Ágætis skyldusigur að baki hjá United gegn afar döpru Sunderland-liði David Moyes. Byrjunarliðið var svona.
Bekkur: J.Pereira, Carrick, Blind, Fosu-Mensah, Tuanzebe, Martial, Rashford.
Það kom ekkert sérstaklega mikið óvart þar, fyrir utan það að David de Gea var ekki í hóp en hann virðist hafa meiðst lítillega í vikunni. Sergio Romero, sá mikli meistari, kom í hans stað. Það sem vakti mesta athygli var að Maroune Fellaini fékk fyrirliðabandið í fjarveru allra þeirra sem eru venjulega með það. Ágætis troll hjá José Mourinho.
Leikurinn byrjaði afar rólega og fyrstu 25 mínúturnar virkuðu þannig á mann að bæði lið væru hreinlega að hvíla sig, slíkur var hraðinn, eða skortur á honum, framan af leik.
Það var helst sem eitthvað gerðist í kringum Jesse Lingard og Luke Shaw án þess þó að það sé þess virði að segja eitthvað sérstaklega frá því. Lingard var hreyfanlegur og alltaf að reyna, sem er kannski meira en hægt er að segja um Zlatan og Mkhitaryan sem voru varla með í leiknum, svona til að byrja með.
Það sem virðist hafa vakið okkar menn af værum blundi var dauðafæri sem Jermaine Defoe fékk á 28. mínútu. Lee Cattermole, af öllum mönnum, lyfti boltanum yfir vörn United á Defoe sem skaut boltanum á lofti, rétt framhjá. Defoe var reyndar dæmdur rangstæður, réttilega, en það mátti engu muna.
Við þetta lifnaði heldur betur yfir okkar mönnum. Lingard átti besta tækifæri United aðeins mínútu eftir færi Defoe þegar hann lék á nokkra leikmenn Sunderland og reyndi að leggja boltann í hægra markhornið með skoti rétt fyrir utan teig. Jordan Pickford í markinu gerði afar vel í að verja boltann í horn.
Hann átti þó engin svör mínútu síðar þegar Zlatan, sem hafði átt mjög dapran leik, fékk boltann frá Ander Herrera við vítateig Sunderland. Hann var með Billy Jones í bakinu, sem hefur þó sjaldnast verið talið mikið vandamál. Zlatan þurfti enda ekki að gera mikið til að koma sér í skotstöðu og skot hans söng í netinu.
Leikmenn virtust ólmir í að bæta upp fyrir leiðindin framan af fyrri hálfleik og aðeins fjórum mínútum eftir mark United gerðu Zlatan og Shaw afar vel í að koma þeim síðarnefnda upp að endamörkum. Þar negldi hann fyrir á Fellaini sem hefði átt að gera betur fyrir framan markið. Snerting Fellaini var ekki nógu góð af stuttu færi og boltinn endaði hjá Pickford í markinu.
Victor Anichebe, sem var langsprækasti leikmaður Sunderland, var svo ansi nálægt því að jafna á 40. mínútu þegar hann sneri af sér Eric Bailly í markteignum. Hann missti þó boltann aðeins frá sér sem gerði Romero kleyft að loka á skot uppáhaldsleikmanns David Moyes. Það er varla hægt að vera með mikið betri varamarkmann en Romero, það er á hreinu.
Atvik leiksins gerðist svo á 43. mínútu þegar Ander Herrera og Sebastian Larsson lentu í samstuði. Í fyrstu hélt ég að dómari leiksins, Craig Pawson, væri að fara að dæma á Herrera en annað kom á daginn þegar Pawson reif upp rauða spjaldið og henti Svíanum í sturtu.
Endursýningar sýndu að Larsson fór allt of hátt með sólann upp í tæklinguna gegn Herrera. Sem betur var snertingin við Herrera ekki mikil, enda hefði Spánverjinn geðþekki líklega fótbrotnað illa hefði það gerst. Larsson var alveg æfur yfir því að fá reisupassann og það er kannski skiljanlegt í ljósi þess að snertingin við Herrera var ekki mikil. Tæklingin var þó stórhættuleg og líklega er hægt að réttlæta rauða spjaldið.
Staðan 0-1 í hálfleik og útlitið afar dökkt fyrir Moyes og félaga í Sunderland.
Ekki varð það bjartara í seinni hálfleik en það var ekki liðinn mínúta af honum þegar Mkhitaryan var búinn að koma United í 0-2. Shaw gerði vel í að koma boltanum á Armenann okkar vinstra meginn í markteignum. Kone virtist varla nenna að pressa Mkhitaryan þannig að hann skaut bara á markið úr nokkuð þröngri stöðu og inn fór boltinn.
Game over.
United hefði vel getað bætt við nokkrum mörkum í viðbót, besta færið fékk Paul Pogba á 60. mínútu þegar hann skaut yfir úr teignum. Zlatan vann skallaeinvígið í teignum og boltinn datt beint fyrir Pogba sem þurfti þó að taka boltann á lofti.
Marcus Rashford kom inn á fyrir Jesse Lingard og hann hefði án efa getað skorað nokkur mörk ef Zlatan hefði verið aðeins ákveðnari. Í tvígang sluppu þeir félagar í gegn þar sem aðeins markmaður og varnarmaður Sunderland voru til varnar. Í bæði skiptin gat Zlatan komið boltanum á galopinn Rashford en í bæði skiptin voru sendingarnar ekki nógu góðar og færin runn út í sandinn.
Það átti þó ekki við á 89. mínútu þegar þeir félagar gerðu allt rétt. Pogba stakk boltanum á Rashford sem tók hlaupið inn fyrir vörn Sunderland. Englendingurinn ungi kom boltanum á Zlatan sem kom boltanum aftur á Rashford og hann gerði sér lítið fyrir og smellti boltanum í netið. 0-3, fyrsta mark Rashford í deildinni frá því september.
Þægilegur sigur því staðreynd og ekki annað hægt að gera en að fagna því. United þurfti ekki að hafa mikið fyrir sigrinum gegn arfaslöku liði Sunderland sem er augljóslega að fara lóðbeint niður undir styrkri stjórn David Moyes.
Nokkrir punktar
- Mörk breyta leikjum. Það breytti öllu fyrir United að fá markið í fyrri hálfleik. Það gerði verkum að Sunderland gat ekki setið á stiginu og varist eins og við höfum séð svo marga andstæðinga United gera í vetur. Það er svo miklu auðveldara að þurfa ekki að vera að berjast við ellefu manna varnarmúr
- Sóknarleikur United er þó áhyggjuefni. Það var ekkert sem benti til þess að United væri að fara að gera eitthvað í þessum þangað til Zlatan skoraði. Sóknarleikurinn er alltof ómarkviss og hann hefur verið í mjög langan tíma. Mourinho er þekktur fyrir að skipuleggja varnarleik sinna manna afar vel en treysta svo einfaldlega á gæði leikmanna fram á við. Það rímar ágætlega við tímabil United sem hefur einkennst af góðum varnarleik og einstaklingsgæðum Zlatan. Ætli Mourinho að ná einhverjum árangri með United þarf sóknarleikurinn að batna til muna á milli tímabila.
- Að mörgu leyti spilaðist þessu leikur þó bara eins vel fyrir United og hugsast getur. Það var alveg ljóst að leikmenn liðsins voru ekki að sprengja sig í seinni hálfleik og það sást vel á spilamennsku liðsins. Auðvitað hefði maður viljað sjá United kafsigla þetta ömurlega Sunderland lið. Það er þó vel skiljanlegt að menn séu með augun á dagskránni framundan sem er vægast sagt þéttskipuð.
- Luke Shaw var mjög sprækur og fékk klapp á bakið frá Mourinho þegar hann fór útaf en Shaw virtist vera lítillega meiddur. Mourinho hefur sagt að Shaw þurfi að sýna meira og það gerði hann svo sannarlega í þessum leik. Það er vel enda væri gjörsamlega frábært að fá Shaw af fullum krafti inn í þetta aftur.
Nokkur tíst
https://twitter.com/samuelluckhurst/status/851081054928736256
https://twitter.com/tomwfootball/status/851080569219940352
https://twitter.com/henrywinter/status/851079659328610304
https://twitter.com/oibanji/status/851078684257726464
https://twitter.com/andymitten/status/851078017606660096
https://twitter.com/optajoe/status/851058094956322816
https://twitter.com/UtdRantcast/status/851050330305568768
https://twitter.com/manutd/status/851085194018803712
Næsti leikur er gegn Anderlecht í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar, næstkomandi fimmtudag.
Karl Gardars says
Captain Fellaini! 🤘
Turninn Pallister says
Þægilegur sigur og gott að fá sigurleik. Eftir brottreksturinn hefðum við getað slátrað Sunderlan en virtumst ekki alltaf hafa áhuga á því. Auðvitað var leikurinn búinn á 46. mínútu og kannski upplagið að spara kraftana. En ég sakna samt leikgleðinnar og greddunnar. Að skora mörk, spila frábæran fótbolta og senda þannig skilaboð til hinna liðanna.
Zlatan maður leiksins og þá sérstaklega fyrir að leggja upp fyrir Rashford. Það var mjög fallega gert af honum og lagaði mikið lokastöðuna.
Hjörtur says
Þó þetta hafi verið sigur, þá er maður bara hundfúll og argur. Ekki gat ég séð frábæran fótbolta hjá liðinu, það tuðaðist með boltann maður á mann á miðjum vallarhelmingi andstæðingana meir og minna, og hvorki gekk né rak þó að þessi 3 mörk hafi komið, þá áttu þau að vera helmingi fleiri á móti þessu liði. Sendingar inn í teig útúr korti, því þær voru yfirleitt of fastar. Svo finnst mér vanta að leikmenn skjóti meira á markið, en ekki alltaf þetta hnoð með boltann nánast inn að markinu, þar sem klaufaskapurinn er fram úr hófi mikill að koma boltanum inn fyrir línuna. Hef ekki trú á að þessi leikur sendi einhver skilsboð til hinna liðana, þvert á móti. Þetta lið er talið eitt besta lið í heimi, en það er víðs fjarri í mínum huga, vantar alla skerpu og hraða í liðið sem sagt greddu. Því miður þá er ég svartsýnn og held mig enn við 6-7 sætið í vor, erfiðir leikir eftir en vona að ég hafi rangt fyrir mér. Góðar stundir.
Auðunn says
Ágætis leikur og mikilvæg 3 stig þótt ég telji að það sé orðið of seint í rassinn gripið að ná topp 4 úr því sem komið er.
En sú ákvörðun að hafa Fellaini sem fyrirliða er ekki aðeins asnaleg heldur móðgun fyrir klúbb eins og Manchester United.
Turninn Pallister says
Sæll Hjörtur,
Bara svo það sé á hreinu þá sagðist ég SAKNA þess að sjá liðið spila frábæran fótbolta og senda með því skilaboð til annara liða. Þetta var ekki svoleiðis leikur (var reyndar á köflum alls ekki mikið fyrir augað). Við eigum að spila betur á móti vængbrotnu Sunderland liði sem stjórnað er af vængbrotnum David Moyes. Leikmenn Sunderlands gætu alveg eins hafa reynt að spila þennan leik með handjárn á höndum og fótum eftir að hafa orðið manni færri. Það að vinna þennan leik með þremur mörkum er ekkert stórafrek.
Halldór Marteins says
Ánægður að sjá Fellaini fá fyrirliðabandið í þessum leik, skemmtilega óvænt :) sýnir hvað Mourinho finnst um karakterinn í Fellaini.
Viss um að þetta á eftir að virka sem gott búst fyrir Belgann á næsta tímabili :)
Karl Gardars says
Skyldusigur sem var aldrei í hættu og 3 mikilvæg stig í baráttunni um meistaradeildarsætið.
Jújú engin leiftrandi spilamennska en 3 mörk og hreint lak.
Tony D says
Fengum ekki mark á okkur og það er flott. Gott að klára leikinn og taka 3 punkta. Leikurinn hefði orðið mun erfiðari ef Sunderland hefði nýtt eins og eitt færi. Það ætti ekki að koma á óvart að liðið sé ekki að sýna leiftrandi spilamennsku í leiknum enda stíft prógram framundan og upplagið örugglega að missa menn ekki í meiðsli og spara orkuna, sérstaklega eftir mark nr 2 sem kom strax í seinni hálfleik. 3 punktar og ég er sáttur með þetta.
DMS says
Þægilegur leikur gegn afskaplega brotnu liði sem virðist algjörlega snjáð af sjálfstrausti.
Næstu tveir leikir verða hinsvegar ekki svona þægilegir.
Ef við náum 3 stigum gegn Chelsea þá fyrst skal ég trúa því að við eigum séns á 4. sætinu í ár. Annars er Evrópudeildin okkar eini séns.
Cantona no 7 says
Skyldusigur.
G G M U
Runólfur Trausti says
Nú er bara að vinna rest (ef svo ólíklega vill að það gerist þá endar liðið með jafn mörg stig og Leicester vann deildina með í fyrra).
Ef við ætlum samt að vera raunsæir þá á United sturlað leikjaprógram í næstu 8 leikjum í deildinni. Næstu þrír deildarleikir eru Chelsea heima, svo Burnley og Manchester City úti. Ef svo ótrúlega vill að þetta Unbeaten Run lifi þessa leiki af þá tekur við heimaleikur gegn Swansea City (hvar get ég veðjað á að lokatölur verði 1-1?) og svo útileikir gegn Arsenal og Tottenham.
Svo endar tímabilið á leik gegn Crystal Palace á Old Trafford og Southampton úti í lokaleik tímabilsins (er það bara ég eða á United alltaf Southampton í loka leikjum tímabilsins?).
Mín spá er að United taki 12 stig úr þessum 8 leikjum. Þrír sigrar, þrjú jafntefli og tvö töp (og það er ég að vera bjartsýnn). Það skilur liðið eftir með 69 stig. Það hefði verið nóg í fyrra og hitt í fyrra en ekki í ár (og alls ekki þegar David nokkur Moyes var að þjálfa Manchester United – þá endaði Arsenal í 4ja sæti með 79 stig takk fyrir).
Rauðhaus says
Þetta var ágætasti leikur og mér finnst ekki hægt að vera að kvarta eitthvað yfir 3-0 sigri. Miðað við leikjaprógrammið framundan var bara fínt að taka smá „walk in the park“ í þessum leik úr því sem komið var. Enn og aftur eru það samt gæðin hjá Zlatan sem eru að nýtast okkur. Hvernig hann tók markið sitt var frábært. Hafði lítið gert fyrstu mínúturnar en poppar svo allt í einu upp og boltinn er í netinu. Þvílíkur framherji sem hann er.