Manchester United heldur áfram á sigurbraut á nýju ári, eftir öruggan útisigur á Everton í deildinni og bikarsigur gegn Derby tók United á móti Stoke á Old Trafford í kvöld en leiknum lauk með 3-0 sigri á frekar döpru liði gestanna. Leikurinn var jafnframt síðasta viðureignin í 23. umferð Úrvalsdeildarinnar en með sigrinum náði United að rjúfa 50 stiga múrinn og slíta sig frá Chelsea og Liverpool sem eru með 47 stig. Skyldusigur myndu eflaust einhverjir segja en ef litið er til síðustu fimm leikja sem Mourinho hefur mætt Stoke þá enduðu þeir allir með jafntefli og því ánægjulegt að rjúfa hefðina með öruggum sigri á „lélegasta“ liði deildarinnar.
Fyrr í dag tilkynnti Stoke Paul Lambert sem nýjan stjóra liðsins en hann fylgist með liðinu sínu úr stúkunni í dag meðan Eddie Niedzwiecki stýrði liðinu frá hliðar línunni. Það er skemmst frá því að segja að leikmenn liðsins voru ekki að setja saman einhverja flugeldasýningu fyrir nýja manninn í brúnni og greinilegt að hans bíður ærið verkefni ef hann ætlar að halda liðinu áfram í efstu deild.
Liðið sem Mourinho valdi kom ekkert á óvart nema að því undanskildu að Antonio Valencia kom beint inn í byrjunarliðið þar sem hann hefur náð sér eftir tognun á síðasta ári.
Á bekknum voru þeir Joel Pereira, Victor Lindelöf, Marcos Rojo, Marouane Fellaini, Ander Herrera, Scott McTominay og Marcus Rashford.
Embed from Getty Images
Leikurinn fór vel af stað og það leið ekki langur tími áður en að Antonio Valencia stimplaði sig rækilega inn eftir meiðslin með því að taka gagnhreyfingu í bláhorni vítateigsins, leggja boltann fyrir pent sig og smella honum með vinstri fæti upp í hornið framhjá Jack Butland sem kom engum vörnum við. Staðan orðin 1-0 eftir einungis 9. mínútur og það stefndi í veislu á Old Trafford.
Stoke menn virtust í upphafi leiks vera tilbúnir í verkefnið framundan og voru skeinuhættir, Xherdan Shaqiri átti ágætt skot á markið sem besti markvörður deildarinnar átti tæplegast í erfiðleikum með og stuttu síðar átti Stephen Ireland frábært tækifæri en skot hans framhjá fór réttu megin við stöngina, framhjá markinu. Vörn United leit ekkert sérstaklega vel út í þessari sókn gestanna.
Nokkrum mínútum síðar átti Stoke svo fyrirgjöf en sjaldséð mistök hjá téðum markmanni litu dagsins ljós þá þegar hann misreiknaði sig og missti af boltanum. Peter nokkur Crouch stökk manna hæst og skallaði boltann fyrir markið en á einhvern ótrúlegan hátt tókst Eric Maxim Choupo-Moting, sem lék okkur grátt í fyrri leiknum, að klúðra besta færi Stoke fyrir opnu marki þar sem de Gea var víðsfjarri.
Næst var röðin komin að Romelu Lukaku sem tók falleg skæri á hægri kantinum og snéri laglega á Choupo-Moting, sem átti afleitan dag, sendi boltann fimlega fyrir markið en varnarmenn Stoke náðu að bjarga í horn en Romelu Lukaku var sprækur og líflegur í upphafi leiks og gaman að sjá belgann taka upp leikgleðina á ný. Í næstu sókn áttu Juan Mata og Jesse Lingard afskaplega laglegt samspil, skólabókardæmi um þröngt þríhyrningaspil, þar sem Mata komst inn í teiginn en litli spánverjinn flæktist eitthvað í eigin fótum og féll við. Engin vítaspyrna enda ekki um neitt brot að ræða en Kurt Zouma var eitthvað óhress með Mata og vildi meina að hann hefði verið að dýfa sér.
https://twitter.com/utdxtra/status/953013700214054914
Á 36. mínútu minnti Paul Pogba okkur rækilega á það hvers vegna hann er einn besti miðjumaður í heimi þegar hann átti heimsklassa 50metra sendingu þvert yfir völlinn á Luke Shaw sem náði að halda boltanum inn á vellinum og renndi boltanum út á Anthony Martial sem átti skot í varnarmann. Frakkinn átti þó eftir að komast á blað því örfáum mínútum síðar náði Valencia að vinna boltann á eigin vallarhelming, kom honum á Lukaku sem fann Pogba sem renndi boltanum á Martial sem smellti boltanum viðstöðulaust snyrtilega upp við stöng, gersamlega óverjandi fyrir Jack Butland í markinu. 2-0 í hálfleik og sá franski kominn með 11 mörk í öllum keppnum það sem af er tímabilinu og virðist ná einkar vel saman með Lukaku og Pogba.
Síðari hálfleikur fór rólega af stað en eftir um tíu mínútna leik fékk Lukaku boltann fyrir framan miðjan vítateiginn, reyndi mislukkaða bakfallsspyrnu en boltinn datt fyrir hann aftur og hann lét vaða en beint í fangið á Butland.
Pogba átti síðan skot í varnarmann Stoke en pressan jókst með hverri mínútunni og í næstu sókn tókst frakkanum að finna landa sinn Martial í miðju teignum en hann náði einungis slöku skoti á markið sem markmaðurinn átti ekki í neinum vandræðum með. Reyndar var Martial umkringdur varnarmönnum en hefði hugsanlega átt að gera betur og auka við forskot United.
Næsta færi kom ekki miklu síðar þegar Zuoma átti afleita sendingu sem Lukaku komst inn í og lagði af stað í átt að markinu með tvo varnarmenn í sér, tókst að koma boltanum á Lingard sem framlengdi boltann á Mata sem var í ákjósanlegri stöðu hægra megin í vítateignum en skot hans fór rétt framhjá. Strax í kjölfarið fékk Mata annað færi þar sem hann ákvað að hamra boltann yfir markið en spurning hvort að sá spænski hefði ekki á að leggja boltann frekar en að reyna negla. Reyndar tókst honum að koma boltanum inn loksins í næstu sókn þegar hann fylgdi eftir skoti en var réttilega dæmdur rangstæður.
Þegar hér var komið við sögu var Eddie Niedzwiecki búinn með allar skiptingar sínar en Mourinho ekki búinn að nýta neina. Það var ekki fyrr en Romelu Lukaku fékk þrusufasta sendingu frá Martial, sem honum tókst að koma fyrir sig mögulega með smá hjálp frá erminni á treyjunni, að United náði að koma inn þriðja og síðasta markinu.
Þá loksins þótti Mourinho ástæða til að róast og gera breytingar á liðinu, fyrst tvöfalda breytingu þar sem Marouane Fellaini og Marcus Rashford komu inn fyrir Lingard og Martial og að lokum fékk Scott McTominay dýrmætar mínútur í reynslubankann þegar Mata fór af velli.
Pogba átti svo enn eina hágæðasendingu, sem að þessu sinni opnaði flugbraut á vinstri vængnum fyrir Valencia sem bar boltann upp að endalínunni og kom með lága fyrirgjöf sem Rashford reyndi hælspyrnu en Jack Butland sá við honum og var kominn niður til að handsama knöttinn í tæka tíð.
Stoke ógnaði ekki United í síðari hálfleik af neinu ráði fyrr en varamaðurinn Mame Biram Diouf fékk háa sendingu frá Joe Allen sem hann tók niður á kassann fagmannlega og komst í ágætis skotstöðu af stuttu færi (þar sem Shaw og Smalling hlupu hvorn annan niður og Jones var í lautarferð) en de Gea, sem hafði ekki mikið að gera í síðari hálfleik, afgreiddi vel. Boltinn barst hins vegar strax aftur til Diouf sem skaut í hliðarnetið og United slapp með skrekkinn eftir ótrúlegan klaufagang í vörninni.
Annars róaðist leikurinn all verulega eftir skiptingarnar og United sigldi öruggum 3-0 sigri á heimavelli heim. Leikurinn var aldrei í hættu, Stoke voru ekki komnir til að sækja stig eða reyna að heilla nýja stjórann og þó að þeim hafi tekist að valda vörn United smávægilegum vandamálum virtist sigurinn aldrei í hættu og spurning hvort markið á 9. mínútu hafi einfaldlega slökkt þann litla neista sem gestirnir mættu með.
Eftir leikinn
Eftir þennan leik situr United í 2. sæti, 3 stigum fyrir ofan Chelsea og Liverpool og einungis 12 stigum á eftir topliði Manchester City sem tapaði um helgina fyrsta leik sínum. United hefur fengið á sig fæst mörk allra liða (auk Chelsea 16 mörk – City 17 mörk) og er þess vegna með mun betri markatölu en bæði Chelsea og Liverpool.
United fékk aragrúa af færum í leiknum og hefði auðveldlega geta sett 2-3 mörk í viðbót með örlítilli heppni en Paul Pogba átti einmitt tvær stoðsendingar í leiknum og hefði verið með fleiri ef nýtingin hjá liðsfélögum hans hefði verið betri. Það þýðir að hann er með 9 stoðsendingar í deildinni, jafnmargar og Kevin de Bruyne (og reyndar Leroy Sané) en hefur samt bara spilað 13 deildarleiki meðan belginn hefur spilað 23 leiki. Það er engum blöðum um það að fletta að Pogba var maður leiksins í kvöld enda stórkostlegur í alla staði og lánlausir Stokarar réðu ekkert við hann.
Fleiri jákvæðir punktar að leik loknum; Pogba hefur nú átt þátt í 14 mörkum í síðustu 14 Úrvalsdeildarleikjum með United, Romelu Lukaku hefur skorað eða lagt upp 13 mörk á Old Trafford á þessari leiktíð, Anthony Martial er núna með 11 mörk og 6 stoðsendingar í öllum keppnum eftir aðeins 1319 mínútur á vellinum (hefur átt þátt í marki á hverjum 78. mínútum sem hann spilar) og David de Gea hefur haldið 13 sinnum hreinu búri í Úrvalsdeildinni, oftar en nokkur annar markmaður. Það er því alveg leyfilegt að vera bjartsýnn með framhaldið og vongóður fyrir næstu viðureignir.
Að sama skapi var ánægjulegt að sjá þá Antonio Valencia og Marouane Fellaini sem eru báðir komnir til baka eftir meiðsli og Luke Shaw sem er að komast í sitt fyrra form en þetta verða að teljast gríðarlega góðar fréttir fyrir stuðningsmenn United þar sem illa gékk að halda hreinu í desember, reyndar svo að United fékk á sig 11 mörk í öllum keppnum í jólamánuðinum sem er jafnmikið og september, október, nóvember og það sem af er janúar samanlegt. Reyndar hefur liðið ekki fengið á sig mark það sem af er árinu enda kannski ekki erfiðustu viðureignir tímabilsins en engu að síður ánægjulegt að halda hreinu fjórða leikinn í röð og sínir fram á ákveðinn stöðugleika sem var víðsfjarri í síðasta mánuði.
Embed from Getty Images
Næsti leikur er svo við Burnley á útivelli en þeir hafa verið í tómu basli undanfarið og hafa tapað síðustu þremur leikjum sínum og hafa ekki unnið leik síðan 12. desember einmitt gegn Stoke. Á eftir þeim leik tekur við næsta umferð í FA bikarnum þar sem d-deildarliðið Yeovil Town tekur vel á móti okkur sem er kjörið tækifæri til að hvíla lykilmenn fyrir baráttuna sem bíður okkar fimm dögum síðar þegar við förum á Wembley og sækjum Tottenham heim en þeir hafa verið á miklu flugi með Harry Kane í broddi fylkingar. Sá leikur verður fyrsti stóri slagur United á nýju ári en svo styttist í Meistaradeildina og erfiða heimaleiki við Chelsea og Liverpool sem verða gífurlega mikilvægir í baráttunni um 2. sætið. Glory glory!
Karl Garðars says
VINSTRI!! Og hafðu það helvítið í þitt!!!!🤘🤘🤘🤘
Bjarni says
Þoli ekki að vörnin bakki alltaf með mótherjana inní teig, verður alltaf hætta sem endar með marki. Má ekki pressa á miðjunni og toppnum eða á bara að leyfa mótherjunum að ná upp spili með nokkrum sendingum sín á milli. Djöfull er að sjá messa varnarvinnu.
Bjarni says
Klassa mörk, Pogba frábær, upprennandi sóknir og vörnin stundum eins og gatasigti. Er ekki í rónni.
gudmundurhelgi says
Tvð falleg mörk og eitt gott fra dugnaðarforknum Lukaku, i frekar þægilegum sigri a liði SEM MUN EKKI FALLA I VOR. Goðar stundir.
einarb says
Þrátt fyrir að þetta sé ‘bara’ stoke er það er á svona kvöldum sem maður verður sannfærður um að Pogba sé topp 5 miðjumaður í heiminum í dag. Þvílíkur leikmaður! Scholes’esque!
EgillG says
Flottur leikur, var mjög sáttur við að united datt ekki niður í einhvern hélvítans spara orkubolta, hefði viljað 1-2 mörk í viðbót en samt flott.
Cantona no 7 says
Góður sigur.
Pogba vonandi að detta í rétta gírinn fyrir okkur við þurfum virkilega á því að halda.
Flott mörk og fínt að sem flestir skori.
Fáum vonandi fínan liðsauka í janúar frá vinum okkar Arsenalmönnum .
G G M U
Heiðar says
Flottur sigur. Gríðarlega gaman að sjá hvað liðið skapaði mikið og Pogba „sensational“ í þessu hlutverki.
Ekkert hægt að gera nema halda áfram baráttunni en finnst varla rétt að segja að United séu „einungis“ 12 stigum á eftir toppliði Man.City. Tólf stig er hellingur!
Runólfur Trausti says
Smá kæruleysi í byrjun þar sem Stoke City hefði átt að jafna en eftir að United skoraði annað markið var þetta aldrei spurning. Eina sem maður hefði viljað sjá voru fleiri mörk en liðið fékk svo sannarlega nóg af færum!
Annars bara mjög gaman að sjá liðið spila svona vel og virðist sem fríið í Dubai hafi skilað sínu. Verður ennþá áhugaverðara að sjá þetta lið þegar þú getur bætt Alexis Sanchez við í vopnabúrið.