Margir horfðu á annríkan september mánuð sem ákveðið próf fyrir Manchester United sem hafði farið vel af stað og unnið alla þrjá deildarleiki sína í ágúst. Eftir óheppilegt jafntefli á útivelli gegn Stoke í fyrsta leik mánaðarins hafa lærisveinar Mourinho ekki litið til baka. Í Meistaradeildinni hafa tveir leikir unnist þægilega sem og einn í enska deildabikarnum og í úrvalsdeildinni var Wayne Rooney og félögum í Everton skellt 4:0 áður en Mourinho gerði það sem Mourinho gerir best í sterkum útivallarsigri gegn Southampton. Á morgun kemur Crystal Palace í heimsókn í lokaleik september og óhætt er að segja að með sigri þar hefur lið United svo sannarlega staðist prófið.
Crystal Palace
Sex leikir, sex töp, engin mörk skoruð og neðstir í deildinni er staðan hjá andstæðingi morgundagsins. Hinn hollenski Frank de Boer tók við stjórnartaumunum í sumar en hann átti að hjálpa félaginu að breyta um áherslur og verða betra fótboltalið. 10 vikum og fjórum tapleikjum seinna var þeim áætlunum hent út um gluggann, Boer látinn taka poka sinn og forráðamenn ákveðið að fara í eitthvað aðeins meira enskt og klassískt: hinn sjötuga Roy Hodgson sem hefur m.a. unnið það til afreka að stýra Liverpool og enska landsliðinu. Undir Roy gamla heldur liðið áfram að tapa og ekki skora mörk en það gæti vel verið að gamli maðurinn hafi reynsluna og kænskuna í að snúa ógöngum félagsins við.
Okkar maður Timothy Fosu-Mensah er á láni hjá Palace og spilar auðvitað ekki á morgun og sömu sögu er að segja af fyrrum United manninum Wilfried Zaha sem er meiddur. Á meiðslalistanum er einnig Christian Benteke og er það heldur betur skarð fyrir skildi fyrir Crystal Palace að vera án þeirra.
Okkar menn
Leikirnir halda áfram að koma á færibandi og Jose Mourinho sá tilefni til að kvarta undan því að þurfa spila á miðvikudegi í Meistaradeildinni og svo strax á laugardegi í úrvalsdeildinni en hvernig sem því líður eru væntingarnar einfaldlega miklar. Við virðumst vera að skora fjögur mörk í leik oftar en ekki og mætum á morgun langneðsta og lakasta liði deildarinnar til þessa. Það má að sjálfsögðu engan andstæðing vanmeta en allt annað en sigur á morgun yrði hreinlega skellur.
Við erum nokkuð fátækir á miðjunni og sennilega mun mæða mikið á Nemanja Matic og Ander Herrera sem spiluðu 90 mínútur í Rússlandi. Eitthvað eru menn óvissir um þátttöku Phil Jones, sem hefur verið frábær hingað til, og þá ekki ólíklegt að Chris Smalling komi inn í vörnina. Ashley Young hefur verið öflugur í vinstri bakverðinum og var tekinn af velli eftir rúman klukkutíma leik á miðvikudaginn, það er því ansi líklegt að hann haldi sæti sínu á morgun. Í sókninni er flest að ganga upp; Romelu Lukaku heldur áfram að skora og Anthony Martial, Marcus Rashford og Henrikh Mkhitaryan taka allir sénsinn þegar hann býðst. Það er hausverkur af góðu sortinni fyrir Mourinho að velja á milli Rashford og Martial sem spila sjaldan saman; undirritaður býst við Rashford á morgun fyrst að Frakkinn spilaði Meistaradeildarleikinn.
http://gty.im/845791896
Zlatan Ibrahimovic og Marcos Rojo eru sem fyrr á meiðslalistanum. Þar bætast svo þeir Paul Pogba, Michael Carrick og Marouane Fellaini við og ljóst að við erum nokkuð fátækir á miðjumenn þessa daganna. Phil Jones spilaði ekki í miðri viku í Meistaradeildinni og er tæpur fyrir leik morgundagsins.
Í Moskvu spiluðum við 3-5-2 leikkerfi sem svínvirkaði. Ég ætla þó að spá því að Mourinho fari hefðbundnari leiðir gegn Crystal Palace á heimavelli og jafnvel gerist ég svo djarfur að spá 4:0 sigri. Byrjunarliðið gæti orðið eftirfarandi:
Rúnar P. says
Veðbankarnir eru allavega með svipaðan stuðul fyrir „yfir/undir 3.5“ mörk eins og margir 2.5 leikir..
Björn Friðgeir says
Jones og Carrick verða ekki með og Pogba er núna flokkaður með Rojo og Zlatan sem langtímameiðsli.
Bjarni says
Þennan leik eigum við að vinna ef fókusinn er rétt stilltur. Svo einfalt er það. En fótboltaleikur getur verið óútreiknanlegur það vitum við og hefur sýnt sig en ég hef fulla trú að við gerum nóg til að vinna leikinn þó það verði engin glansfótbolti. CP eru allan daginn að pakka í vörn, og sækja á 2-3 mönnum.
einar_eee says
Sýnd veiði en ekki gefin og allt það. Það má alltaf búast við þreyttum leggjum eftir útileik í Rússlandi svo ég bíst við eitthverju allt öðru en flugeldasýningu á morgun.
Vonandi ná þeir marki snemma sem opnar leikinn upp, annars er hætt við að þetta verði heljarinnar þolinmæðisraun.
2-1 sigur!
Friðrik Már Ævarsson says
Ég væri til í að sjá Lingard og Rashford byrja. Láta þá hlaupa vörnina sundur og saman og ef svo ólíklega vill til að við verðum ekki búnir að skora á 60. mín að fá þá frönsku rakettuna inná til að sanka að sér stoðsendingum fyrir Lukaku.
Ég held að við verðum komnir yfir eftir hálftíma leik en leikurinn verði ekki eins auðveldur og hann virðist á pappírnum. Sé það skrifað í skýin að CP nái að setja eitt í þessum leik. 3-1 erfiðis sigur
Karl Garðars says
Örlar aðeins á ónotatilfinningu fyrir þennan leik og vottur af hræðslu um að okkar menn vanmeti mögulega Palace. Að teknu tilliti til þess þá naga ég neglurnar fram að leik og United vinnur 5-1.
Góðir hlutir í gangi hjá Mourinho og engir gíslar teknir.