Í dag hugsum við öll með hlýhug til Manchesterborgar og vottum samúð sína vegna hryðjuverkaárásarinnar í gærkvöldi.
En jörðin snýst áfram, veröldin heldur áfram og fótboltinn líka. Á morgun kl 18:45 leikur Manchester United sinn sjöunda úrslitaleik í Evrópukeppni, 4 hafa unnist, tveir hafa tapast. Af þeim verðlaunagripum sem ensk lið hafa keppt um hafa lið United síðustu 139 árin hampað öllum. Utan eins. Þess stærsta að þyngd og umfangi.
Áður en lengra er haldið bendum við á hlaðvarpið sem við tókum upp í gærkvöldi þar sem leikurinn var ræddur í þaula.
Leikurinn fer fram eins og flest hafa vonandi frétt á Friends Arena í Stokkhólmi, eða Vinavangi eins og einhver þýddi svo ágætlega. Völlurinn tekur um 50 þúsund manns í sæti og eins og venjulega fá liðin fæst af sætunum en „UEFA fjölskyldan“ þeim mun fleiri. En við þekkjum United stuðningsmenn og þau munu mæta mun fleiri en hafa miða, eða eins og segir í kvæðinu
There’ll be thousands of Reds
without tickets or beds
Hin útgáfan af þessum skemmtilega söng mun að sjálfsögðu eiga við líka.
Við vitum svo sem hvað er undir í þessum leik, en þetta er samt bara knattspyrnuleikur tveggja liða og þau eru það sem skiptir.
Lið Ajax
Lið Ajax verður að öllum líkindum svona:
Ajax spilar sem sé 4-3-3 í anda Johans heitins Cruijff og liðið er sókndjarft en að sama skapi hafa þeir verið að fá á sig frekar mikið af mörkum. Þeir unnu ekki leik á útivelli í útsláttarkeppninni, töpuðu þremur og gerðu eitt jafntefli en unnu alla heimaleikina og komust þrisvar áfram á einu marki í plús. Það verður því áhugavert að sjá hvernig þeim gengur á hlutlausum velli.
Helsta vandamál Ajax fyrir leikinn liggur í vinstri bakvarðarstöðunni. Daley Sinkgraven er meiddur og Nick Viergever, reyndur varnarmaður fékk rautt á móti Lyon og er í banni. Kenny Tete er 21 árs hægri bakvörður sem talið er líklegt að fari í vinstri bakvörðinn. Ef ekki þá verður það líklega Jaïro Riedewald, sem er er árinu yngri.
Þetta lið sem stillt er upp að ofan er sem sé mjög ungt, meðalaldurinn vel innan við 23 ár, og þeir Onana, Sánches, De Ligt, Tete, Traoré og Dolberg allir 21 árs eða yngri. Mathijs De Ligt er yngstur, verður 18 ára í águst, rétt árinu eldri en Angel okkar Gomes. Hinn miðvörðurinn, Davinson Sánchez frá Kólombíu er tvítugur og það verður fróðlegt að sjá hvort framkvæmdastjóri Ajax, Peter Bosz lumar á einhverjum eldri varnarmanni til að koma smá reynslu í öftustu línuna. Joël Veltmann sem mun víst spila hægri bakvörð er miðvörður að upplagi og á 13 landsleiki fyrir Holland og er næst elstur í liðinu, 25 ára.
Í markinu er ekki reynslunni fyrir að fara heldur, André Onana er 21 árs Kamerúni sem er á sínu fyrsta ári með Ajax eftir 3 ár með varaliði Ajax í B deildinni. Hann lék engu að síður sinn fyrsta landsleik síðasta haust.
Á miðjunni er Daninn Lassi Schöne, 31 árs Dani sem hefur leikið allan sinn feril í Hollandi og spilað af og til fyrir Danmörku, alls 28 sinnum, Hakim Ziyech, sem hefur verið duglegur í stoðsendingunum undanfarið og Davy Klaassen, 24 ára og þriðji elstur í liðinu, markahrókur sem er lykilmaður þeirra Ajaxmanna.
Mest spennandi leikmaður Ajax, Kasper Dolberg verður 20 ára í október en hefur staðið sig mjög vel í vetur og er auðvitað orðaður við United. Hann hefur skorað 16 mörk í deild og 7 í Evrópudeildinni. Eldfljótur og útsjónarsamur og mun án efa hafa mikinn áhuga á að reyna sig á sprettinum gegn Daley Blind ef tækifæri gefst. Sitt hvoru megin við Dolberg eru þeir Amin Younes sem hefur oftar öðrum í Evrópudeildinni reynt að rekja boltann upp og hinu megin er lánsmaður frá Chelsea, Bertrand Traoré sem er litlu síðri í sóló og er með flest skot á mark í Evrópudeildinni í vetur og skoraði fjórum sinnum, milli þess sem hann lagði upp fjögur önnur mörk. Það mun því reyna verulega á bakverðina á morgun.
Mörg okkar eru eflaust spennt að sjá Justin Kluivert reyna sig en þessi 18 ára sonur Patricks verður á bekknum. Hann er nokkuð öðruvísi en pabbi, mun lægri í loftinu og kantmaður frekar en kraftsenter.
Sem fyrr segir, lið sem spilar spennandi og skemmtilegan sóknarfótbolta, stútfullt af hungruðum ungum leikmönnum, en vantar að sama skapi upp á reynslu, hvort heldur í árum talið, í alvöru leikjum í Evrópu eða landsleikjum.
Leið Ajax í úrslitin
Riðlakeppnin
Panathinaikos 1-2 Ajax
Ajax 1-0 Standard Liège
Celta 2-2 Ajax
Ajax 3-2 Celta
Ajax 2-0 Panathinaikos
Standard Liège 1-1 Ajax
32 liða úrslit
Legia 0-0 Ajax
Ajax 1-0 Legia
16 liða úrslit
København 2-1 Ajax
Ajax 2-0 København (samanl. 3-2)
Fjórðungsúrslit
Ajax 2-0 Schalke
Schalke 3-2 Ajax, e.frl. (samanl. 3-4)
Undanúrslit
Ajax 4-1 Lyon
Lyon 3-1 Ajax (samanl. 4-5)
Manchester United
Eins og við vitum fer United í þennan leik með ansi lengri meiðslalista og að öðrum ólöstuðum munar þar mest um Zlatan Ibrahimovic og Marcos Rojo. Eric Bailly er auðvitað í banni og ef það var ekki líklegt fyrir þá vitum við að José Mourinho mun setja leikaðferðina upp þannig að United mun liggja til baka og leyfa Ajax að sækja, reyna þannig að minnka áhrif hraðans í liði Ajax og beita síðan hröðum gagnsóknum á móti. Það gæti reynst helsta ástæðan fyrir því að Juan Mata mun ekki byrja leikinn þó hann hafi hvílt á sunnudaginn. José mun vega hraða Jesse Lingard eða Anthony Martial móti útsjónarsemi Mata gegn reynslulítilli vörn. Ég ætla að skjóta á að það verði maðurinn sem búinn er að skora í tveimur úrslitaleikjum á Wembley síðasta árið, að ógleymdum Samfélagsskjaldarleiknum sem verði fyrir valinu.
Að því frátöldu eru ekki mörg spurningamerki við uppstillinguna. Líklegast er talið að það verði Phil Jones frekar en Chris Smalling sem verði í miðverðinum, og í dag var slúður um að United væri að fiska eftir tilboðum í Smalling.
Þá er bara að finna út þriðja miðjumanninn og það er í mínum huga ekki spurning að einstakir hæfileikar Marouane Fellaini verða sendir fram á völlinn á Vinavangi. Hann verður þarna til að valda usla bæði á miðjunni og ekki síður í vörninni. Reyndar eru bæði Sánchez og De Ligt 188 sentimetrar þannig það er ekki líklegt að þeir láti Fellaini rústa sér í loftinu. Við vonum bara að brjóstkassinn nýtist þeim mun betur.
Sergio Romero verður í markinu. David de Gea kann að vera einn besti markvörður heims en Romero fær að halda sæti sínu eftir að hafa varið markið í gegnum keppnina. Fyrir þau sem hafa áhyggjur að spila með varamarkvörðinn þegar við erum þegar með varamiðverði ætla ég að láta að nægja tvennt, Sergio Romero er öllu grimmari í úthlaupum í teiginn og því líklegri að bjarga þannig og síðan er Sergio Romero alger vítabani! Hann varði jú víti gegn Southampton um daginn og af 34 vítum sem hann hefur reynt að verja í venjulegum leiktíma hefur hann varið 10. Að auki varði hann 2 víti í vítakeppni þegar Argentína vann Holland í undanúrslitum HM 2014. Það gæti reynst vel.
Þegar bæði lið spila 4-3-3 má búast við að það verði ekki mikið pláss fyrir spil og leikurinn lokaðri en ella, leikmenn verða mikið að keppa um sömu svæðin. Það gæti ráðið úrslitum hvort skiptingar takist. Ef Mata byrjar þá væri innáskipting Lingard eða Martial síðar í leiknum vonandi eitthvað sem gæti hrist upp í leiknum ef þarf. Það er ansi dapurt ef þarf að reyna að setja Rooney inn á, nema kannske helst sem kveðjuskipting ef leikurinn er unninn. Carrick, Smalling, Fosu-Mensah eða Tuanzebe eru ekki líklegir til að snúa við leiknum ef United þarf að skora þannig það skyldi þó aldrei vera að Josh Harrop eða Demetri Mitchell fái að sitja á bekknum með drauma um að skrifa sig í sögubækurnar?
Allt undir
Er allt undir? Nei, það er ekki allt undir, því jafnvel þó þessi leikur tapist þá mun José Mourinho halda starfinu og United mun samt eiga fúlgur fjár til að eyða í leikmenn í sumar.
En í kvöld var Antoine Griezmann í viðtali í franska sjónvarpinu og sagði hreint út að líkurnar á að hann gengi til liðs við United væru sex af tíu og það réðist á næstu tveim vikum. Skyldi það ekki vera tveir dagar frekar og að Griezmann meti sigurlíkur United gegn Ajax 60%? En annars virðist hann ekki sleipur á reikningssvellinu því rétt á eftir sagði hann líkurnar á að hann yrði áfram hjá Atlético 7 af tíu! Einnig ber að hafa í huga að leikmannakaupabann vofir yfir Atlético og ef því verður ekki létt er ólíklegt að Griezmann fari frá félaginu án þess að það geti fengið menn í staðinn. En það er víst líklegt að því verði létt og nær staðfest er að Alexandre Lacazette muni þá ganga til liðs við Atlético.
Þetta er það sem er undir. Ef United kemst í Meistaradeildina verða leikmannakaup sumarsins mun auðveldari (en ekki ódýrari) og við förum með bros á vör inn í sumarið. Þrátt fyrir alla stórleiki síðustu 27 ára, úrslitaleiki í deild, bikar, og Evrópukeppnum þá er það einhvern veginn svo að fyrir þennan leik líður mér svipað og vorið 1990 þegar sigur í bikarkeppninni tryggði starf Sir Alex Ferguson.
Kannske er þetta vegamótaleikur. Munum við horfa á þennan leik eins og sigurleikinn í 3. umferð bikarsins 1990 þegar Mark Robins bjargaði Sir Alex? Eða kannske upphafið að endalokum José Mourinho hjá United?
Nú eða kannske bara hvorugt? Því ef hann tapast og við förum í Evrópudeildina næsta ár, hvers vegna þá ekki að styrkja liðið engu að síður, stækka aðeins hópinn og nota Evrópudeildina grimmt til að spila með ungu leikmennina? Hvers vegna væri það skelfilegt?
Nei það þarf ekkert að vera.
Á morgun getum við unnið bikarinn sem vantar í púsluspilið. Eða tapað honum. Og þá byrjar næsta tímabil eins og öll önnur, á auðu blaði. Og þó það verði hugsanlega minna spennandi kaup í sumar þá er nýtt tímabil ný von. Og fyrir Manchester United verður sú von aldrei vonlaus, eða hlægileg.
Joe says
Er Fellaini ekki í banni?
Auðunn says
Mjög flott upphitun.
Nei Fellaini er því miður ekki í banni og því talsverðar líkur á að hann spili þennan leik sem yrði þá slæm ákvörðun.
En Móri stendur og fellur með þeim ákvörðun sem hann tekur.
Auðunn says
Ég myndi alltaf spila Mata og Carrick í þessum leik.
Carrick með gífurlega reynslu enda spilað marga risa úrslitaleiki, hann er maðurinn sem getur róað hlutina niður og hann spilar með hausnum, þannig menn eru nauðsinlegir í svona leik.
Mata er alltaf betri fótboltamaður en Lingard þótt það sé meiri snerpa og kraftur oft í Lingard.
Hef meiri trú á Mata í svona leik, reynslumeiri og skynsamari leikmaður að mínu mati.
Ég myndi líka alltaf spila Smalling og Jones í miðverðinum, er mjög tæpur á taugum þegar Blind er miðvörður.
Hann er allt of hægur í það hlutverk,´hefur ekki líkamlega burði í þá stöðu, alltaf skrefinu á eftir og mjög lélegur í loftinu. Fyrir utan þetta sem er upp er talið þá finnst mér hann stressaður og ekki nægilega fókusaður stundum.
Hann yrði fínn eða amk betri kostur en Darmian í vinstri bakverðinum.
Í þessum leik er gífurlega mikilvægt að liðið sé yfirvegað og menn treysti hvorum öðrum 100%.
Finnst liðið ekki nægilega stöðugt og yfirvegað með Fellaini á miðjunni og Blind í bakverðinum.
Líst mikið betur á blikuna með Smalling í miðverðinum og Carrick inn á miðjunni.
Auðunn says
og Blind í miðverðinum átti þetta að vera.
Halldór Marteins (@halldorm) says
Skella bara Fellaini í miðvörðinn, málið leyst :D