Lið Manchester United var lítið eitt breytt frá því sem spáð var, Juan Mata var valinn frekar en Big Game Jesse og Chris Smalling fékk miðvarðarstöðuna frekar en Phil Jones, að sögn Mourinho vegna þess að Smalling kom fyrr úr meiðslunum.
Varamenn: De Gea, Jones, Fosu-Mensah, Lingard 74′, Carrick, Martial 84′, Rooney 90′
Lið Ajax var eins og við var búist, nema í stað Tete var Riedewald í vinstri bakverði.
United byrjaði af miklum krafti og sótti á Ajax frá fyrstu mínútu. Ekki urðu þó færi úr því að ráði, fyrsta skiptið sem United kom boltanum af alvöru inn í teig var á 10. mínútu, Mata náði að gefa fyrir og litlu munaði að Feillaini næði að stanga boltann. Ajax náði þó vopnum sínum og hélt boltanum næstu mínútur sem endaði á fyrsta markskotinu, Traoré skaut beint á Romero. Þetta skot vakti aðeins United, og þeir fóru aftur í sókn. Það endaði með marki! Mata fékk boltann inni í teig, var umkringdur en náði að koma boltanum út á Fellaini, Fellaini renndi boltanum á Pogba sem lagði hann fyrir sig og skaut. Þetta var ekki besta skotið en fór í Sánchez og inn. Onana átti ekki séns eftir að boltinn fór í Sánchez. 1-0 eftir 17 mínútur og 17 sekúndur
Ajax reyndi að sækja eftir markið en United var geysilega þétt fyrir. Blind stóð sig vel í að lesa leikinn og greip hvað eftir annað inn í. Fellaini tók Schöne fyrir og Pogba var gríðarsterkur. Þetta var greinilega hluti af áætlun Mourinho að leyfa Ajax að halda boltanum og beita skyndisóknum, sérstaklega fyrst United var komið yfir.
Traoré var sprækur fyrir Ajax og átti einn af þessum einleikjum sem hann hefur verið að beita í vetur, komst inn í teig og framhjá Blind en United náði að stöðva hann og Smalling hreinsaði.
Eins og oft áður í vetur hleypti United mótherjanum allt of mikið inn í leikinn þó að engin Ajax færi kæmu í ljós í fyrri hálfleiknum og það var ákveðinn léttir að fara inn í hálfleikinn. Völlurinn var fljótlega orðinn mjög slæmur sem líklega hafði einhver áhrif á spilamennskuna í leiknum, erfitt að láta boltann ganga á jörðinni
Seinni hálfleikurinn byrjaði með látum, Ajax átti góða sókn sem endaði með broti á Fellaini, United fór í sókn og Fellaini var næstum kominn í gegn en Sánchez bjargaði í horn. Mata tók það, góð fyrirgjöf inn á teiginn, Smalling skallaði niður og Mkhitaryan skoraði á glæsilega hátt með að teygja sig í boltann með bakið í mark og vippa in af stuttu færi, þrátt fyrir að vera með varnarmann í bakið. Frábært hjá Mkhitaryan sem hafði verið afskaplega slakur í fyrri hálfleik, ekkert gengið og fengið gult að auki.
Leikurinn fór síðan aftur í fyrra farið, United mjög sáttir við að vera 2-0 yfir og sóknir Ajax brotnuðu á sterku United liði. Kaspar Dolberg var alveg ósýnilegur í leiknum, átti sína fyrstu snertingu þegar Ajax byrjaði aftur eftir mark Pogba og var fyrstur Ajax manna útaf. Inn kom David Neres, tvítugur Brasilíumaður.
United fór loksins að koma betur inn í leikinn, Ajax aðeins kannske að missa móðinn og Fellaini átti fínan skalla á Onana. Þetta varði þó ekki lengi enn fór United í að leyfa Ajax að halda boltanum. Ajax skipti Schöne útaf fyrir tvítugan Hollending, Danny van de Beek og rétt á eftir fékk Ajax aukaspyrnu í vítahringnum fyrir hendi á Mkhitaryan. Hún fór þó beint í vegginn.
Fyrsta skipting United kom á 74. mínútu, Jesse Lingard kom inn á fyrir Henrikh Mkhitaryan, nokkuð sem kom ekki á óvart og hefði líklega komið fyrr ef staðan hefði enn verið 1-0.
Ein skemmtilegasta sókn United fylgdi, Pogba fékk boltann og einhvern tímann hefði verið dæmt á Sánchez þegar hann hljóp inn í Pogba en Skomina dómari var búinn að vera mjög linur á minni háttar brotum. Mata fékk reyndar gult fyrir að fara í ökklann á De Ligt og úr því varð smá stuð, Riedewald fékk gult fyrir að hrinda Herrera í þeim atgangi. Riedewald fór síðan útaf fyrir enn einn tvítugan dreng, Frenkie de Jong. United skipti síðan á 84. mínútu, Rashford útaf og Martial inná. Rashford hefur oft átt betri leiki.
Jesse Lingard átti frábært tækifæri til að gera út um leikinn, fékk sendingu frá Martial og var kominn inn fyrir vörnina í miðjuhringnum, skeiðaði upp allan völl en við vítateiginn hrinti Sánchez honum. Ótrúlegt að ekkert skyldi vera dæmt þar. Rétt á eftir varði Romero frá Van de Beek og þá ákvað José að þetta væri komið og Rooney gerði sig tilbúinn og kom svo inn á fyrir Mata á 90. mínútu.
Dómarinn bætti fjórum mínútum við en það gerðist ekkert og United er Evrópudeildarmeistari með sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
Fyrsta verkefni næsta keppnistímabils verður að takast á við Real Madrid eða Juventus í Ofurbikar Evrópu 8. ágúst í Skopje í Makedóníu!
Þetta var gríðarlega traustur leikur hjá United og tístari Rauðu djöflanna, Runólfur Trausti átti kollgátuna:
Erfitt að velja mann leiksins. Ætli það sé ekki bara José Mourinho!? 👀 Þetta var þægilegasti úrslitaleikur sem ég hef séð!
— Rauðu djöflarnir (@raududjoflarnir) May 24, 2017
Mourinho lagði þetta upp til sigurs, leyfði Ajax að vera með boltann, allar sóknir þeirra strönduðu á varnarvegg og þeir voru ekki með nægjanlega reynslu til að vinna á því. Allir varnarmenn þeirra voru tvítugir, og þó það sé spennandi fyrir þá þá þarf meira til.
Þeir Blind, Darmian, Smalling, Fellaini og Pogba voru allir gríðarsterkir og unnu vel saman, Romero átti þægilega dag, Valencia sást lítið og sem fyrr segir voru Mkhitaryan, Mata og Rashford frekar dræmir, að hluta vegna leikaðferðarinnar sem skilaði bikarnum sem okkur hefur vantað í safnið!
The moment @ManUtd lifted their 6th European trophy and celebrated their place in the 2017/18 #UCL…#UELfinal pic.twitter.com/LjFebYdnNc
— UEFA Europa League (@EuropaLeague) May 24, 2017
Laddi says
Til hamingju, United menn nær og fjær!
Turninn Pallister says
Dæmigert Mourinho slútt, Ajax skemmtilegt lið en átti aldrei séns í múrinn. Fræbært í alla staði og við getum gengið beinir í baki frá þessu tímabili.
(Veit ekki með ykkur, en ég þekki einn eða tvo sem ég mun segja við á morgun: „Þið getið bara troðið þessu 4ða sæti upp í r***gatið á ykkur!“)
Halldór Marteins says
Fellaini var frábær í kvöld. Enda á hann heima í þessu liði! #teamFellaini
Bjarni says
Til hamingju United menn, fagurt var það :) Vil kaupa De Ligt í kvöld áður en nóttin er úti, þvílíkt efni í miðverði, 17 ára gamall og hann át Rashford í leiknum þannig að hann sá ekki til sólar. Annar flottur leikur þó það vantaði færin, en mikilvægi leiksins skein í gegn hjá okkar mönnum. Fengum ekki á okkur mark og þó Romero eigi 1-5 gönuhlaup á tímabili þá er þetta algjör töffari, gelið haggaðist ekki í hárinu og hann lét rigna upp í nefið á sér í hvert sinn sem hann greip boltann. Hann er örugglega ættaður úr Þingeyjarsýslu. En stóra spurningin er hvort þetta hafi verið síðasti leikurinn hjá Rooney?
GGMU
Karl Gardars says
Jæja Griezmann, 9,5/10 ha???
Þetta lagaði tímabilið til mikilla muna. Mjög gott að fá bikarinn í safnið en að því sögðu vona ég að við sjáum hann aldrei aftur.
Til hamingju!
Rúnar Þór says
Þvílíkar ákvarðanir hjá Mourinho! Smalling sterkur sem klettur og leggur upp mark 2. Fellaini eins og kóngur! Já drullugóður! Liðið spilaði vel. Darmian er kannski ekki besti bakvörðurinn í að fara fram… en hann er drullusolid. Frábær leikur. Og þessi Zlatan borði er rosalegur!!
Gefiði Fellaini klapp! Hann var rosalegur! vörn sem sókn. Skilaði oft boltanum frá sér og losaði um pressu fyrir utan allt háloftadæmið sitt sem hann gerir venjulega… jafnvel maður leiksins, allavega 1 af þeim
Cantona no 7 says
Til hamingju allir stuðningsmenn Man Utd.
G G M U
Alltaf G G M U
offi says
Snilldin ein. Til hamingju! Nú væri hún karma dásamleg ef Ajax ynni ákveðið enskt lið í undankeppninni! :D
silli says
Til hamingju!
Nú verður alvöru gaman!
Ég get samt ekki setið á mér með að vera ósammála því að „El Toro“ Valencia hafi lítið sést í leiknum.. Hann var allavega býsna áberandi í sjónvarpinu mínu.. :)
Narfi says
Ég hef aldrei verið jafn rólegur fyrir og yfir úrslitaleik, og það kom á daginn að við höfðum enga ástæðu til að vera stressuð. United gerði það sem þurfti að gera (og reyndar óþarflega lítið umfram það), og þessi leiktíð því alls ekki svo slæm. Nú þarf að stækka hópinn svo liðið geti keppt á öllum vígstöðvum á næstu leiktíð, en ekki velja úr líkt og í vetur.
ps. í orðastað nágranna okkar:
Eftir basl og bikarpar
banna skyldi læti,
því falli líkt og ferlegt var
að fjórða ná ei sæti.
Heiðar says
Mikilvægasta leik sem liðið hefur spilað síðan í stjórnartíð Sir Alex er lokið. Að sjálfsögðu kláraði Móri enn einn úrslitaleikinn. Frábærlega upplagt og skipulagið gekk fullkomnlega. Að sjálfsögðu var það einnig rétt ákvörðun hjá honum að gefa skít í deildarkeppnina þegar að möguleikar okkar voru orðnir nánast engir og útileikir gegn Gunners og Spurs á dagskránni. Mikilvægasta orrustan vannst og það býsna sannfærandi. Eftir stendur tímabil með mörgum vonbrigðum, aðallega á Old Trafford. Engu að síður sitjum við uppi með þrjá verðlaunagripi, þar af tvo major. Einhvern tímann hefði það þótt gott á einhverjum bænum.
Þetta var baráttusigur í kvöld. Tveir menn gera tilkall til manns leiksins að mínu mati.
a) M. Fellaini. Frábær leikur á miðjunni hjá honum. Hvað ætli hann hafi unnið mörg návígi?? Hann spilaði einnig óvenjuvel fram á við. Átti meðal annars frábæra takta sem endaði með því að hann kom boltanum á Valencia sem kom sér í ágætisfæri. Það var líka hann sem argaði liðið áfram í að pressa hátt uppi þegar innkastið var tekið sem Pogba skoraði svo upp úr…. eftir sendingu frá Fellaini.
b) A. Valencia. Ég get ekki verið sammála Birni Friðgeiri í að það hafi farið mjög lítið fyrir Valencia. Það var enginn sem sýndi jafnvel muninn á fullorðnum karlmönnum og unglingunum í Ajax eins og hann. Gjörsamlega át leikmenn Ajax hvað eftir annað, nánast á vandræðanlegan hátt fyrir þá rauðhvítu. gerði það að verkum að það skapaðist aldrei ein einasta hætta hægra megin svo tala megi um. Besti hægri bak á Englandi, engin spurning. Ótrúlegt að hugsa til þess að honum hafi upprunalega verið hent í þessa stöðu í meiðslaöldu hjá liðinu eftir að vera búinn að missa hægri útherjastöðuna. Flestir áttu eflaust von á að tími hans hjá félaginu væri á þrotum. Ekki aldeilis !!
P.S. Griezmann… Lukaku… velkomnir, hvor ykkar sem er!
Runólfur Trausti says
Ég fer ekki af því, ég hef aldrei verið jafn rólegur fyrir úrslitaleik og sjaldan jafn viss um sigur. Ástæðan er einföld; José Mourinho. Maðurinn kann að loka stórum leikjum. Það sást 100% í dag.
Án þess að hafa eitthvað fyrir mér í því þá er ég viss um að svona fyrstu 10 leikir hans með Chelsea gegn Arsenal hafi verið nákvæmlega svona. Leiðinlegt? Mögulega. Skilvirkt? Fokk já!
Hvað varðar einstaka leikmenn þá vann Fellaini til að mynda fleiri skallaeinvígi en allt Ajax liðið til saman ásamt því að vera sá leikmaður United sem var með besta hlutfallið af heppnuðum sendingum.
Það sem mér fannst best var í raun það að Mourinho stillti Juan Mata upp í byrjunarliðinu en þegar Mourinho tók við þá voru allir vissir um að Mata myndi fjúka.
Daley Blind er víst „ekki nægilega mikill Mourinho“ leikmaður en byrjaði samt sem áður í miðverði. Sama má segja um Chris Smalling en samkvæmt fjölmiðlum þá átti Mourinho að vera búinn að setja hann á sölulista í vikunni.
Svo má nefna Henrikh Mkhitaryan og Matteo Darmian en báðir fóru í frystukistuna í vetur og átti ferill þeirra á Old Trafford að vera svo gott sem búinn.
Svo er það auðvitað Marcus Rashford en Mourinho hatar auðvitað unga leikmenn eins og allir vita.
Allavega, frábær úrslitaleikur en það vita allir að næsta tímabil þarf að vera betra. Plain and simple.
Mourinho ákvað svo að Mourinho-a yfir sig í lok leiks þegar hann sagði að Ed Woodward hefði verið með innkaupalistann í um það bil tvo mánuði og endaði svo á því að segja að ljóðskáld vinna ekki titla. Einfalt og gott.
Bjarni Þór says
Fyrsta komment hér á raudu djöflana. Takk fyrir mig.
Maður leiksins í mínum huga er án vafa Ander Herrera. Gerði gjörsamlega allt rétt í þessum leik. Ákafinn ‘skein’ af honum ( sáuði hann skipa MckiMkhitaryan fyrir beint eftir seinna markið ), Pogba stórkostlegur, King Fellaini ( hef aldrei sett King fyrir framan það nafn ) gerði upp á hár nákvæmlega það sem hann átti að gera, Valencia gerði all sitt upp á 10 ( afhverju talar hann samt ekki enn ensku? ) . Í heildina litið frábær leikur og nákvæmlega það sem við eigum að búast við undir sigurvegaranum Mourinho. Skipulag númer eitt, tvö og þrjú. Fylgið mér og gullið kemur.
Hvað var Lingard samt að gera?
Hemúllinn says
Rosalega gaman að komast í CL, tíhí. Þetta breytir öllu hvað varðar heildarútkomu tímabilsins, lol. Gaman að enda tímabilið með bikar þó það sé Mikka mús bikar Evrópu, haha. Höldum ótröðir áfram inn í næsta tímbil, hehe.
Robbi Mich says
Ég er spenntur að sjá hvað næsta tímabil ber í skauti sér. Miðað við fyrsta tímabil Mourinho með hálfbrotinn hóp, þá verður maður að vera sáttur við þetta tímabil þó að þetta hafi verið pirrandi á tímum. Þetta var sætur sigur í gær og ennþá sætara þegar maður sér svona bitra athugasemd á Facebook frá Liverpool manni:
„Óska öllum Man Utd mönnum og konum til hamingju með að hafa unnið alla litlu bikarana sem voru í boði. Það verður að viðurkennast að það er afrek ef tekið er mið af því hversu 650 milljóna punda liðið var slakt í vetur og spilaði hundleiðinlegan bolta, sem skilaði einhverjum 15 jafnteflum og 6 sætinu örugglega í deild þeirra bestu á Englandi.“
Glory Glory!
Karl Garðars says
Àn þess að gera mikið lítið úr þessum „afrekum“ þá JÁ, unnum við (sorry) evrópukeppni skítaliða, framrúðubikarinn og kökudiskinn…. og púllarar byrjaðir með öfund. Það er ekkert smá sorglegt ástand á anfield sem unnu mögulega í bingoinu á uppskerubresti leiktíðarinnar 16-17 :-D
En þetta allt saman var okkar liði bráðnauðsynlegt akkúrat núna eftir vonbrigði síðustu ára. Á komandi leiktíð verðum við á okkar stað í meistaradeild, efstu 2 sætum deildarinnar, í stórsókn um FA bikarinn og með pjakkana í litlu bikarkeppninni.
Rauðhaus says
1. Besti leikur Fellaini í búningí okkar. Langbesti.
2. Antonio var geggjaður.
3. Herrera geggjaður, sem kom núll á óvart.
4. Paul Pogba: Þvílíkur yfirburða leikmaður. Langsamlega besti fótboltamaðurinn á vellinum. ballon’dor shortlist innan þriggja ára.
Auðunn says
Gífurleg mikilvægur sigur.
Leikurinn sem slíkur var ekkert sérstakur en sigurinn mikilvægur og sætur.
Herrera og Pogba frábærir. Smalling og vörnin sterk.
Sóknarmenn frekar rólegir og Fellaini slakur eins og vanalega.
Frábær sigur og gott að komast í meistaradeildina.
Þetta er eitthvað sem hægt er að byggja á og mikilvægt að skipta á nokkrum leikmönnum fyrir meira gæði.
Ég hef trú á að Rooney, Fellaini, Young, Darmian og Smalling fari ásamt einhverjum leikmönnum sem hafa verið í útláni.
Mikilvægt að fá gæði í þeirra stað og berjast um titilinn á næsta tímabili.
Þetta er búið að vera gott tímabil sem hægt er að bæta.
Hef trú á að Manchester United geri það með stæl.
Hjöri says
Ágætur sigur, bikar er bikar hversu lítilvæg keppnin er eins og sumir hér halda fram. En þessi keppni var mikilvæg, því án sigurs hefði liðið ekki verið í meistaradeild á næstu leiktíð. Eitt tók ég eftir hér í ummælum, hvað menn sjá misjafnt getu leikmanna, flestir hér hæla Fella fyrir góðan leik, svo kemur einn og segir hann slakan eins og vanalegan, eins með Valencia en að mínu mati stóðu þessir leikmenn sig frábærlega, eins og allt liðið. Pogba finnst mér dálítið oft frakkur með boltann eins og t.d. þegar hann ætlaði sér að reyna að fífla 2 hollara við enda línu, en missti boltann svo aftur fyrir svo úr varð hornspyrna. En spennandi verður að sjá hvað skeður í sumar, hverjir koma og hverjir fara. Góðar stundir.:)
Georg says
Sammála öllu sem hefur komið með Fella,Valencia og þá alla.
Nú er bara að halda kjarnanum og gera réttar viðbætur í liði og vá hvað manni hlakkar til næsta tímabils!!
Gleðilegt sumar allir.
Halldór Marteins says
@Auðunn
Hahahaha, þessi Fellaini þráhyggja er orðin allsvakaleg hjá þér. Fellaini var frábær. Fellaini er oft góður. Fellaini hefur upp á ýmislegt að bjóða í hóp hjá Manchester United. Mourinho treystir Fellaini og það er góð ástæða fyrir því. Fellaini er ekki að fara neitt í sumar, réttilega.
Viva Fellaini!