Stóru fréttirnar fyrir leik voru auðvitað þær að eftir fjölmiðlafár undanfarinna daga fór Wayne Rooney á bekkinn. Það kom ekki óvart ef miðað er við frammistöðu hans undanfarið, það kom meira á óvart að Carrick fékk ekki séns eftir góðan leik á miðvikudaginn.
Varamenn voru: Romero, Rojo, Fosu-Mensah, Carrick, Fellaini, Young, Rooney.
Lið meistaranna leit svona út
Daley Blind var sem sé fyrir valinu í vinstri bakverði til að hafa gætur á Riyad Mahrez og byrjaði leikinn á fyrstu mínútu með að hirða boltann af Mahrez. Hann átt síðan fyrsta skot leiksins á fjórðu mínútu en það var varnarmannsskot frekar en hitt og fór vel framhjá. Það kom meira á óvart þegar Zlatan skaut yfir nokkru síðar, en United sótti nokkuð stöðugt þessar fyrstu mínútur.
En ekki í fyrsta skipti eftir góðar fyrstu 10 mínútur komst andstæðingurinn inn í leikinn. Albrighton hefði átt að gera betur þegar hann átti laust skot beint á De Gea og síðar var það Huth sem skaut yfir eftir harða sókn Leicester.
En United náði aftur betri tökum á spilinu og það var eftir að Mata vann hornspyrnu úr fyrirgjöf að Chris Smalling skallaði United í forystu, 1-0 á 23. mínútu. Það er ekki við því að búast að Leicester að þrír varnarmenn láti háan bolta fara yfir sig, en fyrir vikið var Smalling réttur maður á réttum stað.
Innan við tveim mínútum síðar átti Rashford að bæta við. United kom í hraðaupphlaup, Herrera gaf fram á Ibrahimović sem gaf fyrir á Rashford á auðum sjó. Rashford náði ekki nógu góðri fyrstu snertingu og skotið fór svo hvergi nærri markinu. Zlatan fékk svo fínt færi eftir frábæra sendingu Pogba inn á teiginn. Skotið fór samt rétt yfir.
United voru þannig aftur orðnir síógnandi og sóttu fast á. Pogba var að koma vel inn í leikinn og aðrir leikmenn voru allir meira eða minna í stuði. Það var síðan snilldarsamspil frá Mata, Pogba og Lingard sem skilaði Mata inn á auðan sjó í teignum og hann hamraði boltann inn úti við stöng. Glæsilegt mark!
Það liðu síðan ekki tvær mínútur þangað til United fékk enn eitt hornið. Blind sem var búinn að vera taka hornin, tók það eldsnöggt, sá Mata lausan og gaf inn, Mata framlengdi og Rashford smellti inn af tveggja metra færi.
Og hálfleikurinn var ekki búinn enn. Það voru aftur ekki nema tvær mínútur liðnar, þegar, jú, enn eitt hornið, frábært enn og aftur frá Blind og núna var það Paul Pogba sem tók Fuchs í nefið og skoraði með frábærum skalla og skoraði þar með fyrsta mark sitt fyrir United
4 – @ManUtd have scored four goals before half-time in a Premier League game for the first time since Dec 1st 2012 (4-3 v Reading). Rout.
— OptaJoe (@OptaJoe) September 24, 2016
Gríðarskemmtilegt alltsaman. Þessi Reading leikur var hins vegar bölvað streð, Hálfleikstölurnar voru 4-3 og United lenti tvisvar undir. Síðasti deildarleikur þegar United var fjórum mörkum yfir í hálfleik var gegn Arsenal 2001.
Ef við skoðum hitakortið í fyrri hálfleik má sjá að næstum er um 3-3-3-1 að ræða. Herrera spilaði mjög aftarlega og var akkerið fyrir að Pogba lék betur en hann hefur gert í haust. Blind og Valencia komu vel fram og Lingard og Mata víxluðu oft sem skýrir stöðu þeirra
Leicester gerði tvær breytingar í hálfleik, Andy King kom inn fyrir Mahrez sem hafði ekki sést og Demarai Grey fyrir Vardy. Magnað að tvær helstu hetjur Leicester fengu að fjúka en það var alveg verðskuldað. Reyndar verður, til að gæta sanngirni, benda á að Leicester leikur gegn Porto á þriðjudaginn og það er betra að hafa þessa tvo vel hvílda í þeim leik en að eyða þeim að óþörfu í töpuðum leik.
Seinni hálfleikur varð fljótt að æfingaleik, United réði lögum og lofum án þess að vera of stressaðir Það kom þeim svo aðeins í koll á 60. mínútu, Leicester sótti, Demarai Gray var með boltann utan við vítateigshornið, hristi af sér Lingard og setti boltann efst í markhornið fjær með þrumuskoti.
United leyfði þessu ekki að ganga mikið lengra og bæði Lingard og Ibrahimovic áttu góð skot framhjá. De Gea varði síðan glæsilega frá Gray úr ekki ósvipuðu skoti og markið var.
Fyrsta skipting United kom á 78. mínútu, Lingard sem hafði verið hægra megin varnarlega séð en hluti af miklum hrókeringum í stöðum þegar kom að sókninni fór útaf, Michael Carrick kom inná. Leicester voru öllu sprækari næstu mínútur og Wayne Rooney kom inná á 83. mínútu fyrir Rashford. Áfram dúllaði United sér og svo kom Young inná fyrir Mata.
Það þarf ekkert að mikið núna hvort Wayne Rooney eigi heima í byrjunarliði United. Þetta var þrælskemmtilegur leikur og einn besti hálfleikur United síðan Sir Alex hætti. Vissulega komu þrjú af mörkunum eftir hornspyrnur, en það var svo mikið meira en það að gerast. Sífelld ógn, skot og læti, svona eins og við viljum það.
Daley Blind er minn maður leiksins, kom frábærlega inn sóknarlega séð. Annars voru fjölmargir leikmenn að spila geysivel, Juan Mata best af hinum, en líka Pogba (sem Sky valdi mann leiksins), Rashford og Herrera. Ibrahimović skoraði ekki en var hvað eftir annað ógnandi og kom líka mikið inn í spilið.
Bjarni says
Spái Rooney inn um miðjan seinni hálfleuk og skorar sigurmarkið. Verður okkar supersub í vetur 😆
Gísli G says
Það eru stórtíðindi að Rooney sé á bekknum. Ég er reyndar ekki einn af þeim sem telur að hann sé búinn að vera. Held hann eigi enn eftir að gera góða hluti fyrir liðið. Ég vil líka að við stuðningsmennirnir munum, þegar fer að síga á seinni hlutann af ferlinum hjá svona meisturum, hvað þeir hafa fært okkur í gegnum tíðina. Ég var heldur ekki ánægður þegar að Giggs var á lokasprettinum hvernig sumir gagnrýndu hann, oft harkalega. En svona er fótboltaheimurinn, annað hvort eru menn hetjur eða skúrkar. Giggs og Rooney verða alltaf hetjur í mínum augum.
Veikleikarnir í liðinu eins og því er stillt upp í dag finnst mér vera Lingard – Mata – Blind.
Held að Pogba eigi eftir að stíga upp og taka völdinn á miðjunni. Smalling og Herrera eiga heima í byrjunarliðinu. Við hinsvegar verðum að fara að skapa okkur fleiri færi frammi en verið hefur í síðustu leikjum. Vonandi sér maður eitthvað svoleiðis í dag.
Björn Friðgeir says
Held að það sé mjög skynsamt að setja Blind í bakvörðinn, frekar en Rojo og hefði átt að átta mig á því í upphituninni í gær.
Hvað Rooney varðar þá er þetta hárrétt ákvörðun, það kemur svo í ljós hvort hann hefur eitthvað að gera sem varamaður. Eins og bent hefur verið á þá er hann búinn að spila í fjórtán ár án þess að missa verulega úr og það er alveg valid að benda á að hann gæti verið búinn. Vandinn við að hvíla Rooney er að hann hefur alltaf komið þungur til baka úr fríum, hvort sem er raunverulega eða metafórískt og mér finnst því ekkert sérstaklega liklegt að hann geti haldið sér í nægilegu formi ef hann er ekki að spila alla leiki.
En það verður nógu spennandi að sjá hvað gerist í dag, hvort þetta verður ný dögun án Rooney eða hvort liðið getur ekki án hans verið
Karl Gardars says
Mér finnst vandinn við Rooney vera að hann hugsar alltaf fyrst og fremst um rassgatið á sjálfum sér. Hann er búinn að vera frábær fyrir klúbbinn en mér á t.d. Aldrei eftir að þykja jafn vænt um hann og t.d. Giggs, Scholes, fletcher og m.a.s evra svo einhverjir séu nefndir.
Rooney hefur ekki hikað við að setja allt í uppnám til að kreista fram nokkur pund og það eru leikmenn eins og hann sem kynda undir verðbólgunni í boltanum sem er leiðinda þróun.
Hvort hann svo drullist til að halda sér í formi á meðan hann vermir tréverkið ætla ég ekki að segja til um. Það ætti ekki að vera vandamál fyrir mann á þessum launum að vera með hugann við vinnuna.
Ég er mjög glaður yfir því að hann skuli vera bekkjaður núna því svona þvæla kostaði okkur 80+m punda bara í sumar og ég vil ekki fyrir mitt litla líf vita af mönnum eins og Rashford, Martial, Mkhitaryan, Herrera og Lingard á bekknum vegna þess að Rooney VAR svo góður.
Omar says
Mata!!
Rooney má eiga bekkinn þađ sem eftir er og Smalling armbandiđ!!!
Karl Gardars says
Hvað er að gerast?? 4 í fyrri hálfleik!!
Audunn says
Enginn Rooney, enginn Fellaini og United er að spila alvöru fótbolta og brillera. .
Hvað ætli ég sé búinn að segja oft að Man Utd sé betra án þeirra?
Karl Gardars says
Eins gott að þeir hlustuðu loksins á þig! Takk Auðunn :)
ellioman says
Takk Auðunn!
Halldór Marteinsson says
United skoraði 4 mörk af því Rooney var á bekknum en hefði líklega skorað 5-6 með meistara Fellaini inná. Go Fella!
Bjarni says
Glæsilegur sigur, slökuðum á í seinni. Meira svona, klára leikina í fyrri hálfleik svo hægt sé að slaka aðeins á. Varðandi að meistari WR var bekkjaður þá er það bara allt í lagi. Hann kemur sterkur til vaka, vonandi, annars má hann bara verma bekkinn. Hann ætti að líta á söguna hvernig Bryan Robson höndlaði síðust æviárin hjá utd. Var yngri og sprækari leikmönnum fyrirmynd utan sem innan vallar. En eitthvað á eftir að fjalla um bekkjunina út vikuna í pressunni. Utd er og verður alltaf alltaf milli tannanna á fólki útaf stóru sem smáu.
GGMU
Hjörtur says
Rétt Bjarni, Utd á ábyggilega eftir að vera í pressuni næstu daga, eins og undanfarna daga v/þriggja tapleikja í röð. Maður opnaði ekki netmiðil síðustu daga öðruvísi en að rekast þriggjaleikja taphrinu liðsins. Nú unnu þeir meistarana og það 4-1 og það verður ekki minnst á það eftir daginn í dag, en Rooney verður kanski minnst eitthvað fyrir bekkjasetuna. En leikurinn í dag var frábær 4 mörk og allir leikmenn stóðu sig vel, meir að segja Mata og Blind sem svo margir vilja losna við úr liðinu. Góðar stundir.
Sigurjón Arthur Friðjónsson, SAF says
@ Halldór Marteins
Ég treysti því að þú sért að grínast varðandi Fellaini :-) :-) Hefði hann bætt við hraða í leikinn ? hefði hann bætt við meistarasendingum fram á við ? hefði hann á öskotsstundu breytt vörn í sókn ? ég held ekki :-) hefði hann bætt við olnbogaskotum ? líklega já :-(
Ég er búin að tuða um þessa tvo núna á þriðja ár (WR+MF) og mér líður hrikalega vel í dag :-) Takk Móru fyrir hugrekkið !! Tek það fram að þetta er ekkert persónulegt gagnvart þeim…þó að á stundum hafði mátt halda annað þegar ég hef misst mig í reiðinni :-)
Áfram Manchester United….ALLTAF :-)
Sigurjón Arthur Friðjónsson, SAF says
http://www.manchestereveningnews.co.uk/sport/football/football-news/man-utd-player-ratings-leicester-11932113
Miklu betri umsagnir um leikmenn og frammistöðu þeirra heldur en á Sky :-)
Runólfur Trausti says
#TakkAuðunn
Annars er augljóst að Halldór er að beita vopni sem við köllum oft Kaldhæðni þarna. Öflugt vopn ef notað er rétt.
Annars var fyrri hálfleikurinn hreint út sagt magnaður. Líklega það besta sem maður hef séð frá liðinu í langan tíma. Hefði Zlatan skorað þegar Pogba vippaði honum inn fyrir á Zlatan þá hefði ég kremað í buxurnar.
Ætla mér ekki að setja út á Fellaini hér en undir réttum kringumstæðum er frábært að hafa hann í hópnum. En gegn liði sem spilar 4-4-2 og vantar hæð á miðsvæðið þá tel ég óþarfa að spila honum. Vonandi að við sjáum svipað lið gegn Stoke City næstu helgi.
Hversu góður er svo Herrera sem holding/aggressive miðjumaður? LvG þorði ekki að spila honum þarna á sínum tíma og spilaði frekar Rooney á miðri miðjunni #TakkMourinho Svo er ég ennþá með blóð í ‘onum eftir frammistöðuna hjá Blind, Mata og Pogba.
Sigurjón Arthur Friðjónsson, SAF says
Best að taka það fram að ég lít á þetta sem kaldhæðni frá meistara Halldóri og ég hvet ykkur til að kíkja á linkin sem ég setti inn…flott á lýsing á okkar mönnum þar…
Pétur GGMU says
Frábær leikur, GGMU
Halldór Marteins says
Viðurkenni ákveðna kaldhæðni þarna :D
Ég geri mér alveg grein fyrir því að Fellaini hefur sína galla en mér finnst hann samt nett vanmetinn hjá United. Það eru ákveðin hlutver sem hann sinnir mjög vel að mínu mati.
En þetta var bara geggjaður leikur. Vil endilega sjá meira svona
Halldór Marteins says
Og verð að koma með sérstakt pepp á minn mann, Jesse Lingard. Hann átti slæman dag gegn City en sýndi betur hvað hann getur í dag. Var ekki endilega áberandi á boltanum en mjög flottur taktísktlega og vann afar vel fyrir liðið
Runar says
Ég sagði það í „Pre Game“ póstinum.. Blind alla leið…! Er ekki kominn tíma að stjórnendur þessa spjalls hætti að spá honum tréverkið leik eftir leik???
Halldór Marteins says
Spáin um byrjunarlið fyrir leiki þarf alls ekki að endurspegla skoðun þess sem skrifar á viðkomandi leikmönnum.
Það geta verið margar mismunandi ástæður fyrir því að við spáum byrjunarliðinu eins og við gerum. Hins vegar er Blind aldrei spáð út úr byrjunarliðinu vegna þess að okkur finnist hann lélegur leikmaður. Raunar eru allir í ritstjórn Rauðu djöflanna sammála um að hann er mjög góður leikmaður. Eins og hann hefur verið að sýna.
En frábærir leikmenn eiga það nú samt líka til að detta út úr byrjunarliðum.
Runar says
Skrítið samt að skrifa póst eftir póst þar sem honum er ekki spáð í byrjunarlið,, sér í lagi þar sem hann spilaði nánast alla leiki á síðasta tímabili og byrjar alla leiki só fara.. :P
Halldór Marteins says
„skrifa póst eftir póst þar sem honum er ekki spáð í byrjunarlið…“
Hmm?
Það eru búnar að vera 9 leikir á tímabilinu.
Í 5 af þeim hefur sá sem skrifaði upphitunina spáð Blind í byrjunarlið.
Í 1 skipti ákvað upphitunarhöfundur ekki að spá fyrir um byrjunarlið.
Í 3 skipti var Blind ekki spáð í byrjunarlið. Af þeim 3 skiptum var einn leikur gegn Northampton (viðbúið að fastamenn fengju frí), einn leikur þar sem skrifari spáði að Smalling kæmi aftur inn í lið og að Bailly myndi halda sæti sínu (enda búinn að vera frábær) og svo síðasti leikur. Þetta eru því ágætis ýkjur hjá þér.
Allt er þetta samt frekar tilgangslaust. Eins og ég var áður búinn að segja, þetta er eingöngu spá þess sem skrifar upphitunina hverju sinni og endurspeglar ekki álit þess sem skrifar eða okkar í ritstjórn á leikmönnum sem er spáð að byrji eða byrji ekki.