Þrír leikir, þrír sigrar og níu stig, hljómar það kunnuglega? Sú var raunin eftir fyrstu þrjár umferðirnar í fyrra og bjartsýnin var töluverð. Jose Mourinho og Zlatan Ibrahimovic voru mættir á leikvang draumanna og eftir frábæra byrjun voru okkur allir vegir færir! Eða þannig, við unnum einn af næstu sjö deildarleikjum.
Eftir þrjá leiki í ár er staðan sú sama og bjartsýnin jafnvel enn meiri en sagan segir okkur að best er að fara ekki framúr sér. Við getum þó byggt enn fremur á góðri byrjun á morgun og hvergi er betri staður til þess en heimavöllur Peter Crouch og félaga í Stoke. Að sjálfsögðu er spáð mikilli úrkomu og þrumuskúr í Stoke-on-Trent í síðdeginu á morgun og því er framundan leikurinn sem allir segja að Lionel nokkur Messi ætti ekki roð í; rigningarleikur á Britannia vellinum.
Mótherjinn
Mark Hughes og félagar í Stoke byrjuðu á því taka þátt í drauma endurkomu Wayne Rooney á Goodison Park þar sem okkar fyrrum fyrirliði skoraði eina mark leiksins. Því svekkelsi var fljótgleymt og nýji maðurinn Jesé skoraði sigurmarkið gegn Arsenal í annarri umferðinni. Sú úrslit vöktu meiri athygli fjölmiðla en sanngjarnt er; Stoke hefur tapað einum af síðustu átta viðureignum sínum gegn Arsenal á heimavelli, unnið fjóra. Næst á dagskrá var þægilegur 4:0 sigur í enska deildabikarnum gegn Rochdale áður en Peter Crouch bjargaði stigi á Hawthorns gegn West Brom í lokaleiknum fyrir landsleikjahlé.
Byrjun Stoke hefur því verið ágæt og á gluggadeginum gekk félagið frá kaupum á austurríska miðverðinum Kevin Wimmer frá Tottenham. Hann er líklegur til að spila sinn fyrsta leik fyrir Stoke gegn United á morgun. Fyrrum United mennirnir Darren Fletcher og Mame Biram Diouf eru svo að hrista af sér smávægileg meiðsli og líklegir til að spila gegn sínu gamla félagi. Eric Maxim Choupo-Moting og Ibrahim Afellay eru á langtíma sjúkralistanum og verða ekki með.
Áfallalaust landsleikjahlé
Klukkan er gleði allan sólarhringinn í Manchester þessa daganna enda byrjun tímabilsins hvetjandi. Það eru þó alltaf spurningamerki í kringum fyrsta leik eftir landsleikjahlé og vert að renna lauslega yfir hvað leikmenn United hafa verið að bauka síðustu vikur.
Romelu Lukaku var í sviðsljósinu með Belgíu er hann skoraði fjögur mörk í tveimur leikjum, gegn Grikklandi og Gíbraltar, en Belgar urðu jafnframt fyrstir til að tryggja sér sæti á HM 2018. Ungstirnið Marcus Rashford var svo allt í öllu í sigri Englands á Slóvakíu. Hann gerði sig sekan um slæm mistök sem leiddu til fyrsta marks slóvaka, en skoraði svo sjálfur sigurmark leiksins seint og síðar meir. Daley Blind lagði upp tvö mörk í 3:1 sigri Hollands á Búlgaríu á meðan Timothy Fosu-Mensah lék sinn fyrsta A-landsleik er Holland tapaði 4:0 gegn Frökkum. Markverðirnir okkar gerðu sitt; David de Gea hélt hreinu í báðum leikjum Spánar í undankeppni HM og Sergio Romero hélt hreinu gegn Luis Suarez og félögum í Úrúgvæ. Stærstu fréttirnir eru þó sennilega þær að Phil Jones fór slysalaust í gegnum tvisvar 90 mínútur fyrir England og er líklegur til að spila á morgun, ótrúlegt.
Bestu fréttirnar eru auðvitað þær að við komum undan þessu hléi stóráfallalaust. Ashley Young og Luke Shaw fengu mínútur með varaliðinu á dögunum og gætu því komið til greina í hóp á meðan Marcos Rojo og Zlatan eru auðvitað áfram á langtíma fjarverulistanum. David de Gea og Sergio Romero eru við hestaheilsu og því ólíklegt að Jose Mourinho þurfi að bregða sér á milli stanganna eins og hann gerði á dögunum í góðgerðarleiknum sem haldin var í kjölfar brunans í Grenfell turninum í London.
Stærsta prófraunin til þessa
Viðureignir okkar við Stoke í fyrra voru nokkuð dæmigerðar fyrir það tímabil sem við áttum. Anthony Martial skoraði sitt fyrsta mark á tímabilinu á Old Trafford í byrjun október þegar Stoke kom í heimsókn en síðbúið mark frá Joe Allen þýddi að Stoke vann sitt fyrsta úrvalsdeildarstig á Old Trafford frá upphafi. United spilaði mun betur á Bet365 vellinum í seinni viðureigninni í janúar á þessu ári, en aftur varð niðurstaðan jafntefli. Juan Mata skoraði sjálfsmark snemma leiks og eftir tilraun í þverslá og stórleik Lee Grant í marki Stoke stefndi allt í ósigur þangað til Wayne Rooney skoraði hið sögulega jöfnunarmark í blálokin sem gerði hann að markahæsta leikmanni félagsins frá upphafi.
https://www.instagram.com/p/BYvZVG3FKAb/
Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá þessum leikjum og kannski helsti munurinn á United liðinu í dag er hversu miskunnarlaust það er orðið í sóknarleiknum. Romelu Lukaku er sjóðheitur við markið og Nemanja Matic hefur fallið sem flís við rass í miðjuspilið okkar, hvenær áttum við leikmann eins og hann á miðjunni og af hverju í ósköpunum gátum við bara fengið hann yfir höfuð! Þetta verður þó stærsta prófraunin til þessa í deildinni og mikilvægt að leikmenn á borð við Paul Pogba haldi áfram að stíga upp en hann var valinn leikmaður ágúst mánaðar hjá félaginu á dögunum, hamingjuóskir til hans með það. Leicester fékk færi á Old Trafford í síðasta leik og, gegn sterkara liði, hefði getað farið töluvert verr. Stoke er þó ekki líklegt til að hafa sama sóknarþunga og Leicester en varnarlega hefur liðið farið vel af stað. Þar að auki hefur Mark Hughes bætt við sig Kevin Wimmer en hann var nú þegar með varnarmenn á borð við Bruno Martins Indi og Kurt Zouma. Svo þarf að fylgjast með hinum spænska Jesé sem var ekki búinn að mæta á margar æfingar með Stoke þegar hann fór illa með Arsenal.
"It's been great for me and the team."@PaulPogba on the strong start that earned him our August POTM award: https://t.co/3eh7LdK0gS pic.twitter.com/6JU42Kvx3I
— Manchester United (@ManUtd) September 7, 2017
Ég ætla að gerast svo ótrúlega kaldur að spá óbreyttu liði!
Þessi leikur er tækifæri til að halda frábærri byrjun gangandi og sigur á morgun yrði sömuleiðis gott veganesti inn í Meistaradeildina sem hefst í næstu viku. Það er þéttsetið prógram framundan í september og það væru skýr merki um okkar ásetning að hefja hann á þremur stigum.
einar_eee says
Góð upphitun! Get ekki beðið en þetta verður helvíti erfitt, en ég ætla vera bjartsýnn og spá okkur mjög tæpum 1-2 sigri á ‘The Orcs’.
Ég las að við höfum víst ekki unnið í deildinni á þessum bölvaða velli síðan Sir Alex Ferguson var við stjórn. Talandi um þennan bölvað völl – ein skondin leiðrétting – völlurinn ber ekki lengur hið volduga og fína nafn Britannia Stadium heldur var í fyrra endurskírður sem „bet365 Stadium“ #LOL
Keane says
Flott upphitun. Lpool -5
Keane says
Afsakið.. Liverpoolinthians. -5
Bjarni says
Fín upphitun en við þurfum að klára Stoke áður en við fögnum óförum annarra, það alla vegana mín fílasófía. Líst vel á byrjunarliðið en þetta verður hörku barátta allt til loka og við höfum ekki náð góðum úrslitum síðustu tímabil. Gleymum því og sækjum 3 stig í dag.