Manchester United hafði mikla yfirburði í leiknum gegn Derby í kvöld en það gekk hins vegar illa að klára færin. Derby varðist af hörku og freistuðu þess að halda í það minnsta hreinu. En Lingard og Lukaku voru á öðru máli og tryggðu að lokum sætið í 4. umferð enska bikarsins.
Byrjunarlið Manchester United í kvöld var svona:
Varamenn: J. Pereira, Darmian, Marcos Rojo, Fellaini, McTominay, Lukaku, Martial
Byrjunarlið gestanna:
Varamenn: Mitchell, Martin, Baird, Bennett, Vydra, Hanson, Nugent
Leikurinn sjálfur
Manchester United var mikið meira með boltann í leiknum, eins og við vissum fyrirfram að myndi gerast. Að sama skapi varðist Derby County af hörku, sem kom heldur ekki á óvart.
Í stað þess að spila með 4-2-3-1 eins og ég hélt að það yrði þegar ég sá byrjunarliðið, eða 4-3-3 eins og gafst vel í síðasta leik, þá byrjaði liðið í eins konar 4-1-4-1 þar sem Herrera var aftastur á miðjunni, Pogba og Mkhitaryan fyrir framan hann og Lingard vinstra megin en Mata hægra megin.
Manchester United var með boltnn 70-75% af tímanum í fyrri hálfleik. Liðið reyndi ýmislegt til að finna leiðir í gegnum varnarmúr Derby og það gekk alveg að búa til færi en mörkin komu ekki. Scott Carson átti fínan dag í dag, varði m.a. tvær fínar aukaspyrnur í fyrri hálfleik, eina frá Mata og aðra frá Pogba, sem báðar voru í sama vinkilinn.
Rashford setti skalla í stöngina og skaut svo yfir úr opnu færi, þar hefði hann átt að gera betur. Hann spilaði sem fremsti maður og það vantaði töluvert upp á nærveruna sem Lukaku gefur þarna fremst. Mkhitaryan var líka að reyna að skapa og gera eitthvað sniðugt en það gekk oftast nær lítið upp hjá honum.
Shaw studdi meira við sóknina en Lindelöf hinum megin, líklega lagt þannig upp. Shaw var líka sprækur í þessum leik en það var alveg stundum sem manni fannst að hann hefði átt að gera betur við tækifærin, sérstaklega þegar hann gat komið með fyrirgjafir. En hann var góður í spilinu upp kantinn og að finna hlaup hjá samherjum.
Mourinho setti Lukaku inn strax í hálfleik. Mkhitaryan var maðurinn sem þurfti að víkja í staðinn, held að það hafi ekki komið neinum á óvart. Við það fór Rashford út á vinstri kantinn og hinn sjóðheiti Jesse Lingard í holuna.
Derby náði þó fyrsta hættulega tækifæri seinni hálfleiks. Shaw gaf aukaspyrnu við endamörk þegar hann misreiknaði sig, ætlaði að fara með öxl í öxl en endaði á að axla andstæðinginn í bakið, réttur dómur. Úr aukaspyrnunni skapaðist glundroði sem endaði með hættulegu skoti sem fór af Shaw og rétt framhjá markinu. Þarna glumdu viðvörunarbjöllur.
En United hélt þó áfram að sækja og reyna að skapa. Carson hélt áfram að verja það sem fór á rammann. Sumt var vel varið hjá honum en heilt yfir var hann að verja of þægilega bolta, lausar tilraunir eða langskot. Það gekk líka illa að skapa einhver betri færi gegn þessum varnarpakka.
Shaw, Rashford, Mata og Herrera reyndu að þræða sig í gegnum vörnina vinstra megin og tókst það næstum því. Það var töluvert af næstum því augnablikum í þessum leik. Martial kom inn fyrir Mata, við það fór Rashford yfir á hægri kantinn en Martial var á þeim vinstri.
Rashford var ekki búinn að ver lengi á hægri kantinum þegar hann átti stórgott skot í innanverða stöngina. Hrikalega nálægt því. Nokkrum mínútum seinna átti Lingard öflugt skot hægra megin í teignum sem Carson varði út í teig. Þar kom Pogba á ferðinni en skaut framhjá. Illa farið með gott færi. Ef Pogba hefði komið boltanum á milli tveggja varnarmanna Derby þá var enginn í markinu til að verja.
Á 79. mínútu sneri vinur okkar, hárprúði Belginn hann Fellaini aftur inn á völlinn. Virkilega gaman að sjá hann spila aftur með United. Og hann hafði verið inn á í rétt 5 mínútur þegar United var komið yfir (tilviljun? Held ekki!). Þá brunaði Martial upp völlinn með boltann, fann Lukaku í lappir sem gaf strax yfir á Lingard. Lingard lagði boltann fyrir sig og smurði svo utanfótarbombu út við skeytin fjær. Þessi drengur er sérfræðingur í flottum og mikilvægum mörkum, sérstaklega á þessu tímabili. Hvílíkur léttir!
https://twitter.com/mufcgif/status/949395940535828482
Eftir þetta þurfti Derby að reyna að sækja til að jafna. Þeir geta alveg sótt og það var að byggjast upp pressa undir lokin. En í einni sókn Derby vann Pogba boltann og dúndraði honum fram á Lukaku. Lukaku gerði vel í að taka við boltanum á miðjum vellinum, sneri svo af sér einn varnarmann Derby og tók á sprett upp völlinn. Martial kom með honum og við vítateig tókku þeir nettan þríhyrning sem skilaði Lukaku í gegnum 3 varnarmenn Derby. Hann náði fínu skoti sem Carson var í en náði ekki að koma í veg fyrir að færi inn í markið. 2-0 og game over!
Umræðupunktar eftir leik
Þetta hafðist, það er aðalmálið. Manchester United er komið áfram í bikarnum. Við gleðjumst yfir því.
Frammistaðan var líka heilt yfir góð, fannst mér. Derby County er með ljómandi fínt lið, þótt það sé deild neðar en Manchester United. Það er greinilega vel æft og þokkalega vel mannað, enda í bullandi baráttu um að komast upp í úrvalsdeildina. Þrátt fyrir það þá var United að ná að skapa eitthvað í þessum leik. Ef færanýtingin hefði verið betri þá hefði leikurinn getað klárast í fyrri hálfleik.
Það er þó áhyggjuefni að færanýtingin hafi ekki verið betri. Og það var óöryggi í ákveðnum leikmönnum, sér í lagi Mkhitaryan og svo var Sergio Romero óvenju óöruggur í kvöld. Hann lenti í vandræðum með einfalda bolta, var hikandi og að kýla bolta þegar hann hefði getað gripið þá. Virtist stundum búa til óþarfa vesen þegar engin hætta var á ferðum og setti svo útspörkin sín ítrekað útaf. En hann náði þó enn einu sinni að halda hreinu.
Það var þó líklega frekar vörninni að þakka. Smalling fannst mér skara fram úr þar, hann þurfti stundum að stoppa álitlega sóknaruppbyggingu Derby og klikkaði hvorki á tæklingu né þegar hann reyndi að komast inn í sendingar. Að auki vann hann 5 skallabolta. Herrera studdi líka gríðarlega vel við varnarlínuna og var oft að vinna varnarvinnuna hátt upp á velli og koma þar í veg fyrir að Derby gæti snúið vörn í skyndisókn. Að mínu mati langbesti leikur Herrera á þessu tímabili og vonandi að hann sé að finna sig almennilega aftur.
Hvað er annars hægt að segja um Jesse Lingard? Hann hefur ekki alltaf verið vel liðinn hjá stuðningsmönnum Manchester United. Það er þessi þversögn sem skapast þegar United á að vera félag sem fóstrar unga og uppalda knattspyrnumenn en það er þó oft lítil þolinmæði gagnvart þessum sömu uppöldu leikmönnum meðal stuðningsmanna. Lingard hlýtur þó að vera búinn að vinna þá flesta á sitt band eftir þessar síðustu vikur. Og hvílík mörk sem drengurinn skorar!
En talandi um uppalda þá er spurning hvernig er best að eiga við Marcus Rashford. Að mínu mati var hann töluvert sprækari á köntunum en frammi og var alveg að reyna ýmislegt. En það vantaði bara upp á lokasprettinn. Hann er að spila mikið. Kannski of mikið? Hann er jú eftir allt saman mjög ungur ennþá. Kannski hefði hann gott af smá pásu til að hreinsa hugann. En ég hef fulla trú á að hann geti fundið sig aftur með tímanum.
Menn leiksins
Jesse Lingard á skilið að minnst sé á hann hér þó ekki væri nema bara fyrir þetta stórkostlega mark. Ekki að það hafi verið það eina sem hann gerði samt, hann var flottur heilt yfir í leiknum og munaði miklu um að fá hann í holuna í staðinn fyrir Mkhitaryan.
Pogba var líka mjög góður í leiknum. Stjórnaði spilinu og kom með öðruvísi tilraunir en aðrir í liðinu. Þegar hinir reyndu stuttu spilin og fyrirgjafir þá reyndi Pogba oft að nýta hraðann og styrkinn í að ráðast á vörnina, oft með fínum og hættulegum árangri.
Lukaku og Martial komu þá sterkir inn og áttu báðir þátt í báðum mörkunum sem United skoraði.
En minn maður leiksins í kvöld er Ander Herrera. Hann var virkilega flottur og náði að styðja vel bæði við vörn og sókn. Hann var agaður í sínu hlutverki en þó líka áræðinn þegar við átti. Hann var langmest í boltanum, átti bæði flestar sendingar og flestar tæklingar. Hann var líka beittari í sendingunum fram á við en oft áður í vetur og kæfði ófáa sóknartilburði Derby strax í fæðingu með góðum staðsetningum. Megi hann eiga sem flesta svona leiki í viðbót!
Áfram í bikarnum
Manchester United er komið áfram í 4. umferðina. Flestir leikirnir eru enn eftir í 3. umferð og það kemur svo í ljós á mánudaginn, 8. janúar, hverjir verða andstæðingar okkar manna í næstu umferð. 4. umferðin verður svo spiluð helgina 26.-28. janúar.
Bjarni says
Tuðran fer inn í seinni hálfleik, hef fulla trú á því.
Hjöri says
Jæja þetta hafðist, en mikið var maður orðinn svektur eftir fyrri hálfleikinn að það skyldi ekki vera komið mark-mörk eftir allan sóknarþúngan á mótherjana. Við vitum að þessi lakari lið leggja áherslu á varnarleikinn á móti þeim stærri, og því veltir maður fyrir sér hvers vegna Utd gengur svona miklu erfiðara að skora á móti þeim liðum, heldur en hinum sem eru í efri hlutanum. Hvað er það eiginlega sem vantar hjá Utd að brjóta niður svona varnarmúra samanborið hin liðin?
Karl Garðars says
@Hjöri
Akkúrat í þessum leik er alls ekki gott að segja en það væri almennt ágætis byrjun að vera ekki skilyrðislaust með tvo afturliggjandi miðjumenn og/eða 3 miðverði auk tveggja vængstífðra vængvarða nánast í hverjum leik.
Stundum kæmi það manni hreint ekki á óvart að sjá tvo markverði í byrjunarliðinu. :)
Síðan mættu leikmenn hætta að reyna að labba með boltann yfir línuna. Það má alveg skjóta þegar komið er inn í teiginn.
Stundum botnar maður ekkert í hvað þeir eru að rembast.
Að öðru leiti góður sigur gegn fínu liði. Það er alveg frábært hvað Lingard er að springa út núna. Megi það halda áfram!
Cantona no 7 says
Yeovil Town- Man, Utd í bikarnum.
Takk fyrir.
G G M U