„Ekki hrokafullir, bara betri.“ Svo hljóðar borði nokkur sem hressir United stuðningsmenn létu prenta á sínum tíma sem svar við þeim háværu röddum að stuðningsmenn Manchester United væru upp til hópa hrokafullir leiðindapúkar. Þó við tökum ekki undir slíkar alhæfingar þá minnist undirritaður engu að síður annarra tíma þegar gamli maðurinn Ferguson sá til þess að sigrar og árangur voru nánast sjálfsagður hlutur. Það var kannski ekki ætlunin að vera hrokafullur en ég minnist þeirra tíma þegar leikir gegn Wigan/Watford/West Ham/klúbbur í neðri hlutanum að eigin vali á Old Trafford vöktu upp tilhlökkun. Þrjú stig og fjögur mörk í plús á laugardaginn, hljómar vel!
Okkar manni David Moyes fannst þessir yfirburðir United eitthvað ósanngjarnir og rétti stöðuna aðeins af, skyndilega voru allir leikir á Old Trafford bullandi barátta og ekkert gefins. Við United menn munum sennilega aldrei fara í okkar gamla horf enda ólíklegt að nokkuð lið muni drottna yfir velgengni enskrar knattspyrnu eins og United gerði á gullaldarárum Sir Alex, en það er einhver neisti kominn aftur á leikvang draumanna. Hroki? Kannski ekki, en þegar ég las Crystal Palace á heimavelli um helgina þá hugsaði ég einfaldlega; þrjú stig og fjögur mörk í plús á laugardaginn, hljómar vel.
Jose Mourinho bauð ekki upp á neitt óvænt með uppstillingunni 4-2-3-1 en Marouane Fellaini var nokkuð óvænt í liðinu. Anthony Martial þurfti að setjast á bekkinn eftir frábæran leik í Moskvu fyrr í vikunni og einhverjir urðu fyrir vonbrigðum með það en Marcus Rashford byrjaði í hans stað, nokkuð fyrirsjáanlegt að mínu mati.
Bekkur: Romero, Bailly, Blind, Darmian, Herrera, Lingard, Martial
Roy Hodgson stillti Crystal Palace upp svona:
Bekkur: Speroni, Lee Chung-yong, McArthur, Ladapo, Mutch, Kelly, Reidewald
Leikurinn
Okkar menn byrjuðu þetta með látum þegar Marcus Rashford fór illa með Joel Ward, vinstri bakvörð Palace, og renndi boltanum fyrir á Juan Mata sem skoraði af öryggi, 1:0 eftir þrjár mínútur. Þetta varð þó ekki jafn öruggt og byrjunin gaf til kynna; spilamennskan var losaraleg á tímum og ljóst að þétt leikjaálag undanfarið er farið að taka sinn toll. Fyrri hálfleikurinn var þó frekar þægilegur enda gestirnir ekki á sínum besta stað, Crystal Palace hefur ekki skorað mark í vetur og leikmenn liðsins eru gjörsneyddir af öllu sem heitir sjálfstraust. Eftir rúmlega hálftíma leik var forystan svo tvö mörk þegar Ashley Young átti frábæra fyrirgjöf á fjærstöngina þar sem okkar maður Marouane Fellaini var mættur, 2:0.
Síðari hálfleikurinn byrjaði svo eins og sá fyrri. Rashford sveiflaði inn fyrirgjöf úr aukaspyrnu og belgíska hraðlestin stangaði boltann í netið! Fellaini kominn með þrjú deildarmörk á tímabilinu; hann skoraði samtals tvö á síðustu tveimur. Eftir þetta virtist botninn aðeins detta úr spilamennsku okkar manna er þreyta fór að segja til sín. Gestirnir hefðu mögulega getað fengið vítaspyrnu skömmu eftir þriðja markið þegar Chris Smalling virtist fella Bakary Sako inn í teig, dómari leiksins, Mike Dean, hafði þó ekki áhuga.
Þó spilamennskan hafi dalað eftir því sem á leið héldu færin áfram að dúkka upp. Lukaku klúðraði dauðafæri einhverjum 20 mínútum fyrir leikslok þegar hann sendi Hennessey í vitlaust horn en sneri boltann svo rétt framhjá hinumegin. Varamennirnir voru svo nálægt því að henda í mark þegar Herrera spilaði Martial í gegn en Frakkanum brást bogalistinn og hann skaut beint á Hennessey í góðu færi. Enginn leikur er þó úti fyrr en stóri Belginn er búinn að skora og auðvitað henti United í mark á síðustu 10 mínútunum (við höfum nú skorað 9 af 21 deildarmörkum okkar á síðustu 10 mínútum leikja). Herrera spilaði Martial í gegn vinstra megin í teignum og hann renndi boltanum fyrir markið þar sem Lukaku skoraði af stuttu færi, 11 mark hans í 10 leikjum.
Sannfærandi sigur gegn neðsta liði deildarinnar, áfram ósigraðir í deildinni og búnir að endurheimta toppsætið (í bili allavega). Fínn dagur á skrifstofunni það.
Umræðupunktar eftir leik
Þreyta. Nemanja Matic og Romelu Lukaku voru rétt svo hvíldir í deildabikarnum gegn Burton en hafa annars spilað alla leikina okkar í september, það sást. Við spiluðum í Rússlandi í miðri viku og það hefur tekið sinn toll líka, það er því ánægjulegt að við komumst í gegnum þennan leik slysalaust. Nú tekur við landsleikjahlé og við krossleggjum fingur og vonumst til að allir komi heilir frá því. Næsti leikur er gegn Liverpool á Anfield og við megum varla við áföllum fyrir þá ferð.
Fjögur mörk. Við höfum nú skorað fjögur mörk í sex af 11 leikjum okkar, frábær tölfræði. Við höfum nokkrum sinnum byrjaði leiki strax á marki en helst skorum við undir lok þeirra. 9 af 21 deildarmörkum okkar hafa komið á síðustu 10 mínútum leikja (43%). Ekkert annað lið ensku úrvalsdeildarinnar státar af slíkri tölfræði.
Liverpool. Næsti leikur er ferð á Anfield beint eftir landsleikjahlé og þar kemur einfaldlega fyrsta risa próf tímabilsins. Byrjunin hefur verið afar sterk og liðið er að vinna akkurat þá leiki sem fóru gjarnan illa í fyrra en margir hafa bent á að andstæðingarnir hingað til hafa auðvitað ekki verið liðin í hæsta klassa. Þetta verður því tækifæri til að sjá hversu langt við höfum komist í raun og veru.
https://twitter.com/halldorm/status/914158214584918016
Marouane Fellaini. Fyrir 10 mánuðum síðan kostaði belgíski hljóðneminn okkur tvö stig þegar hann gaf klaufalegt víti á Goodison Park gegn Everton á síðustu andartökum leiksins. Nokkrum dögum seinna tóku óþekkir stuðningsmenn United sig til og bauluðu á hann á Old Trafford. Hann hefur svo sannarlega svarað þeirri gagnrýni frábærlega og er núna búinn að skora fjögur mörk strax í upphafi tímabils; hann skoraði fjögur á öllu síðasta tímabili og sömuleiðis árið þar á undan. Allir góðir menn fagna því að það er loks komið í tísku að sitja á Fellaini-vagninum. #TeamFellaini.
Björn Friðgeir says
Þarna! 2-0
Ganga svo frá þessu, bæta markatöluna.
Halldór Marteins says
Fellaini, what a player!
Robbi Mich says
Hvað þarf Herrera, einn besti ef ekki besti leikmaður síðasta tímabils, að gera til að komast í liðið?
Björn Friðgeir says
Robbi: Verða betri en Matic og Mar-húh-ane! 3-0!
Robbi Mich says
Bjössi: Fair enough ….. Ég bara dýrka Herrera. Las einhvers staðar að Móri væri ósáttur við hann vegna þess að hann bauð nokkrum vinum sínum á Carrington fyrir leik Man Utd og Celta Vigo í vor og þess vegna fái hann minna að spila. Hefur einhver heyrt af því?
Björn Friðgeir says
Heyrði þessa sögu og þetta voru víst einhver Celta tengdir menn.
En ég held að eins og liðið sé að spila þá sé þetta bara fyrst og fremst fótboltatengt. Enda var Herrera bara hress í viðtali í vikuna og sagði alla réttu hlutina, talaði bara um að þurfa að vinna sér sæti.
Hann fær sína sénsa!
Bjarni says
Sammála Birni, við erum með öflugan hóp og fullt af leikmönnum í blússandi sjálfstrausti. Sénsarnir koma fyrir leikmenn sem hafa spilað lítið, þó ég efist um að Carrick fái marga leiki.
Keane says
Sterk frammistaða, góður heildarsvipur á liðinu. Chel$ea gráta Mourinho veit ég. Það er aðeins 1 Abramovich.
Halldór Marteins says
Djöfull vona ég að þessi litli hópur af fábjánum sem baulaði á Fellaini skammist sín rækilega fyrir þennan bjánaskap.
Fellaini fær kredit fyrir að sýna þann karakter að bregðast við óþarflega miklu mótlæti á svona jákvæðan hátt.
Auðunn says
Virkilega góður og sterkur sigur.
Flott mörk hjá Mata og Lukaku, fyndið að Fellaini hafi slysast til að skora þegar hann ætlaði að hreinsa, og það tvisvar sinnum……..
Jæja nú kemur landsleikja hlè og svo gífurlega erfitt prógram framundan og þà fàum við að sjá úr hverju þessir menn eru gerðir.
Er í þessum töluðu orðum að horfa á City yfirspila Chelsea à útivelli, ótrúlegt að staðan skuli bara vera 0-1.
En hvað um það.
Það eru akkúrat svona leikir sem United mà ekki tapa ætli liðið sér að berjast á toppnum fram í Maí.
Karl Garðars says
Auðunn, þú verður kominn í Fellaini treyju áður en þú veist af. :)
Sá ekki leikinn en það stendur nú til bóta. Ég sárvorkenni bara þessu palace liði því þegar maður lítur á byrjunarliðið hjá þeim þá er það bara alls ekki svo slæmt á pappírunum svo maður tali nú ekki um þegar Zaha, Benteke, Ruben og Timboo verða til taks. Sá að vísu ekki alveg hvernig Hodgson átti að laga þetta ástand en það er svo aftur annað mál.
Það verður meik or breik á Anfield en ég er eiginlega mest spenntur að sjá hvernig Jose stillir upp á móti þeim.
Cantona no 7 says
Frábær sigur í dag.
Næst verða L´pool teknir.
G G M U
Audunn says
Karl Garðars , þú verður þà að gefa mér hana.
Þà skal ég mæta í henni à Ölver ;)
Karl Garðars says
Set þetta strax í gang á karolinafund. Hvað viltu margar??