Það voru margir sem óskuðu þess að sjá Mkhitaryan byrja leikinn gegn Manchester City. En það var ekki í spilunum. Ekki aðeins var Mkhitaryan utan byrjunarliðs heldur var hann ekki einu sinni í hópnum. Og það þrátt fyrir að hafa sést með leikmannahópi Manchester United sem stimplaði sig inn á Lowry hótelið fyrir leik. Svo hafi hann ekki náð að meiðast með einhverjum hætti á hótelinu þá getur maður ekki annað en velt fyrir sér hvort það sé hreinlega eitthvað í gangi með Mkhitaryan og hvort Mourinho treysti honum ekki til að spila. Vonandi er það ekki málið en þetta er farið að líta grunsamlega út.
Í öllu falli var byrjunarliðið í kvöld á þessa leið:
Varamenn: Romero, Darmian, Fellaini, Schneiderlin (73′), Lingard (82′), Memphis, Young
Lið gestanna er þannig skipað:
Varamenn: Gunn, Gündogan, Sterling (63′), Agüero (71′), Adarabioyo, Fernandinho, Kolarov (46′)
Ég set 4-1-4-1 á þetta byrjunarlið en það er ekki alveg nógu nákvæmt. Flestar knattspyrnusíðurnar settu á þetta klassískt 4-2-3-1 þar sem Carrick og Herrera voru sexurnar og Pogba í holunni en það er ekki heldur alveg nógu nákvæmt.
Michael Carrick var aftasti maðurinn á miðjunni, svo mikið var allan tímann fullljóst. Að sama skapi var ljóst að Pogba væri sá miðjumaður sem ætti helst að leitast við að vera fremstur en þó með ákveðið frjálsræði. Ander Herrera var svo box to box miðjumaður. Sem er eiginlega hans besta staða. Bara æsa hann nógu mikið upp fyrir leik, halda honum á brúninni og sleppa honum svo lausum í ærslagang og brjálæði, það er staðan hans.
Það er svipuð pæling þegar kemur að „kantmönnunum“ okkar megin í kvöld. Annars vegar höfðum við framherjan Rashford vinstra megin og hins vegar holusérfræðinginn Juan Mata hægra megin. Þrátt fyrir að þeir væru báðir settir á kantana þá skein í gegn hver þeirra eðlislæga staða var því Juan Mata var mikið að vinna út frá miðjum vellinum, töluvert að leysa inn og finna sér pláss á meðan Rashford vann mikið framarlega á vellinum, pressaði á varnarmennina hátt uppi og vildi vera í þessum týpíska framherjahasar.
Það eru aðeins tveir leikmenn Manchester United sem hafa spilað hverja einustu mínútu í úrvalsdeildinni til þessa. Annar þeirra er dýrlingurinn heilagi Davíð frá Madrídarborg sem er verndari hins heilaga marks. Hinn leikmaðurinn er goðsögnin Zlatan Ibrahimović sem, þrátt fyrir óumdeilda hæfileika á heimsmælikvarða, er nýorðinn 35 ára gamall. Fyrir utan hverja einustu af 810 mínútum úrvalsdeildarinnar spilaði hann heilan leik gegn Leicester í góðgerðarskildinum, hefur spilað 117 mínútur í 2 af 3 Evrópudeildarleikjum og tekið þátt í báðum deildarbikarleikjunum til þessa, þar af 90 mínútur í þessum leik.
Gæti þetta ekki mögulega verið full mikið fyrir þetta gamlan leikmann? Hann hefur upp á síðkastið virkar frekar þreyttur. Hann hefur verið að fá fullt af færum en nýtt þau misvel og það er komið heldur langt síðan hann skoraði síðast. Það sást vel í fyrri hálfleik þar sem Zlatan spilaði alls ekki vel. En það sama átti reyndar við um flesta í liði United. Og eiginlega flesta í liði Manchester City líka, fyrri hálfleikurinn var hvorki góður né skemmtilegur fótboltaleikur. Leikmenn náðu ekki almennilegri baráttu og voru að gera klaufaleg byrjendamistök. M.a.s. Juan Mata var farinn að setja frekar einfaldar sendingar á samherja í innkast og þá er nú mikið sagt.
Zlatan hefur þó það mikla hæfileika að jafnvel þegar hann á slæman leik þá getur hann minnt rækilega á sig. Þannig átti hann stórskemmtilega sendingu á Rashford undir lok fyrir hálfleiks sem hefði getað endað með hættulegri skyndisókn. Rashford lék sér með boltann á góðum stað í teig þeirra bláklæddu en náði ekki að koma skoti framhjá varnarmönnum City. Raunar náði enginn leikmaður liðanna að setja marktilraun á rammann í fyrri hálfleik. Það var því um ýmislegt að hugsa í hálfleik fyrir stjórana.
Pep Guardiola þurfti að gera skiptingu í hálfleik þar sem Vincent Kompany gat ekki haldið áfram leik vegna meiðsla. Mourinho gerði enga skiptingu í hálfleik en hefur greinilega farið ágætlega yfir stöðuna með sínum mönnum því lið United mætti sprækara til leiks í síðari hálfleik. Á 49. mínútu átti Manchester United eina af bestu sóknum tímabilsins þegar Ander Herrera og Juan Mata spiluðu sig upp hægri vallarhelminginn og komu svo boltanum á Zlatan. Zlatan sólaði leikmann Manchester City upp úr skónum áður en hann gaf góða stungusendingu á Paul Pogba. Pogba átti þéttingsfast skot á nærstöngina sem Caballero náði að verja í stöngina. Sérstaklega vel gert hjá öllum fjórum United leikmönnum og gaf tóninn fyrir seinni hálfleikinn.
Pep Guardiola stillti ekki upp sínu sterkasta liði í þessum leik. Þetta voru þó öngvir aukvissar sem þarna spiluðu en það hefur eflaust haft sitthvað að segja yfir liðið allt að ákveðna burðarstólpa vantaði í liðið.
Manchester United var mun nær sínu sterkasta liði og náði að nýta sér það fyrir alvöru í síðari hálfleik. Manchester City hafði byrjað fyrri hálfleikinn á að vera meira með boltann en þegar komið var vel fram í síðari hálfleik hafði possession prósentan snúist við og United var meira með boltann. Munaði þar ekki síst um Ander Herrera. Það skiptir yfirleitt ekki öllu máli hversu mikilvægar keppnirnar þykja, Ander Herrara mætir til leiks eins og hver leikur gæti verið hans síðasti. Það er eiginleiki sem ætti alltaf að vera hægt að nýta.
Á 54. mínútu kom svo eina mark leiksins. Marcos Rojo, sem átti merkilega góðan dag í miðvarðahlutverkinu, skallaði þá háan bolta fram úr vörninni. Zlatan Ibrahimović sá að hann gat ekki unnið skallaeinvígið svo hann nýtti styrk sinn og steig einfaldlega leikmann City út og vann boltann þannig. Brunaði svo upp völlinn með boltann þar til hann var kominn að endamörkum innan teigs. Þá gaf hann stungusendingu út í teiginn, ætlaða Ander Herrera. Ander Herrera áttaði sig snögglega á því að leikmaður City kom aðvífandi í tilraun til að ná boltanum svo hann steig leikmanninn út en leyfði boltanum að fara. Það reyndist skynsamleg ákvörðun í meira lagi því það leiddi til þess að boltinn barst til Juan Mata á miðjum vítateignum aðeins vinstra megin. Juan Mata hefur einstakt lag á því að vera alltaf mættur á réttan stað á réttum tíma og hann þakkaði pent fyrir sig með því að leggja boltann í sama markhorn og boltinn kom úr. Virkilega gott mark.
Eftir það reyndi Pep Guardiola að fá Manchester City til að sækja meira. Hann setti Raheem Sterling og Sergio Agüero inn á. En United þétti pakkann á móti hjá sér. Morgan Schneiderlin fékk langþráð tækifæri til að láta ljós sitt skína og gerði vel í að efla varnarleik Manchester United. City var meira með boltann en náði ekki að skapa sér neitt að ráði. Raunar áttu þeir bláklæddu ekki marktilraun á rammann allan leikinn á meðan United átti 2 tilraunir á markið.
Þetta var, þegar allt kemur til alls, nokkuð þægilegur sigur. Og sigur sem veldur því að Pep Guardiola er núna að upplifa sitt versta run sem knattspyrnustjóri þar sem hans lið hefur nú spilað 6 fótboltaleiki án sigurs. Næsti leikur þeirra er svo á útivelli í deildinni gegn WBA. En næsti leikur okkar manna er á heimavelli gegn Burnley.
Eftir leikinn kom í ljós hvaða lið United mætir í 8-liða úrslitum deildarbikarsins og það er West Ham. Það voru ýmsar sjóðheitar viðureignir í boði, t.d. gegn Liverpool, Arsenal, Leeds United eða Rafa Benitez. En eftir uppákomuna síðasta vetur með rútuna þá er alveg ákveðinn broddur í viðureign gegn West Ham.
En hvað þýðir þetta fyrir Mkhitaryan? Er hann bara pikkfrosinn í fyrstikistunni eða er Mourinho að geyma hann fyrir annað tilefni? Mourinho ákvað að taka sénsinn á honum í risaleik þegar hann setti hann í byrjunarliðið gegn Manchester City þrátt fyrir að hann væri nýkominn úr meiðslum. Sú ákvarðanataka bendir til þess að Mourinho hafi allavega á þeim tímapunkti haft töluvert álit á Mkhitaryan. Gerðist eitthvað á milli þeirra í kringum það eða eftir það sem veldur því að Mkhitaryan fær ekki sénsinn eða er kannski eðlileg skýring á því af hverju hann er ekki farinn að spila aftur? Það verður bara að fá að koma í ljós en fyrir mitt leyti þá vona ég að hann eigi afturkvæmt í byrjunarliðið. Leikmaður eins og Mkhitaryan í sínu besta formi er akkúrat það sem Manchester United gæti notað þessa dagana.
Twitterhornið
Manchester derby tonight. Looking forward to the game! Good luck, guys! 👍🏼 @ManUtd pic.twitter.com/TVKF3icX7a
— Basti Schweinsteiger (@BSchweinsteiger) October 26, 2016
Notice how Man Utd left winger is always isolated. Shaw/LB doesn’t move forward to support. Long way from days of Evra/Irwin.
— Giggs_Boson (@giggs_boson) October 26, 2016
Zlatan endalaust að sækja boltan a miðlínunni og Pogba endar fremstur. Ekki alveg planið sem ég vonaðist eftir. #wtf #comeonJose
— Benedikt Gretarsson (@bennigretars) October 26, 2016
Paul Pogba: Has played more accurate through balls (5) than any other player in the PL this season; Silva/De Bruyne/Tadic joint second (4)
— ManUtd Fact (@ManUtd_Fact) October 26, 2016
Ef Juan Mata er ekki að hitta samherja þá getum við farið að undirbúa okkur undir heimsendi #Djöflarnir
— Runólfur Trausti (@Runolfur21) October 26, 2016
Zlatan has been Space Jam’d.
— United Religion (@Unitedology) October 26, 2016
Maybe that ‘Blah Blah Blah’ Pogba commercial was referring to his performances for United. He and Ibrahimovic were atrocious that half.
— Samuel Luckhurst (@samuelluckhurst) October 26, 2016
Pogba should keep it simple sometimes. Not every move must go to the YouTube videos.
— Lucas Sposito (@LucasSposito_) October 26, 2016
One of the best pieces of football from #mufc under Mourinho that move. Pogba forced too wide by Ibrahimovic, though.
— Samuel Luckhurst (@samuelluckhurst) October 26, 2016
Þetta var virkilega skemmtilegur seinni hálfleikur. Pogba og Zlatan stigu upp. Valencia og Herrera flottir. Rest sömuleiðis. Fjör.
— Haukur Eyþórsson (@Haukur29) October 26, 2016
Pep Guardiola: Has gone six games without a win for the first time in his managerial career #MUNMCI pic.twitter.com/0f1C92Doj4
— WhoScored.com (@WhoScored) October 26, 2016
Hehehehehehehehe 😂✌️️ @GulliGull1 pic.twitter.com/mMXsqNUnbQ
— Hildur Einarsdóttir (@HildurEinarsd) October 26, 2016
0 – Manchester City failed to have a shot on target in a game for the first time since April 2012 (vs Arsenal in the Premier League). Shy.
— OptaJoe (@OptaJoe) October 26, 2016
Bjarni says
Áberandi leikur tveggja liða sem eru að ströggla andlega. Menn að láta hörkuna og lélegar sendingar bera fegurðina ofurliði.
Kjartan says
Góður sigur, tekur eitthvað af pressunni af liðinu. Spurning hvort fjölmiðlar tali nokkuð um 6 leikja „sigurlausu“ hrynu Man City, eflaust uppteknir af því að búa til lygi í sambandi við Mkhitaryan.
Ég hefði viljað sjá aðra uppstillingu en í ljósi aðstæðna var hún skiljanleg. Zlatan sýnir það að framherjar þurfa ekki endilega að skora til að eiga góðan leik.
Cantona no 7 says
Góður sigur og mjög mikilvægur.
Vonandi verður framhald á þessu.
G G M U
Runólfur Trausti says
Fyrsta skipti sem Pep vinnur ekki í sex leiki í röð (hefur þjálfað í kringum 250 leiki).
Fyrsta skipti síðan 2009 sem City vinnur ekki sex leiki í röð.
Get samt lofað ykkur að það verður lítið fjallað um krísuna hjá City – verður aðallega talað um hvað þeir hvíldu marga í dag.
Allavega, fínn seinni hálfleikur. Sá fyrri var arfaslakur samt.
Hefði verið gaman að sjá Pogba skora.
Verð að viðurkenna að Rojo og Blind litu bara nokkuð vel út í hafsentnum (augljóst að Rojo ætlaði ekki að kosta mark og lúðraði tuðrunni frekar fram en að koma sér í basl).
Fannst miðjan virka vel. Reynslan í Carrick + ÞESSI VINNSLA (+ almenn gæði) í Herrera. Vá! Er hægt og rólega að komast í jafn mikið uppáhald og Mata.
Er samt mjög forvitinn að fylgjast með hvað gerist í næsta leik. Erum búnir með 2 leiki á 4 dögum núna og annar eftir 3 daga. Spurning hversu ferskt liðið verður ef Móri spilar á sama liði. Svo er auðvitað ferðalag til Tyrklands í næstu viku.
Ég reikna allavega með smá róteringu.
Ps. Ef Zlatan byrjar ekki gegn Burnley þá er Fellaini 100% að fara byrja leikinn. Punktið þetta hjá ykkur.
Audunn says
Mjög mikilvægur sigur fyrir liðið og stuðningsmenn.
Mér finnst bara allt annað að sjá þessa miðju þegar Fellaini er ekki með.
Meiri fótbolti og meiri gæði, vona að Móri sjá það líka.
Nú er bara að halda áfram á sömu braut og þá kemur þetta.
Runólfur Trausti says
Ps2. Fyndið hvað spjallborðið logar aldrei eftir sigurleiki en gerir það ítrekað eftir tapleiki.
Halldór Marteins says
Haha, mjög góður punktur, Runólfur.
Annars er alveg sitt hvað sem hægt er að ræða eftir þennan leik. Það sem fór vel, auðvitað, það má alltaf ræða það að mínu mati. En líka stóra Mkhitaryan málið.
Omar says
Alltaf gott að vinna derby slag á móti city og þá sérstaklega eftir kaffæringuna á móti Chelsea á dögunum. Kannski ekki fallegasti sigur okkar á þeim bláu, en mögulega einn sá mikilvægasti andlega séð fyrir leikmenn, þjálfara og okkur stuðningsmenn.
Varðandi Mkhitaryan þá geta verið nokkrir þættir sem valda því að Móri kaus ekki að tefla honum fram í dag. Án þess að ég viti eitthvað um það, þá gæti það verið slakt leikform, mögulegir erfiðleikar eftir meiðslin og svo náttúrulega það að síðasti leikurinn sem kappinn spilaði var einmitt á móti City. Kannski áleit Móri að það væri hreinlega of mikil pressa fyrir leikmanninn. Hvað ef hann er ekki 100%, en samt settur í liðið og mögulega átt slæman dag? Pressan hefði fljótt ráðist á hann, stuðningsmenn annara liða og svo náttúrulega við… :P
Ég allavega trúi því að það hafi verið rökræn ástæða fyrir því að kallinn var ekki í hóp. Myndi í það minnsta ekki afskrifa hann strax. :)
Dogsdieinhotcars says
Frábær sigur. Ekki fullkominn leikur fagurfræðilega, en hjarta og barátta var 10/10. Frábær sigur. Fyrir lið sem er í strögglinu, þá var þessi vel móralskur. Herrera og Mata menn leiksins. Pogba og Rojo fá special shoutout.
Pogba og Zlatan sönnuðu gildi sitt á síðustu mínútum í þessum leik. Búnir á því en héldu áfram að hlaupa. Atvinnumenn. Frábær sigur.
Móri er að fá sér rautt í kvöld á hótelherberginu, við getum verið vissir um það.
einar__ says
Risastór sigur. Eitt vafasamasta miðvarðarpar sem ég man eftir í búningnum en Rojo og Blind mega eiga það – þeir voru bara helvíti solid í kvöld. Ég er næstum búinn að steingleyma sunnudeginum.
Mkhitaryan kemur inn í hópinn á móti Burnley og jarðar þessar sögusagnir. Sammála Ómari hér að ofan – held (lestist: VONA) að fólk sé að gera of mikið mál úr þessu og Armeninn komi sjóðheitur inn fyrir jólaösina. Mourinho henti honum beint inn á móti City síðast eftir meiðsli og það fór ekki vel – hann var ekki að fara gera sömu mistök aftur.
Bring on Burnely!
Kjartan says
Ég vil ekki hljóma eins og einhver píslarvottur en það er samt skondið að sjá fyrirsagnir hjá ýmsum miðlum. City hefur nú ekki unnið í 6 leikjum í röð en fyrirsagninar eru margar hverjar eitthvað á þessa leið: „punglaus Zlatan“ „Móri Kærður“ osfrv.
Mikki kemur inn í þetta á móti Burnley, skorar og leggur upp eins og honum einum er lagið. Ef Zlatan fær ekki að hvíla um helgina þá hringi ég í félagsmálayfirvöld í Manchester og kvarta yfir ítrekuðum brotum Móra á réttindum aldraðra.
Á móti Burnley:
———Martial
Depay–Mata–Mikki
——Pogba–Herr
———Schneid
Shaw-Blind-Small-Val
——–De Gea
Runar says
Ég veit að þetta kemur frá Sun, ég trúi ekki neinu sem kemur frá þeim og þar sem ég bý í Englandi og veit að „Only chav’s read it“ en djöfull væri ég til í þetta!
„Laurent Blanc vill ekki taka við Inter af Frank de Boer þar sem Frakkinn telur sig eiga möguleika á að taka við Manchester United af Jose Mourinho. (Sun)“
Runólfur Trausti says
@Kjartan
Það væri vissulega mjög gaman að vera 12 gegn Burnley.
Èg reikna með (vona) að Valencia, Pogba, Rashford og Zlatan fái hvíld gegn Burnley. Vonandi er Martial klár.
Young og Mkhitaryan væru mitt vængmanna teymi.
Kjartan says
lol
Martial
Depay/Mata–Mikki
——Pogba–Herr
———Schneid
Shaw-Blind-Small-Val
——–De Gea
Svona átti þetta að vera
KAS says
Pæliði samt í muninum á liðinu þegar Carrick kemur inn í liðið og fær að sitja einn á miðjunni og sömuleiðis að fá Mata inn. Allt annar bolti í gangi. Shoutout á Rojo og Herrera.
GGMU
Audunn says
Veit ekki hvort að Blanc sé maðurinn til að taka við Móra ef Móri yrði rekinn, hef efasemdir um það.
Svo langar mig aðeins til að benda mönnum á að fara nú ekki að draga sjálfa ykkur niður á einhvern Liverpool standard, þá er ég að tala um þennan always a victim standard.
Það á ekki að skipta okkur neinu máli hvort fjölmiðlar tali um einhverja krísu hjá City eða ekki, en eru þeir annars ekki í efsta sæti, 6 stigum á undan United og öðru sæti á eftir Barca í sínum meistaradeildar riðli.
Kjartan says
pps. Carrick í liðinu og vörnin spilar öll vel, tilviljun???
Rauðhaus says
Margt ágætt í þessum leik en þetta var samt alls engin sýning. Mjög mikilvægt sálrænt að ná þessum sigri, það er það sem mestu skiptir. Sammála því að það er ekki tilviljun að vörnin líti betur út með Carrick inná. Hann var þó heppinn að fá ekki dæmt á sig víti og sömuleiðis var Blind ljónheppinn að Ihenacho skoraði ekki úr frábæru færi alveg í byrjun leiks.
Vil sjá sömu þriggja manna miðju áfram. Búið að vera augljóst alltof lengi. Þá væri ég til í að gefa Zlatan frí um helgina. Láta þá Marcus upp á topp og Martial/Mhiki inn.