Aftur er dagskráin hjá Manchester United trufluð af landsleikjahléi. Í þetta skiptið fengum við þó fleiri leiki fyrir hlé og áfram heldur hin góða byrjun Manchester United á þessu tímabili. Tveir flottir sigrar í Meistaradeildinni, öflug frammistaða í deildarbikarnum og svo lítur deildin svona út:
Eins og kom fram í sambærilegum pistli mínum fyrir mánuði síðan þá segir góður árangur í byrjun tímabils alls ekki alltaf fyrir um hvernig tímabilið spilast í heild sinni. En að sama skapi þá vitum við að José Mourinho elskar að byrja vel. Ég ætla aðeins að halda áfram að setja upphaf þessa tímabils í samhengi en þó með töluvert öðruvísi áherslum en síðast.
Samanburður við síðasta tímabil
Sjö deildarleikir eru 18,4% af tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni (og auðvitað öllum öðrum 20 liða deildum sem spila tvær umferðir). Það er alveg dágóður slatti þótt við séum vissulega enn í byrjun tímabils, með öllum þeim fyrirvörum sem kunna að eiga við á þeim tíma. Það þarf engan eldflaugasérfræðing til að sjá það að Manchester United er að taka framförum á milli ára. Berum samt saman stöðuna núna við stöðuna eins og hún var á síðasta tímabili.
Fyrstu sjö deildarleikirnir á þessu tímabili:
- Manchester United 4:0 West Ham United (Leikskýrsla)
- Swansea City 0:4 Manchester United (Leikskýrsla)
- Manchester United 2:0 Leicester City (Leikskýrsla)
- Stoke City 2:2 Manchester United (Leikskýrsla)
- Manchester United 4:0 Everton (Leikskýrsla)
- Southampton 0:1 Manchester United (Leikskýrsla)
- Manchester United 4:0 Crystal Palace (Leikskýrsla)
19 stig af 21 mögulegu. 21 mark skorað, 2 fengin á sig. 6 sinnum haldið hreinu. 2. sætið.
Fyrstu sjö deildarleikirnir á síðasta tímabili:
- Bournemouth 1:3 Manchester United (Leikskýrsla)
- Manchester United 2:0 Southampton (Leikskýrsla)
- Hull City 0:1 Manchester United (Leikskýrsla)
- Manchester United 1:2 Manchester City (Leikskýrsla)
- Watford 3:1 Manchester United (Leikskýrsla)
- Manchester United 4:1 Leicester City (Leikskýrsla)
- Stoke City 1:1 Manchester United (Leikskýrsla)
13 stig af 21 mögulegu. 13 mörk skoruð, 8 mörk fengin á sig. 2 sinnum haldið hreinu. 6. sætið. Helvítis 6. sætið!
Á sama tíma í fyrra var Stoke leikurinn upphafið að 8 leikja hrikalegheitum þar sem Manchester United vann aðeins 1 leik, tapaði 1 en gerði 6 jafntefli. Þá, líkt og nú, voru næstu mótherjar Liverpool á útivelli. Þá var Liverpool reyndar á meira skriði en þeir eru núna svo markalaust jafntefli virkuðu ekkert svo galin úrslit þrátt fyrir að frammistaðan hefði sannarlega mátt vera jákvæðari. En svo fylgdi hörmungartap gegn verðandi Englandsmeisturum Chelsea og tímabilið fór í vaskinn í október og nóvember.
Liðið núna hefur náð í 6 stigum meira, skorað 8 fleiri mörk og fengið á sig 6 færri mörk en á sama tíma í fyrra. Liðið virkar líka einfaldlega mun betra og heilsteyptara lið. Það komu alveg fínar frammistöður í fyrra, eins og gegn Bournemouth og Leicester, en leikurinn gegn Hull var alls ekkert glæsilegur þrátt fyrir að liðið næði á endanum að landa sigri.
Nokkrir punktar um frammistöðuna núna í samanburði við síðasta tímabil:
- United er komið með 27,5% af þeim stigum sem það náði á öllu síðasta tímabili
- United hefur skorað 38,9% af þeim mörkum sem það skoraði á öllu síðasta tímabili
- Á síðasta tímabili tók það liðið 17 umferðir að ná að halda hreinu í 6 leikjum
Annars konar samanburður við tímabilið í fyrra gæti verið að taka úrslitin úr sömu leikjum og liðið hefur spilað á þessu tímabili og bera saman við árangurinn í fyrra. Þessir leikir á síðasta tímabili enduðu svona:
- Manchester United 1:1 West Ham United (Leikskýrsla)
- Swansea City 1:3 Manchester United (Leikskýrsla)
- Manchester United 4:1 Leicester City (Leikskýrsla)
- Stoke City 1:1 Manchester United (Leikskýrsla)
- Manchester United 1:1 Everton (Leikskýrsla)
- Southampton 0:0 Manchester United (Leikskýrsla)
- Manchester United 2:0 Crystal Palace (Leikskýrsla)
13 stig af 21 mögulegu. 12 mörk skoruð, 5 fengin á sig. 2 sinnum haldið hreinu.
Stoke á útivelli er jafntefli í ár eins og í fyrra. Það er enginn heimsendir. Að öðru leyti hefur liðið breytt þremur jafnteflum í sigra. Jafnteflin fóru með tímabilið í fyrra. Ég er alveg örugglega ekki sá eini sem hef hugsað þetta á tímabilinu: „Í fyrra hefði þessi leikur endað með jafntefli.“ Þetta er framför, það er alveg á hreinu.
Vantar alvöru próf ennþá?
Ýmsir hafa þó viljað setja þann fyrirvara á árangur Manchester United í byrjun tímabils að liðið hefur ekki enn fengið almennilegt próf og aðeins mætt lélegum liðum. Þegar tafla yfir meðalstöðu þeirra liða sem liðin í deildinni hafa mætt er skoðuð má sjá að það er alveg eitthvað til í því:
Það er rétt að leikjaniðurröðunin hefur farið misvel með liðin í upphafi tímabils. Manchester City er samt merkilega neðarlega á þessum lista miðað við að hafa þegar mætt Chelsea og Liverpool.
Eins og bent var á ofar í þessum pistli þá var Manchester United ekkert endilega að ná þessum úrslitum gegn þessum sömu liðum í fyrra. Kannski eru þau lið einfaldlega lélegri en þau voru í fyrra en þá má líka benda á þetta:
- Tottenham náði ekki að vinna Swansea á sínum heimavelli
- Arsenal tapaði fyrir Stoke á útivelli
- Everton er eina liðið sem hefur náð í stig gegn Manchester City
- Flest þessara liða sem United hefur mætt eru líklega betri en núverandi staða segir til um, 5 af þeim enduðu í sætum 7-13 í fyrra
Þetta er ekki meint í neins konar afsökunartóni heldur einfaldlega ákveðið samhengi við þá leiki sem eru búnir. Á móti má vissulega benda á að Chelsea fór á heimavöll Stoke City og vann þar 4-0 sigur. Og Manchester United er eina liðið af þessum topp 6 liðum sem hefur ekki enn mætt öðru slíku liði það sem af er tímabili.
En það er einfaldlega þannig að lið sem vilja ná árangri í ensku úrvalsdeildinni þurfa að vera góð í því að ná stigum gegn slakari andstæðingum. Síðan Ferguson hætti hefur Manchester United alls ekki verið nógu gott í því. Ég ákvað að gamni mínu að skoða hvar núverandi Englandsmeistarar Chelsea voru að finna sín stig í fyrra. Ég skipti því deildinni upp í 3 mismunandi flokka eftir stöðu liða í lok tímabilsins. Topp 6 eru einfaldlega efstu sex liðin, þau virðast ætla að marka sér sérstöðu sem erfitt verður að nálgast fyrir önnur lið. Þar fyrir neðan kemur svo Miðjumoðið, þ.e. liðin sem enduðu í sætum 7 til 13. Everton var að vísu lang-sjöunda-besta liðið í deildinni en á meira heima með miðjumoðinu en liðunum fyrir ofan. Fyrir utan Everton eru þetta Southampton, Bournemouth, WBA, West Ham, Leicester og Stoke. Þar á eftir kom pínu stökk niður í neðstu liðin, sem ég kalla Fallbaráttuna. Það eru sjö neðstu liðin eða Crystal Palace, Swansea, Burnley, Watford, Hull, Middlesbrough og Sunderland.
Árangur Chelsea gegn þessum hópum á síðasta tímabil var eftirfarandi:
- Topp 6
- 16 stig (af 30 mögulegum) – 5 sigrar, 1 jafntefli, 4 töp
- 16 mörk skoruð
- 14 mörk fengin á sig
- Miðjumoðið
- 42 stig (af 42 mögulegum) – 14 sigrar, 0 jafntefli, 0 töp
- 38 mörk skoruð
- 8 mörk fengin á sig
- Fallbaráttan
- 35 stig (af 42 mögulegum) – 11 sigrar, 2 jafntefli, 1 tap
- 31 mark skorað
- 11 mörk fengin á sig
Árangur Chelsea gegn miðjumoðsliðunum vekur sérstaka athygli. Raunar var Chelsea svo gjörsamlega rútínerað gegn þessum liðum að úrslitin fylgdust oftar en ekki að. Gegn þremur af þessum sjö liðum (WBA, West Ham og Leicester) vann Chelsea heima- og útileikinn með sömu markatölu. Chelsea rústaði Everton í báðum leikjunum, 5-0 heima og 3-0 úti. Í báðum leikjunum gegn Bournemouth skoraði Chelsea 3 mörk, Bournemouth fékk bara að svara með 1 marki í þeirra heimaleik. Chelsea vann Southampton með 2 marka mun bæði heima og að heiman. Og svo er ákveðið mynstur í því að vinna Stoke 2-1 úti og 4-2 heima.
En hvað með sambærilega töflu fyrir Manchester United?
- Topp 6
- 10 stig (af 30 mögulegum) – 2 sigrar, 4 jafntefli, 4 töp
- 7 mörk skoruð
- 12 mörk fengin á sig
- Miðjumoðið
- 26 stig (af 42 mögulegum) – 6 sigrar, 8 jafntefli, 0 töp
- 22 mörk skoruð
- 8 mörk fengin á sig
- Fallbaráttan
- 33 stig (af 42 mögulegum) – 10 sigrar, 3 jafntefli, 1 tap
- 25 mörk skoruð
- 9 mörk fengin á sig
Árangurinn gegn toppliðunum var ekkert sérstakur. Að vísu komu 2 töp gegn þeim liðum eftir að Manchester United var búið að henda deildarkeppninni út um gluggann til að einbeita sér að Evrópudeildinni. Það eru hins vegar þessi 8 jafntefli gegn liðunum um miðja deild sem voru rándýr. Þar töpuðust 16 stig.
Manchester United endaði með 69 stig á síðasta tímabili. Það var 24 stigum frá Chelsea í 1. sætinu. Miðað við Manchester United fékk Chelsea auka 6 stig gegn Topp 6, auka 2 stig gegn Botnbaráttunni en auka 16 stig gegn Miðjumoðinu. Það er þó ágætt að taka fram að þau 93 stig sem Chelsea fékk var óvenju mikill stigafjöldi fyrir meistara. Þetta var í fyrsta skipti síðan 2006 sem meistararnir fóru yfir 90 stigin. Yfirleitt þarf ekki svona mörg stig til að klára deildina, meðalstigafjöldi meistara frá stofnun ensku úrvalsdeildarinnar er 86,12 stig. Manchester United í fyrra var 17,12 stigum frá þeirri tölu. Aðeins betri árangur gegn Topp 6, aðeins betri árangur gegn Fallbaráttunni og mun betri árangur gegn Miðjumoðinu gæti skilað liðinu þangað.
5 af liðunum sem United er búið að mæta í ár voru í Miðjumoðinu í fyrra. Ekkert víst auðvitað að sömu lið verði þar núna. En flest þeirra ættu að enda þar samt sem áður. Í öllu falli er gríðarlega jákvætt að liðið sé að vinna þessa leiki og ná að breyta sem flestum jafnteflum frá því í fyrra í sigurleiki. Það getur skilað liðinu ansi langt þegar upp er staðið.
Frábær byrjun Romelu Lukaku
Það eru ýmsar góðar ástæður fyrir því að Manchester United hefur byrjað þetta tímabil svona vel. Ein af þeim stóru er hversu frábærlega Romelu Lukaku hefur komið inn í liðið. Það er óhætt að segja að byrjun hans hafi verið framar vonum og hann hefur skorað í öllum leikjum nema einum til þessa.
Í sögubókum Manchester United eru skráðir 496 markaskorarar (samtals 909 leikmenn sem eiga skráðan a.m.k. einn leik). Það styttist því í tímamótamarkaskorara hjá félaginu. 180 þeirra hafa skorað fleiri mörk en Lukaku fyrir Manchester United, allir þeirra gerðu það þó í fleiri leikjum en 10. Ég ákvað að grúska aðeins og finna hvaða leikmenn hefðu byrjað best hvað markaskorun snertir.
Mörk eftir 10 fyrstu leikina fyrir Manchester United/Newton Heath:
- 11 – Romelu Lukaku (2017)
- 10 – Bobby Charlton (1956)
- 9 – Ronald Burke (1946)
- 8 – Robert Donaldson (1892)
- 8 – Stuart Pearson (1974)
- 8 – Robin van Persie (2012)
- 8 – Richard Smith (1894)
- 8 – Colin Webster (1953)
- 8 – Edward Lewis (1952)
Mörk eftir 7 fyrstu deildarleiki fyrir Manchester United/Newton Heath:
- 7 – Romelu Lukaku (2017)
- 7 – Bobby Charlton (1956)
- 7 – Andy Cole (1994)
- 7 – Robert Donaldson (1892)
- 7 – Dick Duckworth (1903)
- 6 – Jimmy Turnbull (1907)
- 6 – Louis Saha (2004)
- 6 – Charles Sagar (1905)
- 6 – Ronald Burke (1946)
- 6 – William Rawlings (1928)
- 6 – Christopher Taylor (1924)
Eins og sjá má þá er Lukaku að eiga bestu byrjun leikmanns í sögu félagsins hvað markaskorun snertir. Hann hefur skorað 11 mörk í 10 leikjum, sem gerir 1,1 mark að meðaltali í leik. Það gerir hann að eina markaskorara félagsins í sögunni sem hefur skorað meira en 1 mark að meðaltali í leik. Það eru nokkrir með akkúrat 1 mark að meðaltali í leik en þeir leikjahæstu í þeim hópi spiluðu 3 leiki.
Það er ekki að furða að verðmæti leikmannsins er talið hafa hækkað til muna síðan í sumar:
The CIES Football Observatory value Romelu Lukaku at €158.5m, an increase of €55.8m in three months. #MUFC #BELhttps://t.co/tYXoRMoOKF pic.twitter.com/PYFfFLjZh1
— Duncan Castles (@DuncanCastles) October 2, 2017
Framundan eru svo fleiri próf fyrir Mourinho, Lukaku og aðra hjá Manchester United. Þetta lítur frábærlega út eins og er en við vitum að tímabilið er langt hindrunarhlaup og margt sem getur enn komið upp á. En við njótum þess allavega í botn að fylgjast með liðinu spila svona flottan fótbolta. Megi það endast sem lengst!
Jón Sæm says
Skemmtilegur pistill ;)
Árni Þór says
Þessi pistill var mjög fróðlegur…takk fyrir mig :)
Beckham says
flott samantekt
einarb says
Frábær pistill. Enn of aftur, snilldar síða og podköst hjá ykkur meisturum!
„En það er einfaldlega þannig að lið sem vilja ná árangri í ensku úrvalsdeildinni þurfa að vera góð í því að ná stigum gegn slakari andstæðingum“ – Þetta hér, hundrað sinnum. Fólk í kringum mig getur tönnlast endlaust á því að Man. Utd hafi ekki ennþá spilað alvöru leik en þetta er hreint út sagt frábær byrjun. Í stað þess að gera 1-1 jafntefli erum við að vinna 4-0, megi það pattern endast sem lengst. Þó það komi smá bakslag í næstu umferð á Anfield er bara allt annar bragur á þessu liði í ár.
Martial er að blómstra, Mkhi búinn að vera frábær, Pogba byrjað rosalega og búinn að þagga niður í fólki varðandi verðmiðann og nýju mennirnir Matic og Lukaku, hvað er eiginlega hægt að segja um innkomu þeirra!?
Robbi Mich says
Virkilega skemmtileg lesning. Ég er farinn að bíða spenntur eftir Man Utd leikjum aftur, í staðinn fyrir að hálfpartinn kvíða þeim …
Takk fyrir frábæran pistill.
Hannes Halldórsson says
Frábær pistill!