Það er óhætt að segja það að Manchester United hafi byrjað frábærlega í ensku úrvalsdeildinni þetta tímabilið. Þrír sigrar í þremur leikjum, fullt af mörkum skoruð og ekkert enn fengið á sig. Sú frammistaða hefur skilað Manchester United aftur á kunnuglegar slóðir í töflunni:
Þetta er fallegt en við vitum nú öll að það er alltof lítið liðið af tímabilinu til að fara að gera ráð fyrir titilbaráttu út tímabilið. Það hlýtur þó alltaf að vera betra að byrja vel en illa. Eða hvað, er það kannski ofmetið? Lítum aðeins á smá samanburð við fyrri tímabil.
Árin síðan Ferguson hætti
Tímabilið sem nú er nýhafið er það fimmta síðan besti knattspyrnustjóri allra tíma hætti hjá Manchester United. Eðlilega var erfitt að fylla í þá stöðu þótt vissulega hefði félagið getað staðið sig mun betur í því en það gerði. Fyrri tímabil hafa verið upp og ofan, aðallega vonbrigði þó í deildinni. En staðan eftir fyrstu þrjár umferðir síðustu fjögur tímabil var svona:
- 2013-14: 4 stig, 4 mörk skoruð, 2 fengin á sig
- 2014-15: 2 stig, 2 mörk skoruð, 3 fengin á sig
- 2015-16: 7 stig, 2 mörk skoruð, 0 fengin á sig
- 2016-17: 9 stig, 6 mörk skoruð, 1 fengið á sig
Það er ekki hægt að segja að byrjunin hafi verið sérstaklega glæsileg fyrstu þrjú tímabilin, sérstaklega ekki hvað skoruð mörk varðar. Enda hefur markaskorun oftar en ekki verið vandamál liðsins frá því Ferguson hætti.
Það sem er hins vegar athyglisvert er að árangur liðsins á þessum sömu tímabilum í deildinni er:
- 2013-14: 7. sæti
- 2014-15: 4. sæti
- 2015-16: 5. sæti
- 2016-17: 6. sæti
Besti árangurinn á þessum fjórum tímabilum kom eftir slökustu byrjunina. Að sama skapi var árangurinn í deildinni á síðasta tímabili vonbrigði, þrátt fyrir mjög góða byrjun.
Þegar United náði 4. sætinu þá var það tveimur góðum köflum að þakka, annars vegar frá nóvember til jóla og hins vegar frá febrúar og fram í apríl. Þar náði liðið í góðar tarnir af sigurleikjum. Svo hjálpaði það líka að 70 stig dugðu til 4. sætisins það árið, á öðru ári hefði það aðeins dugað í 6. sætið.
Eftir sterka byrjun fyrir ári síðan kom 11 leikja törn þar sem liðið vann aðeins 2 leiki, tapaði 3 og gerði 6 jafntefli. Liðið jafnaði sig aldrei á þeim erfiðleikum og náði því ekki að gera neina alvarlega atlögu að sætunum fyrir ofan 6. sætið.
Þegar Ferguson stýrði liðinu
Á rúmlega 26 ára ferli Sir Alex Ferguson hjá Manchester United þá kom það aðeins fjórum sinnum fyrir að liðið var með 9 stig eftir fyrstu þrjá leikina. Það tók tæplega 17 ár frá því hann hóf störf og þangað til það gerðist fyrst, haustið 2003.
Af þessum fjórum skiptum þá gerðist það hins vegar aðeins einu sinni að Manchester United endaði tímabilið sem Englandsmeistari. Það var tímabilið 2006-07, þegar liðið byrjaði á að vinna Fulham, Charlton og Watford með markatölu upp á 10-2. Í hin skiptin var árangurinn svona (fyrst staðan eftir 3 umferðir, svo sætið sem liðið endaði í á tímabilinu):
- 2003-04: 9 stig, markatalan 7-1; 3. sætið
- 2005-06: 9 stig, markatalan 5-0; 2. sætið
- 2011-12: 9 stig, markatalan 13-3; 2. sætið
Ef við skoðum þau tímabil þar sem liðið byrjaði óvenju illa þá var liðið einu sinni með 2 stig eftir fyrstu 3 leikina (markatölu 1-2) og einu sinni fékk liðið aðeins 1 stig eftir fyrstu þrjá leikina (markatala 2-5). Í bæði skiptin endaði liðið þó á að lyfta Englandsmeistaratitlinum í lok tímabils.
Ég kíkti að gamni mínu á samanburð á þeim tímabilum sem liðið vann deildina undir stjórn Ferguson og þeim tímabilum sem liðið vann ekki deildina. Ákvað að sleppa fyrsta tímabilinu, þegar Ferguson hóf störf í nóvember. Annars eru þetta 13 tímabil með titli og 13 tímabil án titils.
Tímabil þegar United vann deildina:
- Meðalfjöldi stiga eftir 3 umferðir: 5,3 stig
- Meðalfjöldi marka sem liðið skoraði: 5,5 mörk
- Meðalfjöldi marka sem liðið fékk á sig: 3,0 mörk
Tímabil þegar United vann ekki deildina:
- Meðalfjöldi stiga eftir 3 umferðir: 6,2 stig
- Meðalfjöldi marka sem liðið skoraði: 4,8 mörk
- Meðalfjöldi marka sem liðið fékk á sig: 1,8 mörk
Manchester United fékk næstum því heilt stig meira að meðaltali þau tímabil sem liðið vann ekki ensku deildina. Þau tímabil skoraði liðið minna af mörkum en fékk líka töluvert færri mörk á sig.
Nú ætla ég ekki að halda því fram að það sé beinlínis betra fyrir liðið að byrja illa, það er ekki niðurstaðan sem ég dreg af þessari samantekt. Ef það væri einhver niðurstaða þá væri það helst þessi:
Ferguson vann ekki deildina í ágúst.
Einföld niðurstaða, sumir myndu eflaust segja að þetta væri augljós staðreynd þar sem ekkert lið nær að vinna ensku deildina í ágúst. Við sem fylgdumst með liðinu undir stjórn Fergie ættum líka að muna hvenær liðið var iðulega sterkast undir hans stjórn, það var upp úr áramótum. Þegar álagið fór virkilega að segja til sín, þá blómstruðu liðin hans Fergie. Það var tíminn þegar liðið náði andstæðingum ef þurfti og sigldi fram úr. Góð byrjun var aukaatriði, liðin hans Fergie unnu fleiri deildartitla eftir að hafa náð í 1-2 stig eftir fyrstu 3 heldur en þegar það náði í öll 9 stigin. Það segir ekki allt en það segir heilmikið.
Mourinho-leiðin
Manchester United vann fyrstu 3 leikina á fyrsta tímabili José Mourinho með liðinu. Eftir það kom hins vegar ákaflega slakur kafli, eins og minnst var á hér að ofan. Ef tímabil Mourinho hjá Chelsea eru hins vegar skoðuð þá sést eftirfarandi mynstur:
- 2004-05: 9 stig, markatala 4-0; 1. sæti
- 2005-06: 9 stig, markatala 6-0; 1. sæti
- 2006-07: 6 stig, markatala 6-2; 2. sæti
- 2007-08: 7 stig, markatala 6-4; 2. sæti (Mourinho hættur í september)
- 2013-14: 7 stig, markatala 4-1; 3. sæti
- 2014-15: 9 stig, markatala 11-4; 1. sæti
- 2015-16: 4 stig, markatala 5-7; 10. sæti (Mourinho hættur í desember)
Semsagt, í öll skiptin sem Mourinho hefur unnið ensku deildina þá hefur hann byrjað tímabilið á að vinna fyrstu 3 deildarleikina. Í tvö þessara skipta hélt liðið líka hreinu á þeim tíma.
Það er nokkuð merkilegt að þessi hefð á bara við um England. Mourinho hefur samtals unnið 5 deildartitla í Portúgal, Ítalíu og á Spáni en enginn þeirra kom eftir 9 stiga byrjun.
Í þessi skipti sem Mourinho vann ensku deildina með Chelsea þá lagði liðið alltaf grunninn að þeim sigrum með frábærri byrjun, liðið komst í efsta sæti deildarinnar snemma og hélt því sæti allt til loka. Þrír leikir voru þó ekki nóg, liðið náði eftirfarandi árangri í upphafi titlatímabilanna:
- 2004-05: sigur í fyrstu 4, taplaust í fyrstu 8
- 2005-06: sigur í fyrstu 9, taplaust í fyrstu 11
- 2014-15: sigur í fyrstu 4, taplaust í fyrstu 14
Niðurstaða?
Það er í sjálfu sér engin eiginleg niðurstaða í þessu og það var heldur ekki ætlunin með þessum pistli. Pælingin var aðallega að skoða þessa skemmtilegu stöðu í smá samhengi og stytta stundir í þessu langa landsleikjahléi fram að næsta leik hjá Manchester United.
Liðið þarf að halda áfram á sömu leið ætli það sér að taka Mourinho leiðina á þetta. Vinna næstu leiki, taplaust í enn fleiri leikjum. Halda efsta sætinu og verja það með kjafti og klóm út tímabilið. Það væri ekkert leiðinlegt.
En ef það kemur tapleikur, jafnvel fleiri en einn, þá er alltaf hægt að taka Ferguson leiðina og sigla fram úr hinum liðunum upp úr áramótum.
Í báðar þessar leiðir þarf mikinn karakter, mikil gæði innan vallar sem og frá hliðarlínunni, hungur og góða nýtingu á hópnum. Það eru mörg próf eftir þar sem liðið getur sýnt að það sé nógu gott til að berjast um titilinn.
Framundan hjá liðinu
Næstu leikir verða góðir prófsteinar á stöðu liðsins. Liðið byrjar á að heimsækja Stoke þar sem liðið hefur ekki unnið útileik í deildinni síðan Ferguson var stjóri (2 jafntefli, 2 töp, markatala 3-6). Síðan kemur Everton í heimsókn með spennandi lið. Þetta eru hvort tveggja leikir sem enduðu 1-1 á síðasta tímabili, það verður spennandi að sjá hvort þessi góða byrjun Manchester United heldur áfram í þeim leikjum eða hvort þeir muni verða liðinu jafn erfiðir og þeir voru í fyrra.
Jörgen says
Frabær pistill og skemmtilegar pælingar
Robbi Mich says
Skemmtileg samantekt.
Árni Þór says
Mjög nett samantekt, hef verið að pæla í þessu mikið sjálfur og gaman að hafa þetta allt á svart á hvítu. Vel Gert ;)