Á morgun fær United sitt erfiðasta verkefni til þessa, á pappírnum. Englandsmeistararnir frá í vor, Chelsea bíða liðsins á Stamford Bridge.
Chelsea var óstöðvandi í fyrra undir nýja stjóranum, Antonio Conte. Þökk sé hörmulegu tímabili veturinn 2015-16 var liðið ekki í Evrópukeppni og nýtti svigrúmið sem það gaf til að spila bolta eins og Conte vill, hápressu á fullum hraða. Meistarinn með Leicester árið á undan, N’golo Kanté kom og tók sinn annan titil í röð og var kóngurinn á miðjunni, leikmaður ársins. Jafnvel deila Conte við aðalmarkahrók liðsins, Diego Costa kom ekki að sök á meðan á tímabilinu stóð, en þegar því lauk tilkynnti Conte Costa að hans væri ekki lengur þörf og Costa er nú búinn að skrifa undir hjá Atlético Madrid eftir að hafa verið í verkfalli í sumar.
Conte styrkti samt liðið um 170 milljónir punda eða svo. Álvaro Morata kom frá Real Madrid, Tiémoué Bakayoko frá Monaco og fyrrum United unglingurinn Danny Drinkwater frá Leicester. En það voru svo sem ekki kaupin sem vöktu mesta athygli heldur hitt. Chelsea hélt að þeir hefðu í hendi sér að fá Romelu Lukaku frá Everton en hann var allt í einu búinn að skrifa undir hjá United, og Morata, sem hélt alltaf að hann færi til United var allt í einu annað val Chelsea.
Og það var salan sem við elskum sem hafði mest áhrif. Nemanja Matić vildi fara frá Chelsea, nú eða koma til Mourinho, það kom í sama stað niður, hann endaði hjá United, mjög gegn óskum Conte. Það er erfitt að halda leikmanni sem vill fara, eins og Thibault Courtouis sagði í vikunni, en Chelsea hefði líklega getað reynt meira og hefði líklega átt að gera það. Því þó Kanté hefði verið kóngurinn á miðjunni, hóf Matić alla leiki Chelsea í deildinni nema þrjá og var lykill að leik Kante. Ég verð að sega fyrir mig að ég vissi að Matić væri góður, en nákvæmlega hversu góður vissi ég ekki fyrr en nú þegar ég horfi á alla leiki hans með United. Enda hefur umfjöllun um leikinn á morgun að miklu leyti snúist um það hversu mikill missir hann er fyrir Chelsea.
Bakayoko er klárlega leikmaður framtíðarinnar en hefur átt frekar erfitt uppdráttar það sem af er hausti og Drinkwater hefur enn ekki byrjað leik í deildinni þannig að þeir hafa ekki náð að fylla skarð Matić. Það væri þó ef til vill í lagi, nema fyrir það að N’golo Kante er meiddur og því hefur Bakayoko þurft að vera meginás á miðjunni og styðja við sóknartilburði Cesc Fábregas, frekar en að báðir aðal miðjumenn Chelsea séu sterkir að vinna og halda bolta, eins og var þegar Kante og Matić voru saman í 3-4-2-1 kerfinu sem Conte spilar.
Ofan á þetta bætist auðvitað að nú er Chelsea eins og önnur topp lið að leika tvo leiki í viku flestar vikur og því er tíminn sem Conte hefur á æfingavellinum til að æfa og halda upp þessari pressutaktík sinni afskaplega takmarkaður enda er æfingafyrirkomulag flestra liða þannig nú orðið að þegar svo stutt er milli leikja eru æfingar yfirleitt léttar.
Þessi vandræði Chelsea náðu hámarki á þriðjudaginn þegar Roma gekk frá þeim á Ólympíuleikvanginum í Róm, 3-0. Við sjáum myndband:
https://twitter.com/vonstrenginho/status/925641307636322304
Ekki nóg með þessi miðjuvandræði heldur virðist vörn Chelsea einnig hafa fengið sinn skammt af óöryggi. Í fyrra var hún sem veggur, þrír sterkir miðverðir og Alonso og Moses vængverðir. En Moses er meiddur og Azpilicueta hefur þurft að færa sig í þá stöðu og Antonio Rüdiger sem einmitt kom frá Roma er enn að finna sig.
Þannig að við erum búin að sjá að vörn og miðja Chelsea er ekki sá klettur sem var. En engu að síður er liðið í fjórða sæti deildarinnar, aðeins 4 stigum á eftir United og sigur myndi færa Chelsea, ef ekki í slaginn um titilinn sem virðist sem stendur eins liðs barátta, þá í það minnsta í góða stöðu. Enda erum við ekki búin að minnast á að frammi eru jú Pedro, sem er búinn að vera mjög góður í haust og Edin Hazard, líklega einn af bestu leikmönnum deildarinnar undanfarin ár og, jú, Morata hefur verið á skotskónum.
En að lokum þetta smáatriði
United hefur unnið þrjá leiki á Stamford Bridge á þessari öld, einn fyrir tíma Roman Abramovic, einn í fjórðungsúrslitum Meistaradeildarinnar 2011 og deildarleik 2012 þar sem Chelsea var búið að jafna 2-2 þegar þeir misstu tvo menn útaf.
Þannig að þessi leikur vinnst ekki fyrirfram sama hversu mjög Chelsea liðið er vængbrotið.
En að liði Manchester United. Það getur verið að besti miðjumaður Chelsea verði frá á morgun, en ekki einasta er besti leikmaður United búinn að vera frá í tæpa tvo mánuði heldur er maðurinn sem kom inn fyrir hann og var frábær líka meiddur. En engu að síður situr United í öðru sæti deildarinnar og því sem næst búið að tryggja sig áfram í Meistaradeild. Paul Pogba verður örugglega ekki með á morgun og það væri eitthvað alveg undarlegt ef Marouane Fellaini dúkkar upp heill.
Það er búið að fljóta mikið blek í haust um það hvað José Mourinho spilar leiðinlegan bolta og ég veit ekki hvað og mér er alveg slétt sama. Ég er þess fullviss að á morgun verða engir sénsar teknir, Mourinho er ekki að fara á sinn gamla heimavöll til að tapa
Ég ætla að spá sama liði og lék gegn Tottenham um síðustu helgi með þeirri breytingu að þetta verður 3-4-2-1 ekki 3-4-1-2. Það væri helst að Juan Mata kæmi inn í stað Henrikh Mkhitaryan sem hefur sannast sagna verið frekar slakur undanfarið.
Liðið mun þannig mæta Chelsea með sömu uppstillingu og það hefur yfirleitt þótt vera taktík lakara liðsins að herma eftir hinu og ég held að José sé alveg sama. Ef þetta væri á Old Trafford væru einhverjar líkur á að breyta í fjögurra manna vörn, en það er bara ekki að gerast á morgun.
Sigur á Stamford Bridge á morgun væri afskaplega vel þeginn en um leið afskaplega óvenjulegur. Ég spái jafntefli og þú ættir að spá því líka. Leikurinn er á eilitíð óvenjulegum tíma og hefst klukkan 16:30.
einarb says
Steindautt 0-0 jafntefli er skrifað í skýin en maður leyfir sér hóflega bjartsýni. Mourinho ætlar ekki að mæta á Stamford Bridge til að horfa upp á annað 0-4 tap.
Ef svo ólíklega vill til að einhver sé að búast við flugeldasýningu á morgun kemur hér einn grjóthörð staðreynd í boði Guardian:
„Since January 2015, Jose Mourinho has led his teams into nine away games against other members of the Premier League’s so-called big six. Mourinho’s team has scored in only one of them – the 2-1 defeat to Spurs at the tail end of last season. Of Mourinho’s last nine away games against top-six sides, five have finished goalless.“
Rútan er að fara mæta á morgun og vonandi nælir hún í 3 stig, en 1 stig væri meira en ásættanlegt á móti núverandi meisturum, sérstaklega með tilliti til þess að Stamford Bridge gefur okkur aldrei neitt.
Bjarni says
Ætla að sofna með þá fallegu hugsun að bossinn sýni herkænsku með sókndjörfum leik fyrstu tuttugu mínúturnar. Setjum inn 2 mörk, annað glæsilegt vel fyrir utan teig (Matic) og hitt klafs (Lukaku) með herkju og djöflagangi úr horni. Eftir það parkerum við rútunni með Valencia og Young snaróða á vængjunum vaðandi í allar tæklingar sem bjóðast á Hazard og Pedro. Smalling fær það hlutverk að kyrrsetja og núlla út Morata þannig að hann óski þess að fara heim til mömmu sinnar. Armeninn knái mun eiga leik lífs síns pikkandi upp alla lausa bolta sem hrökkva af Lukaku sem mun sjá til þess að krullótti brassinn og félagar í vörninni þurfi stöðugt að halda vörninni þétt saman eins og síams tví eða þríburar. Aðrir leikmenn munu hlaupa völlinn þvers og kruss á meðan þolið leyfir uns skiptingarnar koma með jöfnu millibili síðasta korterið. Lindelöf kemur inná rétt fyrir 90 mínútu og mun hleypa smá lífi í heimamenn. Þeir ná að minnka muninn en samt munu þeir lúta í gras fyrir hermönnum JM, stjórnað af harðhausunum Jones og Bailly. Brúin verður okkar.
Bjarni says
Mikilvægi leiksins hefur aukist til muna miðað við gang mála í leikjum dagsins. Erum í baŕáttunni um annað sæti ásamt nokkrum liðum. Verðum að vinna til að halda í við toppliðið.