Leikur í gær, leikur í dag og leikur á morgun, eða það finnst manni allavega þessa dagana. United tekur á móti Gylfa Sigurðssyni og félögum í Swansea eldsnemma á morgun.
Þetta er níundi og síðasti leikurinn sem okkar menn spila í brjálæðislega þéttum apríl-mánuði sem hefur bara verið ansi fínn fyrir United. Í þessum níu leikjum hefur liðið aðeins fengið á sig þrjú mörk, fært sig ofar í deildinni og tryggt sér sæti í undanúrslitum Evrópudeildarinnar. Gæti verið verra.
Eins og við höfum aðeins verið að koma inn á í upphitunum fyrir síðustu leiki eru leikirnar nú í lok tímabilsins ansi mikilvægir. Á því er engin breyting nú enda getur liðið með sigri komið sér í eitt af efstu fjórum sætunum í ansi langan tíma. Nái liðið í sigur fer liðið í það minnsta upp fyrir Liverpool sem spilar ekki fyrr en á mánudaginn. Ágætis tækifæri til að setja pressu á erkifjendurna enda væri það ekkert annað en frábært að senda þessa pjakka frá Liverpool í Evrópudeildina að ári.
Konungsveldi Gylfa
Það er bara einn konungur í Swansea og það er Gylfi Þór Sigurðsson. Þrátt fyrir framlag hans á tímabilinu, heil átta mörk og tólf stoðsendingar, sem er helmingur marka Swansea á tímabilinu, er liðið í bullandi fallbárattu og staðan er einföld fyrir þá, þeir þurfa helst að ná í sigur á Old Trafford.
Liðið er í 18. og síðasta fallsætinu og ef við gefum okkur að Boro og Sunderland séu búin að kveðja er liðið það eina í botnsætunum sem getur bjargað sér frá falli. Þeir eru með 31 stig og ætli eini möguleiki þeirra á að halda sér uppi sé ekki að komast upp fyrir Hull sem er með 33 stig í því sautjánda.
Swansea reif sig upp í síðasta leik gegn Stoke um síðustu helgi og náði í kærkominn og langþráðan sigur og auðvitað var Gylfi með stoðsendingu. Liðið vinnur nefnilega varla leik án þess að Gylfi komi að máli. Fyrir Stoke leikinn hafði liðið ekki unnið leik frá því 4. mars þegar Burnley fékk að finna fyrir því. Þetta voru fimm tapleikir í röð og vitiði hvað þeir eiga allir sameiginlegt? Jú, Gylfi lagði ekki upp mark eða skoraði í þeim öllum.
http://gty.im/663778242
Swansea er nefnilega ansi háð Gylfa sem er þeirra langbesti leikmaður. Hann hefur náð að mynda ágætis sóknardúett með Fernando Llorente í framlínunni og þeir tveir geta verið skæðir. Tom Carrol hefur einnig komið sterkur inn frá því að hann gekk til liðs við félagið og Alfie nokkur Mawson er nokkuð sprækur í vörninni.
Það snýst þó allt um Gylfa og á morgun þurfa okkar menn að passa sig að gefa eins lítið af aukaspyrnum og hornspyrnum og hægt er enda ljóst að þar verða andstæðingar á morgun langskeinuhættastir.
Og okkar menn?
Það hefur gengið ágætlega hjá okkar mönnum að undanförnu. Liðið hefur ekki fengið á sig mark í fjórum síðustu deildarleikjum en þetta hefur kostað sitt og leikmenn liðsins keppast við að meiðast nú á lokasprettinum. Fosu-Mensah bættist á listann í leiknum gegn City og Pogba verður ekki með á morgun, að því er kom fram á blaðamannafundi Mourinho fyrir leikinn.
Við erum án okkar markahæsta leikmanns, við erum án okkar stoðsendingahæsta leikmanns, við erum án þess leikmanns sem skapar flest færi allra og það eru fimm byrjunarliðsmenn á meiðslalistanum, plús Fosu-Mensah og með Fellaini í banni.
Þetta gæti vissulega verið betra og það verður töluverður höfuðverkur fyrir Mourinho að stilla upp liðinu á morgun. Hann grínaðist meðal annars með það að hann sjálfur þyrfti kannski að koma in í liðið!
Bailly hlýtur að vera örmagna af þreytu eftir þessa leikjatörn og ef það er einhver sem við megum ekki missa út tímabilið þá er það hann. Hann og Blind hafa reyndar unnið vel saman og Mourinho hrósaði mikið eftir leikinn gegn City í vikunni. Það er spurning hvort Tuanzebe fái sénsinn í miðvörðinn, en það væri sérstaklega gott að geta hvílt Bailly á morgun fyrir átökin gegn Celta Vigo í vikunni.
Mesti höfuðverkurinn er þó kannski á miðjunni þar sem Herrera og Carrick eru hreinlega einu hreinræktuðu miðjumennirnir sem Mourinho getur valið í hópinn. Þrátt fyrir að Mourinho hafi útilokað í upphafi tímabils að Rooney myndi spila á miðjunni minntist Mourinho á að það væru möguleiki á morgun.
Ég sé hreinlega ekki hvernig hann ætlar að manna miðjuna án þess að hafa Rooney. Það væri sterkt að geta hvílt Carrick og miðja með Herrera djúpum og Rooney og Lingard gæti verið eitthvað sem við sjáum á morgun.
Martial, Rashford og Mkhitaryan mynda líklega framlínuna en mögulega gæti Ashley Young dúkkað upp á kantinum ef Mourinho vill hvíla einhvern.
Það getur verið erfitt að mæta botnliðum sem eru að berjast fyrir sínu á lokametrunum og leikurinn á morgun veltur hreinlega á því hvort að United tekst að svæfa leikinn tiltölulega snemma líkt og gegn Burnley og Sunderland undanfarnar vikur.
Miðað við dagskránna sem er framundan er alveg óhætt að segja að besta leiðin fyrir United til að koma sér í Meistaradeildina á næsta ári er í gegnum Evrópudeildina en þrjú stig á morgun, verða afar kærkomin í baráttunni um að komast í eitt af efstu fjórum sætunum og eins og ég sagði hér að ofan væri hrikaleg sætt að geta skotið annaðhvort Liverpool eða City í Evrópudeildina að ári.
Leikurinn hefst klukkan 11. 3 stig takk.
Óli says
Veðjaði húsin, bílnum og krökkunum á 1-1. Verð líklega búinn að fá það tvöfalt til baka eftir 90 mínútur eða svo.