Loksins er löngu og erfiðu deildartímabili lokið, fullu vonbrigða, en eftir er einn leikur sem mun skilgreina þetta tímabil Manchester United þegar litið verður til baka. United fer til Stokkhólms til að sækja eina meiriháttar bikarinn sem vantar í bikarasafnið á Old Trafford.
Það má vera að Evrópudeildin sé litli ljóti bróðir Meistaradeildarinnar en við spyrjum ekkert að því þessa vikuna. United er í úrslitum í Evrópukeppni og því ber að fagna.
Þetta er sjöundi úrslitaleikur Evrópukeppni sem United tekur þátt í .
Wembley 1968 – Evrópumeistarar meistaraliða
Leikurinn þegar Sir Matt Busby, Sir Bobby Charlton og Bill Foulkes gátu loksins unnið titilinn sem slysið í München tíu árum fyrr hafði rænt frá félaginu. Sir Bobby skoraði tvö mörk, George Best glæsilegt sólómark, Brian Kidd hélt upp á 19. afmælisdaginn með frábærri frammistöðu og marki og varsla Alex Stepney frá besta leikmanni Evrópu utan United, Eusébio, kom leiknum í framlenginguna. Denis Law þurfti samt að horfa á leikinn af sjúkrahúsi.
Eftir á að hyggja var þetta upphafið að hnignunartímabili, eldri leikmönnum var ekki skipt nógu vel út en enginn var að hugsa um það 29. maí 1968.
Rotterdam 1991 – Evrópumeistarar bikarhafa
Í þetta sinn var þetta ekki upphaf að hnignun heldur skref í átt að stórveldi. Ekki í fyrsta skipti kemur Barcelona við sögu. Þetta lið þeirra var ekki jafn sterkt og síðar varð en voru sigurstranglegra liðið. En Mark Hughes tók á móti sínu gamla liði með tveimur mörkum, öðru stal hann af Steve Bruce á marklínu en hitt var sérlega glæsilegt. Clayton Blackmore hreinsaði á marklínu undir lok leiksins og United fagnaði titil.
Evrópukeppni bikarhafa var kannske minnsta Evrópukeppnin en fyrir stuðningsmenn United þetta kvöld í Rotterdam var þetta jafn stór og hver annar Evróputitill.
Barcelona 1999 – Evrópumeistarar
Hvað er hægt að segja um þetta kvöld í Barcelona annað en að ég sé alltaf eftir að hafa ekki sagt bless við rútuna til Alicante og eytt nóttinni í Barcelona í staðinn. En skynsemin réði.
Leikurinn sjálfur var öldungis gleymanlegur, Bayern voru betri allan tímann. En svo kom uppbótartími!
Sheringham. Solskjær. Football, bloody hell!
Já, og þrennan!
Moskva 2008 – Evrópumeistarar
Að ferðast til Moskvu til að taka á Chelsea er eins og að fara yfir lækinn til að sækja vatn en það var nauðsynlegt til sækja þriðja Evrópumeistaratitilinn í ausandi rigningu, með framlengingu, vítakeppni og meiri spennu en hægt er að þola með góðu móti.
Óeftirminnilegur leikur með öllu samt, ef frá er talin vítakeppnin. Reyndar skoraði Ronaldo með fínum skalla en klúðraði svo víti í vítakeppninni. Það kom blessunarlega ekki að sök því tveir Chelsea leikmenn skoruðu ekki.
Enda sagði ég í gær: Takk fyrir mig, John Terry!
Róm 2009 – Tap
Enn á ný kemur Barcelona við sögu, nú nýja og ógnvænlega sterka Barcelona. United tapaði 2-0 í leik þar sem sigur Barcelona var sjaldan í hættu, og þó það virðist einkennilegt nú þá var þetta besta tímabil Darren Fletcher hjá United og hans var sárt saknað í úrslitaleiknum þar sem hann var í banni. Samuel Eto’o og Lionel Messi skoruðu mörkin.
Wembley 2011 – tap
Aftur Barcelona, aftur tap. Þó það væri 1-1 í hálfleik þökk sé marki frá Rooney þá voru Barcelona alltaf betri aðilinn og Messi og Villa tryggðu þeim 3-1 sigur. Lítið við því að segja að lenda tvisvar í besta félagsliði heims á þessum tíma en vissulega svolítið gremjulegt
Þannig er það, fjórir sigrar, tvö töp.
Leiðin í úrslitin
United fer í úrslitaleikinn á miðvikudaginn sem sigurstranglegra liðið en það segir ekki mikið þegar á hólminn er komið. En förum yfir það í upphitun á morgun. Í dag skoðum við að lokum hvernig United komst í úrslitin
Riðlakeppnin
Feyenoord – Manchester United 1-0
Manchester United – Zorya Luhansk 1-0
Manchester United – Fenerbahçe 4-1
Fenerbahçe – Manchester United 2-1
Manchester United – Feyenoord 4-0
Zorya Luhansk – Manchester United 0-2
Það gekk ekki vandræðalaust að komast áfram úr riðlinum, tvö töp á útivelli leiddu til þess að United þurfti að forðast tap í síðasta leik á erfiðum útivelli, en það tókst og United komst áfram.
32 liða úrslit
Manchester United – Saint-Étienne 3-0
Saint-Étienne – Manchester United 0-1
Þægilegir sigrar heima og heiman gegn ekki svo sterku liði Saint-Étienne.
16 liða úrslit
Rostov – Manchester United 1-1
Manchester United – Rostov 1-0
Jafntefli á ömurlegum velli í fyrri leiknum og streðsigur í þeim seinni. United var ekkert að gera þetta auðvelt þarna
8 liða úrslit
Anderlecht – Manchester United 1-1</>“
Manchester United – Anderlecht
Enn meira streð, aftur jafntefli á útivelli og gríðarlega erfiður 2-1 sigur í seinni leiknum sem kostaði langtímameiðsli á bæði Marcos Rojo og Zlatan Ibrahimovic. Strax fyrir þessa leiki var orðið nær ljóst að United kæmist ekki í topp fjögur í úrvalsdeildinni þó að hrasanir annarra liða veldu því að sú von dó ekki ekki fyrr en undir lokin og þessi keppni orðin leiðin í meistaradeildina. En þetta hafðist.
Undanúrslit
Celta de Vigo – Manchester United 0-1
Manchester United – Celta de Vigo 1-1
Loksins loksins útisigur. En í stað þess að seinni leikurinn yrði þægilegur tókst United næstum því að klúðra honum og aðeins klúður Celta á síðustu mínútu kom í veg fyrir að United félli úr leik.
En United er komið í úrslitaleikinn á Vinavangi í Stokkhólmi og á morgun förum við yfir andstæðingana, og United liðið!
Auðunn says
Er farinn að iða í skinninu yfir þessum leik.
Þetta er klárlega mikilvægasti leikur United síðan liðið spilaði gegn Barca 2011.
Ekki bara það að komast í meistaradeildina heldur er þetta bæði prófraun á Móra sem og sá leikur sem skilur að mjög vondu tímabili og þolanlegu tímabili.
Það á að vera lágmarks krafa á Old Trafford að komast í meistaradeildina, menn sem ekki afreka það hafa hingað til fengið sparkið og þar með er búið að draga línuna þegar kemur að lágmarks kröfum.
Ég á nú samt ekki von á því að Móri verði rekinn þótt þessi leikur tapist en maður skildi ætla að hann sé þá mjög líklega kominn á hálan ís sem stjóri liðsins, það er allt undir hjá honum persónulega.
Ef allt er eðlilegt og Móri nær að undirbúa sitt lið almennilega þá á þessi leikur að vinnast, United á að vinna lið Ajax undir eðlilegum kringumstæðum en eins og þetta tímabil hefur þróast þá er svo sannarlega ekki hægt að vera sigurviss fyrifram.
United verður að eiga mjög góðan leik annars mun liðið lenda í bullandi vandræðum.
Ég þori ekki að spá neinu, er svona 50/50 bjartsýnn og ekkert meira en það á þessu augnabliki.
Björn Friðgeir says
Smá áheit Auðunn: Ef United vinnur, þá sýnirðu Mourinho þá virðingu að hætta að kalla hann Móra?
Díll?
Auðunn says
Það er nú engin vanvirðing í
minni meiningu að kalla hann Móra, vissi ekki að það væri viðkvæmt eða færi fyrir brjóstið á einhverjum.
Björn Friðgeir says
Æ mér finnst það frekar leiðinlegt, enda í mínum huga bara nafn á draugum og engu öðru
Auðunn says
Ef Mourinho selur Fellaini þá skal ég hætta að kalla hann Móra. Það er díll.
Björn Friðgeir says
Ég tek því!
(hlakka til keppnistímabilsins 2018-19!)