Manchester United er aðeins 90 mínútum[footnote]nema Hull taki upp á því að vinna seinni leikinn 2-0, þá fáum við fleiri mínútur[/footnote] frá því að komast í fyrsta úrslitaleikinn sem er í boði á árinu, frá því að ná í miða á Wembley til að keppa um deildarbikarinn. Liðið hefur ekki komist í úrslitaleikinn í þessari keppni síðan 2010 þegar það vann bikarinn með sigri á Aston Villa. Af þeim 18 sem skipuðu leikmannahóp Manchester United þann dag eru aðeins þrír leikmenn enn hjá félaginu (Rooney, Carrick og Valencia).
Þann 10. janúar mættust Manchester United og Hull á Old Trafford í fyrri undanúrslitaleiknum. Það var ekki auðveldur leikur en okkar menn náðu að lokum að landa 2-0 sigri, þökk sé frábæru skallamarki hins vanmetna Fellaini. Það gerði verkefnið í þessum seinni leik mun auðveldara þótt það borgi sig vissulega ekki að vanmeta Hull eða verkefnið framundan.
Það kemur í ljós í kvöld hvaða lið fer í úrslitaleikinn úr hinni undanúrslitaviðureigninni þegar Liverpool tekur á móti Southampton á Anfield. Manchester United spilar svo annað kvöld, klukkan 19:45.
Hull City
Hull jafnaði sig vel eftir tapið í fyrri leiknum gegn United og tók góðan deildarsigur gegn Bournemouth í næsta leik á eftir, 3-1 á heimavelli. Þeir lentu undir í þeim leik en sýndu karakter og komu til baka. Abel Hernández skoraði 2 mörk og eitt var sjálfsmark.
Nýi stjóri Hull, Marco Silva, hefur verið að nýta janúargluggann í að styrkja liðið. Hann keypti brasilíska miðjumanninn Evandro Goebel frá Porto og fékk að láni framherjann Oumar Niasse frá Everton, varnarmanninn Omar Elabdellaoui frá Olympiacos og nú síðast kantmanninn Lazar Markovic frá Liverpool.
Það er ekki víst að þessi liðsauki dugi langt. Hull seldi Jake Livermore til WBA fyrr í janúar og hefur auk þess verið í endalausum meiðslavandræðum. Nú síðast meiddist Ryan Mason mjög illa í leik gegn Chelsea eftir harkalegt samstuð. Hann er sem betur fer á batavegi en hætt við að hann missi af ansi mörgum leikjum. Í sama leik fór Curtis Davies líka af velli meiddur og er hann tæpur fyrir þennan leik.
Tveir leikmanna Hull eru í Afríkukeppninni. Sjö leikmenn eru meiddir og 3 aðrir eru tæpir fyrir leikinn. Það munar um minna, sérstaklega þar sem hópur Hull var heldur þunnskipaður til að byrja með.
Það hefur eflaust ekki haft góð sálfræðileg áhrif á hina leikmennina í liðnu að fylgjast með Ryan Mason meiðast eins og hann gerði. Það þurfti skjót viðbrögð fagaðila inni á vellinum til að veita honum viðeigandi meðferð og hann var borinn af velli með súrefnisgrímu. Það fór ekkert á milli mála að þetta var grafalvarlegt. Það hefur örugglega verið mikill léttir fyrir hópinn að komast að því að hann væri á batavegi. Við svona atvik geta lið misst dampinn en þetta getur líka virkað hvetjandi, að liðið vilji ná árangri og spila extra vel fyrir góðan félaga sem getur ekki sjálfur verið inni á vellinum.
Það er erfitt að segja til um mögulegt byrjunarlið Hull í þessum leik. Bæði er óvíst hverjir verða búnir að hrista af sér meiðsli og hverjir ekki en svo er líka alls óvíst hversu mikla áherslu Marco Silva vill leggja á þessa keppni, sérstaklega í ljósi þess hver staðan er eftir fyrri leikinn. En ég spái þessu einhvern veginn svona:
Það er vert að minnast sérstaklega á varnarmanninn Harry Maguire. Hann er ungur leikmaður, mikill turn og gríðarlegur skallamaður. Lætur finna vel fyrir sér. Þrátt fyrir að Hull hafi tapað síðasta leik 2-0 þá valdi tölfræðisíðan WhoScored hann mann leiksins með 9,6 í einkunn. Það er fáheyrt að leikmenn nái slíkum einkunnum án þess að koma beint að eins og 2 mörkum auk þess að standa sig vel á öðrum sviðum. Einkunn Maguire útskýrist til dæmis af því að hann fór upp í 10 skallaeinvígi og vann 9 þeirra, vann allar 8 tæklingar sínar, komst 7 sinnum inn í sendingar andstæðinga, hreinsaði 7 bolta frá marki Hull, varði 3 fyrirgjafir, hafði betur í 5 af 6 skiptum sem hann reyndi að taka menn á og átti auk þess flestar marktilraunir síns liðs (4). Sannkallaður stórleikur hjá manninum.
Manchester United
Ólíkt Hull þá hefur Manchester United ekkert styrkt sig í janúarglugganum. Enda ekki að glíma við sömu meiðslavandræðin. Raunar er enginn leikmaður liðsins meiddur[footnote]James Wilson er ekki í hópnum og því telja hans meiðsli ekki í þessu[/footnote] og meiðslalistinn búinn að vera tómur í góðan tíma. Eini leikmaðurinn sem er ekki í boði fyrir leikinn er Eric Bailly en hann er á leið til baka eftir að þátttöku hans lauk í Afríkukeppninni. Leikmenn sem yfirgefa United, alfarið eða að láni, eru einu hreyfingarnar á leikmannamarkaðnum eins og er, sama hversu æst Benfica virðist vera að selja okkur einhvern af sínum leikmönnum.
By this stage of previous 5 seasons, #MUFC had lost a total ave. of 1,099 days to injury. Under Mourinho it’s 461. https://t.co/WDYPxxamGK
— James Ducker (@TelegraphDucker) January 25, 2017
Síðasti leikur við Hull var 9. sigurleikur liðsins í röð. Síðan þá hafa komið 2 jafntefli í röð sem með réttu hefðu bæði átt að vera sigrar. Það er heldur súrt en svona er boltinn stundum og þá er bara að girða treyjur í stuttbuxur, bretta upp ermar og halda áfram að vinna.
Spái liðinu svona:
Þetta tilvalinn leikur til að hvíla menn en næsti leikur er ekki fyrr en seint á sunnudag og það gegn Wigan í bikarnum. Álagið hefur því oft verið meira. Þessir tveir leikir gætu verið fínir til að leyfa mönnum að spila sem hafa minna fengið að spila að undanförnu, án þess þó að raska of mörgum stöðum á vellinum.
Svo er bara að klára verkefnið með stæl, við viljum sjá Manchester United fara á Wembley!
*Uppfært*
Sigurvegarinn í viðureigninni á morgun mun mæta Southampton í úrslitaleik á Wembley þann 26. febrúar.
einar__ says
Við erum í dauðafæri að komast á Wembley en þetta veðrur hörku leikur á erfiðum útivelli. Það getur allt gerst í bikarnum einsog sannaðist áðan á Anfield.. Allir bjuggust við draumaúrslitaleik milli Man. Utd en Liverpool, en ég ætla rétt að vona að það verði ekki Hull vs. Southampton í staðinn :/
Björn Friðgeir says
Mjög ánægður með úrslitin í gær, minnkar stressið í kvöld all verulega.
Fyrir hefði ég haft miklar áhyggjur af því að lenda á móti Liverpool í úrslitum í bikar, leikur sem hefði ekki skipt of miklu máli hefði þá allt í einu skipt öllu máli, og jafn miklar áhyggjur af því að tapa í kvöld og gefa Liverpool bikarinn.
Nú getum við bara haft gaman af þessu!
Bjarni says
Hef ég áhyggjur af leiknum í kvöld? Já, held að hausinn verði ekki rétt skrúfaður á okkur, munum reyna að halda forskotinu en með þeim afleiðingum að Snoddi mun sýna listir sýnar með sínum eitraða vinstri fót. En eitt eða tvö mörk ættu að duga til að drepa leikinn og vona ég að við sýnum áræðni upp við markið og nýtum færin. Þetta verður týpískur bikarleikur, barátta á öllum vígstöðum en við munum standa uppi sem sigurvegarar að lokum.
Björn Friðgeir says
Snodgrass er ekki með, eitthvað smá meiddur en líka á leiðinni í burt, bæði Burnley og West Ham hafa fengið tilboð í hann samþykkt.
Bjarni says
Takk fyrir það Björn. Vinnufélagarnir mínir bentu mér á að búið væri að selja kappann. Þá hef ég minni áhyggjur. :) Liðið ætti samt að sigla leiknum í örugga höfn og slá ekki af olíugjöfinni. Hver leikur er mikilvægur uppá að viðhalda góðri siglingu og halda leikmönnum á tánum. Þá munum við uppskera að lokum.
Runar says
Þetta verður hörku leikur en ég ætla samt að leggja jafnteflið (veðja á móti) og það verður klárlega skorað 2-3 mörk í þessum leik ;)