Wayne Rooney var aðeins 18 ára gamall þegar hann kom til Manchester United frá Everton. Nú, 13 árum síðar, snýr Rooney aftur til Everton sem markahæsti leikmaður enska landsliðsins sem og markahæsti leikmaður í sögu Manchester United. Það kom víst ekkert annað en Everton til greina hjá Rooney – frægð og frami í Bandaríkjunum eða hafsjór af peningum í Kína heilluðu ekki drenginn frá Liverpoolborg – hann vildi bara fara heim á Goodison Park.
Manchester United birti þetta myndband á Twitter síðu sinni þegar það var staðfest að Rooney hefði skrifað undir hjá Everton. Ég ætla ekki að ábyrgjast gæsahúð en ef þið fáið ekki gæsahúð við að horfa á þetta myndband þá eruð þið sálarlaus með svarta sál!
https://twitter.com/manutd/status/884039340384321536
Remember this Name – Wayne Rooney! A new star is born on Merseyside
Það var þarna sem Rooney komst á kortið. Hann hafði spilað nokkra leiki fyrir Everton og meira að segja skorað í deildarbikarnum. Það var hins vegar þarna – gegn líklega besta liði deildarinnar – sem Rooney sýndu öllum hvað hann gat. Aðeins 16 ára gamall – fimm dögum frá 17 ára afmælinu sínu – þá tryggði hann Everton 2-1 sigur gegn Arsenal sem hafði ekki tapað í síðustu 30 deildarleikjum sínum.
„Rooney is the biggest England talent I’ve seen since I arrived in England. There has certainly not been a player under 20 as good as him since I became a manager here.“ -Arséne Wenger um Rooney eftir leikinn. Hvernig fagnaði Rooney svo sigurmarkinu? Hann fór í fótbolta með félögum sínum um kvöldið á meðan liðsfélagarnir fóru á pöbbinn.
Það eina sem sannaði að Wayne Rooney væri 16 ára þegar hann skaust fram á stjörnuhimininn var skortur á skeggrót. Við getum orðað það þannig að ef Rooney hefði komið frá Afríku þá hefðu eflaust allir talað um að hann væri með falsað vegabréf.
Rooney var tvö tímabil í aðalliði Everton, hann spilaði 67 leiki og skoraði 15 mörk. Svo fór hann á EM 2004 í Portúgal.
Þar sýndi Rooney endanlega að stóra sviðið væri hans leikvöllur og að þar liði honum best.
Eins og alltaf þá má varla koma upp góður ungur enskur leikmaður án þess að öll þjóðin sé á herðum hans. Þannig virtist stemmningin vera með Rooney. Þrátt fyrir að vera með Sol Campbell, Rio Ferdinand, Paul Scholes, David Beckham, Michael Owen og fleirum í liði þá var Rooney aðalmaður liðsins á mótinu.
Það kom því í raun ekki á óvart þegar Rooney meiddist gegn Portúgal þá fóru vonir Englands um að vinna stórmót í fyrsta skipti síðan 1966 út um gluggann. Darius Vassell, sem kom inn á fyrir Rooney, stal svo senunni þegar hann lét hinn hanskalausa Ricardo verja frá sér í vítaspyrnukeppni eftir að leikurinn endaði 2-2.
Því miður var þetta líklega besta stórmót Wayne Rooney.
Sagan segir að Rooney hafi beðið Everton um sölu þegar hann kom heim af Evrópumótinu – ekki í síðasta skipti sem hann gerði það á ferlinum. Það var svo Manchester United sem pungaði út litlum 25,6 milljónum punda fyrir hinn 18 ára gamla Rooney.
Hvíti Pele
Vegna meiðslanna sem hann varð fyrir á Evrópumótinu þá spilaði Rooney ekki sinn fyrsta leik fyrir United fyrr en 28. september 2004. Þvílíkur leikur! 6-2 sigur gegn Fenerbahce í Meistaradeild Evrópu og Rooney gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu. Það leið ekki á löngu þangað til stuðningsmenn United höfðu samið lag um Rooney – hann var hinn hvíti Pele.
Manchester United var í smá niðursveiflu þegar Rooney skrifaði undir hjá félaginu. Sir Alex Ferguson var í miðri uppbyggingu á næsta gullaldarliði sínu. Rooney ásamt Cristiano Ronaldo voru vonarstjörnur þess liðs.
Rooney endaði sem markahæsti leikmaður liðsins í deild – með 11 mörk. Liðið fór í úrslit FA bikarsins þar sem það yfirspilaði Arsenal en tapaði í vítaspyrnukeppni. Hann var svo valinn besti ungi leikmaður deildarinnar. 2005/2006 tímabilið vann Rooney sinn fyrsta titil en liðið vann Wigan Athletic 4-0 í úrslitum deildarbikarsins – Rooney skoraði tvö og var valinn maður leiksins. Hann var kominn með blóð á tennurnar.
Það var svo tímabilið 2006/2007 sem Rooney og Ronaldo tvíeykið sprakk út – fyrir tímabilið höfðu margir spáð því að þeir félagar gætu ekki spilað saman en Ronaldo hafði átt stóran þátt í því að Rooney fékk rautt spjald gegn Portúgal þegar liðin mættust á Heimsmeistaramótinu 2006.
Það stöðvaði þá félaga ekki og lyfti Rooney sínum fyrsta deildartitli í lok þess tímabils. Titlarnir áttu eftir að verða töluvert fleiri.
https://twitter.com/MiguelDelaney/status/884053550317391873
Persónulega var ég alltaf meira fyrir Rooney heldur en Ronaldo. Ég átti Rooney #8 treyju frá 2004 og svo Rooney #10 treyju þegar hann skipti um númer. Eru það tvær af þremur United treyjum sem ég hef merkt með nafni leikmanns. Að segja að ég hafi verið „Rooney maður“ nær því ekki alveg yfir það hversu mikið ég elskaði að horfa á drenginn spila fótbolta.
Hvernig er annað hægt samt? Hann gaf alltaf allt sem hann átti. Hann spilaði leikinn eins og það á að spila hann – ekkert múður, ekkert kjaftæði, bara 110% ástríða með dass af gæðum. Og þvílík gæði – þvílík mörk!
Að velja besta mark Rooney fyrir Manchester United er í raun ekki hægt.
- Þrennan gegn Fenerbahce
- Mörkin gegn Middlesboro
- Volley-ið gegn Newcastle United.
- Skyndisóknarmörkin gegn Bolton Wanderers og Arsenal
- Chip-an gegn Portsmouth
- Sigurmarkið á 90. mín í 3-2 sigrinum gegn AC Milan
- Aukaspyrnurnar í 8-2 sigrinum gegn Arsenal
- Hjólhestaspyrnan gegn Manchester City
- Þrennan gegn West Ham United
- Jöfnunarmarkið gegn Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2011
- Sigurmarkið gegn Fulham á Craven Cottage (eini leikurinn sem ég hef farið á)
- Markið frá miðju gegn West Ham United
- Hælspyrnan gegn Swansea City
- Aukaspyrnan gegn Stoke City
Þetta eru allavega þau mörk sem standa upp úr fyrir mér þegar ég hugsa til baka yfir feril Wayne Rooney hjá Manchester United. Mörkin, samherjarnir og minningarnar – þvílíkar minningar!
https://www.youtube.com/watch?v=56wFzZWh7lo
https://twitter.com/joiskuli10/status/883997703985926144
Allavega eins og áður sagði – ég var í raun ástfanginn af því hvernig Wayne Rooney spilaði knattspyrnu. Hann átti hjarta mitt skuldlaust … þangað til hann stakk mig 70 sinnum í bakið og hrækti í andlitið á mér.
Et tu, Brute?
Árið 2010 taldi Wayne Rooney sig ekki vera samboðinn Manchester United. Félagið hafði misst Cristiano Ronaldo og hann efaðist um að félagið gæti fengið hágæða leikmenn. Hann bað um að vera seldur.
https://twitter.com/hoddi23/status/884160132288000000
Eftir það varð samband okkar aldrei eins og það var áður. Rooney fór þó ekki fet og á meðan United lyfti titlum ítrekað þá var yfir litlu að kvarta. Það var þó á síðasta tímabili Sir Alex Ferguson sem þjálfara liðsins að manni fór að gruna að eitthvað væri ekki í lagi. Það virtist sem Sir Alex væri að reyna bola Rooney frá félaginu. Hann gaf í skyn að Rooney hefði aftur beðið um sölu þó svo það hafi aldrei verið staðfest.
Sir Alex Ferguson var auðvitað þekktur fyrir það að selja leikmenn sem hann taldi að höfðu toppað á meðan það var ennþá hægt að fá góðan pening fyrir þá. Eftir á að hyggja virðist það hafa verið það sem hann vildi gera við Rooney.
Það sást bersýnilega þegar United mætti Real Madrid á útivelli í Meistaradeild Evrópu þá var Wayne Rooney skilinn eftir á bekknum á meðan Danny Welbeck fékk það hlutverk að kæfa Xabi Alonso. Sagan segir að Rooney hafi fengið sama hlutverk í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2011 – hann átti að kæfa Sergio Busquets. Rooney fylgdi *samkvæmt sögunni* engan veginn fyrirmælum, Busquets lék lausum hala allan leikinn og United tapaði sannfærandi.
Sir Alex tókst þó ekki ætlunarverk sitt. David Moyes tók við félaginu efitir að Sir Alex hætti og í von um að tryggja sér góðvild Rooney þá gaf Moyes honum nýjan fimm ára samning upp á 300 þúsund pund á viku. Það var svo í kringum þennan tíma sem maður fór að hafa það á tilfinningunni að neistinn, þessi ódrepandi eldur sem brann innra með Rooney, væri farinn að kólna. Hann sagðist vera orðinn eldri og vitrari en það virtist hreinlega sem líferni hans væri farið að taka sinn toll.
Rooney hefur alltaf verið einstakur knattspyrnumaður, og þá oftar en ekki fyrir þá staðreynd að hann virðist vera eins og hinn hefðbundni verkamaður þegar kemur að mataræði og drykkju. Miðað við myndir af honum í sumarfríum í gegnum árin er ljóst að hann er í #TeamTunna en hann bætir allavega á sig 7-8 kílóum hvert sumar. Einnig tókst honum einu sinni að skera næstum af sér eyrað á blindafyllerí.
Þetta ásamt því að spila áratug í ensku deildinni var farið að taka sinn toll á Rooney og á síðustu 3-4 árum hefur hann átt töluvert fleiri vond augnablik en góð.
https://twitter.com/Hreffie/status/777489896214757377
David Moyes entist auðvitað ekki lengi hjá United en ferill Rooney hjá United hefur þó verið á hraðri niðurleið síðan. Það var þó ekki fyrr en José Mourinho tók við sem Rooney fór að spila minna en hann gerði – á nýafstöðnu tímabili var Rooney í 14. sæti þegar kom að mínútum spiluðum hjá leikmönnum félagsins (markmenn ekki meðtaldir).
Það voru þó alveg góð augnablik líka.
https://www.youtube.com/watch?v=e1sArkdHTo8
Ef og hefði
https://twitter.com/hoddi23/status/883998134472454145
Þrátt fyrir að ferill Wayne Roony hjá United sé stórkostlegur í meira lagi þá er samt sem áður þessi ódrepandi tilfinning um að hann hefði átt að vera svo miklu meira. Fleiri titlar, fleiri mörk, fleiri stoðsendingar, fleiri leikir eru allt eitthvað sem maður hefði haldið að Rooney hefði geta áorkað ef hann hefði tekið Cristiano Ronaldo, Ryan Giggs eða Zlatan Ibrahimovic sér til fyrirmyndar.
Ef til vill er þetta algjört kjaftæði en hversu mikið Rooney hefur dalað á síðustu 2-3 árum eru sönnun þess hve illa hann hefur hugsað um sig að mínu mati. Vissulega er enska deildin algjör skepna en það virðist sem Rooney hafi lítið sem ekkert reynt að aðlaga sig að breyttum aðstæðum.
Það er vissulega sturlað að kvarta yfir manni sem er markahæstur í sögu Manchester United ásamt því að vera markahæsti leikmaður Englands frá upphafi en fyrir mér ætti hann að vera á sama stalli og Lionel Messi og Cristiano Ronaldo.
Daniel Story hjá Football365 endaði grein sem hann skrifaði um Rooney fyrr í sumar (áður en hann skrifaði undir hjá Everton) á þennan hátt: At 32, English football’s ultimate impact player has quickly become its drifter. Rooney is the opposite to the elephant in the room, standing front and centre while everybody else in the room is being discussed. “Remember the name,” was Clive Tyldesley’s advice in October 2002. We’ll never forget the name, but it’s becoming easier and easier to forget the face.
Með tíð og tíma mun Rooney þó eflaust verða betur metinn – snillingar eru jú alltaf betur metnir eftir að þeir eru hættir (dánir). Vonandi verður endurkoma Rooney á Goodison Park nóg til að kveikja aftur í neistanum sem einkenndi hann öll þessi ár.
https://twitter.com/Eidur22Official/status/884065129289195523
Að lokum
Aditya Reds er United aðdáandi sem gerir hreint út sagt stórkostleg myndbönd tengd Manchester United. Hann gerði þetta myndband áður en það var staðfest að Rooney myndi yfirgefa félagið.
https://www.youtube.com/watch?v=6yuMojdKO4E
Þegar Rooney sló markamet Englands þá gerði BBC stutta heimildarmynd um manninn á bakvið mörkin. Gary Lineker fór og talaði við foreldra hans, eiginkonu, börn og manninn sjálfan. Rooney tók Lineker á æskuslóðir sínar – það var því aldrei spurning hvert Rooney myndi fara þegar ferli hans hjá Untied myndi ljúka.
https://www.youtube.com/watch?v=iqWn_FXE_s8
Takk fyrir minningarnar minn kæri. Vonandi endarðu ferilinn jafn vel og þú byrjaðir hann.
Jón Þór Baldvinsson says
Frábær grein og svo innilega sammála nánast öllu sem fram kemur í henni. Hefði svo innilega viljað líka sjá hann fara betur með sig því ég er viss um að hann hafði getað næstum tvöfaldað öll þessi met sem hann hefur slegið í gegnum árin ef svo hefði verið.
Ég á eftir að sakna hans mikið og kem til með að fylgjast vel með Everton þetta leiktímabil vegna hans. Ég vona svo innilega að hann nái að lyfta sér upp næstu árin og enda þennann ævintýraferil á viðeigandi hátt.
Takk kærlega fyrir pistilinn, var góð lesning og þess virði að heimsækja aftur og aftur þó ekki væri nema bara að endurspila þessi frábæru vídeó sem honum fylgja.
Egill says
Takk fyrir þessa grein, í byrjun þegar þú lýsir aðdáun þinni á Rooney fannst mér ég vera að lesa orðrétt það sem ég hef hugsað og sagt í gegnum tíðina.
Ég set samt spurningamerki við nokkur atriði hjá þér.
Fleiri titlar: Hversu margir enskir leikmenn hafa unnið fleiri titla en Rooney? Eða bara leikmenn yfir höfuð? Hann hefur unnið alla titla sem hægt er að vinna, og suma oftar en einu sinni.
Fleiri mörk: Markahæsti leikmaður í sögu Man Utd og Englands, fleiri en leikmenn eins og Giggs, Cole, Shearer, Lineker, Charlton, Best o.s.frv. Þrátt fyrir að vera ekki hreinræktaður framherji, heldur free role/support striker.
Fleiri stoðsendingar: Rooney átti 98 stoðsendingar fyrir Man Utd, fleiri en nokkur annar í sögu EPL. Nani er næstur með 49 og Scholes með 45.
Fleiri leikir: Hann er 6. leikjahæsti leikmaður í sögu Man Utd, og sá eini á top 10 sem er framherji. Og hann var ekki venjulegur framherji, heldur leikmaður sem hljóp allan leikinn fram og til baka á vellinum og var jafnvel að leysa bakverði af á köflum.
Svo má ekki gleyma því að Rooney var orðinn að topp topp leikmanni aðeins 17 ára gamall, Ronaldo fór ekki að verða top leikmaður fyrr en sirka 21 árs. Þeir hafa því átt svipað langan feril á toppnum í árum talið, en svo má aftur nefna að Rooney hleypur meira og vinnur talsvert meira en Ronaldo. Þó vissulega má vera að hann hefði getað framlengt ferilinn eitthvað með heilsusamlegra líferni, en sumir toppa fyrr en aðrir.
Svo hafa SAF og Rooney sagt að hann hafi ekki beðið um sölu í seinna skiptið, heldur átti hann von á því að verða seldur og sagði SAF að hann væri tilbúinn að fara, þrátt fyrir að vilja ekki fara. SAF leiðrétti það sem hann skrifaði í ævisögu sinni stuttu eftir að hún kom út. Það sem Rooney vissi ekki var að SAF var að hætta og þar með breyttist allt. Einnig finnst mér líka magnað hvað menn halda að Moyes hafi haft mikil völd, bara ákveðið að launin hans yrðu 300 þúsund pund á viku (sem voru samt 250 þúsund pund, plús 50 þús þar sem hann afsalaði sér ýmindargreiðslum árið 2010). Þegar hann sagðist vilja fara 2010 hataði ég hann svo innilega, rétt á meðan fíaskóið gekk yfir. Eftirá þá skildi ég hann mjög vel. Það voru allir stuðningsmenn brjálaðir á þeim tíma, öllum fannst Glazer vera að blóðmjólka félagið og engir leikmenn voru keyptir. Ronaldo og Tevez fóru og við fengum Owen, Obertan og Valencia. Sumarið eftir fengum við Bebe og óþekktan Mexikóa. Það voru allir að hugsa það sama og Rooney á þessum tíma, en eftir samtal við SAF hætti hann snarlega við, enda var umboðsmaðurinn hans stór þáttur í þessu veseni. Svo ég tali nú ekki um fjölmiðlafárið fyrr um sumarið útaf einkalífi Rooney.
Ef ég man rétt þá bað hann ekki um sölu frá Everton fyrr en hann frétti að Man Utd vildi kaupa hann, þannig að þetta var ekki þannig að hann hafi bara viljað fara að fyrra bragði. SAF segir í ævisögu sinni að eigandi Everton hafi grátið og Moyes gefið SAF illt augnaráð þegar hann sagðist vilja kaupa Rooney, þeir vissu að þeir gætu ekki haldið honum og fannst við vera að stela honum.
Hvað mig varðar þá var hann aldrei jafn góður og Ronaldo, en hann var á sínum tíma verðmætasti leikmaður í heimi að mínu mati. Enginn leikmaður í heiminum vann jafn mikið fyrir liðið á sama tíma og hann skoraði og lagði upp mörk. Driffjöðurin í besta Man Utd liði sögunnar á bilinu 2007-2010.
Sorry hvað ég tek hérna langt rant, en þetta átti bara að vera nokkrir punktar. Ég er og hef alltaf verið Rooney maður og ég er orðinn svo þreyttur á Rooney gagnrýninni undanfarin ár sem hafa oftar en ekki verið ósanngjörn. Það er eins og fólk (ekki beint að pistlahöfundi sérstaklega) hafi ákveðið að hunsa það sem virtir miðlar, SAF, Rooney og aðrir innan félagsins hafa sagt, og ákveðið að trúa öllu sem kemur fram í Sun, Mirror o.s.frv.
Það gleður mig mikið að Rooney hafi farið aftur til Everton, og ég vona svo innilega að honum gangi vel og nái að troða í gagnrýnisraddir.
#KingRooney10
SHS says
110 % sammála þér Egill og þetta er nákvæmlega eins og mér líður. En ég er enginn penni og kem svona löguðu ekki frá mér, takk fyrir að gera það fyrir mig!
Það verður gaman að fylgjast með honum og Everton í vetur, sérstaklega ef Gylfi verður þar líka!
Óli says
Frábært komment frá Agli hér að ofan.
Mér finnst líka að svona „ef og hefði“ tal eigi ekki alltaf við. Það er ekki hægt að breyta ákveðnum grunnþáttum sumra manna og ætla að halda öðru óbreyttu. Wayne Rooney er ekki Cristiano Ronaldo eða Lebron James. Wayne Rooney er Paul Gascoigne eða Matt Le Tissier eða Shaq. Það er oft talað á svipaðan hátt um Pétur Pétursson sem er kannski hæfileikaríkasti fótboltamaður okkar frá upphafi en fannst gaman að skemmta sér og fá sér nokkra kalda. Bottom lænið er að þú getur ekki svo auðveldlega valið og hafnað ákveðnum þáttum þegar þú ert að tala um manneskju.
Bjarni says
Ég hef það sterklega á tilfinningunni að hann muni skora sigurmarkið á Old Trafford úr vítaspyrnu í vetur en sleppir því að kyssa merkið.