Við leyfðum okkur margir að dreyma að góðu tímarniru væru senn að fara rúlla aftur eftir fjögurra marka veisluna gegn Newcastle á laugardaginn var. Sá leikur reyndist vera einhverskonar yfirhylming því spilamennskan í kvöld var jafn stirð og svo oft áður á undanförnum vikum. Manchester United þurfti stig hið minnsta til að tryggja sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar en allt kom fyrir ekki. Það er þó ekkert að örvænta, United þarf að tapa 0:6 á Old Trafford í lokaleiknum gegn CSKA Moskvu til að eiga möguleika á að detta út.
Jose Mourinho kom ekkert sérstaklega á óvart með liðsvalinu þó það hafi verið töluvert breytt frá síðasta leik. Romero, Darmian, Rojo, Blind, Fellaini, Herrera og Lingard kom allir inn í liðið sem, á pappír, átti að vera nógu sterkt til að sækja úrslit í Basel.
Varamenn: Pereira, Lindelöf, Shaw, Matic, McTominay, Rashford, Ibrahimovic.
Leikurinn
Í ljósi þess að CSKA Moskva vann sinn leik fyrr í kvöld var ljóst að Basel þurfti helst á úrslitum að halda í kvöld en það voru okkar menn sem byrjuðu töluvert betur. Eftir u.þ.b. stundarfjórðung renndi Pogba eitraðri sendingu inn fyrir á Lukaku en honum brást bogalistin enn eina ferðina, einn gegn markmanni. Varla mínútu síðar átti Fellaini skalla að marki sem varnarmaður Basel hakkaði af línunni og þetta virtist hreinlega spurning um hvenær en ekki hvort við myndum skora. Fellaini átti annað gott skallafæri sem hann setti naumlega framhjá áður en Martial sneri boltann í utanverða fjærstöngina, Áður en hálfleiksflautið gall átti Rojo þrumuskot af einhverjum 30 metrum sem, með viðkomu í varnarmanni, small í þverslánni.
Ótrúlega þægilegum fyrri hálfleik lokið; fínn fótbolti, ágæt færi; það vantaði bara markið. Látum nú kné fylgja kviði í þeim seinni? Heldur betur ekki. Heimamenn hófu hálfleikinn með látum og voru strax búnir að skapa nokkur álitleg hálffæri á fyrstu 10 mínútunum á meðan stirðir leikmenn United fundu aldrei aftur taktinn. Renato Steffen fór nokkrum sinnum illa með Daley Blind og gerði sig líklegan með skotum sínum áður en Michael Lang átti skalla í samskeytin. Matteo Darmian var slappur í kvöld, rosalega slappur. Oft er hann ágætur varnarlega en í kvöld var hann ekki sérlega traustur og bauð svo upp á lítið fram á við með skelfilegum fyrirgjöfum.
Marcos Rojo, að spila sinn fyrsta leik á tímabilinu, virtist mögulega hafa bjargað stiginu fyrir okkur seint í hálfleiknum þegar hann renndi sér á ögurstundu fyrir skot Dimitri Oberlin sem var sloppinn í gegn. Kantbakvörðurinn Michael Lang átti þó eftir að eiga síðasta orðið í uppbótartíma þegar hann stýrði boltanum í netið af stuttu færi á fjærstönginni eftir fyrirgjöf frá Raoul Petretta.
http://gty.im/877577768
Umræðupunktar eftir leik
Var veislan á móti Newcastle bara plat? Eftir nokkuð daprar vikur þar sem við töpuðum fyrir Huddersfield, rétt mörðum Benfica og misstum svo Man City enn lengra frá okkur með enn einu tapinu gegn Chelsea á Stamford Bridge virtist takturinn vera að koma aftur um síðustu helgi. Paul Pogba og Zlatan Ibrahimovic sneru aftur í fjögurra marka gleðskap og við virtumst vera að hrista af okkur skammdegisþunglyndið. Svo gerðist kvöldið í kvöld. Við vorum vissulega ekki að spila okkar besta liði en útivellirnir hafa reynst okkur erfiðir upp á síðkastið, kannski of erfiðir.
Erum samt komnir áfram. Án þess að fara algjörlega framúr okkur en það þyrfti ótrúlega margt að gerast til þess að við færum ekki upp úr riðlinum. Við þyrftum, til að byrja með, að tapa 6:0 fyrir CSKA Moskvu á Old Trafford nú í byrjun desember.
Lukaku þarf þjónustu. Belginn stóri þarf að teygja á varnarleik andstæðinganna og treysta á að samherjarnir hans haldi honum í spilinu, það er hreinlega ekki að ganga, ekki nálægt því. Lukaku virðist ótrúlega einangraður þessa daganna og virðist svo varla hafa tæknina til að skapa sér góð leiksvæði sjálfur.
http://gty.im/877577686
Ljósið í myrkrinu er endurkoma Marcos Rojo. Argentínumaðurinn var að spila sinn fyrsta leik á tímabilinu og hreinlega bjargaði marki seint í leiknum með frábærri tæklingu. Hann var svo ekki langt frá því að skora þegar þrumuskot hans af löngu færi small í þverslánni. Það er jákvætt að Mourinho hafi fleiri góða kosti í vörnina, sérstaklega þegar Phil Jones er sprautaður sex sinnum fyrir æfingaleik með landsliðinu.
Bjarni says
Töggl og haldir í fyrri. Mjaltavélin mallar til sigurs.
Bjarni says
Jólasveinarnir koma snemma í ár.
Bjarni says
Þetta er mitt mat á leiknum: Lélegar sendingar, passífir, hugmyndasnauðir, baráttulausir nær allan tímann, óheppnir að skora ekki í fyrri, í seinni voru flestir leikmenn áhugalausir.
Romero – solid
Darmian – hvar er Valli.
Smalling – ekki minn maður en samt solid
Rojo – Bestur í vörninni
Blind – Ber nafn með rentu.
Herrera – einsog sært spænskt naut, út um allt en skilaði litlu
Fellaini – óheppinn í sköllunum, ætti að fjarlægja lubbann annars hljóp hann um og baðaði út höndum
Pogba – eini tilgangurinn var að komast í gegnum sínar mínútur, einbeiting var alveg þar. Sýndi litla fyrirliðahæfileika enda ekki enn 150% fit. Spígsporaði á miðjunni og virtist ragur í návígjum, skiljanlega.
Martial – Reyndi of mikið að vera nettur á því. Leikinn en það skilar litlu á móti svona trukkum. Virtist hálffeginn að vera tekinn útaf þó svo hann væri drullu fúll. Átti samt heilt yfir þokkalegan leik sérstaklega í fyrri.
Lingard – heillaði mig ekkert í þessum leik, er ekki sterkur og lætur éta sig í návígjum, stundum við fyrstu líkamlegu snertingu. var allan tímann að vera skipt út af.
Lukaku – Er ekki sá liprasti maður á móti markmanni, enda heljarmenni að burðum sem stundum eru að flækjast fyrir honum. En skilaði þokkalegu starfi
Ef marka á þennan leik þá höfum við ekkert að gera áfram en þetta er UTD og við förum oftast erfiðu leiðina að settu marki. Það er skrifað í utd handbókinni bls. 10.
Vonandi stillir Morinhó upp sterkasta liðinu á móti Brighton um næstu helgi og menn vakni til lífssins eftir þessa blautu tusku.
Kári says
Höfum við ekkert að gera áfram Bjarni? Höfum unnið alla leiki fram að þessum. Mér sýnist Móri hafa bara notað þennan leik til að gefa Rojo, Blind, Romero, Darmian og Lingard leiktíma og tækifæri því loksins kom leikur sem í raun *má* í versta falli tapast. Þeir koma ansi fáir þeir leikirnir á hverju tímabili. Svo slysumst við til að tapa og margir tala eins og það se heimsendi
Narfi says
Ég sé enga ástæðu til að fyllast svartsýni eftir þennan leik. Ég bjóst aldrei við neinni flugeldasýningu frá Mourinho fyrst sæti í 16 liða úrslitum var svo gott sem tryggt. Ég geri ráð fyrir leiðinlegum lokaleik í riðlinum og að liðið einblíni leikina fyrir og eftir CSKA leikinn, sumsé Arsenal og City.
Það er frábært að fá Pogba, Zlatan og Rojo alla inn á þessum tímapunkti og hafa hópinn breiðari fyrir törnina sem framundan er. Ef United ætlar sér að keppa við City um titilinn verður liðið heldur betur að spýta í lófana fyrir desembermánuð. Ég hef ekki trú á að City haldi sama dampi alla leiktíðina, en United má heldur ekki við því að detta niður í spilamennsku eins og í október.
Heiðar says
Sérstök frammistaða í seinni hálfleik. Engu líkara en að liðið sé ekki í formi. Basel gjörsamlega valtaði yfir okkur seinasta fjórðung leiksins. Ekki í fyrsta skipti á tímabilinu sem við erum á hælunum á seinni stigum leikjanna.
Og svo skiptir Paul Pogba þetta lið ALLTOF miklu…. þá meina ég þá staðreynd að hann hreinlega verður að vera inn á. Hefði viljað sjá einn miðjumann í janúarglugganum. Þess vegna yfir þrítugan en sem getur skapað og haldið. Það þarf meira til. Við megum ekki við svona farþegum eins og Lingard ef liðið ætlar að vinna deildina á ný. Hann er svo sem ekki fastur í byrjunarliði blessaður og vissulega hefur hann átt sína spretti en hann er hreinlega númeri of slakur í þetta lið fyrir mitt leyti.
Þessi leikur skipti svo sem ekki miklu en þýðir þó að við þurfum 1 stig í lokaleiknum til að tryggja okkur efsta sætið í riðlinum. Það eitt og sér var mikill óþarfi í ljósi þess að við eigum Man.City í kjölfarið á seinasta leiknum. En United er ekki þekkt fyrir að fara auðveldu leiðina.