Félagaskiptaglugginn lokaði í vikunni og það er ekki hægt annað en segja að Unitedfólk sé ánægt með niðurstöðuna.
Keyptir voru þeir Romelu Lukaku fyrir 75 milljónir punda, Nemanja Matić á 35 milljónir punda og Victor Lindelöf á 31,5 milljónir punda. Að auki skrifaði Zlatan Ibrahimović undir nýjan samning. Lukaku og Matić hafa átt frábæra byrjun með liðinu, Zlatan mun koma sterkur inn, jafnvel fyrir áramót, og við gerum ekki veður útaf því þó það taki einhverja mánuði fyrir Lindelöf að komast í liðið.
Farnir eru þeir Wayne Rooney og Adnan Januzaj og ekki hægt að segja að það skilji eftir skörð í hópinn. Reyndar var Andreas Pereira lánaður til Valencia á föstudaginn, eftir að glugginn í Englandi lokaði, en sá spænski var opinn deginum lengur og Pereira ákvað að fá að spila meira en hægt var að lofa honum hjá United. Hægt verður að kalla hann til baka í janúar ef þörf þykir.
Í fyrravor skrifaði ég grein hér þar sem ég lýsti yfir vonbrigðum hvað innkaupin hjá United hefðu verið verið máttlaus í mörg ár og kallaði hana Sami innkaupalistinn í fimm ár.
Það er kominn tími til að uppfæra myndina góðu sem olli helst umræðu um það nákvæmlega hversu góð kaup Ángel di María hefðu verið.
Já það er óhætt að breyta Rojo úr slæmum kaupum í þokkaleg og eins voru Schneiderlin, Schweinsteiger og Memphis kaupin öll slæm eftir á að hyggja og skildu ekkert eftir. Ander Herrara grænn? Þegar hann verður aftur fastamaður! Mata? Ef þú vilt! Martial gulur? Nei veistu ég er of bjartsýnni fyrir hans hönd til að breyta því þrátt fyrir erfitt tímabil í fyrra. Og þessi vetur skyldi þó aldrei vera veturinn þegar Phil Jones springur út? haneibaralátamigdreymasmá.
En við sjáum hvað Mourinho hefur gert á þessum tveimur sumrum: Það er búið að fylla inn í töfluna að öðru leyti en því að Mourinho tókst ekki að fá Inter til að selja sér Ivan Perišić. Það þarf að bíða. Þangað til munu Marcus Rashford, Anthony Martial og Henrikh Mkhitaryan fylla þá stöðu og gera það alveg þokkalega
Það er því ekki að furða að United liðið í dag sé óþekkjanlegt frá því sem var fyrir 16 mánuðum síðan. Manchester United er eitt ríkasta félag heims og er farið að haga sér sem slíkt. Og ef einhver skyldi ætla að um sé að ræða eyðslu umfram efni þá er nóg að sýna þessa mynd.
Kaupin þrjú af síðustu fjórum árum hafa vissulega verið í meira lagi, en ekkert sem telja má hættulegt. Og af því ég get aldrei talað um innkaup án þessa að minnast á okkar ástkæru eigendur þá rifjum við upp að þegar Glazer fjölskyldan tók yfir hjá United árið 2005 lofaði Joel Glazer að hið minnsta 25 milljónum punda yrði varið á hverju ári og að auki væri hægt að bæta við um 20 milljónum punda ef sérstaklega vænlegur biti kæmi á markað.
Árið 2005 er vel merkt á þessari mynd og loforðið er veltuuppfært. Þetta loforð var vel í línu við það sem United hafði verið að eyða árin á undan en það var ekki fyrr en að Sir Alex hætti að það þurfti að fara að bæta í og síðan þá hefur félagið loksins verið að fjárfesta í leikmönnum eins og félagið hefur bolmagn til.
Og eins og taflan að ofan sýnir vel, þá hafa sérstaklega síðustu tvö ár leitt til þess að Manchester United er loksins komið með lið sem búast má við að berjist um titilinn.
Þetta verður spennandi vetur!
Heiðar says
Sagt að Riyad Mahrez hafi verið mættur til Manchester borgar á deadline day til að skrifa undir hjá United en kaupin hafi ekki náð að ganga í gegn! Athyglisvert ef rétt reynist.
Björn Friðgeir says
Skv Manchester Evening News ætluðu hann og ráðgjafarnir að reyna að fá þetta gegn, en United vildi hann ekki.
Hljómar eins og bíó!
Halldór Marteins says
Virkilega góð yfirferð og gaman að sjá hversu mikið innkaupadeild Manchester United hefur bætt sig síðan Mourinho kom. Þótt ég hafi nú reyndar verið afskaplega ánægður með sumargluggann 2014 á þeim tíma.
Ég er eiginlega sammála öllu í litakóðuninni hjá Bjössa nema ég myndi henda gulu á Darmian. Finnst hann ekki vera kandídat í sterkasta byrjunarlið United og ekki eins góður og við vonuðum þegar hann var keyptur en hann hefur sýnt það að hann getur komið inn og leyst af eða sinnt ákveðnum taktískum varnarhlutverkum vel.
Björn Friðgeir says
Jájá, ég var alveg að spá í að uppfæra grey Matteo. En, nei, hann er fyrsti maður út , hvort sem það verður af því að Shaw stendur sig, eða keyptur verður nýr. Bara spurning um hvenær