Leikmenn Manchester United eru mættir til Bandaríkjanna þar sem félagið mun undirbúa sig undir komandi tímabil með fimm vináttuleikjum, áður en komið verður við í Noregi, á heimleiðinni til Bretlandseyja. Alls verða spilaðir sjö leikir en fyrsti leikurinn verður spilaður aðfaranótt næstkomandi sunnudags.
Ferðin til Kína á síðasta ári var einfaldlega bara grín og því er kærkomið að félagið snúi aftur til Bandaríkjanna þar sem allar aðstæður eru til fyrirmyndar. Áður en við rennum yfir ferðalagið í smáatriðum er rétt að kíkja á hópinn sem Mourinho valdi fyrir ferðina.
The #MUFC squad for #MUTOUR… pic.twitter.com/bhI8wzSj6k
— Manchester United (@ManUtd) July 9, 2017
Glöggir taka kannski eftir að þarna vantar einn Romelu Lukaku en hann var auðvitað ekki formlega orðinn leikmaður Manchester United þegar hópurinn var tilkynntur. Hann er nú samt mættur á svæðið.
Þarna er svo sem fátt sem kemur á óvart. Þá helst að Marcos Rojo flýgur með en hann síðast þegar við fréttum af honum var hann með slitið krossband. Annars er virkilega gaman að sjá að Andreas Peireira fær að fljóta með eftir að hafa sýnt laglega takta með Granada á láni. Vonandi fær hann að spila rullu á næsta tímabili.
Unglingarnir Scott McTominay og Demetri Mitchell fara með eftir fínar frammistöður með yngri liðunum og tækifærið með aðalliðinu á síðasta tímabili. Ekkert pláss er fyrir Sam Johnstone og Adnan Januzaj. Sá fyrrnefndi er á leið til Aston Villa á láni og sá síðarnefndi er mjög líklega á leið frá félaginu, hvort sem er á láni eða sölu.
Kaupi United einhvern á meðan á ferðalaginu stendur má fastlega gera ráð fyrir að sá hinn sami bætist við hópinn á miðju ferðalagi.
Áður en við byrjum, hvað er að frétta?
Það er ýmislegt búið að gerast frá því að okkar menn mættu í Los Angeles. Fyrir það fyrsta er Michael Carrick nýr fyrirliði Manchester United og tekur hann við af Wayne Rooney. Carrick er auðvitað langsamlega reynslumesti leikmaður hópsins og er vel að þessu kominn. Hann mun þó auðvitað ekki spila hvern einasta leik og því mögulega tækifæri fyrir leikmenn eins og Pogba og Herrera að koma sér í vænlega stöðu sem arftaki Carrick, enda ekki langt í að hann segi þetta gott.
Congratulations to @Carras16 – our new #MUFC captain! pic.twitter.com/CBYjhE7YPQ
— Manchester United (@ManUtd) July 11, 2017
Í gærkvöldi fór svo slúðurvélin á fullt þegar flestir af þessum traustverðu miðlum sem maður fylgist komu með um það bil sömu fréttirnar.
Í fyrsta lagi er United sagt ætla að gefa í hvað varðar kaup á Eric Dier, varnarmiðjumanni Tottenham. Hann er sagður alltaf hafa verið efstur á óskalista Mourinho hvað varðar þessa stöðu. United er félagið sem hann hélt með sem krakki og er hann sagður vera mjög spenntur fyrir því að ganga til liðs við United sem ætlar sér víst að bjóða 60 milljónir punda í kappann. Það þarf þó örugglega meira til enda Daniel Levy hjá Tottenham ekki auðveldastur þegar kemur að samningaviðræðum.
Á sama tíma komu fréttir um að Woodward ætli sér að klára kaupin á Ivan Perisic, leikmanni Inter sem United hefur verið á eftir í allt sumar. United vill kaupa hann á 40 milljónir punda, Inter vill fá 49. Mætast í miðjunni á 45? Hátt verð fyrir þennan leikmann en ef hann er skotmark Mourinho númer eitt í sóknarmiðjumanna/kantmannstöðurnar ætla ég ekkert að efast um þessi kaup.
United hoping to get Perisic over the line before Inter fly to China next Tues. Work to do though #MUFC https://t.co/ygRE7sLcfN
— James Ducker (@TelegraphDucker) July 11, 2017
Og já, Adnan Januzaj er á leiðinni til Real Sociedad á ca. 10 milljónir punda.
Aftur að ferðalaginu
Alls spilar United sjö leiki á þessu undirbúningstímabili, átta ef menn telja Ofurbikarsleikinn við Real Madrid í ágúst með. Fimm leikir verða spilaðir í Bandaríkjunum, einn í Noregi og einn á Írlandi. Flóra andstæðinganna er fjölbreytt, allt frá LA Galaxy til Barcelona.
Dagskráin er nokkur stíf en liðið spilar meðal annars þrjá leiki í Bandaríkjaútgáfunni af International Champions Cup, keppninni sem United vann eftirminnilega árið 2014.
Áður en leikirnir hefjast eyðir liðið þó vikunni í Los Angeles þar sem leikmennirnir æfa á æfingsvæði UCLA-háskólans við toppaðstæður, allt til þess að koma leikmönnunum í sem best form áður en ballið byrjar.
Því miður er fyrri hluti ferðarinnar ekkert sérstaklega sjónvarpsvænn fyrir okkur hér á Íslandi en þrír fyrstu leikirnir eru spilaðir klukkan 02.00 að íslenskum tíma. Bara fyrir þá allra hörðustu. Þetta skánar þó eftir því sem United fikrar sig frá Vesturströndina, yfir á Austurströndina og svo aftur til Evrópu.
Allir leikirnir verða sýndir í beinni á MUTV auk þess sem að Stöð 2 Sport verður með einhverja leiki í beinni.
LA Galaxy í Los Angeles – 16. júlí klukkan 02:00
Fyrsti leikur sumarsins fer fram í StubHub Center, heimavelli LA Galaxy. Við þekkjum það vel að hefja leik í Bandaríkjunum gegn LA Galaxy. Árið 2014 spilaði United einmitt sinn fyrsta leik undir stjórn Louis van Gaal sem endaði í 0-7 flugeldasýningu. Þá mættu 90 þúsund áhorfendur til leiks á Rose Bowl vellinum en StubHub-völlurinn er örlítið minni og tekur bara rétt tæplega 30 þúsund áhorfendur.
Galaxy hefur mátt muna sinn fífill fegurri og er í 8. sæti Vesturstrandarriðli MLS eftir 18 leiki. Ashley nokkur Cole er þeirra helsta stjarna, 36 ára gamall.
Real Salt Lake í Salt Lake City – 18. júlí klukkan 02:00
Aðeins tveimur dögum eftir leikinn í LA færir liðið yfir sig til Salt Lake City í Utah þar sem liðið mætir Real Salt Lake City, sem ku vera skýrt Real vegna þess að eigandinn var svo hrifinn af Real Madrid.
Félagið er ekki nema 13 ára gamalt en hefur náð ágætis árangri, var meðal annars fyrsta liðið frá Bandaríkjunum til þess að komast í úrslit Meistaradeildar norður- og mið-Ameríku. Vel gert. Ég þekki ekki einn leikmann liðsins sem er einu sæti fyrir ofan LA Galaxy í Vesturstrandarriðlinum.
Manchester City í Houston – 21. júlí klukkan 02:00
Alvaran hefst í Houston þar sem liðið mætir erkifjendunum í Manchester City í fyrsta Manchester-slagnum sem haldinn er fyrir utan Bretland. Sá merkisviðburður átti reyndar að fara fram á síðasta undirbúningstímabili en var aflýst vegna þess að mótshaldarar í Kína voru með allt niðrum sig.
Þetta er fyrsti leikurinn af þremur sem United spilar í International Champions Cup og jafnframt sá síðasti af æfingarleikjunum í sumar sem eru á glötuðum tíma fyrir íslenska stuðningsmenn Manchester United.
Leikurinn fer fram á NRG-vellinum í Houston, heimavelli NFL-liðsins Houston Texans og komast um 70 þúsund áhorfendur fyrir á vellinum.
Real Madrid í San Francisco – 23. júlí klukkan 21:00
United flýgur aftur til Kaliforníu eftir leikinn gegn City, í þetta skipti til að mæta Real Madrid í San Francisco á heimavelli NFL-liðsins San Francisco 49’ers. United spilaði á sama velli árið 2015 þegar við lögðum Barcelona í skemmtilegum leik.
Það verður verðugt verkefni að mæta Spánar- og Evrópumeisturum Real Madrid á hinum 68 þúsund sæta Levi’s Stadium. Þetta er leikur tvö í International Champions Cup og sá fyrsti af tveimur sem liðið spilar við Real á skömmum tíma í sumar.
Barcelona í Landover – 26. júlí 23:30
Eftir að við göngum frá Spánarmeisturum er verkefnið erkifjendur þeirra í Barcelona í síðasta leik International Champions Cup þetta árið.
Þetta er einnig síðasti leikurinn í Bandaríkjalegg æfingaferðarinnar og fer hann fram á FedEx-vellinum í Landover í Maryland-ríki, risastór völlur sem tekur alls 82 þúsund áhorfendur í sæti og er heimavöllur Washington Redskins.
Vålerenga í Osló – 30. júlí 17:00
Líkt og í fyrra kemur félagið við á Norðurlöndunum á leið sinni til Bretlandseyja. Í þetta skiptið er það Noregur þar sem liðið mætir Vålerenga á Ulleval-vellinum. Fróðlegt verður að sjá hvort að hinn ungi Samúel Kári Friðjónsson sem er á mála hjá norska liðinu komi við sögu.
Sampdoria í Dublin – 2. ágúst 18:45
Síðasti vináttuleikurinn er svo gegn fyrrverandi félagi Sergio Romero, Sampdoria. Leikurinn fer fram á þjóðarleikvangi Íra í Dublin, Aviva-vellinum þar sem Ísland vann Írland fyrir skemmstu.
Þann áttunda ágúst spilar United svo aftur við Real Madrid, í þetta skiptið í Ofurbikarnum svokallaða þar sem handhafar Evróputitlanna mætast í einskonar Meistarar meistaranna leik. Þessi leikur fer fram í höfuðborg Makedóníu, fimm dögum áður en að United spilar við West Ham í fyrstu umferð Úrvalsdeildarinnar.
Svona lítur þetta út, sumarfríið er búið. Alvaran er að bresta á.
Bjarni says
Góð samantekt. Andstæðingarnir ekki af verri endanum, tempóið verður eflaust hátt í þessum leikjum og vonandi mikil sýning eins og kaninn vill hafa það. Mikið um flug fram og til baka og svo loka leikur fyrir mót á móti RM áður en alvaran hefst og ættu menn að vera klárir andlega og líkamlega fyrir fyrsta leik miðað við undangengið álag. Líst vel á liðið af myndunum að dæma frá æfingunum og er hátt tempó í gangi sem er gott. Annars er komin spenna og eftirvænting í karlinn fyrir komandi tímabili þó neitaði ég félaga mínum að fara með honum á leik MC og WHU í Laugardalnum af praktískum ástæðum😃