Klukkan 16:30 á sunnudaginn fer fram einn þýðingarmesti Manchesterslagur undanfarna ára. Við höfum auðvitað heyrt þetta áður, grannaslagurinn á Old Trafford í fyrra átti líka að skipta öllu máli eftir að liðin fóru frábærlega af stað og átti titillinn að vera algjörlega á milli Manchester liðanna. Einhverjir héldu svo að City myndi rúlla deildinni upp þegar þeir stóðu uppi sem 2:1 sigurvegarar í fyrsta einvígi Jose Mourinho og Pep Guardiola á Englandi. City endaði í þriðja sæti, 15 stigum frá meisturum Chelsea. Við gerum ekkert grín af þeim fyrir það, enduðum sjálfir í 6. sæti, níu stigum fyrir aftan háværu nágrannana.
En nóg um leiðindin í fyrra. NÚNA er svo sannarlega komið að uppgjörinu um Manchester borg er United tekur á móti City á Old Trafford í 16. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. City eru efstir með 43 stig, United þar á eftir með 35 og ljóst að þetta eru einhver mikilvægustu þrjú stig sem við munum berjast um í allan vetur. Bæði lið hafa styrkt sig töluvert frá því í fyrra, þeir Romelu Lukaku og Nemanja Matic hafa komið með nauðsynlegt stál í hrygg United liðsins og hafa passað vel inn í púsl Mourinho.
Guardiola hefur hins vegar ekki svo mikið verið að bæta í púslið eins og hann henti bara því gamla og byrjaði upp á nýtt. Eftir aragrúa af nýjum leikmönnum í fyrra buðu City menn upp á aðra veislu í sumar og eyddu til að mynda bara 120 milljónum punda í bakverði. Þessi eyðsla hefur þó, hingað til, verið að skila sér í úrslitum enda City búið að vinna 13 úrvalsdeildarleiki í röð og ef Guardiola tekst að vinna deildina eftirsóttu munu innkaupin hafa verið réttlætanleg.
Liðin mættust þrisvar í fyrra: City vann auðvitað fyrsta einvígið eins og komið hefur fram, 2:1. Liðin mættust svo í enska deildabikarnum um mánuði síðar og þá hafði United betur, Juan Mata með eina mark leiksins, og auðvitað fórum við svo alla leið og unnum þann bikar. Það var síðan boðið upp á steindautt 0:0 jafntefli á Etihad í apríl en þá voru liðin að keppa um Meistaradeildarsæti og fátt annað. Liðin mættust einnig í sumar í æfingaleik í Houston í Bandaríkjunum en þar vann United, 2:0, með mörkum frá Marcus Rashford og Romelu Lukaku.
Það verður auðvitað pressa á okkur á morgun, við þurfum nauðsynlega sigur til að brúa bilið á meðan City myndi duga jafntefli. Að sama skapi er pressa á Guardiola, eftir allt sem hann hefur eytt í leikmannahópinn, að skila titli á Etihad og sú pressa mun aukast ef Mourinho nær að sjá við honum á sunnudaginn.
Andstæðingurinn
Það þarf engar sérstakar málalengingar um þetta City lið. Styrking leikmannahópsins frá því í fyrra er ótvíræð og svo hefur Kevin de Bruyne verið óstöðvandi. Eftir óheppilegt 1:1 jafntefli á Etihad vellinum strax í 2. umferð hefur City liðið verið óstöðvandi, unnið 13 deildarleiki í röð. Til að byrja með voru þeir ógnvekjandi og skoruðu ein 24 mörk í fimm leikjum, tveir af þeim gegn Liverpool og Chelsea.
Spilamennska lærisveina Guardiola hefur svo aðeins hikstað undanfarnar vikur, liðið hefur verið að merja minni spámenn deildarinnar en hefur þó verið að vinna. Raheem Sterling tryggði sigur í uppbótartíma tvo leiki í röð (gegn Huddersfield og Southampton), áður en síðbúin mörk frá David Silva og Gabriel Jesus sökktu West Ham. Lið sem ætla sér meistaratitla þurfa að vinna þegar þau spila illa og þetta eru karakterssigrar, vissulega, en eitthvað sem United getur vonandi nýtt sér er að City liðið virðist ekki jafn óstöðvandi og það var í byrjun móts.
Stærstu fréttirnar fyrir grannaslaginn eru þær að David Silva mun spila eftir að hafa verið talinn tæpur vegna meiðsla. Jose Mourinho hafði að vísu blásið á þær fréttir að Silva myndi missa af leiknum og virðist sem sálfræðin sé byrjuð á milli þjálfaranna. Guardiola kallaði þá félaga tvíbura á blaðamannafundi sínum á föstudaginn, vegna þess að hungur þeirra í titla er jafn óseðjandi. Vincent Kompany er ekki 100% og talinn ólíklegur til að spila en hann mun samt eflaust gera það. Benjamin Mendy og John Stones eru vissulega meiddir.
Manchester City tapaði í fyrsta sinn á tímabilinu og í fyrsta sinn í 29 leikjum í miðri viku, 2:1 gegn Shakhtar Donetsk í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. City var búið að tryggja sér efsta sæti riðilsins og með grannaslaginn yfirvofandi nýtti Guardiola tækifærið til að hvíla nokkrar af sínum helstu kannónum. Kyle Walker, Nicolas Otamendi og Raheem Sterling voru til að mynda ónotaðir varamenn á meðan Sergio Aguero spilaði síðustu 20.
Líklegt byrjunarlið City:
Manchester United
Jose Mourinho mun væntanlega halda sig við 3-4-1-2 kerfið og miðað við undanfarnar frammistöður er þetta líklegt byrjunarlið:
Það verður auðvitað enginn Paul Pogba sem er risabiti en það þýðir ekki að gráta það, hann verður ekki með og svo einfalt er það. Eric Bailly og Michael Carrick eru meiddir og Marouane Fellaini er spurningamerki, gæti verið á bekknum. Zlatan Ibrahimovic er heill samkvæmt Mourinho og einhverjir spekingar spá því jafnvel að stóri maðurinn byrji óvænt. Nemanja Matic er meiddur en mun samt spila, eins og hann hefur gert undanfarið.
Besti markmaður heims mun vonandi eiga aðra eins frammistöðu og hann átti á móti Arsenal um síðustu helgi og svo held ég að Phil Jones, ef hann reynist 100%, komi inn í vörnina. Victor Lindelöf hefur vaxið ásmegin undanfarnar vikur og ég er bjartsýnn á hann til lengri tíma, en Jones er einfaldlega þekktari stærð í svona leik. Hvort Ashley Young eða Matteo Darmian spili vinstra megin er svo kannski stærri spurning. Darmian tók ekki þátt í Meistaradeildarleiknum gegn CSKA Mosvku í miðri viku og halda jafnvel margir að það sé verið að undirbúa hann fyrir sérstakt hlutverk gegn de Bruyne eða David Silva. Að sama skapi hefur Young verið að spila ótrulega vel í þessari stöðu og gæti verðskuldað sæti í liðinu.
Eftir smá hikst í upphafi veturs hefur United gengið vel undanfarið. Liðið hefur unnið fjóra leiki í röð í öllum keppnum eftir 2:1 sigurinn á CSKA sem tryggði sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar og nú gefst tækifæri á að vinna fimmta úrvalsdeildarleikinn í röð og jafnframt sjá til þess að City loksins tapi. Þetta er líka tækifæri til að skrá félagið enn frekar í sögubækurnar þar sem sigurinn í miðri viku jafnaði gamalt félagsmet frá 1966 þegar sveinar Sir Matt Busby voru ósigraðir á Old Trafford í 40 leikjum í öllum keppnum. Við höfum núna ekki tapað á Old Trafford í 14 mánuði (þegar City vann grannaslaginn í fyrra) og eru leikirnir einmitt 40. Ef við töpum ekki á sunnudaginn er metið slegið og ef við vinnum þá eru það 12 heimasigrar í 12 leikjum í öllum keppnum í vetur.
Á flautuvaktinni verður enginn annar en Michael Oliver en þetta verður hans fjórði Manchester slagur. Hann dæmdi viðureign þessara liða á Old Trafford í mars 2014, þegar City vann 3:0 og einnig flautaði hann Etihad leikinn í nóvember á sama ári þegar Chris Smalling fékk reisupassann og Joe Hart ekki. Við treystum á góðan leik frá honum því uppgjörið um Manchester gæti vel verið lokauppgjörið um England.
https://twitter.com/r_o_m/status/938179961156001797
Blue moon says
Þessi leikur er ekki eins mikilvægur fyrir City og hann er fyrir United. 8 stiga forysta gæti orðið 11 eða 5 stiga forysta. Þannig að þetta er ekki leikur upp á líf eða dauða hjá besta liði Englands
Halldór Marteins says
Ósammála því.
Þetta er einn af þessum krúsjal leikjum fyrir Man City. Ef þeir tapa, þá er enn barátta um titilinn. Ef þeir tapa ekki, þá eru þeir langt komnir með deildarsigur.
Þeir vita væntanlega alveg af því
Björn Friðgeir says
City þarf ekki að vinna, en mega ekki tapa. Leikurinn gæti spilast eftir því.