Dýrlingarnir tóku á móti okkar mönnum á St. Mary’s í dag en Jose Mourinho stillti upp sterku liði, Fellaini, De Gea, Lukaku, Matic og Mkhitaryan komu allir inn í byrjunarliðið.
Lið Southampton var einnig gríðarlega sterk. Þó vermdu Gabbiadini og Virgil van Djik bekkinn, greinilegt að sá síðarnefndi er enn í skammarkróknum en svo virðist vera að Shane Long hafi átt að þreyta vörnina hjá United og Gabbiadini átt að koma ferskur inn í lok leiks.
Leikurinn byrjaði ágætlega, fjörugur og opinn og stefndi í skemmtilegan leik. Sú varð þó ekki raunin, en bæði lið fengu ágætis skot á fyrstu 10 mínútunum, fyrst Henrik Mkhitaryan fyrir United og svo Nathan Redmond hinu megin á vellinum.
Það var ekki fyrr en á 20. mínútu að Young fær sendingu frá Mkhitaryan á vinstri vænginn, tekur góða gagnhreyfingu og nær fyrirtaks fyrirgjöf inn í teig þar sem enginn annar en belgíski prinsinn okkar, Romelu Lukaku, á í smá baráttu við Weasley Wood áður en hann nær að koma boltanum á markið sem er varið en Lukaku nær að fylgja eftir og skorar framhjá Fraser Forster.
Eftir markið færðist lið Southampton framar á völlinn en engin almennileg færi litu dagsins ljós fyrr en United fékk aukaspyrnu fyrir utan teiginn. Rashford tók spyrnuna, lyfti boltanum yfir vegginn og svo virtist sem Forster myndi ekki ná til hans en boltinn endaði röngu megin við stöngina.
Næst kom góður kafli hjá Southampton þar sem þeir voru mikið með boltann en lítil hætta skapaðist þar sem síðasta sendingin virtist alltaf bregðast þeim. Á 42. mínútu fékk Mata hins vegar sendingu inn fyrir vörn dýrlinganna sem gáfust upp og virtust hreinlega allir halda að hann væri rangstæður en United náði ekki að nýta sér það.
Vörn United leit vel út í fyrri hálfleik og náði að slökkva nánast alla elda sem heimaliðið reyndi að kveikja.
Seinni hálfleikur
Í seinni hálfleik komust Southampton mun meira inn í leikinn, stjórnuðu ferðinni lengst af og United átti í basli. Þeim tókst ekki að halda boltanum né færa liðið framar á völlinn. Leikmenn liðsins vörðust þó af krafti og vinnusemin skein úr liðinu, má þar helst nefna Rashford sem var áberandi duglegastur við að Young.
Snemma í síðari hálfleiknum tók Redmond, sem var einn albesti leikmaður Southampton í leiknum, að leika á Valencia og kom með fullkomna fyrirgjöf en Shane Long stýrði boltanum langt framhjá markinu.
Embed from Getty Images
Skömmu síðar áttust Phil Jones og Shane Long við í baráttu um boltann og vildu sumir Southampton menn meina að Jones hefði brotið af sér og heimtuðu rautt á Jones. Craig Pawson, sem átti sæmilegan dag, var ekki á sama máli og lét leikinn halda áfram. Enn réðu dýrlingarnir öllu á vellinum en svo virtist sem flestar þeirra sóknir væru ansi bitlausar og hefur De Gea oft átt mun annasamari daga en þennan.
Á 62. mínútu kom Herrera inn á fyrir Mata, sem var vísirinn að skipulagi Mourinho í síðari hálfleik, örlítið meiri áherslu á varnarleikinn en við upphaf leiks. Strax eftir skiptinguna komust United í hættulega sókn, þar sem Mkhitaryan, Lukaku og Rashford komust einir gegn tveimur varnarmönnum en Mkhitaryan ákvað að senda á Lukaku frekar en Rashford, en skot hans var varið auðveldlega.
Stuttu síðar átti Romeo skot sem rúllaði framhjá De Gea og, sem betur fer, stönginni líka. Strax í kjölfarið átti Rashford flotta sendingu framhjá varnarmönnum Southampton á Lukaku sem renndi boltanum á Herrera sem var einn og óvaldaður á vítapunktinum en fipaðist eitthvað og skot hans fór yfir rammann.
Þegar hér var komið við sögu var Southampton mun meira með boltann og United einungis að beita hálfgerðum skyndisóknum. Jose Mourinho brá þá á það ráð að taka Mkhitaryan útaf og setja Smalling inná, miðvörð inn fyrir sóknartengilið, greinilega ætlaði Mourinho að halda þessum 3 stigum og sætta sig við að skora ekki fleiri. Næsta skipting bar keim af því sama, Daley Blind inn fyrir Rashford.
Embed from Getty Images
Southampton reyndu hvað þeir gátu að reyna brjóta sér leið í gegnum himinnháan varnarmúr rauðu djöflanna, Fraser Forster kom meira að segja út í horn undir lok leiks en allt kom fyrir ekki. Það vantaði þessar grimmd, þetta bit til að klára leikinn, eitthvað sem United stuðningsmenn þekkja of vel frá fyrri leiktíðum.
Rétt fyrir lok leiks var Jose Mourinho vikið af velli fyrir afskipti sín af fjórða dómaranum, en það hafði ekki áhrif á leikinn að öðru leyti en að tefja fyrir Southampton. Loks gall flauta Pawson við og United öruggt um þrjú stig í hús sem við þurftum virkilega að hafa fyrir.
Southampton var mun baráttuglaðara liðið í seinni hálfleik og greinilegt að Mourinho þarf að skerpa á okkar mönnum sem eiga núna marga útileiki á næstunni, þann næsta í Rússlandi við CSKA Moskvu í Meistaradeildinni.
einar__ says
Fínn fyrri hálfleikur þó ég sé skríthræddur við að 1-1 grýlan sé að fara mæta á svæðið. Southampton vel spilandi lið, gott að sjá þá keyra á fullt í stað þess að detta með 9 menn í vörn einsog vill gerast. Bæði VVD og Gabbiadini á bekknum?!
Fellaini flottur. Hefði þessi tækling frá Long verið á eitthvern annan en Fellaini hefði þetta verið rautt. Fátt um færi en verðskulduð forysta. Ég skil samt ekkert með Lukaku. Hann er kominn með 8 mörk í hans 8 fyrstu keppnisleikjum með United. Samt voru allir liverpool vinir mínir búnir segja mér að hann væri svo lélegur því fyrsta touch’ið hans væri svo slæmt :D #maskína
Keane says
Þetta hafðist. 3 stig er það sem máli skiptir.
einar__ says
Tæpt var það. Southampton svoleiðis lág á okkur í síðari. En virkilega vel gert að landa þessu. Ég get svosem *lofað* því að það munu nokkur ‘topplið’ tapa stigum á þessum velli.
Í fyrra hefði þessi leikur farið 1-1. Það er bara þannig.
3 stig, skál.
Karl Garðars says
Skelfilega leiðinlegur leikur. Manni leið hàlfpartinn eins og í samfélagstilraun hjá Mourinho þegar hann setti varnarmennina inn á. Eins konar LVG flashback.
En við tökum þessi 3 stig og vonum að þetta komi ekki fyrir aftur. :)
Cantona no 7 says
Góður og mjög mikilvægur sigur.
Frábær byrjun hjá liðinu á tímabilinu.
G G M U
Stefan says
Þetta er nú töluvert verra en LVG spilamennska.
Alveg hræðilegt hvernig Mourinho lætur þetta lið stundum spila, leiðinlegasti fotbolti í heimi.
Runólfur Trausti says
Já þessi frammistaða er ekki boðleg – það verður bara að segjast.
16 stig og 17 mörk skoruð í sex deildarleikjum á meðan liðið hefur aðeins fengið tvö mörk á sig. Óþolandi hversu varnarsinnaður og leiðinlegur Mourinho er.
Tala nú ekki um frammistöðuna í bikarkeppnum hingað til. Liðið rétt marði Basel 3-0 og slefaði í sigur gegn Burton. Og fengu meira að segja á sig mark gegn Burton.
#BringVanGaalBack
#SagðiEnginnAldrei
Ég persónulega hef mjög gaman af því að sjá liðið vinna leiki 1-0 sem hefðu líklega tapast eða endað 1-1 á undanförnum árum. Hins vegar hefur maður smá áhyggjur af liðinu án Paul Pogba.
Elias says
Var komið á hreint hvað Pogba er lengi frá?