Á morgun mætir Liverpool á Old Trafford í einhvern æsilegasta slag við höfum séð í þó nokkur á milli þessara liða. Það þarf sjaldnast aukið krydd í þessa leiki en nú er svo sannarlega nóg af því. Liverpool kemur í heimsókn sem liðið í öðru sæti, að vísu fimm stigum á eftir Chelsea en eftir sprengifréttir gærdagsins um að allt hafi farið í hund og kött milli Antonio Conte og Diego Costa hjá Chelsea vegna þess að sá síðarnefndi sé hrifinn af tilhugsuninni um 600 þúsund punda vikulaun í Kína og hafi verið settur út úr liðinu þá þarf enginn að horfa á þau fimm stig og halda að þau séu einhver sérstök hindrun.
Á sama tíma er United fimm stigum á eftir Liverpool og hefur ekki haggast úr sjötta sætinu tíu leiki í röð. En það þarf alltaf að líta vel á hlutina. Af þessum tíu leikjum hefur United unnið sjö og gert þrjú jafntefli, og unnið síðustu sex. United hefur dregið þrjú stig á Liverpool á þessum tíma, en reyndar misst þrjú á Chelsea sem hafði, þangað til þeir töpuðu fyrir Tottenham um þarsíðustu helgi, unnið níu í röð. Í stað þess að vera sjö stigum frá fjórða sætinu eftir 10 leiki (og það var reyndar Chelsea) er nú munurinn þrjú stig og það meira að segja á þriðja sætið líka. United hefur því með þessari sigurhrinu lagt vonbrigði haustsins að baki og komið sér í baráttuna um Wenger bikarinn svo um munar.
En það verður ekkert litið að eina virkilega sterka liðið sem United hefur unnið er Tottenham Hotspur. Á morgun er það alvöru þolraun sem bíður. Jürgen Klopp er víst að gera alveg frábæra hluti með Liverpool og hefur náð tveimur færri stigum í fyrstu fimmtíu leikjum sínum með þeim en Van Gaal með United. En á bakvið hlátur við þeirri staðreynd bíður jú hið raunverulega: Það er að mestu eðlilega hægri byrjun hjá honum í fyrra að kenna. Liverpool liðið í vetur hefur verið skemmtilegt á að horfa og ef litið er hjá tveimur hlægilegum töpum gegn Burnley og Bournemouth, unnið frækna sigra. Þeir eru ekki í öðru sætinu af neinni tilviljun.
En það er vissulega ekki á besta tíma fyrir Liverpool sem þeir koma á Old Trafford. Undanfarið hafa meiðsli verið að hrjá hópinn og það er ekki sterkasti hópurinn af þessum toppliðum. En Philippe Coutinho lék hálftíma móti Southampton í deildarbikarnum í vikunni og ætti því að vera heill á morgun, og fréttir herma að Jordan Henderson og Joël Matip séu líka orðnir góðir, en þá er spurningin hvort þeim verði hent beint í djúpu laugina.
Ef eitthvað er að marka þennan Southampton leik þeirra má samt fastlega gera ráð fyrir því þar sem Southampton var óheppið að vinna bara 1-0 og gat Liverpool þakkað markverðinum Karius fyrir það. Leikaðferð Klopp útheimtir mikla vinnu af leikmönnum og þeir voru hreinlega þreyttir í þessum leik. Flestir af byrjunarliðinu ættu að byrja á morgun og það má auðvitað vona að þessi þreyta geri líka vart við sig þá, en það er óþarfi að gera þær vonir of miklar
Byrjunarlið Liverpool gæti því litið svona út
Þeir Halldór og Kristján Atli frá kop.is léku sér að því að setja saman lið úr leikmönnum United og Liverpool. Báðir notuðu Liverpool bakverðina og má búast við þeim sterkum á morgun. Miðverðir eru meira spurningamerki og ef Matip er ekki með ætti United vissulega að hugsa sér gott til glóðarinnar. Á miðjunni er Henderson nauðsynlegur til að stjórna spilinu og víst er að til að standa undir því hrósi sem heyrst hefur frá stuðningsmönnum þá er nauðsynlegt fyrir hann að sýna hvað hann getur móti Pogba. Framlína Liverpool er sterk en þó er víst að þeir sakna Sadio Mané sem er í Afríkukeppni landsliða eins og Eric okkar Bailly. Lallana hefur þó verið feykigóður í vetur og ef Coutinho ákveður að vera í leiknum á morgun þá er þar einn sá skæðasti í deildinni.
https://twitter.com/Getraunir/status/819556190493536257
Sem sé, firnasterkt Liverpool lið sem mætir á Old Trafford, en þó með hugsanlegum brotalömum.
Lið United hefur upp á síðkastið valið sig sjálft að mestu leyti. Eina undantekningin er vinstri bakvörður, en þó er Matteo Darmian búinn að sannfæra José um að hann sé maðurinn þar, eins og stendur a.m.k.
Zlatan var veikur í vikunni en Mourinho býst við honum í leikinn og Zlatan segist frískur. Marcos Rojo hefur verið meiddur en Mourinho býst líka við að hann spili. Allt annað ætti að vera niðurnjörvað.
Í fyrri leik liðanna í vetur mætti José á Anfield með líkamlega sterkt lið, Fellaini á miðjunni og lagði allt kapp á að verjast. Það var enda í miðjum slæmum kafla hjá United þegar sjálfstraustið var ekki mikið og liðið hafði ekki verið að spila vel. Þessi leikaðferð tókst fullkomlega og United fór með 0-0 jafntefli.
Á morgun hlýtur annað að verða uppi á teningnum. Það verður aldrei blússandi sóknarbolti hjá liði José Mourinho móti öðru sterku liði en það er óhætt að vænta þess að rútan verði ekki dregin fram nema ýtrasta nauðsyn krefji. Liðið sem stillt verður upp er lið sem getur sótt af krafti og mun gera það. Upp á síðkastið hafa blaðamenn verið að skoða það að deildin í ár gæti hugsanlega ráðist af því hvaða lið stendur sig best í innbyrðisviðureignum toppliðanna. Það er eitthvað alveg nýtt því í áraraðir hefur sigurliðið yfirleitt verið það sem er duglegast að sækja öll stigin gegn minni liðum og leyft sér að hrasa smá í toppleikjum. En nú sem aldrei fyrr eru öll topp sex liðin að hirða nær öll stig gegn þeim minni. Það er einungis þessum tapleikjum Liverpool gegn Burnley og Bournemouth að kenna að þeir eru ekki efstir, enda er Liverpool efst í innbyrðisdeild þessara sex liða. Þeir hafa þó farið á flesta erfiðustu útivellina utan Old Trafford, unnið Arsenal, Chelsea og Everton úti og gert jafntefli við Spurs. Það er ekkert til að hlæja að.
En nóg um upptalningu á að það sé fyllsta ástæða til að varast Liverpool. Þeir hafa ríkari ástæður til að óttast United.
Einhver hafa haft áhyggjur af því að Pogba, sem lagði nýjar hárgreiðslur á hilluna í nokkra mánuði, sé aðeins að missa sjónar á leiknum með nýja emojinu sem Twitter kynnti í gær og tilheyrandi vídeói af nýrri hárgreiðslu en við vitum að hann átti frí á miðvikudaginn eins og aðrir leikmenn og þá á frídögum er fátt betra að gera en iðka tómstundir sínar
Stemmingin í hópnum sést þegar Pogba kemur inn í viðtal Thierry Henry við Zlatan. Ein af ástæðunum fyrir að það er frábært að hafa Zlatan hjá United er að það er engin hætta á því meðan hann er þar að hann leyfi Pogba að halda að Pogba sé mestur og bestur. Zlatan veit alveg hver er mesta stjarnan hjá United. Það hefur án efa hjálpað Pogba
https://www.youtube.com/watch?v=ij14VPZIXRk
Sem sé, við erum með tvo heimsklassaleikmenn sem undanfarið hafa verið sjóðheitir. Við erum með Henrikh Mkhitaryan sem var ein af ástæðunum fyrir því að United hrökk í gang svo um munaði þannig að síðustu níu leikir hafa unnist. Við erum með miðvarðapar sem hefur komið okkur svo rækilega á óvart með frábærum leikjum. Og við erum með besta markmann í heimi.
Á morgun ætlar United sér að blanda sér í toppbaráttuna. Þetta verður æsilegt, æðislegt og óbærilega spennandi. Eins og United – Liverpool á að vera.
einar__ says
Frábær upphitun. Þetta verður óbærileg spenna. Þessir leikir eru alltaf 50/50 burt sé frá forminu undanfarið.. þessar bikarhremmingar hjá Liverpool undafarið mun ekki skipta neinu máli þegar leikurinn hefst á sunnudag.
Munsetja pening á jafntefli þó hjartað segi að þetta verði háspennusigur, 2-1.
Bjarki says
Ég er nokkuð viss á því að ef Henderson,Coutinho,Mané og Matip væru 100% fyrir þennan leik þá mundum við tapa þessum leik. Þessir leikmenn eru búnir að vera frábærir. Þegar Liverpool eru með fullskipað lið þá eru þeir búnir að slátra öllum leikjunum sínum.Þetta eru 4.lykilmenn sem vantar hjá
þeim. Þótt Bailey sé ekki þá söknum við hann ekki neitt, Sérstaklega ekki jafn mikið og Liverpool sakna Matip. Hendo og Coutinho spila kannski 30 mín eða byrja leikinn tæpir, á meðan að besti varnarmaðurinn þeirra Matip og besti kantmaðurinn Mané verður ekki með.
Núna vil eg ekki sjá Liverpool stjórna leiknum frá A til Ö eins og í síðasta leik á móti þeim. Sérstaklega ekki núna þar sem þeir eru langt frá því að vera með sitt besta lið á móti okkur.
Ég spái 1-0 fyrir okkur eða 1-2 tap því miður