Áður en leikurinn gegn Watford hófst var ljóst að Arsenal hafði sigrað Hull. Það var því ekki möguleiki að komast í 4. sætið en það var séns að komast í 5. sæti, í það minnsta tímabundið. Auk þess sem sigur væri nauðsynlegur til að halda í við liðin fyrir ofan.
Byrjunarliðið gegn Watford var svona:
Varamannabekkurinn er þannig skipaður:
Romero, Darmian, Carrick, Fellaini (72′), Lingard (89′), Rashford (80′), Rooney.
Lið Watford var svona:
Varamenn: Arlauskis, Mariappa, Janmaat, Behrami, Doucouré, Success, Okaka.
Fyrri hálfleikur
Leikmenn Manchester United komu til leiks staðráðnir í að hirða öll stigin þrjú. Liðið fór strax að reyna að búa til færi og láta vaða þegar markið var í augsýn. Eftir því sem leið á hálfleikinn fóru sóknartilburðirnir að vera flottari og skemmtilegri en það vantaði þó upp á að ná að klára færin almennilega. Fremstu 6 leikmennirnir áttu allir marktilraunir í fyrri hálfleiknum en til að byrja með fóru þær gjarnan hátt yfir eða Gomes varði auðveldlega.
Watford minntu stundum á sig með sóknartilburðum eða reyndu að setja pressu á vörn Manchester United. En þar munaði afskaplega miklu um að Eric Bailly var mættur aftur í vörnina. Hann nýtti sinn líkamlega styrk mjög vel í baráttunni við sóknarmenn Watford. Stykur hans og geta á boltann er frábær blanda, hann hleypur ekki í stress þótt að sé reynt að pressa á hann heldur leysir málið.
Anthony Martial kom inn í leikinn eftir að hafa verið töluvert í umræðunni. Hann reyndi ýmislegt og var duglegur að hlaupa á vörnina með boltann. Oftar en ekki þurfti Watford að leysa það með því að kæfa Martial með 2-3 varnarmönnum, þar hefði ekki mikið þurft að detta fyrir Martial til að skapa stórhættu.
Pogba og Herrera sátu heilt yfir frekar aftarlega á vellinum en fóru þó að fikra sig meira fram á við eftir því sem leið á. Þeirra samband virðist vera að þróast mjög vel, þeir vita alltaf vel hvar hinn er og þeirra samvinna með og án bolta eflir báða leikmenn til muna.
Zlatan var mjög mikið í boltanum í fyrri hálfleiknum. Hann datt mikið niður til að sækja boltann og leitaðist við að búa eitthvað til fyrir leikmennina í kring. Hann fékk þó tækifæri í fyrri hálfleiknum sem hann hefði átt að nýta betur, í of mörg skipti hitti hann boltann illa. Í eitt skipti náði hann þó skalla á markið úr dauðafæri en Gomes varði vel.
Juan Mata spilaði þó manna best í fyrri hálfleik. Hann var mjög hreyfanlegur og alltaf að hlaupa í svæði til að skapa pláss fyrir sig og samherja sína. Hann og Mkhitaryan virðast ætla að mynda skemmtilegt sóknarsamband.
Það var líka litli Spánverjinn sem braut ísinn fyrir Manchester United eftir rúmlega hálftíma leik. Það var stuttu eftir dauðafærið hjá Zlatan. Á þessum tíma var United með mikla pressu á Watford og að skapa margar fallegar sóknir. Þetta var ein slík, Mkhitaryan fékk boltann og sendi út á vinstri kantinn þar sem Martial keyrði áfram að endamörkum og sendi góða sendingu fyrir markið. Zlatan og Mata voru þar báðir mættir og það var Mata sem kláraði færið og skoraði. Frábært mark!
Manchester United hafði mikla yfirburði það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Martial átti nokkra góða spretti og Mkhitaryan átti hættulega marktilraun en United náði ekki að bæta við fleiri mörkum. Watford mátti teljast heppið að fara inn í hálfleikinn aðeins 1-0 undir.
Seinni hálfleikur
Martial byrjaði seinni hálfleikinn á stórhættulegum spretti þar sem hann fíflaði vörn Watford og átti svo hættulegt skot sem fór rétt framhjá. En Manchester United náði ekki að byggja á því og halda yfirburðunum sem liðið hafði haft í lok fyrri hálfleiks. Watford sá meira af boltanum og náði að búa sér til tilraunir. De Gea þurfti að verja vel á 53. mínútu þegar Watford átti skot úr aukaspyrnu.
En Watford náði ekki að byggja mikla pressu og þegar hálftími var eftir af leiknum náði United að klára dæmið með öðru marki eftir aðra frábæra skyndisókn. Zlatan fékk boltann og stakk honum inn á Martial sem brunaði eitt sinn sem oftar í átt að marki Watford. Varnarmenn Watford virtust ætla að komast fyrir Martial en þá tók Martial bara eina góða stefnubreytingu og lagði boltann mjög snyrtilega í nærhornið. Zlatan hafði elt Martial inn í teiginn og plantaði sér beint fyrir framan Gomes svo hann gat engan veginn séð boltann frá Martial. Skemmtilega gert hjá báðum og leikurinn búinn.
Watford hefði þó getað skorað. Þeir náðu hættulegri fyrirgjöf sem rúllaði framhjá leikmönnum í opnu færi og bakvörðurinn Janmaat fékk dauðafæri þegar 20 mínútur voru eftir sem hann náði ekki að gera sér mat úr. En heilt yfir var þetta ekki í neinni hættu. Manchester United hélt boltanum og hélt áfram að sækja. Mkhitaryan var sérstaklega sprækur í að búa til færi og Zlatan hefði átt að skora í leiknum, hann fékk t.d. annað dauðafæri þegar skammt var eftir af leiknum. Hann var þá einn fyrir framan opið markið en boltinn var þó í erfiðri hæð. Zlatan hefur samt skorað mörk úr erfiðari færum en þetta.
Mata fékk sína klassísku skiptingu á 70. mínútu þegar Fellaini kom inn á. Martial fór síðan út fyrir Rashford og Mkhitaryan fyrir Lingard í lokin. United hélt stjórn á leiknum og landaði 3 verðmætum stigum. Ólíkt síðustu vikum þá dugði sigurinn til að færa Manchester United upp um sæti á töflunni.
Maður leiksins
Það er skemmtilegt þegar margir leikmenn gera sterkt tilkall til þess að vera valinn maður leiksins. Eric Bailly var frábær í vörninni, engin spurning að það styrkir liðið mjög mikið að hafa fengið hann aftur. Valencia var líka flottur, mikið í boltanum og traustur í vörninni.
Zlatan var mikið að skapa og gera sniðuga hluti en hann hefði átt að skora í leiknum. Sem betur fer kom það ekki að sök í þetta skiptið. Martial kom sterkur inn og nýtti tækifærið vel. Mkhitaryan var afskaplega líflegur. Juan Mata var út um allt, braut ísinn og sífellt að skapa eitthvað skemmtilegt.
En maður leiksins að mínu mati var Paul Pogba. Ég hef lengi verið á því að til þess að fá það besta út úr Paul Pogba þurfi að spila honum í þeirri stöðu sem hann blómstraði hvað mest í hjá Juventus, vinstra megin í þriggja manna miðju í þannig stöðu að hann sé framarlega á miðjunni, frekar en aftarlega. En hann er að leysa þessa stöðu sem annar af tveimur djúpum miðjumönnum mjög vel. Hann er að sinna ákveðinni varnarvinnu en hefur þó fundið leið til að vera ekki niðurnjörvaður af varnarskyldum. Hann er að stýra leikjum aftarlega á vellinum en nær samt líka að búa sér til pláss og tíma til að fara fram á við og taka þátt í sóknaruppbyggingum þar. Stórkostlegur!
.@ManUtd have become the 1st team to reach 2,000 points in the Premier League, 203 points ahead of next best Arsenal #PL pic.twitter.com/91xBKVK5bB
— Sky Sports Statto (@SkySportsStatto) February 11, 2017
Martial muscles off a defender and runs off. Mourinho applauds him like an Academy Award attendant. Today might be Martial’s turning point.
— Samuel Luckhurst (@samuelluckhurst) February 11, 2017
Eric Bailly’s game by numbers vs. Watford:
100% aerial duels won
9 clearances
5 tackles won
2 take-ons completed
1 interceptionRock solid pic.twitter.com/usUMk6JTte
— Squawka Football (@Squawka) February 11, 2017
MatchBoss MOTM: Paul Pogba.
112 MatchBoss points
76 passes completed
4 clearances
4 aerial duels wonPowerhouse performance. pic.twitter.com/dpoD3Gj4YI
— Squawka Gaming (@SquawkaGaming) February 11, 2017
J Stand Busby Babe’s tribute pic.twitter.com/RzwnCVnm6O
— Stretford End Flags (@SEF_MUFC) February 11, 2017
Viðar says
Djöfull eru þeir búnir að vera góðir! En aftur vantar að klára færin betur, gæti auðveldlega verið 3-0 í hálfleik
Karl Gardars says
Góður sigur, gott spil en aftur alveg hroðaleg færanýting. Jose og Co verða að laga þetta asap!
Nú mættu púðlurnar tapa og helst stórt, þá er þessi helgi úr efstu hillu.
Heiðar says
Flottur sigur en tek undir með Viðari og Karli. Liðið komst á að giska 30 sinnum í ákjósanlegt upphlaup í yfirtölu. Niðurstaðan: 2 mörk ! Á svona degi hefði liðið átt að skora 5-6 mörk leikandi. Verðum að fara að slútta sóknunum betur því að færin eru ekki svona mörg gegn betri liðunum.
Vel spilaður leikur af okkar hálfu samt og liðið á rétti leið.
Cantona no 7 says
Góður sigur .
Við þurfum samt að vinna svona lágmark 4-0
Vonandi erum samt komnir á gott skrið.
G G M U
Auðunn says
Herrera maður leiksins að mínu mati, var gjörsamlega frábær.
Góður leikur og góð þrjú stig.
Það stutt í annað sætið og nú skiptir máli að halda áfram á þessari braut en ekki horfa í baksýnisspegilinn og pirra sig á öllum þessum jafnteflum og töpuðu stigum.
Er með smá áhyggjur af færa nýtingu liðsins en er viss um að þetta sé allt á réttri leið.
Fyrri hálfleikurinn var mjög góður þar sem United hefði átt að skora 3 mörk.
Seinni hálfleikurinn var líka mjög fínn eða þangað til Fellaini kom inn með sitt getuleysi.
Þá skipti ég um rás á sjónvarpinu.
Helgi P says
Klárlega okkar besti leikur í langan tíma en við þurfum klárlega fara klára þessi færi betur