United spilar klukkan 14:00 á morgun sinn þriðja leik á sex dögum. Gengið í þessum leikjum hefur verið afskaplega sveiflukennt. Liðið vann góðan og sannfærandi 4-1 sigur á Fenerbahce þar sem liðið hefði getað og jafnvel átt að skora fleiri mörk. Næsti leikur þar á eftir var 4:0 lestarslysið gegn Chelsea á Stamford Bridge. Eðlilega voru margir þá stressaðir fyrir næsta leik sem var heimaleikur gegn City í EFL bikarnum en liðið átti fína kafla í þeim leik og vann sanngjarnan 1:0 sigur.
Fyrir þennan leik á morgun þá er United liðið ekki beint vængbrotið en hjarta varnarinnar er svolítið í lausu lofti. Eric Bailly sem óvænt hefur slegið í gegn á tímabilinu er frá í tvo mánuði sem er mikið reiðarslag fyrir liðið. Chris Smalling var meiddur fyrir Chelsea leikinn og hefði bara aldrei átt að spila þann leik en hann bar eins og margir muna eftir stóra ábyrgð á því tapi. Félagarnir Marcos Rojo og Daley Blind stigu upp og léku báðir miðvörð gegn City í deildarbikarnum á dögunum og stóðu sig frekar vel. Svo hefur mikið verið ritað um hinn bráðefnilega Axel Tuanzebe en hann hefur verið yfirburðarmaður í U-23 liðinu og margir að velta fyrir sér hvort hann muni fá sénsinn í fjarveru Eric Bailly og einnig vegna því hversu tæpur Smalling er fyrir leikinn á morgun.
Miðjan er líka eilífðarpúsluspil virðist vera. Paul Pogba, Ander Herrera og Michael Carrick samsetningin virkaði mjög heillandi gegn City og er sennilega skásti kosturinn ef að Mourinho vill nota þriggja manna miðju. Það er nefnilega gjörsamlega nauðsynlegt að sníða þessu miðju þannig að sem mest fáist út úr Pogba. Ander Herrera hefur verið í miklu uppáhaldi hjá okkur stuðningsfóki liðsins en virtist aldrei vera treyst af Louis van Gaal en er hreinlega orðinn lykilmaður hjá Mourinho og er með eina bestu tölfræðina í deildinni af miðjumönnum.
Fyrir þennan leik eru þeir Anthony Martial, Wayne Rooney og Chris Smalling tæpir. Eric Bailly og Phil Jones eru frá í einhvern tíma.
Burnley
Gestirnir frá Burnley ólíkt Manchester United eru að leika sinn þriðja leik á þrettán dögum. Liðið hefur byrjað um það bil eins og við var búist en hafa vakið athygli fyrir það að tveir af þremur sigurleikjum liðsins í deildinni voru gegn Liverpool og Everton frá Bítlaborginni. Liðið er í 14.sæti bara þremur stigum frá fallsæti og baráttan í neðri hlutanum álíka spennandi og toppbaráttan þessa stundina.
Fyrir okkur hérna á litla Íslandi er gaman að segja frá því að Jóhann Berg Guðmundsson hefur komið við sögu í öllum leikjum Burnley í deildinni hingað til og vonandi fáum við að sjá hann spila á morgun. Jafnvel er möguleiki að hann byrji leikinn að sökum smávægilegra meiðsla annarra leikmanna.
Burnley virðist vera ágætlega staddir þegar kemur að mögulegu liðsvali en á meiðslalistanum eru einungis fjórir leikmenn og er enn möguleiki á að þeir verði allir í hóp en þeir eru George Boyd, Ashley Barnes, Steven Defour og Stephen Ward.
Skildu eftir svar