Loksins! Loksins!
Boltinn byrjar að rúlla af alvöru um helgina!
Ritstjórar Rauðu djöflanna settust fyrir framan tölvurnar og færðu hugsanir sínar fyrir komandi tímabil í letur. Við spáðum líka eins og fyrri ár fyrir um lokaniðurstöðuna í deildinni
Já, þrír ritstjórar spá United meistaratitli hvorki meira né minna, og þrír spá öðru sætinu! Við höfum reyndar áður verið svona bjartsýnir…
Við kynnum hér einnig smá breytingar á ritstjórnarhópnum: Nýr ritstjóri, Kristófer Kristjánsson hefur slegist í hópinn og fær innan skamms mynd af sér á ritstjórnarsíðunni. Sigurjón Guðjónsson mun helga sig barnauppeldi, og þá bæði eigin barni og þessum vef sem er jú líka barnið hans og mun vefstýra styrkri höndu en sleppa takinu af skýrslugerð og hlaðvörpum. Sömu sögu er að segja af Elvari Erni Unnþórssyni en við vonum þó að Spaki maðurinn dúkki upp af og til.
Það verður svo auðvitað podkast innan tíðar þar sem við rýnum þessa spá og fleira
Halldór
Mér líst afskaplega vel á kaupin í sumar. Þau virðast ætla að vera veruleg styrking á hryggjarsúlu liðsins. Það er kannski helst að frammistaða Lindelöf nú í aðdraganda tímabilsins hafi kallað fram spurningamerki en ég hef trú á því að hann muni sýna sína styrkleika eftir því sem líður á tímabilið. Í öllu falli er hann strax góð aukning á breiddinni í vörninni en vonandi mun hann svo verða nægilega góður til að spila lykilrullu hjá liðinu, hann er þannig týpa af miðverði sem væri virkilega gott að hafa í byrjunarliðinu.
Það má alveg bæta einhverju við þennan hóp. Perisić hefðu verið flott kaup til að styrkja hópinn en þó aldrei ef United hefði þurft að fórna Martial á móti, jafnvel þótt það hefði bara verið lánsdíll. Veit svosem ekki hvaða leikmaður annar gæti verið svipuð týpa og hann. Eins hefði ég ekkert á móti því að fá bakvörð eða tvo. Nú og svo ef það losnaði einhver algjör sigurvegari, einhver leikmaður sem getur klárað leiki upp á eigin spýtur eða skapað eitthvað upp úr þurru fyrir samherja sína, þá mætti alveg henda í svoleiðis kaup, endilega.
Ég er því bara frekar bjartsýnn fyrir þetta tímabil. Mourinho er þegar búinn að búa til frekar samheldinn hóp og lið sem getur unnið bikara. Hann virðist líka ætla að láta reyna á hversu vel hópurinn getur spilað mismunandi taktík, það finnst mér spennandi pæling. Tilkoma Matic á vonandi eftir að frelsa Pogba og Herrera til að taka meiri þátt í sóknarleiknum og tilkoma Lukaku á vonandi eftir að skila böns af mörkum frá honum auk þess sem vera hans nálægt marki andstæðinganna ætti að trufla varnir nógu mikið til að skapa meira pláss fyrir aðra sóknarþenkjandi leikmenn Manchester United. Svo mega þessi stangar- og sláarskot endilega fara að detta inn líka.
Ef ég ætti að velja þá væri 4-3-3 uppstillingin sem þetta lið myndi spila. En ég get líka alveg séð rök fyrir því að spila 3-5-2, ekki síst þegar andstæðingurinn spilar einnig með 3 miðverði. Gegn liðum sem spila 3-4-2-1 þá gæti 3-5-2 verið ákveðin lausn gegn því sem kæmi á í veg fyrir að liðið þyrfti að láta tvo leikmenn taka ákveðna leikmenn andstæðinganna úr umferð.
Ég er sannfærður um það að þetta lið geti náð glimrandi sprettum þegar það er búið að spila sig saman og komið með gott sjálfstraust. Ég þigg alveg öfluga, taktíska sigra eins og þegar United dómineraði Ajax í úrslitaleiknum í vor með öflugum varnarleik en ég vil endilega sjá liðið sýna það líka að það getur spilað flottan og skapandi sóknarbolta.
Svona fyrir hönd ensku úrvalsdeildarinnar þá líst mér mjög vel á andstæðingana. Þessi topp 6 lið frá því í fyrra munu öll mæta öflug til leiks og það væri jafnvel hægt að sjá lið eins og Everton eiga flotta spretti þar fyrir neðan. Ég er á því að öll þessi topp 6 lið gætu unnið deildina, þótt það þyrfti vissulega mismikið að detta fyrir liðin til að ná því. Sumarglugginn er auðvitað enn opinn svo það er margt sem getur gerst þar til að gjörbreyta því hvernig liðin koma inn í deildina.
Ég hugsa að Chelsea missi dálítið dampinn, gæti trúað því að það reynist þeim erfitt að peppa sig upp í að verja titilinn í bland við að þurfa að bæta Evrópukeppni inn í leikjaálagið. Svo virðist oft þurfa lítið til að mórallinn fari út um gluggann hjá Chelsea.
Ég held líka að Tottenham eigi eftir að detta aðeins niður. Eru vissulega með eitt af bestu byrjunarliðum í boltanum en hafa ekki styrkt hópinn neitt (ennþá) og flutningurinn á Wembley gæti reynst óþægilegur.
Manchester City eru líklegastir, svona fyrirfram. Þeir eru með skuggalegt vopnabúr í sókninni. Hafa verið að styrkja sig varnarlega en það er spurning hvort helsti veikleiki þeirra sé enn þar.
Arsenal og Liverpool eru meiri spurningamerki. Bæði lið geta spilað stórkostlegan fótbolta en hafa ekki endilega karakterinn og dýpt í hópnum til að klára þetta. Einnig spurningamerki hjá báðum liðum um framtíð lykilmanna og hvort þau nái að styrkja sig nægilega fyrir lok gluggans. En rétt skref í lokasprettinum á sumarglugganum gætu hent þeim í bullandi titilbaráttu.
Björn Friðgeir
Nýtt tímabil, ný von.
Þetta verður sjötta tímabil Rauðu djöflanna og fimmta upphitunin fyrir tímabil. Við vonuðumst eftir stöðugu tímabili frá Moyes, síðan umbreytingu frá Van Gaal, eftir það átti liðið að stíga upp á öðru tímabili Hollendingsins og í fyrra hélt ég við yrðum hreinlega meistarar.
Það væri alveg hægt að fyrirgefa þó við værum svolítið brennd börn núna.
Svo að því sé komið frá ætla ég ekki að spá United meistaratitli þetta árið. Til þess held ég að Manchester City verði hreinlega of sterkt. Pep er búinn að læra aðeins inn á enska boltann, og mun þétta vörnina. Þá reyndar vantar helst miðvörð og eiga allt of mikið af sterkum sóknarmönnum, en lausnin við því er víst að bæta Alexis Sánches í hópinn. Þetta held ég ætti að nægja þeim til að tryggja sér titilinn.
En þar á eftir munu lið United og Chelsea fylgja og ég held að United muni hirða annað sætið. Chelsea verður undir meira álagi en í fyrra og viðbæturnar hjá þeim eru ekki mikið sterkari en mennirnir sem þeir eru að missa. Það má reyndar segja það sama um Lukaku og Ibrahimovic, en eftir að hafa séð Matić í leiknum við Real í gær þá held ég að þar sé kominn lykilmaður hjá United í vetur.
Þegar þannig er litið blákalt á málin þá höfum við fengið stjörnusenter í staðinn fyrir stjörnusenter, miðvörð sem þarf þó nokkurn aðlögunartíma og sterkan miðjumann. Reyndar fékk United á sig fæst mörk allra liða í fyrra en það var verulega á kostnað sóknarinnar. Það er því von mín að Matic muni hjálpa til við að halda vörninni sterkri um leið og hann geti sinnt góðu uppspilshlutverki á miðjunni, nokkuð sem hann virtist ráða við í gær.
Það er því virkilega vonandi að það bætist sterkur leikmaður við hópinn á næstu þrem vikum, hvort sem það verður Perišić eða einhver annar. Það held ég samt að nægi ekki til meistaratitils, en það er þó lágmark að United verði í baráttunni fram á vor, ólíkt síðasta tímabili.
Það hefði verið erfitt fyrir mig fyrir ári að sjá fyrir að ég sæti hér draugfúll yfir því að Marcos Rojo verði frá fram að áramótum en frammistaða hans seinni hluta síðasta vetrar gerði hann að næst besta varnarmanni United. Það er samt enn í spilunum að keyptur verði bakvörður, vinstri slíkur myndi koma í stað Rojo, Shaw og Darmian og þeir þyrftu líklega allir að stíga upp eða hverfa á braut næsta sumar. Þau kaup myndu þá í það minnsta brúa bilið fram að áramótum, en eins og er verður það sama gamla vonin: að Luke Shaw sýni hvers hann er megnugur. Þetta verður síðasta tækifærið hans til þess.
En kannske er hægri bakvörður á listanum? Antonio Valencia átti vissulega mjög gott tímabil í fyrra en í leiknum í gær komu varnarlegir veikleikar hans í ljós. Það verður samt að hafa í huga að United mun varla spila við betra lið í vetur en þeir gerðu í gær. Þar að auki vantaði tvo bestu miðverðina í leiknum.
Síðasta spurningin fyrir tímabilið er hvaða leikaðferð José mun nota. Fyrir mér er lykilatriði að miðjan Herrera – Matić – Pogba verði jafn sterk og vonir standa til. Í kringum þá þrjá er síðan ýmist hægt að spila 4-3-3 eða 3-5-1-1 og miðað við að Jose hefur alltaf verið óragur við að breyta um stíl eftir andstæðingum þá eigum við eftir að sjá hvoru tveggja útfærsluna eftir því sem við á. 4-2-3-1 myndi þýða Matic og Pogba saman á miðjunni og þá held ég að Pogba muni vera heftari í leik sínum en annars, nokkuð sem við sáum of mikið í fyrra.
Sem sé: Hörkutímabil framundan, United liðið á að standa sig mun betur í deild og fara í það minnsta í fjórðungsúrslit í Meistaradeildinni, allt annað mun líklega þýða starfsmissi fyrir Mourinho.
Kristófer
Félagaskiptagluggar Manchester United hafa, undanfarin ár, verið nokkurs konar flugeldasýningar. Það hafa verið keyptar (eða fengnar á láni) stórstjörnur sem við stuðningsmenn biðum eftir með mikilli eftirvæntingu; Angel Di Maria, Falcao, Bastian Schweinsteiger, Paul Pogba, allt leikmenn sem voru búnir að koma vel undir sig fótum í íþróttinni. Síðan var það hin hliðin sem við stuðningsmenn elskum; ungir, hráir, óslípaðir demantar af leikmönnum sem eiga eftir að mótast í nýjar ofurstjörnur á Old Trafford. Vinstri bakvörður United og enska landsliðsins til næstu 15 ára, Luke Shaw. Efnilegasti vængmaður Evrópu, Memphis Depay, sem hunsaði áhuga Liverpool fyrir glæstan feril á leikvangi draumanna. Síðan hló enska pressan þegar við keyptum ungling frá Mónakó á 50 milljónir, síðan hlógum við þegar hann skoraði strax í fyrsta leik gegn Liverpool.
Allir þessir ofangreindu leikmenn hafa átt misgóðu gengi að fagna á Old Trafford en allir eiga það sameiginlegt að hafa verið kaup sem örvuðu ímyndunaraflið hjá hinum óþreyjufulla nútíma fótbolta áhugamanni sem vill að liðið sitt kaupi leikmenn eins og hann sjálfur kaupir þá í Football Manager.
Sumarið í ár hefur því reynst okkur krökkunum erfitt (allir eru börn þegar félagaskiptaglugginn er opinn). Við höfum keypt Svía sem er ekki Zlatan og þar að auki spilar hann vörn, leiðinlegt. Svo kom framherji sem hefur verið heillengi á Englandi og er því ekkert framandi ásamt því að vera hvorki frá Spáni né Brasilíu og svo til að kóróna þetta allt þá kom varnarsinnaður serbneskur miðjumaður frá Chelsea sem er þekktur fyrir að spila á einfaldan og praktískan hátt. Svo er hann líka 29 ára sem, í fótboltaárum, þýðir að hann er farlama gamalmenni sem nær varla einu góðu tímabili hjá okkur! Ofan á það erum við sagðir óðir í að kaupa vinstri kantmann frá Inter sem slær víst öll met í fyrirgjöfum ásamt því að vera ekki jafn teknískur og Messi! Eigum við einhverja von?
Jú, sennilega. Allir þessir leikmenn eiga eitt sameiginlegt; þeir eru Jose Mourinho leikmenn. Portúgalinn er að kaupa þá leikmenn sem hann telur henta í sitt kerfi og því fagna ég. Við höfum of oft spreðað í rándýra leikmenn sem fundu sig aldrei í treyjunni en Mourinho virðist vera með áætlun. Hún er kannski ekki jafn spennandi og einhverjir vonuðust eftir en það er ekkert handahófskennt við þessi kaup og því ber að fagna eftir nokkur skrítin ár.
Eftir kaupin á Nemanja Matić verður spennandi að sjá hvort Paul Pogba nái loks að blómstra nú þegar hann ætti að fá meira frelsi í leikjum. Sömuleiðis þurfum við meira frá sóknarleikmönnum liðsins; Anthony Martial, Marcus Rashford, Juan Mata, Henrikh Mkhitaryan og nú Romelu Lukaku. Við getum hætt að tala um hvað þetta séu allt efnilegir leikmenn, nú þurfa þessir strákar að hætta að vera spennandi og byrja að vera góðir, slík hlýtur krafan hjá Manchester United einfaldlega að vera. Sömuleiðis þarf Mourinho að finna besta liðið sitt, það er kannski eitt stærsta áhyggjuefni mitt nú þegar mótið er að hefjast. Hvað er besta liðið okkar? Ég held að flest stóru liðanna séu með þetta á hreinu og Mourinho þarf að finna þetta út snemma í haust, lið verða aldrei meistarar á því að sífellt rótera með einhverja 20 leikmenn milli leikja.
Manchester United þarf að gera atlögu að enska meistaratitlinum í vetur, allt annað yrðu gríðarleg vonbrigði. Mourinho hefur fengið mikið fjármagn til að slípa saman lið og nú þarf hann að skila einhverju. Að vinna Evrópudeildina á fyrsta tímabili var fínt afrek og við fögnuðum því en United, sem klúbbur, setur standardinn miklu, miklu hærra. Við erum ekki með lið sem keppir við bestu lið Evrópu og ég held að Meistaradeildin verði ákveðinn staksteinn fyrir þennan hóp en þetta snýst allt um deildina. Chelsea var langbesta lið hennar í fyrra og markmiðið í ár hlýtur að vera að jafna við meistarana og feikisterkt lið granna okkar í Manchester.
Magnús Þór
Ef ég á að vera hreinskilinn þá hef ég ekki miklu tilfinningu fyrir því. Þrátt fyrir svekkjandi deildarframmistöðu á síðasta tímabili þá vantaði aðeins herslumuninn í nokkrum leikjum og þá hefði þetta meistaradeildarsæti aldrei verið í hættu og þörfin á að vinna Evrópudeildina ekki verið til staðar. Ég er samt mjög ánægður með að United hafi klárað þá keppni.
Undirbúningstímabilið var alls ekki sama disaster og í fyrra en aðal svekkelsið hefur verið hversu langan tíma það hefur tekið klára leikmannakaup. En ég er mjög sáttur við kaupin. Victor Lindelöf þarf klárlega smá tíma til að aðlagast og það væri fráleitt að dæma hann eftir þetta undirbúningstímabil. Minni bara fólk á hvernig Vidic og Evra byrjuðu sinn United feril. Romelu Lukaku lítur hrikalega vel út og hefur skorað vel á undirbúningstímabilinu og með smá heppni hefði hann getað skorað tvö mörk gegn Real Madrid í Super Cup. Nemanja Matić er týpa sem okkur hefur klárlega vantað og fannst mér hann fyrir utan David de Gea besti leikmaður United í Super Cup leiknum. Nema að við mætum Real aftur á þessa tímabili þá er þetta erfiðasti leikur United á tímabilinu og er engin skömm í að tapa 2-1 fyrir besta liði Evrópu tvö ár í röð. Ég held að það muni bætast eitt nafn í leikmannahópinn í viðbót. Þá er ég ekki að tala um Zlatan þó svo ég búist við honum aftur.
Ég held að þetta verði tímabil þar sem liðið verður í topp 3 baráttu og jafnvel í titilbaráttu og vonandi nægilega sterkt til að hreinlega vinna titilinn. Ég vil sjá Manchester United komast amk í undanúrslit í Meistaradeildinni en það mun fara eftir því hvort við fáum ein dúndurkaup í viðbót. Ég vil alltaf sjá United taka báðar bikarkeppnirnar alvarlega og við höfum deildarbikar að verja og vil sjá það gerast. Ég held að Lukaku muni skora fullt af mörkum og Pogba muni eiga slatta af stoðsendingum sem búa þau færi til.
Runólfur
Sumarglugginn hefur verið áhugaverður svo ekki sé meira sagt. Markaðurinn er endanlega farinn til fjandans og það sannaðist líklega með 222 milljón evra kaupum PSG á Neymar. Hvað varðar okkar ástkæra félag þá er ég nokkuð sáttur með gluggann hingað til. Ég viðurkenni að ég hef ennþá mínar efasemdir um Romelu Lukaku en hann passar inn í það sem ég held að José Mourinho sé að hugsa og svo má hann eiga það – hann skorar mörk! Victor Lindelöf hefur eytt mestu undirbúningstímabilinu í það að minna meira á belju á svelli heldur en 30 milljón punda miðvörð en það geta ekki allir komið jafn sterkt inn og Eric Bailly gerði í fyrra. Að því sögðu þá hef ég engar áhyggjur af honum því ef það er eitthvað sem Mourinho kann þá er það að kaupa miðverði. Nemanja Matić eru svo hin fullkomnu kaup á miðjuna okkar – ég sé ekkert því til fyrirstöðu að hann, Paul Pogba og Ander Herrera verði besta miðja deildarinnar á næsta ári.
Mourinho hefur verið að prófa sig áfram í 3-5-2 / 3-4-3 leikkerfinu sem er að tröllríða knattspyrnuheiminum þessa dagana enda sýndi það sig gegn Chelsea á Old Trafford í vor að þetta er líklega ein besta leiðin til að tækla lið sem kunna að spila þetta kerfi. Mig grunar því að United spili einhverja útfærslu af klassísku 4-3-3 og svo 3-5-2. Held að við sjáum hins vegar ekki mikið af 3-4-3 hjá United þar sem mig grunar að Mourinho vilji spila tveimur framherjum í því kerfi á sama tíma og hann leggur rútunni á miðsvæðinu. Annars læðist að mér sá grunur að United gæti orðið eitt besta skyndisóknarlið ensku deildarinnar í vetur og mögulega Evrópu en hraðinn í liðinu er gríðarlegur. Að því sögðu þá þurfa margir að stíga upp frá því í fyrra, allavega í deildinni.
Hvað varðar mótherjana þá veit ég ekki alveg hvað mér finnst. Ég spáði því í fyrra að Manchesterliðin tvö yrðu í efstu tveimur sætum deildarinnar og ég spái því aftur. Pep er allavega að spreða nóg til að búa til samkeppnishæft lið. Persónulega held ég að hóparnir hjá Tottenham, Liverpool og Chelsea séu of litlir en þau geta ennþá bætt við sig áður en glugginn lokar. Svo er stóra spurningin hvort Evrópukeppnin muni hafa vond áhrif á Arsenal en að auki eru þeirra bestu leikmenn samningslausir í lok tímabils svo mögulega verða þeir komnir með hugan við önnur félög strax í janúar/febrúar.
Tryggvi
Blaðamaður Guardian sem fylgdi okkar mönnum um Bandaríkin tók eftir einu í fari Mourinho á blaðamannafundum eftir æfingarleikina í sumar. Hann var afslappaður og af fasi hans að dæma mátti sjá að hann teldi möguleika United á tímabilinu nokkuð góða, án þess þó að vera eitthvað að ræða það á opinskáan hátt.
https://twitter.com/jamiejackson___/status/890024549672202242
Þannig líður mér nokkurn veginn. Ég hef góða tilfinningu fyrir tímabilinu án þess þó að mér finnist ég þurfa að hrópa það um stræti borgarinnar. Í fyrsta lagi er Mourinho búinn að byggja góðan grunn, það gerði hann á síðasta tímabili, þrátt fyrir að úrsliti einstakra leikja hafi ekki fallið með okkur.
Eins og sýnt hefur verið fram á skapaði United sér færi eins og topplið en nýtti þau eins og botnlið. Ég hugsa að ef United hefði nýtt 10-15 af þessum milljón færum sem fóru í vaskinn á síðasta tímabili hefðu jafnteflin ekki orðið fimmtán og United hefði endað mun ofar í deildinni. Varnarleikurinn var einnig öflugur og já, svo unnum við víst tvo titla. Þetta er grunnurinn sem verið er að byggja á.
Ofan á þetta höfum við bætt við einum miðverði sem getur vonandi myndað öflugt miðvarðarpar með Eric Bailly. Nemanja Matić er einnig kominn inn sem stálið á miðjuna sem getur vonandi frelsað Paul Pogba og Lukaku er mættur á svæðið til þess að klára þessi minni lið sem við lentum í vandræðum með á síðastasta tímabili.
Ofan á þetta mætti alveg bæta við 1-2 gæðaleikmönnum, helst upp á breiddina sem okkur vantaði svo sárlega síðasta tímabil. Það væri gott að geta skipt inn ferskum leikmönnum á milli leikja án þess að það kæmi sérstaklega niður á gæðum liðsins. Perišić og Aurier væru fínar viðbætur og myndu klárlega styrkja liðið.
En auðvitað verður þetta þrælerfitt tímabil. Hin liðin hafa flest styrkt sig vel og þá sérstaklega Manchester City. Við og þeir munum að mínu mati berjast um titilinn. Auðvitað var þetta líka sagt fyrir síðasta tímabilið en leikmannahópur City er mun sterkari núna en fyrir ári. Okkar hefur einnig styrkst og við erum ekki í þessari helvítis Evrópudeild sem sýgur kraftinn úr öllum atlögum að Englandsmeistaratitlinum.
Chelsea verða áfram sterkir ásamt Spurs. Breiddin er stærsta spurningamerkið hjá Liverpool sem hafa bætt við sig ágætum leikmönnum en þurfa meira ætli þeir sér stóra hluti. Ég afskrifa svo alveg Arsenal vegna Evrópudeildarinnar.
Bjarni says
Djarfir spámenn hér á ferð en að sjálfsögðu gallharðir utd menn. Mín spá kemur 2.jan hvort við eigum séns að taka dolluna. Það á ansi margt eftir að ganga upp fram að dómsdegi en gaman að lesa niðurstöður spékinganna. Iða í skinninu fyrir fyrsta leiknum en því miður þarf að vera F5 takkanum í fotmob. Það getur líka tekið á. GGMU
Björn Friðgeir says
Það er eitthvað af 4-4-2 fólki þarna úti, er forvitinn að vita hvaða leikmenn þið hafið í huga með þá uppstillingu. Matic og Pogba væntanlega og Herrera ekki með?
Halldór Marteins says
Veit ekki alveg með þessar 4-4-2 pælingar en ef það væri demantur þá væri allavega hægt að koma Pogba, Matic og Herrera fyrir öllum, með þá Mkhitaryan, Mata eða Pereira þarna fremstum á demantinum. Svo Lukaku og Martial/Rashford fremstir.
Þetta er alveg eitthvað sem mætti mögulega prófa
Bjarni says
Er einn af þessum 4-4-fokking-2 risaeðlum 🤠 en treysti utd liðinu í dag ekki fyrir því verkefni. Hryggjastykkið hér áður Stam (eins manns vörn), Johnsen (alt mulig man), Keane (box2box leiðtogi) og Cole (flugbeittur tígur). Höfðu sér við hlið óþrjótandi og áreiðanlega bakverði, Irvin og Neville, sem gátu sinnt köntunum, gefið fyrir og dóu fyrir félagið. Vængmenn annar, Giggs,með hraða og árásargirni blettatígurs en hinn,Becks með hárnákvæmum og eitruðum sendingum svo ekki sé talað um aukaspyrnur hægri vinstri. Scholes hinn þögli hermaður sem gat allt nema tæklað, samt elska ég þær. Svo var það Yorke með óútreiknanlegum hlaupum fram og aftur sem rugluðu alla varnarmenn í ríminu, hlaupin ekki til varnarkennslubókinni. Svo til stuðnings þessu liði voru Solskjær og Sheringham sem óþarfi er að lýsa. Mikið sakna ég þessara manna og vil því að 4 4 2 kerfið verði ekki tekið upp nema sambærilegir leikmenn finnist.
Robbi Mich says
Mikið óskaplega vona ég að bjartsýni ykkar verði að veruleika. Ég er svartsýnni og vonast bara til að við náum topp 4 og að komast uppúr riðlinum í Meistaradeildinni en auðvitað tek ég titilbaráttu með mikilli gleði og sömuleiðis að geta strítt bestu liðunum í Evrópu. Því miður finnst mér liðið ennþá vera spurningamerki og það er alltaf ómögulegt að vita hvernig nýju mennirnir fitta inn þó mér lítist vel á kaupin, en þetta er allt á leið í rétta átt. Ég hugsa að næsta tímabil verði okkar, að því gefnu að JM verði ennþá stjóri á næsta tímabili og hefur þá slípað liðið enn betur til með enn sterkari mönnum.