sjá leikmennina sem hafa verið að standa sig vel með yngri liðinum, sérstaklega Tuanzebe og Joe Riley en jafnvel enn yngri pjakka eins og Angel Gomes. En þar sem Tuanzebe og Riley spiluðu heilan leik með varaliðinu á mánudagskvöldið þá myndi ég telja harla ólíklegt að þeir spili eitthvað í þessum leik.
Og já, ég veit… Rojo. Hef ég enn nógu mikla trú á honum til að vilja sjá hann spila? Nja, varla. En Shaw er meiddur, Borthwick-Jackson í láni og fínt að hvíla Blind aðeins.
Liðið sem ég vel hér að ofan byggist aðallega upp á hvaða leikmenn í hópnum þurfa mínútur. Ef fleiri yngri leikmenn fá tækifæri í þessum leik þá fagna ég því.
Það er annars ekki hægt að klára þessa upphitun án þess að tala um eitt met til viðbótar. Þannig er að þessi lið hafa, þrátt fyrir langa sögu beggja félaga, aðeins mæst 4 sinnum til þessa. Á eina tímabili Northampton Town í efstu deildinni mættust liðin tvisvar. Fyrst á þáverandi heimavelli Northampton, County Ground, í ágúst 1965. Sá leikur endaði 1-1. Seinni leikurinn fór fram á Old Trafford í byrjun febrúar 1966. Bobby Charlton skoraði þrennu í leiknum, Denis Law 2 og John Connelly eitt mark.
Hin tvö skiptin þar sem liðin hafa mæst hafa bæði komið í enska bikarnum. Í byrjun febrúar árið 1970 mættust liðin í 5. umferð keppninnar. Aftur á County Ground, fyrir framan 21.771 áhorfendur. Völlurinn var vægast sagt ömurlegur, eitt drullusvað. En George Best lét það ekki stoppa sig heldur skoraði 6 mörk í leiknum. Það er metfjöldi marka sem einn leikmaður hefur skorað fyrir Manchester United í sama leiknum. Reyndar metjöfnun, Harold Halse náði einnig að skora 6 mörk, árið 1911. Auk markanna 6 frá Best skoraði Brian Kidd 2 mörk og Alex Stepney varði víti. Lokatölur í þeim leik urðu 8-2 (alltaf skemmtileg lokastaða).
Síðast mættust liðin í 4. umferð enska bikarsins, í lok janúar 2004. Manchester United vann þann leik með 3 mörkum gegn engu. Mikael Silvestre og Diego Forlán skoruðu mörk United auk þess sem Chris Hargreaves varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark. En það var ungur piltur frá Portúgal, Cristiano Ronaldo, sem stjórnaði sýningunni þennan daginn.
Segjum svo bara að þetta verði glimrandi skemmtilegur leikur með flottu spili og sannfærandi Unitedsigri, hvernig væri það?
Sigurjón Arthur Friðjónsson, SAF says
Búnir að slá út WBA og eru búnir að fá Alex Revell frá MK Dons, þetta gæti auðveldlega breyst í martröð af við förum ekki inn í þennan leik, dýrvitlausir og með fullri virðingu fyrir andstæðingnum….því eitt er algjörlega á hreinu, þeir munu ekki bera neina virðingu fyrir okkur !!
Elías Kristjánsson says
Rooney massar þetta.
Emil says
Mig langar svo í eitt hraunstíft 6-0 skor eftir hrakfarir síðustu daga. Það er allt of langt síðan við fengum alvöru markasúpu í rétta átt.
Það gerist þó varla þar sem leikmenn með litla leikæfingu fá að spila og er það allt gott og blessað. Þeir verða hinsvegar að rífa sig upp og sýna að þeir ættu ekki að vera á bekknum í næsta leik.
Þetta fer 3-1 þar sem Northampton kemst yfir en Móri breytir úr þessu ógeðslega og staðnaða 4-2-3-1 kerfi í 4-3-3 í hálfleik.
… Svo vakna ég úr drauminum og sé að það breyttist ekkert í hálfleik og við töpum 0-1.