Ísland á tvö frábær A-landslið í knattspyrnu. Þessi lið hafa á síðustu mánuðum og árum náð gríðarlega góðum árangri og vakið verðskuldaða athygli langt út fyrir landsteinana. Kvennalandsliðið er nú nýbúið að tryggja sig inn á þriðja lokamót EM í röð og karlalandsliðið stóð sig framar vonum á sínu fyrsta lokamóti í sumar.
Bæði liðin státa af reynslumiklum kjarna góðra leikmanna með sterkum karakterum og miklum leiðtogum. Fremst þar í flokki eru Aron Einar Gunnarsson hjá körlunum og Margrét Lára Viðarsdóttir hjá konunum. Bæði byrjuðu þau ung að spila fyrir A-landslið Íslands, þau fóru bæði ung í atvinnumennsku erlendis og bæði stefna á að leiða Ísland á fleiri stórmót í framtíðinni. Þau eru fyrirliðar Íslands.
En það er ekki það eina sem þau eiga sameiginlegt. Þau halda líka bæði með Manchester United. Engin furða að þau séu svona miklir snillingar! Nú ætlum við ekkert endilega að halda því fram að sú staðreynd að þau haldi með Manchester United eigi beinan þátt í góðum árangri landsliðanna en við bendum lesendum bara á að skoða hversu góðum árangri liðin hafa náð frá því þau tóku við fyrirliðaböndunum.
Við í Rauðu djöflunum höfðum samband við Aron og Margréti og báðum þau um að svara nokkrum laufléttum spurningum varðandi Manchester United og áhuga þeirra á liðinu. Þau tóku vel í það, enda þekkjum við vel hvað það getur verið gaman að ræða liðið sitt í enska boltanum.
Hversu lengi hafið þið haldið með Manchester United og af hverju varð það lið fyrir valinu?
Alveg frá því ég man eftir mér. Það var ákveðinn aðili sem gaf mér Liverpool bindi á sínum tíma í þeirri von að ég myndi halda með þeim en ástæðan var eiginlega að bróðir minn, Arnór Gunnarsson, og pabbi minn héldu með Manchester United og það var ekki hægt annað en halda með United.
Frá því ég byrjaði að fylgjast með enska boltanum þá hef ég haldið með Manchester United. Ég var kannski 8 eða 9 ára. Ástæðan fyrir því að ég byrjaði að halda með United á sínum tíma var klárlega Eric Cantona.
Hvaða leikmaður eða leikmenn Manchester United hafa verið í mestu uppáhaldi í gegnum tíðina? Er einhver í sérstöku uppáhaldi af þeim sem spila núna fyrir félagið?
Það hafa ótrúlega margir frábærir leikmenn spilað með Manchester United. Þeir sem hafa verið í mestu uppáhaldi hjá mér eru Eric Cantona, David Beckham, Giggs, Paul Scholes, Rooney og sá nýjasti er Zlatan.
Paul Scholes var vanmetinn, það fór ekki oft mikið fyrir honum en svona ef maður hugsar til baka þá var hann einn besti leikmaður sem hefur spilað fyrir Manchester United. Svo er það Zlatan af þeim sem eru hjá félaginu núna. Zlatan er karakter sem maður vill sjá spila fyrir jafn flottan klúbb og Manchester United er.
Eru einhver sérstök augnablik eða atvik sem standa sérstaklega upp úr í minningunni hjá þér sem stuðningsmanni United?
1999. Svakalegur endir á úrslitaleik og held það séu margir sammála mér með það.
Já, þegar við unnum meistaradeildina 1998-99 gegn Bayern Munchen. Það var ein svakalegasta endurkoma í sögu fótboltans.
Áttuð þið einhverjar United treyjur þegar þið voruð yngri og ef svo er, hvaða nöfn fóru á þær?
Ég átti nokkrar treyjur með bæði Cantona og Beckham aftan á.
Já, ég átti nokkuð margar. Cantona var mín uppáhalds, með Sharp framan á og kragann upp. Svo átti ég hvítu treyjuna sem var gulllituð þegar maður sneri henni við. Þar var ég með Verón aftan á.
Hvað með stuðningsmannalögin, einhver í sérstöku uppáhaldi þar?
Glory, glory er klassík.
Glory glory.
Þegar þið eruð í landsliðsverkefnum, er enski boltinn þá fyrirferðarmikil afþreying hjá ykkur? Kannski einhver rígur eða banter á milli stuðningsmanna mismunandi liða?
Alltaf þegar við stelpurnar erum á ferðalagi erum við duglegar að koma saman og horfa á bæði enska boltann og Meistaradeildina. Vitanlega er alltaf smá rígur þar sem við höldum ekki allar með sama liðinu. En það er bara stemmari yfir því.
Nei, það kemur ekkert upp hjá okkur. Það var meira um ríginn í gamla daga í skólanum. Annars eru menn orðnir aðeins of þroskaðir til að vera með eitthvað banter eða skot á hvorn annan með þetta að gera.
Aron, nú hefur þú farið sem leikmaður á Old Trafford. Var auðvelt að skilja United stuðningsmanninn í þér eftir heima þegar þú fórst þangað með Cardiff City?
Haha, það var ákveðin upplifun. Og líka ákveðin vonbrigði að fá ekki að koma við sögu í þeim leik en þegar komið er inn á völlinn er fókusinn hjá mér mikill og ekkert annað en mitt lið skiptir mig máli.
Margrét, ritstjórn Rauðu djöflanna er sammála um það að það sé virkilega lélegt að félag eins og Manchester United skuli ekki vera með kvennalið. Sérstaklega þegar félög eins og Arsenal, Liverpool, Chelsea og Manchester City keppa á þeim vettvangi. Þegar þú varst yngri, var einhvern tímann draumur að spila fyrir Manchester United eða lá metnaðurinn strax annað hjá þér sem leikmanni?
Sem lítil stelpa sem var vön að æfa og keppa á móti strákum dreymdi mig auðvitað um það að spila með Manchester United. Allar mínar fyrirmyndir sem barn voru karlar í fótbolta þar sem kvennabolti var ekki sýndur í sjónvarpi. Það er auðvitað skandall að United sé ekki með kvennalið en það hlýtur að breytast á næstu árum, ég trúi ekki öðru.
Ef Manchester United myndi nú hysja upp um sig, færa sig í nútímann og byrja með kvennalið, væri ekki alveg málið að fá Viðarsdóttir í 9una?
Hver myndi segja NEI við United?
Karlalið Manchester United gæti vel notað einn nagla á miðjuna, leikmann sem kæmi með stál og baráttu. Er Gunnarsson til United ekki bara málið?
Hvernig væri það? Komið því í gang fyrir mig.
En hvernig líst ykkur á Manchester United þessa dagana og hvernig finnst ykkur horfurnar í nánustu framtíð?
Þetta lítur betur út en á síðustu 2 til 3 árum. Erum náttúrulega búnir að eyða gífurlegum pening í nýja leikmenn en það vantaði eitthvað upp á og vonandi nær Mourinho að búa til skemmtilegt lið sem vinnur titla.
Mér líst ljómandi vel á okkar menn. Við erum bæði komin með frábæran stjóra og leikmenn. Við verðum samt að gefa þessum ágætu mönnum tíð og tíma til að þróa og betrumbæta liðið. Það getur tekið tíma að búa til meistaralið.
Að lokum, á að skella sér á leik með Manchester United í vetur?
Ég á alveg eftir að skoða þau mál en það væri án efa mjög gaman.
Það er aldrei að vita. Hef ekki komist ennþá því það er nóg að gera í Championship deildinni eins og menn vita, haha.
Við þökkum fyrirliðunum kærlega fyrir að hafa gefið sér tíma til að svara þessum spurningum. Þau hafa bæði verið mjög upptekin upp á síðkastið með félagsliðum sínum, Margrét Lára með Val og Aron Einar með Cardiff City í Wales.
A-landslið Íslands spila auk þess bæði leiki nú í októbermánuði. Undankeppni HM 2018 heldur áfram hjá strákunum með leikjum gegn Finnlandi á morgun, 6. október, og Tyrkjum sunnudaginn 9. október. Stelpurnar hafa klárað sína undankeppni en munu taka þátt í 4 þjóða móti í Kína 20.-24. október þar sem þær spila gegn Kínverjum, Dönum og Úsbekum. í byrjun nóvember verður síðan dregið í riðla í lokakeppni EM í Hollandi 2017.
Karl Gardars says
Fagfólk! Gaman að þessu. :)