„It was 11 men against 11 children,“ voru orð sem Patrice nokkur Evra lét falla eftir að Manchester United valtaði yfir Arsenal í Meistaradeildinni árið 2009. Á þessum tíma var rígurinn milli Manchester United og Arsenal gríðarlegur.
Í raun allt frá komu Arsene Wenger í ensku úrvalsdeildina þá mátti búast við látum þegar liðin mættust. Síðustu ár Sir Alex Ferguson með United liðið voru leikirnir þó aðeins öðruvísi en United var í raun alltaf með yfirhöndina. Leikurinn á morgun verður eflaust allt, allt öðruvísi.
Nú þegar leiðinlegasta landsleikjahléi síðari ára er að ljúka þá fær José Mourinho annan af erkióvinum í heimsókn. Áður en við ræðum söguna, mótherja og taktík morgundagsins þá skulum við aðeins skoða hvað gerðist í landsleikjahléinu.
- Wayne Rooney var í fyrirliði Englands í 3-0 sigri á Skotlandi. Rooney ákvað að fagna með því að fara á blindafyllerí á hótelbarnum og var síðan ekki með í æfingaleik gegn Spáni sökum meiðsla eftir að hafa runnið á orkudrykk.
- Jesse Lingard og Marcus Rashford voru ónótaðir varamenn hjá Englandi í leiknum gegn Skotlandi en komu báðir við sögu í 2-2 jafnteflinu gegn Spáni.
- David De Gea stóð að venju í rammanum þegar Spánn vann Makedóníu 4-0. Juan Mata byrjaði í æfingaleiknum gegn Englandi og Ander Herrera kom inná í sínum fyrsta landsleik.
- Daley Blind og Memphis spiluðu báðir í 1-1 jafntefli Hollands gegn Belgíu. Þeir félagar komu svo heldur betur við sögu í 3-1 sigri Hollands á Lúxemborg. Blind lagði upp markið sem kom Hollandi í 2-1 en það var umræddur Memphis sem skoraði það mark ásamt því að hann bætti við þriðja marki Hollendinga beint úr aukaspyrnu í lokin.
- Paul Pogba spilaði allan leikinn og skoraði fyrra mark Frakka í 2-1 sigri á Svíþjóð. Hann spilaði svo fyrri hálfleik í 0-0 jafntefli gegn Fílabeinsströndinni.
- Henrikh Mkhitaryan var fyrirliði í 3-2 sigri Armena á Svartfjallalandi en Armenía lenti 2-0 undir í leiknum.
- Matteo Darmian spilaði allan leikinn í 0-0 jafntefli gegn Þýskalandi.
- Sergio Romero fékk á sig þrjú mörg þegar Argentína steinlá fyrir Brasilíu en hélt hreinu þegar Argentína vann Kólumbíu 3-0.
Leikurinn
Þetta er ekki flókið. United verður að vinna ef þeir ætla að eiga möguleika á að enda í efstu fjórum sætunum. Það er nóg eftir af deildinni en liðið þarf að fara koma sér á gott skrið og sigur á sterku Arsenal liði gæti verið byrjunin á nauðsynlegri sigurhrinu.
Fyrir leikinn situr Arsenal í fjórða sæti með 24 stig á meðan United er í sjötta sæti með 18 stig. Að því sögðu þá hefur José Mourinho aðeins tapað einum leik gegn Arsene Wenger í 14 viðureignum þeirra á milli. Var sá leikur í Góðgerðarskyldinum. Mourinho hefur unnið sjö leiki og sex sinnum hafa liðin gert jafntefli.
Eins og áður sagði þá hefur vantað neista í viðureignir United og Arsenal undanfarin ár en með tilkomu Mourinho til United þá má svo sannarlega búast við látum.
United verður án síns helsta markaskorara á morgun en Zlatan Ibrahimovic er í banni eftir að hafa fengið gult spjald í sigrinum gegn Swansea City í síðustu umferð.
Samkvæmt Physio Room eru sex leikmenn hjá hvoru liði á meiðslalistnaum.
Arsenal mun eflaust sakna þeirra Santi Cazorla og Hector Bellerin á morgun en ásamt þeim tveimur eru Lucas Perez, Chuba Akpom, Per Mertesacker og auðvitað Danny Welbeck einnig meiddir. Alexis Sanchez meiddist smávægilega í landsleikjahléinu en var samt sem áður mættur aftur í byrjunarlið Chile gegn Úrúgvæ þar sem hann skoraði tvö mörk.
Hjá okkar mönnum var Wayne Rooney á meiðslalistanum eftir að hafa meiðst á mjög undarlegan hátt, en hann ætti þó náð leiknum. Að sama skapi gæti Antonio Valencia náð leiknum en það er þó ólíklegt. Hafsentaparið Chris Smalling og Eric Bailly eru báðir meiddir ásamt þeim Marouane Fellaini og James Wilson.
Arsenal
Eru eins og áður sagði í fjórða sæti deildarinnar. Þeir hafa unnið síðustu fjóra útileiki sína gegn Watford, Hull, Burnley og Sunderland. Í þessum fjórum leikjum hafa þeir skorað 12 mörk, hvort það þýði að við sjáum sókndjarft lið mæta til leiks á morgun verður að koma í ljós.
Einnig er vert að nefna að Arsenal hafa ekki tapað leik í deildinni síðan þeir töpuðu í fyrstu umferð fyrir Liverpool í leik sem endaði 4-3. Að sama skapi þá gerðu þeir 1-1 jafntefli gegn Tottenham í síðustu umferð á Emirates ásamt því að það er ekki svo langt síðan þeir gerðu jafntefli við Middlesbrough.
Þó þeir hafi ekki verið að tapa leikjum þá hafa þeir heldur ekki verið að vinna það marga undanfarið, hvort það hafi áhrifá það hvernig Mourinho nálgist leikinn veit ég ekki en þetta verður áhugaverð taktísk barátta á morgun.
Eftir að hafa flengt United 3-0 á Emirates í fyrra þá töpuðu Arsenal 3-2 á Old Trafford. Fólk man kannski aðallega eftir leiknum þar sem Marcus Rashford var að spila sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni, og þvílíkur leikur sem það var.
https://www.youtube.com/watch?v=CVxpXJimdOs
Svo er ekki úr vegi að minnast á þessa stórkostlegu leiki liðanna á undanförnum árum
https://www.youtube.com/watch?v=nK8FevHoTGQ
Manchester United
Eins og áður sagði þá vann United sterkan 3-1 útisigur á Swansea í Wales áður en landsleikjahléið byrjaði. Því miður fékk Zlatan gult spjald í leiknum og verður ekki með á morgun.
Með Zlatan í banni og Rooney tæpan þá hlýtur Rashford hreinlega að byrja leikinn sem fremsti maður. Þó ég hafi mínar efasemdir um hversu vel Rashford muni ganga að eiga við Mustafi og Koscielny þá er nokkuð ljóst að hann er töluvert hraðari en þeir báðir. Vonandi mun sá hraði nýtast á morgun.
Á blaðamannafundinum í dag sagðist Mourinho ekki ætla að gráta þá leikmenn sem væru ekki leikfærir heldur væri þetta tækifæri fyrir aðra leikmenn liðsins að sýna hvað þeir geta. Hann tók einnig fram að Luke Shaw væri leikfær en vildi þó ekki gefa upp hvort hann myndi byrja leikinn.
Varðandi Rooney og drykkjuna eftir leikinn þá gaf Mourinho í skyn að það sem gerðist þegar leikmenn væru með landsliðinu kæmi félagsliðinu nánast ekki við svo lengi sem menn eru leikfærir. Því hefur hann engan áhuga á að ræða drykkju Rooney né refsa honum einn eða annan hátt fyrir hana.
Mourinho nýtti blaðamannafundinn sömuleiðis í létt skot á fjölmiðla og talaði um alla þá virðingu sem Arsene Wenger fær frá blaðamönnum. Ekki að hún sé óverðskulduð en hann skaut samt á hversu langt það væri síðan Wenger vann deildina miðað við að Mourinho vann hana fyrir aðeins 18 mánuðum síðan. Svo bætti hann við að hann hefði verið meistari með Porto, Chelsea, Inter og Real Madrid og hann ætlaði svo sannarlega að bæta United á þann lista.
Ef við snúum okkur aftur að liðinu á morgun þá verð ég að viðurkenna að ef Anthonty Martial og Rashford eru einu leikfæru framherjar liðsins á morgun þá vill ég hafa annan þeirra á bekknum. Eflaust óvinsæl skoðun en að hafa ekki framherja á bekknum til að breyta gangi leiksins eða setja inná ef hinn er ekki að finna sig er eitthvað sem ég er ekki hrifinn af. Mig grunar þó að Rashford verði fremstur og Martial á vinstri vængnum.
Það er gömul klisja að mörk breyti leikjum en það er einnig satt að mörk breyta leikmönnum og ég get lofað ykkur því að sjálfstraustið hjá Memphis hefur hækkað ágætlega eftir innkomu hans með Hollandi í vikunni. Vissulega var þetta Lúxemborg en samt sem áður, það væri fásinna að hafa hann ekki á bekknum. Tala nú ekki um fyrst Bellerin er ekki með.
Hvað varðar byrjunarlið okkar manna á morgun þá er þar um ágætis höfuðverk að ræða:
- Eftir leikinn gegn Swansea má reikna með að Phil Jones haldi sæti sínu í hafsent. Stóra spurningin er svo hvort Marcos Rojo haldi sæti sínu í hafsent og hvort Daley Blind eða Luke Shaw verði í vinstri bakverði.
- Hvað varðar miðjuna þá hefur verið kallað eftir því að Michael Carrick byrji leikinn. Ég get ekki hætt að hugsa um útileikinn á Emirates í fyrra þar sem Carrick og Bastian Schweinsteiger voru hlaupandi í hringi eins og höfuðlausir kjúklingar á miðjunni. Það var þó vonandi taktískt klúður frekar en eitthvað annað.
- Þar sem Fellaini er á meiðslalistanum þá reikna ég með að Carrick komi inn í þetta akkeris hlutverk sem gefur Paul Labile Pogba tækifæri á að sýna okkur hvað hann getur ásamt því að Ander Herrera fær aðeins „opnara“ hlutverk en í undanförnum leikjum.
- Hvað framlínuna varðar þá er hægri kanturinn spurningamerki en mér þykir líklegast að Juan Mata fái að kljást við samlanda sinn Nacho Monreal.
Líklegt byrjunarlið er því einhvern veginn svona:
Leikurinn hefst á slaginu 12:30.
Dómari er Andre Marriner.
Endum þetta svo á mínu uppáhalds marki úr viðureignum þessara liða á þessari öld:
Skildu eftir svar