Manchester United vinnur A-riðil Meistaradeildar Evrópu og er þar með öruggt um sæti í 16-liða úrslitunum en dregið verður næstkomandi mánudag, 11. desember. Þó sæti í 16-liða úrslitunum hafi harla verið í hættu fyrir þennan leik þá er ánægjulegt að enda riðlakeppnina á sigri og mikilvægt að hafa þann meðbyr fyrir risaleik næstu helgar gegn Manchester City. Fimm sigrar og eitt tap er uppskeran í riðlakeppninni í ár, sú besta síðan tímabilið 07/08 þegar við fórum alla leið.
Jose Mourinho hélt sig við 3-4-1-2 kerfið sem hann hefur notað í síðustu leikjum en hann hristi þokkalega upp í byrjunarliðinu enda með annað augað á grannaslagnum. Luke Shaw var í byrjunarliðinu og spilað sínar fyrstu mínútur síðan í október á meðan Sergio Romero stóð milli stanganna en David de Gea var alveg hvíldur. Þeir Ander Herrera, Juan Mata og Marcus Rashford komu einnig inn í liðið á meðan Ashley Young og Jesse Lingard settust á bekkinn; Marcos Rojo og Nemanja Matic voru ekki með. Paul Pogba var auðvitað 90 mínútna maður á miðjunni enda á leiðinni í þriggja leikja bann núna.
Varamenn: Pereira, Darmian, Tuanzebe, Young, McTominay, Lingard, Martial.
Leikurinn
Jose Mourinho hefur, í sjö tilraunum, aldrei tapað gegn CSKA Moskvu (unnið sex, eitt jafntefli) og gáfu fyrstu mínútur leiksins það sterklega til kynna að engin breyting yrði þar á í kvöld. Það tók ekki fimm mínútur fyrir fyrsta færið að líta dagsins ljós er Lukaku átti afar huggulega, lúmska stungusendingu inn fyrir á Rashford sem renndi boltanum í fjærstöngina. Stuttu seinna var týndi maðurinn Luke Shaw nálægt því að skora með föstu viðstöðulausu skoti frá vinstra vítateigshorninu en gamla kempan í markinu, Igor Akinfeev, varði virkilega vel. Það skapaðist mikið pláss fyrir Shaw og Antonio Valencia til að athafna sig í á köntunum og okkar menn voru sprækir en gestirnir frá Rússlandi skoruðu hins vegar fyrsta mark kvöldsins.
Eftir fína þversendingu inn í teig skot Brasilíumaðurinn Vitinho í bakið á Alan Dzagoev og þaðan lak boltinn í netið af stuttu færi og staðan orðin 0:1 rétt fyrir hálfleik. Einhverjir vildu sjá flagg aðstoðardómarans fara á loft þar sem Dzagoev virtist rangur en svo var ekki. Daley Blind hafði skömmu áður reynt að rennitækla fyrir boltann, misheppnast það og í staðinn rennt sér út af vellinum. Þrátt fyrir það var Blind enn þá í leik og því að spila Dzagoev réttan en endalínan afmarkar leiksvæði boltans, ekki leikmanna. Leikmenn eru í leik nema dómarinn gefi þeim leyfi til að yfirgefa völlinn.
https://twitter.com/DaleJohnsonESPN/status/938149145994584069
Leikmenn United létu þetta mark ekki á sig fá og héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik, það átti eftir að skila sér. Á 64. mínútu átti Paul Pogba frábæra háa sendingu inn fyrir vörn gestanna þar sem Romelu Lukaku, með varnarmann á bakinu, stýrði boltanum í markið. Belginn sýndi þarna hversu sterkur hann er og skoraði gott mark, aðeins hans annað í síðustu 13 leikjum. Tveimur mínútu síðar var staðan orðin 2:1. Lukaku sýndi aftur styrk sinn með því að vinna skallabolta og flikka honum aftur fyrir sig; þaðan barst hann til Juan Mata sem átti geggjaða vippsendingu á Marcus Rashford á fjærstönginni sem lét hann skoppa einu sinni áður en hann stýrði hnitmiðuðu skoti í fjærhornið.
Eftir þetta fór Mourinho að huga að næstu helgi. Ander Herrera, Antonio Valencia og Lukaku voru allir teknir af velli með stuttu millibili fyrir þá Scott McTominay, Alex Tuanzebe og Anthony Martial. Það var heldur rólegra yfir þessu síðustu mínúturnar; Sergio Romero þurfti aðeins að taka á honum undir lokin til að verja vel frá Dzagoev áður en Vasili Berezutski skallað framhjá og þar við sat. Manchester United vann riðilinn en Moskvumenn sitja eftir í þriðja sætinu og fara þeir í Evrópudeildina.
Umræðupunktar eftir leik
Áfallalaus og góður sigur. Þetta var þægilegt, jafnvel þó gestirnir hafi komist yfir, enginn meiddist og hægt var að hvíla nokkra í seinni hálfleik. Það gefur líka byr undir báða vængi að vinna fótboltaleiki og það er gott að mæta í Manchester slaginn næstu helgi með fjóra sigra í röð á bakinu.
Luke Shaw þurfti að sanna sig í kvöld og hann gerði það. Shaw var búinn að spila aðeins 48 mínútur af fótbolta með aðalliðinu fyrir leikinn í kvöld en enski bakvörðurinn var heldur betur sprækur í þessum fimmtugasta leik sínum fyrir Man Utd. Það gleðjast allir góðir menn yfir því og það sást bersýnilega hversu mikið stuðningsmenn á Old Trafford vildu sjá hann spila vel í kvöld. Við fögnum honum í dag án þess að fara fram úr okkur, það er öflugt að vera kominn með annan möguleika á vinstri kantinn. Gleymum ekki Juan Mata. Spánverjinn hefur verið hálf týndur upp á síðkastið en hann var sprækur í kvöld, sérstaklega í síðari hálfleik, og kórónaði frammistöðu sína með geggjaðri stoðsendingu á Rashford í öðru markinu.
https://twitter.com/samuelluckhurst/status/938168217247404038
11. desember. Þá verður dregið um hverjir mætast í 16-liða úrslitunum. Manchester United getur mætt Bayern Munchen, Juventus, Sevilla, Shakhtar, Porto eða Real Madrid eins og staðan er núna; þetta gæti breyst annað kvöld.
Keane says
Held nú að Blind sé partur af 3ja manna vörn.
Bjarni says
Eins mikið og ég held uppá Lukaku þá verð ég þreyttur fyrir hans hönd að sjá hann spila alla leiki. Hann þarf að vera ferskur um helgina annars vona ég innilega að hann „setji hann“ og fái aftur markanefið til baka. Liðið er nógu sterkt til að vinna leikinn.
Heiðar says
Hvar er Zlatan? Ekki á bekk um helgina né nú.
Turninn Pallister says
Held að Mourinho finnist Zlatan bara ekki vera ennþá kominn í nægilega gott form eftir meiðslin.
Hrikalega klaufalegt að vera ekki 3-1 yfir í hálfleik btw.
Cantona no. 7 says
Góður sigur og verðskuldaður.
Gaman að sjá Luke Shaw aftur spila og eiga góðan leik.
City næstir og vonandi sigrum við þá.
G G M U
Halldór Marteins says
Verulega ánægður með þessa frammistöðu. Fannst þetta aldrei í neinni almennilegri hættu. Vissulega fékk CSKA nett gefins mark, Smalling klikkaði aðeins á rangstöðugildrunni þar.
En eftir að United fór að setja almennilega pressu í seinni hálfleik þá hafði ég alltaf trú á að markið, eða mörkin, myndu detta inn. Það er alls ekki tilfinning sem maður hefur alltaf fundið yfir leik hjá United á síðustu árum en það er öðruvísi yfirbragð yfir liðinu núna. United var töluvert betra en þetta rússneska lið og þar af leiðandi hafði ég ekki áhyggjur af því að þetta myndi ekki reddast.
Risabónus að Shaw byrjaði leikinn. Vængbakvarðarstaðan virðist henta honum og hans styrkleikum, vona innilega að hann fái fleiri tækifæri. Var eiginlega búinn að afskrifa hann, held hann sé enn á knattspyrnulegu skilorði hjá klúbbnum en það væri gaman ef þetta gengi upp hjá honum.
Svo fannst mér gaman að fylgjast með Blind og Lindelöf þarna sitt hvoru megin við Smalling í vörninni. Þeir voru sendingahæstu leikmennirnir á vellinum, tóku mikinn og góðan þátt í spilinu auk þess að sýna góða takta í vörninni. Hafði mjög gaman af því.
Mörkin voru samt hápunkturinn. Tvö virkilega vel unnin og frábær mörk. Svona eiga CL-kvöld að vera! :)
Heiðar says
Punktur fyrir næsta podcast: Luke Shaw!
Persónulega finnst mér borðleggjandi að hvað hæfileika varðar er hann langhæfastur til að sinna þessarri vinstri bakvarðarstöðu af þeim sem hafa verið settir þar á tímabilinu. Hann sýndi það líka á fyrsta tímabilinu sínu með United, áður en hann lenti í meiðslunum.
Frábærir sprettir hjá honum í gær. Vonandi að hausinn haldist í lagi og þá er þetta ekki spurning!
P.S. Svo maður ræði nú aðeins hvað má augljóslega bæta. Í gær kom það trekk í trekk fyrir að menn losuðu sig við 2-3 menn og sköpuðu þannig opin svæði. Pogba og Rashford í aðalhlutverki þar. Finnst aðeins vanta upp á slúttið í skyndisóknunum. Rashford sólaði kannski þrjá menn en endaði svo á að senda hálfvonlausan bolta inn í teig sem var hreinsaður. Alltof oft sem við náðum ekki skoti á markið í þessum skyndisóknum en fyrir mér er það lykilatriði.
DMS says
Þá er komið í ljós hverjum við getum mætt í 16-liða.
Bayern, Juve, Sevilla, Shakthar, Porto og Real Madrid.
Fljótt á litið væri erfiði drátturinn Bayern, Juve eða Real Madrid, þó að öll þessi lið séu fanta góð.
Eigum við ekki að tippa á Man Utd vs Porto ?