Í október síðastliðnum birtum við hér á Rauðu djöflunum viðtal við fyrirliða A-landsliða Íslands í knattspyrnu. Aron Einar og Margrét Lára svöruðu þar nokkrum spurningum sem tengdust áhuga þeirra á besta knattspyrnufélagi heims, Manchester United. Nú er komið að næsta viðtali.
Í þetta skiptið færðum við okkur yfir í rokkheima. Rokk hefur oft verið tengt við djöfulinn og því ekki undarlegt að sá sem er góður í rokkinu geti fundið sterka tengingu við Rauðu djöflana frá Manchester.
Einn af okkar bestu rokkurum er gítarleikarinn Þráinn Árni Baldvinsson. Hann er meðlimur í Skálmöld, einni vinsælustu metalsveit Íslands sem hefur einnig gert það gott erlendis. Hann er líka kennari og eldheitur stuðningsmaður Manchester United. Við sendum honum nokkrar spurningar um United og rokkið.
Hvort kom á undan hjá þér, fótboltaáhuginn eða tónlistin?
Ætli tónlistin hafi ekki komið á undan en fótboltaáhuginn kom snemma, mjög snemma. Mamma keypti stundum fyrir mig Shoot! og Match en það eru tímarit sem vit var í. Ef það var mynd í blaðinu af United leikmanni fór myndin upp á vegg.
Hvenær kviknaði fyrst áhuginn á Manchester United og hvað hafði mest áhrif á að þú valdir það félag?
Ætli ég hafi ekki verið 4-5 ára þegar ég fór að hafa áhuga á fótbolta. Amma mín hafði ansi mikil áhrif, hún var alltaf að tala um George Best og hún gaf mér silfur armband með Manchester United merkinu þegar ég var smá patti, það var aldrei spurning um hvaða lið væri best í mínum huga.
Djöfull sem það var samt stundum erfitt að vera Manchester United aðdáandi á þessum, tíma upp úr 1980 en fyrir utan bikarsigra ´83 og ´85 vorum við alltaf „næstum því“ meistarar, djöfullegt að horfa upp á Liverpool vinna aftur og aftur og Everton þess á milli. Frændfólk mitt sem gekk með myrku öflunum stríddi mér miskunnarlaust og þetta var erfitt tímabil. Þess vegna er búið að vera svo svakalega gaman að geta borgað til baka allt háðið sem maður fékk lóðbeint í grímuna frá þessum ruglustömpum og í vor, þegar United endar tímabilið fyrir ofan púllarana, þá verður gaman að endurgjalda glensið! Þetta snýst alltaf um að geta gert smá grin og hafa gaman, ekki satt?
Hvaða leikmaður United er mesti rokkarinn og af hverju?
Mér skilst að David De Gea hlusti mikið á þungarokk, hann er líka solid í markinu, sultuslakur og líður ekki neitt kjaftæði. Ég er líka handviss um að Vidic er metal-maður, það var ekki oft sem hann panikkaði í vörninni. Þegar ég hlusta á þungarokk og aðra kraftmikla tónlist þá líður öll streita úr mér, ég mæli þess vegna með að fólk hlusti á þungarokk og finni slökunina sem rokkinu fylgir. Við sjáum þannig hvaða leikmenn eru þungarokkarar á vellinum, panikkdrengirnir hlusta á eitthvað allt annað en þungarokk, það er á hreinu.
Dreymdi þig einhvern tímann um að spila á Old Trafford, fótbolta og/eða á tónleikum?
Ég hef aldrei spilað fótbolta nema mér til gamans og aldrei stefnt á atvinnumennsku þannig að nei, ég hef aldrei hugsað þetta þannig. Skálmöld á Old Trafford hljómar samt gríðarvel!
Ef þú ættir að henda í þína útgáfu af einu stuðningsmannalagi Manchester United, hvaða lag yrði fyrir valinu og hverja fengirðu með þér í verkefnið?
Ég myndi helst vilja semja nýtt lag en ef það má ekki þá er það lagið Come On You Reds. Ef Steve Harris (bassaleikari Iron Maiden) væri ekki svona mikill West Ham maður fengi ég Iron Maiden til að spila þetta með mér.
Fyrir utan þetta klassíska (Barcelona ‘99 og Moskva ‘08), er einhver sérstakur leikur eða atvik sem stendur upp úr í Manchester United minningabankanum þínum?
Ég gleymi aldrei úrslitaleik FA bikarsins 1985, rosalegur leikur. Það eru líka nokkrir Manchester United vs. Liverpool leikir sem standa upp úr, t.d. bikarleikur frá 1999 en ég er líka einn af þeim sem hugsa stanslaust um leikina sem áttu að vinnast og hugsa aðeins of mikið „hvað ef…“.
Einhverra hluta vegna gleymi ég heldur aldrei þegar Jesper Olsen skrifaði undir hjá United, það var sýnt frá þessu í fréttunum á sínum tíma og mikil spenna fyrir komandi tímabil. Þetta átti að verða okkar ár!
Hvernig líst þér á Mourinho, stöðuna á liðinu þessa dagana og framtíðarhorfurnar?
Ég er mjög sáttur við Mourinho, hef tröllatrú á honum og hans hugmyndafræði. Hann er líka orðinn svo þroskaður, sultuslakur og yfirvegaður. Við erum að stefna í annað Ferguson-tímabil, 20 ár af velgengni framundan!
Hefurðu farið á leik með United og á að skella sér á völlinn á þessu tímabili?
Ég hef aldrei séð leik á Old Trafford en ég nýtti tækifærið þegar ég spilaði síðast í Manchester borg og fór að skoða Old Trafford. Skældi eins og barn þar sem ég gekk um svæðið og knúsaði steypustólpa og bekki. Ég fer á leik á þessu tímabili, ekki spurning.
Hvaða leikmenn eru í mestu uppáhaldi hjá þér?
Úff! Stapleton, Olsen, Albiston, Whiteside, Hogg… þetta verður erfitt en Robson verður líklegast fyrir valinu ásamt Bailey markverði, já og Strachan, og Blackmore, McClair, Hughes, Sharpe. Hvað má ég nefna marga segirðu?
Í dag er Mata að heilla mig gríðarlega og gaman að sjá áhrifin sem Zlatan hefur á liðið. Mkhitaryan stefnir svo í að verða næsta undrið á Old Trafford.
Ef þú yrðir settur í það hlutverk að vera DJ á Old Trafford á leikdegi, hvaða 5 lög myndirðu velja sem síðustu lög fyrir leik?
Frábær spurning!
Ég hendi að sjálfsögðu í eitt Motörhead lag af því að allt er betra með Motörhead, Ace of Spades elska allir en Born to Raise Hell er líka helvíti gott.
Svo neglum við í AC/DC, It´s a Long Way to the Top (If You Wanna Rock ‘n’ Roll).
Það má svo aldrei ekki spila Kiss, Rock and Roll All Nite kemur öllum í gott stuð.
Svo spilum við Iron Maiden lag, The Trooper verður fyrir valinu af því að við erum að fara í stríð.
Endum svo á Europe, The Final Countdown, það verður allt vitlaust á vellinum og ekkert lið vinnur Manchester United á Old Trafford eftir svona upphitun.
Es. Ef við erum að spila á móti Liverpool þá skiptum við kannski Europe út fyrir Slayer og spilum War Ensemble af því að það er gaman að hræra í púllurunum fyrir leik.
Við þökkum Þráni Árna kærlega fyrir. Þeir sem vilja hlusta á lagalistann sem Þráinn valdi fyrir Old Trafford geta gert það í Spotify lagalistanum hér að ofan.
Bubbi Rokk og Dúndur says
🤘🏻🤘🏻🤘🏻
Bjarni says
Góður pistill, leikmenn þyrftu að hlusta á Skálmöld fyrir leiki sérstaklega Kvaðningu, Hefnd í seinni leiknum ef töpuð stig voru í fyrri leiknum og Árás þegar leikið er til úrslita og til að láta kné fylgja kviði. Þá verðum við í góðum málum :)
Karl Garðars says
Það gat ekki annað verið en að þessi meistari væri United maður!! #einfaldlegabetrafólk