Það er komið að því að Manchester United hefji sína þátttöku í enska bikarnum þetta tímabilið. Andstæðingurinn í 3. umferð er Derby County. Þessi lið mættust einmitt síðast í þessari sömu keppni, það var í 4. umferðinni árið 2016. Þá spiluðu liðin á Pride Park og hafði Manchester United betur með 3 mörkum gegn 1. Liðið fór svo alla leið í keppninni það árið og endaði á að lyfta bikarnum. Í fyrra féll Manchester United úr leik í 8-liða úrslitum þegar liðið tapaði gegn Chelsea. Í þeim leik var United betri aðilinn þar til Ander Herrera fékk rautt spjald, þótti ýmsum það full harkalegur dómur. Chelsea tapaði svo úrslitaleiknum gegn Arsenal, sem hefur unnið enska bikarinn í 3 af síðustu 4 skipti. Þar með hefur Arsenal unnið bikarinn 13 sinnum en Manchester United 12 sinnum. Það er tölfræði sem Manchester United mætti alveg endilega lagfæra.
Það er þegar orðið svo gott sem ljóst hvaða lið vinnur ensku deildina. Manchester United er svo dottið úr leik í deildarbikarnum. Það skilur eftir tvær keppnir sem liðið getur enn unnið. Enski bikarinn er önnur þeirra. Það er því ekki um annað að ræða en spýta í lofa, bretta upp ermar og gera harða atlögu að því að vinna dolluna. Sú atlaga hefst annað kvöld, föstudagskvöld, klukkan 20:00. Dómarinn í leiknum verður Kevin Friend.
Ég minni á 45. þáttinn af Djöflavarpinu sem kom út fyrr í dag.
Okkar menn
Það er ennþá töluvert um meiðsli hjá okkar mönnum, sérstaklega í vörninni. Eric Bailly, Chris Smalling og Anthonio Valencia eru allir meiddir. Ashley Young er þar að auki að taka út þriggja leikja bann. Zlatan Ibrahimovic er einnig meiddur en Lukaku er þó tilbúinn til að spila eftir sín meiðsli. Þá eru frábærar fréttir í því að Marouane Fellaini er búinn að ná sér eftir meiðsli, það er spurning hvort hann nái þessum leik eða hvort hann þurfi aðeins meira leikform. Það væri þó hrikalega öflugt að hafa hann á bekknum. Michael Carrick er byrjaður að æfa aftur en það er samt spurning hvort hann nái þessum leik.
United stillti upp frekar öflugu liði í deildarbikarnum gegn Bristol City um daginn. Það dugði þó ekki til gegn Championshipliðinu og tap staðreynd. Það ætti að vera góð áminning til þeirra sem spila þennan bikarleik, sigrarnir koma ekki af sjálfu sér þótt andstæðingurinn sé deild neðar. Það þarf alltaf að hafa fyrir hlutunum.
Þetta gæti þó verið tími fyrir róteringar, það hefur vissulega verið álag á mönnum síðustu tvær vikur. En eftir þennan bikarleik eru reyndar 10 dagar í næsta leik svo það gefst góður tími til að ná sér. Það sem er kannski meira spurning er hvernig eigi að höndla leikmenn sem gætu verið á útleið á næstunni, leikmenn sem hafa ekki verið að spila neitt alltof mikið fyrri hluta tímabils. Matteo Darmian og Sergio Romero koma upp í hugann en það eru eflaust fleiri sem gætu verið farnir að hugsa sér til hreyfings. Væri þá til lítils að nota þá í þessum leik eða gæti það mögulega gefið þeim vettvang til að auglýsa sig í glugganum með góðri frammistöðu?
http://gty.im/866113200
Það er því nokkuð snúið að giska á byrjunarlið í þessum leik en ég myndi allavega vilja sjá McTominay koma inn á miðjuna og sjá liðið halda áfram að spila 4-3-3. Luke Shaw hefur verið flottur í síðustu leikjum, sérstaklega fram á við. Þá mætti Rashford alveg fá sénsinn fremst, Lukaku mætti byrja á bekknum í þetta skiptið. Svona væri ég til í að sjá liðið:
Gestirnir
Derby County átti sams konar leikjadagskrá og Manchester United yfir hátíðarnar, þar sem liðið spilaði á Þorláksmessu, annan í jólum, 30. desember og svo á nýársdag. Derby náði í þessum fjórum leikjum í tvo sigra og tvö jafntefli og er eins og stendur í 2. sæti deildarinnar, 12 stigum á eftir Wolverhampton Wanderers og 2 stigum á undan City-liðunum Cardiff og Bristol.
Knattspyrnustjóri Derby er fyrrum varnarjaxlinn Gary Rowett. Rowett hefur verið að ná góðum árangri sem knattspyrnustjóri. Fyrst var hann með Burton Albion í tvö tímabil í League Two og kom þeim í umspilið í bæði skiptin, í seinna skipti tapaði liðið fyrir Fleetwood í úrslitaleik umspilsins. Hann tók svo við Birmingham City árið 2014. Þegar Rowett kom þangað var liðið í slæmum málum í næst neðsta sæti deildarinnar. Hann náði að snúa gengi liðsins algjörlega við og koma þeim að lokum upp í 10. sæti deildarinnar. Hann tók svo við Derby County í mars á síðasta ári. Liðið endaði í 9. sæti á síðasta tímabili en hefur í vetur haldið sér í toppbaráttunni.
Derby er eitt af þessum fornfrægu liðum í enska boltanum, stofnfélagi enska knattspyrnusambandsins og eitt af aðeins 10 liðum sem hefur tekið þátt í deildarkeppninni á öllum tímabilum þess frá upphafi. Félagið hefur einu sinni unnið enska bikarinn, það var árið 1946 þegar liðið vann Charlton Athletic í fyrsta bikarúrslitaleiknum eftir seinni heimsstyrjöld. Síðustu ár hafa þó verið mögur í þessari keppni, liðið hefur verið að detta út í umferðum 3 til 5 síðan liðið komst síðast í fjórðungsúrslit, árið 1999. Oftast hefur liðið náð í 4. umferð en við treystum á okkar menn til að halda þeim frá 4. umferðinni í ár.
Derby spilar langoftast í 4-2-3-1 uppstillingu. Liðið spilar varnarsinnað og keyrir mikið á skyndisóknum og upp kantana. Derby er með einna fæst skot liðanna í Championship deildinni en þó með næstflest skoruð mörk á eftir Wolves. Derby er yfirleitt minna með boltann, leikurinn fer yfirleitt meira fram á þeirra vallarhelmingi og þeir vinna mikið af skallaboltum.
Það sem vekur ákveðna athygli er að þeirra fremsti leikmaður er ekki sá markahæsti heldur er það leikmaðurinn sem spilar í holunni, Tékkinn Matej Vydra. Hann hefur skorað 14 mörk í deildinni í vetur. 11 þeirra innan vítateigs og 3 þeirra fyrir utan teig. Framherjarnir David Nugent og Sam Winnall koma svo þar á eftir, hvor með 6 mörk. Tom Lawrence, fyrrum leikmaður Manchester United, er svo stoðsendingahæstur, með 6 stoðsendingar.
Rowett hefur talað um að hann líti á þennan leik gegn Manchester United sem hálfgerða prufukeyrslu fyrir Derby sem stefnir á að spila í deild hinna bestu strax að ári. Að sama skapi hefur hann þó einnig talað um að hann gæti þurft að rótera einhverju eftir leikjaálagið yfir jólin. En hann gæti mögulega hent í lið sem er á þessa leið:
Derby hefur ekki tapað leik síðan í nóvember. Liðið hefur gott sjálfstraust, það kann að verjast vel og gera mikið við fá tækifæri fram á við. Það er því alveg ljóst að leikmenn Manchester United mega alls ekki sofna á verðinum gegn þessu liði, jafnvel þótt okkar menn ættu vissulega að vera mun sigurstranglegri.
Skildu eftir svar