Jæja. Eftir hæga byrjun í dag þá komu okkar menn til baka og unnu á endanum mjög sannfærandi sigur á Rafa Benitez og lærlingum hans í Newcastle United.
Byrjunarlið dagsins
José Mourinho kom á óvart og stillti upp einstaklega sóknarsinnuðu liði sem innihélt meðal annars Antonio Valencia og Ashley Young í bakvörðum, Nemanja Matic og Paul Pogba á tveggja manna miðju, Juan Mata í holunni á bakvið Romelu Lukaku og Marcus Rashford og Anthony Martial á sitt hvorum vængnum.
Eric Bailly var ekki með vegna meiðsla og Henrikh Mkhitaryan var ekki með af taktískum ástæðum. Frekar pent orðað hjá Mourinho en Mkhitaryan hefur verið mjög slakur undanfarnar vikur, og jafnvel mánuði.
Liðið leit því út einhvern veginn svona:
Leikurinn
Þrátt fyrir einstaklega sóknarsinnað byrjunarlið þá var byrjun okkar manna ekkert til að hrópa húrra fyrir og ef við segjum hlutina eins og þeir eru þá var hún bara drulluléleg.
https://twitter.com/raududjoflarnir/status/931933741857075201
Romelu Lukaku fékk þó fyrsta færi leiksins en hann þrumaði yfir eftir fyrirgjöf Antonio Valencia frá hægri. Lukaku vildi þó meina að hann ætti að fá hornspyrnu en allt kom fyrir ekki. Á 14. mínútu komust gestirnir svo nokkuð óvænt yfir, eða ekki, en þar var að verki Dwight Gayle eftir sendingu DeAndre Yedlin af hægri vængnum. Var þetta fyrsta markið sem David De Gea fær á sig á Old Trafford síðan Gylfi nokkur Sigurðsson skoraði í búning Swansea City þann 30. apríl.
Markið var skelfilegt í alla staði en Ashley Young virtist vera út á túni í vinstri bakverðinum í aðdraganda marksins og greyið Victor Lindelöf rann að sjálfsögðu rétt áður en Gayle smellti knettinum í stöng og inn.
Það tók heimamenn smá tíma að ná áttum en um það bil tíu mínútum síðar skallaði Lukaku yfir úr fínu færi eftir góða sendingu Lindelöf upp völlinn. Á svipuðum tíma breytti Mourinho um taktík en þá var liðið komið í meira 4-4-2 leikkerfi með Rashford frammi og Juan Mata út á hægri vængnum. Hvort sú breyting hafi skipt sköpum er ekki ljóst en á þeirri 37. mínútu jafnaði Manchester United. Þar var að verki Anthony Martial eftir hreint út sagt stórkostlega fyrirgjöf Paul Pogba en í markinu sást nákvæmlega hvað Pogba gerir fyrir þetta Manchester United lið. Það hafði reyndar sést mest allan leikinn en maðurinn er hreinlega í öðrum gæðaflokki en aðrir miðjumenn United, og mögulega í heiminum.
https://twitter.com/utdxtra/status/931947937822855169
https://twitter.com/statmandave/status/931947912933896193
Í kjölfarið tóku heimamenn öll völd á vellinum og settu gífurlega pressu á lið Rafa Benitez. Það var svo í uppbótartíma fyrri hálfleiks sem Lukaku átti að fá vítaspyrnu þegar miðvörður Newcastle reyndi að afklæða hann. Í stað þess var dæmd hornspyrna sem var tekin stutt. Knötturinn endaði hjá Ashley Young sem átti þessa stórbrotnu fyrirgjöf á fjærstönginga þar sem hver annar en Mike Smalling stangaði tuðruna í netið. Staðan orðin 2-1 og þannig var hún í hálfleik.
https://twitter.com/UtdClips/status/931950306644189184
Síðari hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri átti að byrja. Okkar menn voru mikið mun beittari í öllum sínum aðgerðum og á 54. mínútu setti Paul Labile Pogba knöttinn í netið eftir stórkostlega sókn þar sem Lukaku sprengdi upp hægri vænginn, sendi frábæra sendingu á fjærstöngina þar sem Rashford dempaði knöttinn með höfðinu fyrir Pogba sem gat ekki annað en skorað.
Staðan orðin 3-1 og leikurinn í raun búinn.
https://twitter.com/utdxtra/status/931956896105488386
Eftir þetta var leikurinn svo gott sem búinn en gestirnir áttu ágætis skot á 66. mín sem De Gea varði vel. Fjórum mínútum síðar kom fyrsta skipting dagsins en Marouane Fellaini kom inn af bekknum fyrir mann leiksins, Paul Pogba. Strax í næstu sókn komst Manchester United í 4-1 en Juan Mata kom knettinum á Lukaku sem óð inn í teiginn og ÞRUMAÐI knettinum í netið. Staðan orðin 4-1 og sást Pogba fagna innilega á meðan hann rölti inn í klefa.
https://twitter.com/utdxtra/status/931961311335940096
Í raun gerðist ekkert markvert eftir þetta en United virtust þó alltaf líklegir til að bæta við en undir lok leiks kom Zlatan Ibrahimovic inn á fyrir Juan Mata en þakið ætlaði hreinlega að rifna af Old Trafford þegar ljóst var að Svíinn væri að koma inn á. Hann var svo nálægt því að skora í endurkomu sinni en hann átti mjög svo Zlatan-lega klippu á fjærstönginni sem Rob Elliott varði vel þó svo að skotið hafi líklega verið á leiðinni framhjá.
4-1 sigur í leik þar sem varnarleikurinn var í molum fyrstu 10-15 mínúturnar en eftir það fór United á kostum en liðið hefur nú leikið 38 leiki í röð án ósigurs á Old Trafford. Jafnframt var þetta í sjöunda skiptið á þessu tímabili sem okkar menn skora fjögur mörk í einum og sama leiknum.
Gífurlega mikilvægur sigur þar sem Manchester City, Chelsea og Liverpool unnu öll í dag. Þó fátt virðist geta stöðvað bláa hluta Manchester-borgar þá misstíga þeir sig vonandi á endanum. Nú er bara að vona að endurkoma Paul Pogba gefi okkar mönnum byr undir báða vængi en það er nóg eftir af þessu tímabili.
Næsti leikur er gegn Basel á miðvikudaginn áður en Brighton & Hove Albion koma í heimsókn á Old Trafford eftir slétta viku.
Óli says
Ég hef ekki fylgst mjög vel undanfarið og ég hélt bókstaflega að mig væri að dreyma þegar ég sá Zlatan á svæðinu. Hvernig í andskotanum er hann tilbúinn svona snemma? Ég vona að menn séu ekki að flýta sér um of.
Karl Garðars says
Zlatan er fagmaður. Þarfnast ekki frekari útskýringa. :)
Ágætis leikur og fínt að lenda undir. Maður var einhvern veginn aldrei stressaður. Skemmtilega uppsett hjá Mourinho og endurkoma Zlatan, Pogba og Rojo gefur leikmönnum gott pepp í framhaldið.
Karl Garðars says
Hér útskýrir hann þetta aðeins betur sjálfur:
http://www.telegraph.co.uk/football/2017/11/19/zlatan-ibrahimovic-return-injury-manchester-united-win-lions/
DMS says
Menn voru auðvitað að reikna út endurkomudagsetninguna á Zlatan út frá mannlegum þáttum. Það gleymdist að taka ljónseðlið í honum með inn í jöfnuna, það útskýrir snögga endurkomu :)
En þetta var flottur leikur hjá United. Þvílíkur munur að fá Pogba aftur í miðjuspilið.