Bæði lið stilltu upp svipuðum leikaðferðum eins og við var búist, með þremur miðvörðum. United var óbreytt frá Tottenham leiknum og Fellaini var mættur á bekkinn
Hjá Chelsea var N’golo Kante heill og átti eftir að muna um hann. Það var líka til þess að Fàbregas spilaði framar.
Leikurinn byrjaði samt mun hressar en það gaf til kynna. N’golo Kante átti fyrsta skotið, beint á De Gea og rétt á eftir Rashford reyndi fyrirgjöf utan af kanti sem reyndist svo skot sem Courtois tók á línunni.
Á 7. mínútu var Phil Jones svo stálheppinn að sjálfsmark hans var dæmt af. Jones var á undan Morata í fyrirgjöf og setti boltann í netið með innanfótarskoti. Jones var hins vegar úr jafnvægi eftir létta snertingu Morata og fékk dæmda aukaspyrnu. Rashford fékk síðan fyrirgjöf inn á teiginn en það gengur aldrei vel að loka augunum þegar skallað er og boltinn fór af kollinum á Rashford og yfir.
Hasarinn var mikill þessar fyrstu mínútur og Bakayoko var næstur: skaut yfir og framhjá úr ágætu færi í teignum og síðast skot frá honum utan teigs í Bailly og framhjá.
United hélt síðan loksins boltanum í smá tíma og náði upp ágætu spili. Það endaði með enn einu færinu, Courtois fór vel niður til að verja skot frá Lukaku.
Það var eðlilegt að velta því fyrir sér hvort 3-1 sigur City á Arsenal hafði sett þennan kraft í bæði lið, ljóst að United þurfti að vinna til að halda í við City og Chelsea þurfti stigin til að vera hreinlega ekki þegar úr leik í toppbaráttunni. Það var ekki nokkur rúta í sjónmáli, hvað þá heldur langferðabíll.
https://twitter.com/IzzyLdn/status/927216501375070215
Enn voru varla 18 mínútur liðnar og nú var það De Gea sem varði, enn ein toppvarslan frá honum eftir skot Hazard. og hinu megin greip Courtois bolta sem farið hafði gegnum allan teiginn.
Fjörið var ekki einskorðað við færi, það var nóg af hressum snertingum, ekkert groddalegt en menn hlaupnir niður þegar við átti. Það róaðist aðeins í færunum um miðjan hálfleikinn en leikurinn var samt hraður og spennandi. Það sem virtist einna helst vanta hjá United að Mkhitaryan væri að tengja miðju og sókn nógu vel. Chelase var þarna meira með boltann og kom boltanum að marki nokkrum sinnum en ekki þannig að ylli De Gea áhyggjum. Christensen komst reyndar í fína stöðu eftir horn en setti öxlina í boltann en ekki skallann og boltinn fór yfir.
Bæði lið voru án efa ánægð með að fá smá hvíld í hálfleik en hefðu getað skorað í fyrr hálfleik ef smá heppni eða betri nýting hefði verið með þeim.
Seinni hálfleikur byrjaði mun rólegar en Chelsea voru mun betra liðið. Phil Jones og Ander Herrera fengu spjöld fyrir ónauðsynleg brot úti á velli, en fyrsta færið kom í hlut Eden Hazard, stýrði fyrirgjöf beint á De Gea. En næsta sending kom langt utan af velli frá Azpilicueta og Morata var skilinn eftir ódekkaður inn á teig. Hann skoraði með glæsilegum skalla og Chelsea var komið yfir á 55. mínútu. Jones og Smalling höfðu elt Bakayoko og Bailly var alltof langt frá Morata.
Þá var komið nóg af Mkhitaryan og Fellaini kom loksins aftur inn í liðið. Það var hins vegar ekki Marcus Rashford sem kom útaf fyrir Martial heldur Phil Jones. Jones var þó búinn að vera skárri en Bailly sem hafði verið ansi slakur. Skýringin var líklega í gula spjaldinu.
Skiptingin hressti United ágætlega við í smástund en Chelsea tók aftur völdin. Fellaini fékk gult fyrir að nota olnbogann aðeins á Morata og síðan hélt það áfram, United reyndi stöku sóknir en sköpuðu ekki neitt sem skipti máli, Chelsea voru hins vegar mun meira ógnandi og ekki langt frá að opna vörn United.
Síðasta skiptingin kom á 78. mínútu, Jesse Lingard kom inná fyrir Ashley Young.
United herti loksins sóknir á síðustu mínútum og annað skotið á mark kom þegar Fellaini tók boltann niður á markteig en Courtois varði skot hans af stuttu færi. Fram að því hafði United átt sex skot þar af eitt á mark en Chelsea 17 skot og sex á mark. sem sýndi nokkuð vel muninn á liðunum.
Chelsea var næstum búið að tryggja þetta með skyndisókn en Morata tókst á einhvern hátt að sparka í sjálfan sig og detta ini í teigi þegar hefði verið auðveldara að skora. Marcus Rashford átti síðasta færi United, skaut yfir úr aukaspyrnu. Að vísu var dæmt horn en úr því varð auðvitað ekkert þó að í fyrsta skipti í leiknum færi horn framhjá fyrsta varnarmanni.
Niðurstaðan
Tapið var ekkert annað en sanngjarnt og brestirnir í liðinu sáust greinilega. Þegar rútan er ekki til staðar þá er vörnin brothætt. Eric Bailly var mjög slakur og virkaði á stundum áhugalaus. Smalling og Jones gátu ekki bjargað neinu þar. Matic og Herrera eru fínir til að verjast á miðjunni en sköpuðu ekkert framávið. Og þó. Það verður að minnast á að í seinni hálfleik sást stöku sinnum til Matic þar sem hann var að reyna að gera eitthvað fram á við án þess þó að mikið kæmi úr því. Mkhitaryan hlýtur að fara að hverfa úr byrjunarliðinu, hvort sem Pogba er meiddur eða ekki og Lukaku var ósýnilegur í leiknum, auðvitað að stórum hluta af því lítið var skapað í kringum hann.
Seinni hálfleikurinn er sá slakasti sem ég hef séð United spila lengi og sýnir víst að á útivelli gegn sterku liði er lið undir stjórn José Mourinho ekki að fara að gera neinar rósir. United saknar Paul Pogba, með hann í liðinu eru leikmennirnir sem eru með honum mun betri en án hans.
3 – Man Utd away league games 2017-18:
First 3 – 20 shots on target, 7 goals, 7 points
Last 3 – 6 shots on target, 1 goal, 1 point.
Stunted. pic.twitter.com/l6Wq2QqWwJ— OptaJoe (@OptaJoe) November 5, 2017
En United er enn í öðru sæti, nú tekur landsleikjahlé við og vonandi verður Pogba mættur til leiks eftir það, Fellaini orðinn góður, hann var þokkalegur í þennan hálftíma en greinilega ryðgaður, og svo gæti Marcos Rojo verið orðinn tilbúinn. Þetta er ekki heimsendir.
Auðunn says
Verður spennandi og vonandi góður leikur.
Er þokkalega bjartsýnn og svona fyrirfram.., eigum að geta unnið þetta Chelsea lið.
Bjarni says
Sammála en það þarf margt að ganga upp og flestir þurfa að eiga góðan leik. En brúin verður okkar í dag ☺
Karl Garðars says
1-2 rauð spjöld kæmu mér ekki á óvart í dag. Liðið sem heldur coolinu vinnur
einarb says
Rútan hvergi sjáanleg. Frábær og hraður fyrri hálfleikur. Smalling á tæpasta vaði með togið í teignum og Chelsea aðeins sterkari. Væri til í að sjá Martial koma sjóðheitann inn á til að breyta hlutunum. Kannski Fellaini síðustu 10m sem leynivopnið.
Bjarni says
Gæti verið verri staða í hálfleik en mér finnst menn ekki taka hlaupið þegar þeir gefa hann, passífir en samt engin rúta. Sóknarlega mættu þeir gefa í ekkert gaman að horfa á svona hæga uppbyggingu á meðan meiri hraði er hjá Chelsea. En eitthvað dramatískt á eftir að gerast í seinni því þetta er hörku leikur tveggja jafnra liða.
Karl Garðars says
Nú mætti Mikki greyjið fara í sturtu. Hann er ekki með.
Bjarni says
Mættum ekki út af krafti. Er stundum eins og þeir séu að spila sinn fyrsta leik. Auglýsi eftir leiðtoga.
Kjartan says
Hvernig geta 3 miðverðir gefið svona mikið pláss???
Karl Garðars says
Koma svo!
Kjartan says
Jæja, þetta er orðið barátta um meistaradeildarsæti. Það eru margir þegar farnir að óska Shitty til hamingju með titilinn. Fyrir utan Matic þá stóð enginn undir nafni, sérstaklega ekki í seinni hálfleik. Þetta Chel$ki lið er ekki eins og gott og margir halda, en Utd getur látið öll lið líta út eins og Barcelona árgang 2011.
Rúnar Þór says
Djöfull er þetta leiðinlegt!! Nánast engin færi sköpuð hvað þá á markið! Þetta er allt of varnarsinnað. Eftir frábæra byrjun hefur Mikki verið hreint út sagt ömurlegur! Lukaku sést ekki og nú er City komið með allt of stórt forskot þrátt fyrir að mikið sé eftir. Þetta record á móti topp 6 er ekki góð og þessi spilamennska ekki boðleg til lengdar. Mikið ofboðslega hlakka ég til að fá Pogba til baka og fara að spila meira eins og í byrjun tímabils
Bjarni says
Löngun til að vinna leiki virðist ekki lengur vera fyrir hendi hjá okkur, ef svo væri þá myndi það sjást á leik liðsins. Liðið er ekki eins hæfileikaríkt og menn halda en það er margt sem þarf til að búa til gott fótboltalið. Nenni ekki að telja það upp þurfum bara að horfa á liðin i kringum okkur í töflunni. Erum og verðum í baráttunni um s.k meistaradeildarsæti en ég dæmi ekki liðið vonlaust fyrirfram en veit að erfitt verður að hanga þarna uppi fram að áramótum. Liðið og ákveðnir leikmenn verða að girða sig í brók og ná aftur upp gleðinni og viljanum til að vinna og gildir það sama um bossann. Vorum bara teknir í bakaríið fyrstu 15 mín í seinni og eftir það var brekka, vagg og velta. Hefðum getað stolið stigi eða tapað stærra. GGMU
DMS says
Það er búið að stefna í þetta í undanförnum leikjum. Höfum ekkert verið að spila neitt sérstaklega en verið að hirða stigin engu að síður. Mikki er búinn að vera týndur undanfarna leiki, miðjan slök fram á við og við það einangrast Lukaku á toppnum. Sammála því að Mikki hlýtur að fara að missa byrjunarliðssætið fljótlega, hann byrjaði seasonið mjög vel en er búinn að vera mjög slakur undanfarið. Spurning hvort að Mata fái ekki bara sénsinn. Ég á erfitt með að gagnrýna Fellaini en hann var greinilega mjög ryðgaður og slappur, enda nýstiginn úr meiðslum.
Við töpuðum miðjunni = tapaður leikur
Tommi says
Hef lengi fundist Mikki ekki nògu gòður fyrir þetta lið. Tapar sìfellt boltanum, Fer einnig ì felur löngum stundum.
Mata alltaf fram yfir Mikka. Sìðan þarf að styrkja miðjuna sem fyrst. Þurfum Pogba til baka. Einnig hefði verið gott að hafa Carrick ì seinustu leikjum.
Audunn says
Veit ekki hvort ég sé sammála því að velja Mata framyfir Mikka.
Finnst báðir hafa verið að spila töluvert undir væntingum undanfarið, veit ekki hvort það er tilviljun eða hvað það er.
Líklega eru skýringarnar nokkrar, í fjarveru Pogba er enginn að stjórna spili liðsins.
Það vantar algjörlega leikstjórnanda og heila inn á miðjuna sem skapar eitthvað framá við.
Það er mjög vont að liðið sé orðið svona háð Pogba og skuli ekki vera með neinn leikmann sem kemur í hans stað.
Annað sem maður hefur líka tekið eftir er taktík liðsins hefur breyst í fjarveru Pogba, liðið heldur boltanum verr, er í meira varnarhlutverki og sóknir liðsins bitlausar og tilviljunarkenndar.
Þessi „taktík“ hentar hvorugum þessara manna, þeir eru ekki David Silva týpur sem draga svolítið vagninn þegar kemur að sóknarboltanum, þeir eiga það til að búa til allskonar skemmtilega hluti og skora mörk en eru samt ekki þessir drifásar.
Spilamennska United er bara í tómu tjóni þessa dagana, við eigum því miður ekki annan leikstjórnanda en Pogba og okkur blæðir fyrir það í augnablikinu.
Eitthvað sem þarf að kippa í liðinn ASAP.
Björn Friðgeir says
Þetta er nákvæmlega eins og Auðunn segir. Þannig er það bara.
Halldór Marteins says
Já, Auðunn er með þetta spot on. Spurning hvort það sé einhver á lausu í janúar eða hvort það þurfi að bíða til sumars eftir að styrkja hópinn um svona leikmann/leikmenn. Það er of dýrt að liðið þurfi að treysta svona mikið á Pogba.
Við erum líka að sjá það enn betur núna af hverju Pogba spilaði svona rosalega marga leiki í fyrra. Margir stuðningsmenn settu spurningamerki við það að hann fékk aldrei hvíld. Eðlilegt að gagnrýna það, þetta var mikið leikjaálag. En það sést núna hvað vantar þegar hann er ekki í liðinu.
Audunn says
Það þarf bara að halda áfram að taka til í þessum hóp, ekki endalaust hægt að kaupa.
Liðið þarf líka að losa sig við leikmenn sem ekkert eða lítið gagn er í.
Skilst að launakostnaður hafi rokið upp úr öllu valdi í tíð Mourinho og hann verði að selja áður en hann kaupir.
Það er á nógu að taka að hreinsa þarna út að mér finnst.
Persónulega gæti ég alveg séð á eftir 5-7 leikmönnum í næstu tveimur gluggum.
Carrick er orðin of gamall og allt of mikið meiddur, liðið ætti að losa hann undan samningi í Janúar.
Síðan meiga Darmian, Blind, Fellaini, Mata og Mikki fara, amk annar þeirra.
Svo er spurning með einhvern miðvörð, þá helst Smalling eða Victor Lindelof, svo eru það Young og Shaw. Hefði samt viljað gefa Shaw meiri tíma en svo er spurning til hvers ef hann hefur ekki hausinn á sér í lagi.
Það er reyndar erfitt að réttlæta brottfar Smalling á meðan Lindelof er ekki að standa sig betur en raunin er, en kannski þarf hann bara tíma, veit ekki.
Þarna er ég búinn að telja upp níu leikmenn, þannig í mínum huga er á nógu að taka.
Ef ég man rétt þá renna samningar Mata, Fellaini og Carrick út í sumar, líklega fleirum sem ég er búinn að gleyma.
Liðið ætti að losa sig við þá alla í janúar og reyna að kaupa einn sterkan miðjumann í staðinn, það væri byrjunin,.
Restina má tækla næsta sumar.
Audunn says
Annað sem mig langaði að koma að, hvað er þetta með að Rashford er að taka hornspyrnur liðsins?
Er það djók eða hvað? Menn meiga vera gjörsamlega staurblindir að sjá ekki að þessar hornspyrnur eru algjörlega út úr kú í 95% tilfellum.
Hélt að stjóri eins og Mourinho gæti nú leyst þetta vandamál með einhverjum hætti.
Finnst allt of lítið að það sé reynt eitthvað nýtt þegar hlutirnir ganga ekki upp, held að Rashford sé búinn að taka c.a 10 góð horn og 100 léleg en samt er engu breytt. Á svo erfitt með að skilja svona hluti stundum.
DMS says
Tjah það að sjá Rashford taka hornspyrnurnar er skárra en Phil Jones í stjóratíð LvG…
…en er svo sem alveg sammála því að við erum ansi slakir í að koma með góðar spyrnur inn á teiginn úr hornspyrnum. Eins og við eigum nú oft sterka leikmenn í loftinu lúrandi í teignum (Lukaku, Fellaini, Pogba og miðverðirnir)
JónH says
Er ekki kominn tími á nýtt podcast? 😁