Þar sem undirritaður var hálf sofnaður þegar Marcus Rashford skoraði fyrsta mark leiksins eftir rétt rúmlega eina og hálfa mínútu þá er skýrslan um fyrsta leik tímabilsins 2017/2018 í styttri kantinum.
Fyrir þá sem vilja vita meira um æfingaferðina, hvenær og hvar leikirnir eru þá er um að gera að lesa greinina sem Tryggvi Páll skrifaði.
Allavega, Manchester United vann LA Galaxy þægilega 5-2 í gær en okkar menn komust í 5-0 áður en Galaxy minnkaði muninn með tveimur mörkum frá Giovani Dos Santos á 80. og 85. mínútu.
https://twitter.com/GaryLineker/status/886387580500975616
Leikurinn
José Mourinho er alltaf jafn stríðinn en enginn af Victor Lindelöf, Romelu Lukaku, Paul Pogba, Anthony Martial eða Henrikh Mkhitaryan voru í byrjunarliðinu. Að sama skapi var stillt upp í einhverskonar 3-5-1-1 leikkerfi með Jesse Lingard sem vinstri vængbakvörð. Byrjunarliðið leit því svona út:
https://twitter.com/forevruntd/status/886411869237370880
Leikkerfið virtist svínvirka en eins og áður sagði þá hafði Marcus Rashford skorað eftir aðeins eina og hálfa mínútu en hann kláraði vel eftir að Jesse Lingard vann boltann af leikmanni LA Galaxy.
https://twitter.com/PeoplesPerson_/status/886409291997093890
Rashford var svo aftur á ferðinni eftir aðeins 20 mínútur, nú eftir sendingu frá Juan Mata. Tíu mínútum eftir það komst Jesse Lingard upp að endalínu, gaf boltann til baka út í teig þar sem uppáhalds Belginn okkar allra, Marouane Fellaini, kom og hamraði boltanum með vinstri í netið. Staðan orðin 3-0 eftir 30 mínútur og margir farnir að spá því að United væri á leiðinni að vinna Galaxy enn stærra en þegar liðin mættust árið 2014. Þá lauk leiknum 7-0 fyrir okkar mönnum.
https://twitter.com/UTDHD/status/886414465624936448
United fengu svo urmul færa til að bæta við í fyrri hálfleik en Rashford fór illa með gott færi eftir að sleppa einn í gegn, Mata lét sömuleiðis verja frá sér og Chris Smalling skoraði mark sem var dæmt af vegna rangstöðu.
Liðið sem byrjaði síðari hálfleikinn var á þessa vegu: Joel Pereira kom í markið. Miðverðir voru þeir Eric Bailly, Victor Lindelöf & Axel Tuanzebe. Vængbakverðir voru Matteo Darmian & Timothy Fosu-Mensah (Demitri Mitchell kom þó inn á síðustu fimm mínúturnar). Á miðjunni voru þeir Paul Pogba, Andreas Pereira & Henrikh Mkhitaryan. Og að lokum voru Anthony Martial & Romelu Lukaku frammi.
United hélt áfram að skapa sér fullt af færum og varði markvörður LA Galaxy vel frá Lukaku, Martial og Mkhitaryan í síðari hálfleiknum. Það voru þó þeir tveir síðarnefndu sem skoruðu mörk United og komu liðinu í 5-0 áður en LA Galaxy klóraði í bakkann.
https://twitter.com/Darmianology/status/886429014310694912
Samtals átti United 30 skot í leiknum, 11 á markið og 5 hornspyrnur.
Punktar
Þó að sigurinn hafi verið sannfærandi þá er ljóst að andstæðingurinn var lítil mótspyrna.
José Mourinho virðist ætla að prófa sig áfram í einhverskonar 3-4-3 leikkerfi í vetur en ef til vill verður það notað til að brjóta upp spilamennsku liðsins. Mögulega fannst honum liðið of einhæft á síðasta tímabili. Það verður áhugavert að sjá hvort hann prófi þetta leikkerfi gegn Manchester City, Real Madrid eða Barcelona en United mætir þeim öllum á næstu vikum.
Auðvitað mætti David Beckham að fylgjast með leiknum. Okkar maður er í óðaönn að reyna koma knattspyrnuliði á laggirnar í Miami og hver veit nema United spili við það einn daginn.
Marcus Rashford virðist hafa dottið í töfraseiðispottinn í sumar en það er erfitt að sjá hvor er hvað þegar hann stendur við hliðina á Romelu Lukaku – Rashford er einfaldlega orðinn það STÓR. Hann gerði sér svo lítið fyrir og skoraði tvö ásamt því að leggja upp eitt á þeim 45 mínútum sem hann spilaði í nótt.
https://twitter.com/forevruntd/status/886533047364997120
Andreas Pereira, sem spilaði mest megnis á vængnum eða sem sóknartengiliður hjá Granda síðasta vetur, kom inn á í nýtt hlutverk. Hann var notaður í sama hlutverki og Carrick – sem djúpur spilandi miðjumaður. Leysti hann það ágætlega en hann spilaði sama hlutverk gegn Wigan Athletic í fyrra sem var fyrsti leikur Mourinho með Manchester United. Verður áhugavert að sjá hvar hann spilar í vetur en flestir eru sammála um að hann muni fá séns til að blómsta.
Þó að Romelu Lukaku hafi ekki skorað þá sagði Mourinho samt sem áður að hann hefði spilað betur en margir sem hefðu skorað. Týpískt Mourinho svar en það er ljóst að hann var hrifinn af frammistöðu Lukaku.
Næsti leikur er gegn Real Salt Lake þann 18. júlí á sama tíma.
Karl Gardars says
Best að droppa við hérna og dreifa huganum eftir svekkjandi tap hjá okkar manni í UFC.
Fannst við spila sem lið í fyrri en hópur af einstaklingum í seinni. Galaxy spilaði að vísu fleiri lykilleikmönnum í seinni svo það komi fram en liðið þeirra er alls ekki upp á marga fiska. Þess vegna varð niðurstaða seinni hálfleiks hálf svekkjandi fyrir utan ljóshraðaupphlaupin hjá Mikka.
Ég held að Rashford, Mkhitaryan og Pogba muni bera af á þessu tímabili og það verður gaman að sjá byrjunarliðið í fyrsta keppnisleik.
Snorkur says
Hafði nokkuð gaman af þessum leik og var sérstaklegar ánægður með Rashford og Mkhitaryan.
Andstæðingarnir voru hins vegar ekkert til að hrópa húrra fyrir enda liðið að strögla í deildinni heima fyrir. Lið LA í fyrri hálfleik ætti sennilega heima í deild all neðarlega á Englandi, þó mun skárra lið sem þeir buðu upp á í seinni.
Það sem maður getur helst tekið út úr þessum leik er að MU liðið koma í feiknar formi undan sumri. Ekki mikið um pre-season sendingafeila og menn gátu hlaupið.