Eftir gríðarlega erfiðan úrslitaleik, þar sem Southampton mætti bæði vel stemmt og skipulagt inn í leikinn, náði Manchester United að landa sigri og vinna fyrsta bikarinn sem í boði var á þessu tímabili. Þar með varð José Mourinho fyrsti knattspyrnustjóri í sögu Manchester United sem vinnur titil á sínu fyrsta ári. Manchester United var á löngum köflum lakari aðilinn í leiknum en náði samt að seiglast í gegnum leikinn án þess að lenda undir. Að lokum voru það gæðin og hungrið í einum manni, Zlatan Ibrahimovic, sem skildu liðin að.
Byrjunarlið Manchester United í leiknum var á þessa leið:
Varamenn: Romero, Blind, Young, Carrick 46′, Fellaini 90′, Rooney, Rashford 77′
Byrjunarlið Southampton:
Varamenn: Hassen, Long 83′, Rodriguez 90′, Caseres, Boufal 77′, Höjbjerg, McQueen
Fyrri hálfleikur
Í blábyrjun leiksins virtust leikmenn Manchester United ætla að mæta ákveðnir til leiks og voru sprækir. Paul Pogba átti hörku skot á 4. mínútu, Forster var heppinn að skotið var svotil beint á hann en samt þurfti hann að kýla boltann í burtu. Byrjun sem lofaði góðu en entist ekki því Southampton sýndi fljótlega að þeir voru komnir til að gera eitthvað í þessum leik. Síðasti leikur Southampton var 11. febrúar, þeir höfðu því haft 15 daga til að undirbúa þennan leik. Þann tíma nýttu þeir gríðarlega vel. Liðið var afskaplega vel skipulagt, hafði skýrt leikplan og var mjög vel mótiverað.
Manchester United spilaði líka 11. febrúar en spilaði síðan 3 leiki fram að þessum leik, þar af einn þeirra í Frakklandi. Kannski var það þreyta, kannski skortur á stemningu eða kannski kom leikur Southampton þeim á óvart. Í öllu falli voru okkar menn komnir á hælana strax frá 5. mínútu.
Á 12. mínútu gerði Marcos Rojo slæm mistök með þeim afleiðingum að bakvörðurinn Cedric vann boltann, brunaði inn í teiginn og gaf fyrirgjöf á Gabbiadini sem skoraði. Markið var dæmt af vegna rangstöðu. Endursýningar sýndu að Gabbiadini var alls ekki rangstæður þegar fyrirgjöfin kom. Ryan Bertrand var hins vegar í rangstöðunni en það er hæpið að segja að hann hafi haft mikil áhrif á leikinn og því verður að segjast að Manchester United var stálheppið að vera ekki lent undir þarna. Varnarmenn Manchester United áttu að vita af því hversu mikil ógn Gabbiadini gæti verið fyrir leik og þetta hefði átt að verða þeim enn meiri áminning um það hvað ítalski sóknarmaðurinn getur.
🤔🤔🤔 pic.twitter.com/35RuPNzh24
— 101 Great Goals (@101greatgoals) February 26, 2017
Markið, þótt það hafi ekki staðið, gaf Southampton enn meiri kraft og Manchester United átti í vök að verjast. Varnarlínan virkaði óörugg, Marcos Rojo ekki í takti í vinstri bakvarðastöðunni og miðjan hjá Manchester United náði ekki tökum á leiknum. Að sama skapi var Southampton að spila mjög vel.
En á 19. mínútu fékk Manchester United aukaspyrnu eftir góðan sprett frá Ander Herrera. Aukaspyrnan var fyrir miðju marki, heldur langt frá markinu en samt ekki svo langt að nokkuð annað en skot kom til greina frá Zlatan Ibrahimovic. Hann setti fastan bolta yfir vegginn með miklum snúningi þannig að boltinn var alltaf á leið frá Forster í markinu sem skutlaði sér eftir honum en náði ekki að verja. Glæsilegt mark. Einhverjir vildu setja spurningamerki við Forster í markinu. Kannski hefði hann getað gert betur en skotið var fast og snúningurinn mikill. Manchester United komið yfir í leiknum, gegn gangi leiksins.
Markið kveikti samt ekki í Manchester United eins og maður hefði vonað heldur hélt Southampton áfram að vera sterkari aðilinn. Mikil vinnusemi hjá þeim, sátu þéttir til baka en settu líka pressu þegar þeir gátu. Voru raunar meira með boltann og með taktíkina á hreinu. Sérstaklega voru föstu leikatriðin hjá þeim vel æfð og hættuleg. De Gea þurfti tvisvar að verja mjög vel til að halda United í forystunni.
Á 38. mínútu náði Manchester United hins vegar sókn. Marcos Rojo var kominn mjög framarlega og bar boltann inn að vítateig Southampton. Þar fann hann Jesse Lingard við vítateigslínuna. Það er fátt sem Jesse Lingard elskar meira en að skora á Wembley og hann náði góðu skoti meðfram jörðinni sem klobbaði Yoshida og Forster náði ekki að verja. Staðan allt í einu orðið 2-0 fyrir Manchester United. Harkalegt fyrir Southampton en mjög jákvætt hjá Manchester United að hafa náð að nýta færin sín svona vel.
Á 40. mínútu vildu margir fá rautt spjald á Jack Stephens eftir hörkutæklingu en Marriner ákvað að sýna honum bara gult spjald. Tæklingin leit vissulega mjög illa út í rauntíma en endursýningar sýndu að hún var ekki svo slæm, rautt hefði verið strangur dómur.
Allt virtist stefna í að Manchester United færi með gott tveggja marka forskot inn í leikhléð. En þegar uppbótartíminn var nýbyrjaður náði Southampton virkilega góðri sókn. Redmond vann boltann á miðsvæðinu og gaf upp á hægri kantinn á Ward-Prowse sem gaf fyrirgjöf á Gabbiadini sem skoraði. Mjög einfalt mark, mjög vel gert hjá Southampton og vörn United leit ekki vel út. 2-1 í hálfleik og spenna í leiknum.
Seinni hálfleikur
Miðjan hjá Manchester United hafði ekki verið nógu góð í fyrri hálfleiknum og margir töluðu um að liðið saknaði Michael Carrick, jafnvel að hann hefði getað komið í veg fyrir markið sem Southampton skoraði því hann hefði líklega verið þar sem Redmond fékk boltann. Það kom því ekki á óvart að sjá Carrick koma inn á í hálfleik, fyrir Juan Mata. Við það færðist Lingard út á hægri kantinn.
Southampton fékk samt ekki memoið um að innkoma Carrick ætti að breyta einhverju heldur hófu seinni hálfleikinn með því að setja gríðarlega pressu á Manchester United. Redmond tók boltann á lofti í vítateignum og átti fast skot sem De Gea kýldi í horn. Úr horninu skapaðist pressa sem endaði með að Rojo átti vafasama, en vel heppnaða, tæklingu í teignum og sendi boltann út í annað horn. Upp úr því horni náði Pogba að skalla boltann frá marki en ekki langt, Martial tapaði baráttunni við leikmann Southampton sem skallaði boltann aftur inn í teig. Þar lúrði Gabbiadini með Smalling í bakinu og náði með góðum snúningi að ná skoti á markið. De Gea sá boltann seint og illa og hann endaði niðri í hægra markhorninu, frábærlega gert hjá Gabbiadini.
Í kjölfarið á þessu jöfnunarmarki varð leikurinn að miklum baráttu- og spennuleik. Southampton hélt áfram að vera stórhættulegt í föstum leikatriðum og náðu meðal annars skalla í stöngina. Miðjumaður þeirra, Romeu, var að vísu stálheppinn að sleppa við a.m.k. seinna gula spjaldið eftir hann slengdi hendi í Ander Herrera en það verður ekki sagt að Manchester United hafi farið verr út úr dómaranum í þessum leik.
Manchester United reyndi að ná tökum á leiknum en uppspilið var ekki nógu gott eða hratt til að valda þéttum varnarleik Southampton teljandi vandræðum. Þegar Manchester United fékk föst leikatriði þá var vandræðalítið fyrir Southampton að verjast þeim, hvort sem það voru hornspyrnur eða aukaspyrnur. Manchester United ætti að vera betra í föstum leikatriðum og það er merkilegt að leikmenn eins og Pogba, Zlatan og varnarmennirnir séu ekki hættulegri skallamenn eftir t.d. hornspyrnur. Zlatan fékk aðra tilraun til að skjóta úr aukaspyrnu, af svipað löngu færi og hann skoraði úr, en setti boltann í vegginn í það skiptið.
Á 75. mínútu minntu Pogba og Zlatan þó rækilega á sig þegar þeir unnu sig tveir upp völlinn með góðu spili sem endaði með að Pogba átti gott skot við vítateiginn sem fór af varnarmanni og í horn. Hornspyrnan var hættulítil en í framhaldinu náði Manchester United þó að setja pressu á Southampton sem endaði með að Jesse Lingard fékk boltann í vítateignum í álitlegu skotfæri en setti boltann rétt yfir markið. Hann hafði ekki mikinn tíma en þó nógu mikinn til að ná að leggja boltann fyrir sig og hefði átt að gera betur úr færinu.
Southampton hefur löngum átt frábæra bakverði. Einn þeirra er Ryan Bertrand. Hann náði góðum spretti upp völlinn þegar stutt var eftir, komst alveg að endamörkum og renndi boltanum fyrir markið. Það virtist hægjast á tímanum þegar boltinn rúllaði framhjá öllum leikmönnum Southampton í teignum og var svo bjargað í horn. Horn þýddi hætta, Stephens stangaði boltann að marki en Zlatan bjargaði með því að skalla í burtu. Southampton virkuðu líklegri.
En þá var komið að Zlatan Ibrahimovic. Rétt eftir að hann hafði bjargað marki vann hann boltann framarlega á vallarhelmingi Manchester United. Hann hóf skyndisókn þar sem hann fann Rashford í fætur framarlega á vellinum. Rashford gerði vel í að halda boltanum og fleiri Manchester United leikmenn bættust í hópinn. Zlatan var greinilega orðinn þreyttur þarna, var ekkert að flýta sér inn í teiginn. En hann kom á réttum tíma því þegar boltinn barst til Herrera úti á hægri kantinum var Svíinn stóri kominn inn í teiginn. Herrera gaf frábæra fyrirgjöf beint á kollinn á Zlatan sem skallaði boltann í netið. Sigurvegaramark!
Þarna voru rúmlega 2 mínútur eftir, plús uppbótartími. Mourinho hafði ætlað að setja Wayne Rooney inn á en eftir markið skipti hann um skoðun og sendi Marouane Fellaini inn á til að loka leiknum. Skynsamlega gert. Fellaini kom inn á og hjálpaði United að þétta upp í vörnina. Southampton hélt boltanum en náðu ekki að skapa neitt. Leiktíminn rann út, dómarinn flautaði af og Manchester United var orðið deildarbikarmeistari í fimmta skiptið. Zlatan féll niður á hné, þreyttur en sáttur. Hann skilaði af sér góðu dagsverki.
Meistarar
Chris Smalling og Michael Carrick báru fyrirliðabandið í leiknum. En Wayne Rooney er fyrirliði félagsins, það kom því í hans hlut að lyfta bikarnum eftir leikinn. En ekki fyrr en Zlatan hafði tekið á móti styttu fyrir að vera besti maður leiksins. Zlatan startaði leiknum og Zlatan kláraði leiknum. Hann skoraði sigurmarkið í leiknum um samfélagsskjöldin síðasta haust og hann skoraði sigurmarkið í þessum úrslitaleik líka. Eftir leikinn sagði hann að hann hefði komið til Manchester til að vinna og það væri hann að gera.
Leikurinn var í raun ekki nógu góður af hálfu liðsins. En samt var hann nógu góður, því Manchester United vann. Mourinho viðurkenndi eftir leik að líklega hefði leikurinn átt að fara í framlengingu hið minnsta. Southampton á skilið mikið hrós fyrir sína frammistöðu í þessum leik. José Mourinho var þarna að vinna deildarbikarinn í fjórða skipti, þar með komst hann upp að hlið Sir Alex Ferguson og Brian Clough sem sigursælustu stjórarnir í þessari keppni. Hann var líka að vinna 11. úrslitaleikinn af þeim 13 sem hann hefur tekið þátt í. Sigurvegari!
Manchester United hefur spilað of marga leiki í vetur þar sem liðið var margfalt sterkari aðilinn en fór illa með færin og endaði á að fá of lítið úr leikjunum miðað við spilamennsku. Núna snerist það við, færanýtingin kláraði leikinn. Það er mikill karakter í því og lofar góðu fyrir framhaldið þótt spilamennskan megi alveg endilega batna.
Fyrsti titill vetrarins er kominn í hús. Fyrsti titill Mourinho hjá Manchester United er kominn í hús. Þvílík gleði!
Sky reporter to Ibrahimovic: Even by your standards is this better than u expected?
Ibrahimovic: No. This is what I predicted— James Robson (@JamesRobsonMEN) February 26, 2017
Zlatan Ibrahimović has played in 21 cup finals/super cups, winning 18 of them (including the last 15 straight), and scoring 12 goals
— Mitronhimovic (@SemperFiUnited) February 26, 2017
6 – Zlatan Ibrahimovic has now scored six times in his last five domestic cup finals. Update.
— OptaJoe (@OptaJoe) February 26, 2017
2 – Manolo Gabbiadini is the second player to score twice in a League Cup Final against Manchester United after Dean Saunders. Double.
— OptaJoe (@OptaJoe) February 26, 2017
For all the stick he gets, Wayne Rooney’s reaction to that winning goal – scored by the man who has put him out the team – says an awful lot
— Daniel Taylor (@DTguardian) February 26, 2017
Mourinho: „The only thing I can say is we have the cup in our hands, but we should probably be playing extra-time.“ [sky]
— utdreport (@utdreport) February 26, 2017
We ♥️ @EricBailly24! 😂 pic.twitter.com/ky7QngMpmv
— Manchester United (@ManUtd) February 26, 2017
Jose vil benda þér á gæja sem heitir Gylfi sig og hann kann að taka horn og aukaspyrnur annað en herrera #fotboltinet
— magnus bodvarsson (@zicknut) February 26, 2017
Yep 😎🏆 pic.twitter.com/gz2MSqDiEz
— Manchester United (@ManUtd) February 26, 2017
Thorleifur says
Líst vel á þetta lið mjög áhugavert :)
Jón ö says
Enn og aftur fáum við línuverðina með okkur í lið
Karl Gardars says
Lingard, Mata og Martial mættu alveg fara að mæta til leiks. Þessi leikur þarf ekki bara að vinnast heldur vinnast með amk 3 mörkum því ég nenni ekki að hlusta á púllaravæl yfir dómaraskandölum.
Úfff… DDG að bjarga okkur trekk í trekk.
Jónas Björn says
Mourinho getur aldrei aftur vælt yfir dómurum eins og hann hefur gert trekk í trekk ár eftir ár. Hann er búinn að fá allt upp í hendurnar á sér frá dómurum og sérstaklega aðstoðardómurum
SHS says
Rojo er að drulla allrækilega á sig þarna! Fínt assist samt…
Rauðhaus says
Hversu lélegur er Rojo búinn að vera? Að hugsa sér að Luke Shaw sé að horfa á þetta í sjónvarpinu… Svona á meðan hann veltir fyrir sér hvert hann eigi að fara í sumar.
Karl Gardars says
Það er nokkuð augljóst hvoru liðinu langar meira í þessa dollu.
Turninn Pallister says
Úff rosalegur leikur!!
Vorkenni Southampton pínu, þeir voru frábærir. Aftur vinnum viđ leik án þess ađ spila sérstaklega vel.
Ibra mađur leiksins engin spurning.
Njótiđ dagsins félagar.
Runólfur Trausti says
United tapar leik =
40 komment og allir brjálaðir.
United vinnur bikar =
8 komment og flest þeirra neikvæð.
Ég viðurkenni alveg að ég var langt því frá sáttur með spilamennskuna og Tweet-aði samkvæmt því yfir leiknum en að því sögðu þá var Móri að landa sínum fyrsta bikar (Góðgerðarskjöldurinn telst ekki með) og það er ekkert nema jákvætt.
Liðið virðist vera hætt að yfirspila andstæðinga sína og gera jafntefli og er frekar að vinna þá þegar leikurinn er í járnum. Ekkert nema jákvætt.
Svo verð ég að viðurkenna að eftir á að hyggja var þetta stórkostlegur úrslitaleikur, sama hvernig hefði farið. Alltof margir úrslitaleikir í dag enda í drep leiðinlegum varnarsinnuðum leikjum á meðan þetta var ekkert nema veisla frá upphafi til enda.
Að lokum þá verður maður að taka hattinn ofan fyrir Zlatan. Þvílíkur leikmaður. Sáuð þið sprettinn sem hann tók til að setja pressu á Southampton á ’90+? Þetta er leiðtogi! Ekkert nema jákvætt.
Svo er þetta ástarævintýri Lingard og Wembley efni í rannsókn.
EKKERT NEMA JÁKVÆTT!
Nú er bara að landa hinum tveimur dollunum og tryggja Mikka Mús þrennuna!
Snorkur says
Þessi leikur var sérstakur. .. munur að hafa gæðin hans Zlatan ;) var orðin stressaður. . En í lokin svo kátur að það tóku sig upp gömul íþróttameiðsl. .. til lukku með þessa dollu djöflavinir. . :) eigum við ekki að segja þetta aðeins byrjunina
Heiðar says
Við unnum titil. Unnum líka FA Cup síðasta vor. Muniði eftir Moyes tímabilinu…. eða öllum hörmulega fótboltanum undir stjórn van Gaal? Verum jolly, það er ekki gefið að vinna svona – ættum ekki að gagnrýna liðið of mikið fyrir frammistöðuna í sjálfum leiknum í dag. Verkefnið var klárað. Ég minni ykkur á það að Southampton menn voru nýkomnir úr 2 vikna fríi þar sem þeir fóru m.a. til Spánar að hlaða batteríin. Á sama tíma voru United að spila sinn 5 leik á 15 dögum, þar af einn í Frakklandi. Það tekur í. Við erum líka að keyra þetta mikið á ca. 13-15 leikmönnum. Skiljanlegt að það hafi verið komin þreyta í mannskapinn.
Svona til að klára þetta þá langar mér líka að minnast á baráttuanda Ander Herrera í dag. Það munaði gríðarlega um hann síðasta hálftímann og maður fann á þessum tíma hvernig United vann sig smám saman meira inn í leikinn. Kórónaði þetta svo með picture perfect bolta á King Zlatan.
Turninn Pallister says
Ég er alveg sammála hverju orđi hjá ykkur strákar. Skemmtilegur leikur sem bauđ uppá allt sem viđ gátum óskađ okkur, spennu, drama og Mourinho pakkađi ekkert saman þó viđ kæmumst yfir.
En eins og sagt hefur veriđ hér ađ ofan þá hefđi spilamennskan mátt vera betri í dag, hverju sem þar er um ađ kenna. Ekki taka því neikvætt samt, þađ er nefnilega jákvætt ađ vinna þó svo ađ liđiđ eigi ekki toppleik. Hér í eina tíđ var þađ kallađ ađ spila eins og sigurvegara. ;)
Punktar:
Erum orđnir sigursælasta félagiđ á Englandi frá upphafi! Þessi titill skaut okkur fram úr Liverpool í titla söfnun.
Zlatan er jafn gamall og Peter Crouch en lýtur út fyrir ađ vera 10-12 árum yngri.
Viđ unnum titil! Bikartitill nr 2 á 2 árum. Eitthvađ sem sumir stuđningsmenn sjá ekki oft og ađrir bara á 10-20 ára fresti eđa eitthvađ.
Njótiđ þess svo í komandi viku ađ glotta framan í Púllarana þegar þeir byrja ađ þenja sig. Nú hafa þeir ekkert á okkur. ;)
Rúnar Þór says
Held að ástæðan fyrir fáum kommentum sé samblanda af spennufalli og sigur djammi. Ég er allaveganna dauð uppgefinn (hvað þá Zlatan gamli) og ákvað bara að bæta í kommentin svona smá :)
Cantona no 7 says
Til hamingju með okkar menn.
G G M U
Steven Gerrard says
Orð fá ekki lýst hversu mikið ég væri til í að vera með þennan forljóta tvífara Conor Mcregor frammi hjá okkur í Liverpool. Zlatan er reyndar alltof cocky gæji, talar um sjálfan sig í 3.persónu en bakkar allt þetta cocky tal hans upp með því að performa inn á vellinum og er fáránlega sigursæll. Nákvæmnlega eins og Írski Íslandsvinurinn okkar
En til hamingju með þennan bikar þó hann sé ekki merkilegur. Þessi bikar er reyndar seinasti bikarinn sem Liverpool unnu því við kunnum ekki að vinna úrslitaleiki. Það er oftast erfiðasta vinna í heiminum að vera Stuðningsmaður Liverpool viðurkenni það. En það eru fleiri titlar í vændum trúi ég fyrst Jurgen Klopp er við stjórn. Núna verður gaman að sjá hvort Liverpool eða Utd enda í 4.sætinu. Búið ykkur undir stríð um þetta sæti. Biðst afsökunar ef þið vilið ekki að neinn poolari commenti hér inn vildi bara segja hversu heppnir þið eruð að hafa besta striker í heimi í liðinu ykkar fyrir utan Messi,suarez og Ronaldo
kv. Steven Gerrard
Runar P. says
Djöfull var þetta góður sigur og sannkallaður bikarleikur, ætli púlarar séu ekki þeir ósáttustu í dag? því nákvæmlega fyrir ár síðan töðuð þeir þessum bikar ;)
Óli says
Frábært að vinna þennan leik. Southampton stóð sig frábærlega og maður hefði alveg unað því ágæta félagi að vinna loksins einn titil.
Í gegnum árin hef ég aldrei fílað sérstaklega þessa „Ég er Zlatan“ sýningu, en guð minn góður hvað hann hefur unnið mig á sitt band. Stórkostlegur leikmaður með þvílíkt sigurviðhorf, en virðist á sama tíma vera virkilega heilsteyptur og vandaður maður. Maður grætur eiginlega bara að hann hafi ekki komið fyrir tíu árum, hann er fullkominn fyrir Manchester United.
Grímur says
Tek undir með Heiðari. Minni menn t.d. á úrslitaleikinn ’99 í Meistaradeild. Samkvæmt öllum „sanngirnis“ mælikvörðum hefði Bayern átt að vinna. Þeir yfirspiluðu okkur í svona 86 mínútur. En í þessari íþrótt er aðeins spurt að leikslokum. Finnst við spila mun líkar því sem var undir Ferguson. Enn þá margt bæta en þetta liðið líkist sífellt meira þeim liðum sem ég féll upphaflega fyrir sem strákur!