STÓRU FRÉTTIRNAR hvað varðar yngri lið Manchester United eru þær að maðurinn sem breytir öllu í gull, Warren Joyce, er farinn til Wigan í Championship deildinni. Verður það stórt skarð að fylla en hefur hann unnið U23 ára deildina núna þrisvar á síðustu fjórum árum.
Hann er ekki stærsta nafnið í bransanum en hann er einn af þessum þjálfurum sem fer undir radarinn, gífurlega góður í sínu starfi sem milliliður fyrir unglingalið og aðallið. Þó svo að unglingalið United hafi kannski ekki verið að fjöldaframleiða leikmenn í aðalliðið undanfarin ár þá er félagið samt það félag á Englandi sem býr til flesta atvinnumenn í efstu eða næstu efstu deild. Daily Mail fjallaði meðal annars um málið á dögunum.
Að lokum varðandi Joyce, hans verður eflaust sárt saknað og í honum og Paul McGuinnes hefur United núna misst gífurlega reynslu og þekkingu úr yngri liða starfi sínu á innan við ári. Það er vonandi að menn standi jafn vel að þjálfara breytingum hjá U23 ára hópnum og virðist hafa verið gert á endanum með U18 hópinn.
Fyrir áhugasama þá voru yngri lið félagsins til umræðu í Podkasti sem hefur fjallað um United frá 2004. Er það mjög snemma í þættinum sem hægt er að hlusta á hér.
Hvað varðar lánsvaktina þá var Október frekar rólegur mánuður:
- Adnan Januzaj: Ennþá meiddur og hefur ekkert spilað í næstum 4 vikur núna.
- Andreas Pereira: Spilar alla leiki með Granada sem situr því miður á botninum á La Liga. Skipti um þjálfara nýverið. Spurning hvort það hafi áhrif á liðið.
- Cameron Borthwick-Jackson: Skipti einnig um þjálfara. Spurning hvort það hafi góð áhrif en hann var inn og út úr liðinu. Var í byrjunarliðinu í jafntefli gegn Blackburn Rovers nú á dögunum.
- James Wilson: Meiddist illa á hné í mánuðnum og er kominn aftur til United eftir misheppnaða lánsdvöl hjá Derby County. Tímabilið gæti verið búið hjá drengnum.
- Guillermo Varela: Ennþá meiddur en virðist ekki hafa verið kallaður til baka úr láni.
- Joel Castro Pereira: Markvörðuinn ungi er á láni hjá Belenenses í heimalandi sínu Portúgal. Spilaði hann meðal annars gegn Benfica um daginn. Hvort hann sé að spila reglulega hef ég bara ekki minnstu hugmynd um.
U23 ára liðið
Þrátt fyrir að U23 ára liðið sé upp og ofan á þessu tímabili virðist sem Alex Tuenzebe standi alltaf fyrir sínu. Vert er að nefna að hann orðinn fyrirliði liðsins. Hvort hann fái sénsinn með aðalliðinu í vetur verður að koma í ljós en það getur varla verið langt í það.
Miðjumaðurinn Sean Goss sem hefur verið lengi frá vegna meiðsla er kominn til baka og mun eflaust styrkja miðjuna hjá U23 ára liðinu það sem af lifir vetri. Goss var í viðtali við vefsíðu félagsins en hann hefur verið að glíma við meiðsli í baki síðan í desember.
Fór liðið taplaust í gegnum þá þrjá leiki sem það hefur spilað síðan síðasti pistill var ritaður. Gerði liðið 1-1 jafntefli við Liverpool og Tottenham en vann Arsenal 1-0.
https://twitter.com/MattP260599/status/790616072646959104
Það eru þó ekki allir á því að Tuenzebe hafi stolið senunni gegn Liverpool en Matty Willock var víst allt í öllu á miðsvæðinu í þeim leik. Jafntefli voru ekki svo slæm úrslit í leiknum þar sem Danny Ings og Mamadou Sakho voru báðir í byrjunarliði Liverpool. Sömuleiðis voru nöfn á borð við Tiago Ilori, Connor Randall, Kevin Stewart og Marko Grujic en þeir hafa allir verið viðloðandi aðallið Liverpool í vetur.
U18 ára liðið
Hefur United fengið leikmanninn Millen Baars en hann er 16 ára gamall vængmaður sem var hjá Ajax. Mun hann eflaust fá tækifæri með U18 ára liðinu í vetur.
Liðið lenti í basli gegn Sunderland eftir að herfileg mistök markvarðarins Alex Fojticek gáfu Sunderland mark á silfurfati. Eftir að hafa skotið í slánna þá virtist sem liðið færi stigalaust heim. Eins og United er þó þekkt fyrir þá náðu þeir jafntefli með nánast síðustu spyrnu leiksins. Var þar á ferðinni Jake Barrett. Klippur úr leiknum er svo að finna á heimasíðu félagsins.
Leikurinn gegn Sunderland sat ekki lengi í liðinu en þeir mættu Wolves 15. október. Var boðið upp á sýningu þar sem staðan var 5-0 eftir 32 mínútur. Eftir flugeldasýninguna í byrjun róaðist leikurinn aðeins og lokatölur voru 5-2. Var þetta í fjórða skipti sem liðið skorar fimm mörk í einum og sama leiknum það sem af er vetri.
Liðið spilaði ekki fleiri leiki í október en á leik í kvöld gegn Blackburn Rovers.
Skildu eftir svar