Það er ýmislegt sem hægt er að ræða eftir þessar síðustu umferðir í enska boltanum. Eftir flotta byrjun á árinu hefur Manchester United nú tapað tveimur af síðustu þremur leikjum í ensku deildinni og spilamennska liðsins ekki beint verið að heilla. Liðið er enn sem stendur í 2. sætinu, þar sem það hefur verið frá því í 6. umferð, fyrir utan stutt stopp í 3. sætinu í lok árs 2017. En liðin sem eru þar rétt fyrir neðan nálgast og framundan er 11 umferða barátta fjögurra liða um þrjú laus sæti í Meistaradeild Evrópu að ári.
Hér á eftir fer ég yfir það hvernig síðustu 11 umferðirnar á tímabilinu líta út hjá liðunum og hvar þau standa í þessari baráttu. Það er bara tímaspursmál hvenær Manchester City staðfestir titilinn og Arsenal eru búnir að stimpla sig út úr Meistaradeildarbaráttunni, í það minnsta að sinni.
Til að útskýra aðeins frekar uppsetninguna á leikjunum sem liðin eiga eftir:
- Rauður er leikur gegn liði í topp 6
- Gulur er leikur gegn liði í 7.-12. sæti (ekkert undir)
- Grænn er leikur gegn liði í 13.-20. sæti (fallbaráttan)
- Skáletur þýðir útileikur, hefðbundið letur þýðir heimaleikur
- Athugið að dagsetningar á leikjunum í apríl og maí eru ekki staðfestar, það á enn eftir að hliðra leikjum til vegna sjónvarpsútsendinga
Manchester United
- 2. sætið í deild
- 56 stig
- 51 mark skorað
- 19 mörk fengin á sig
- 9 stig í síðustu 5 leikjum
Eins og kemur fram að ofan þá hefur Manchester United verið í 2. sæti deildarinnar í 21 af 27 umferðum sem búnar eru. Lengi vel var liðið lang-næstbesta liðið í deildinni en hefur þó tekið tarnir þar sem leikjunum hefur beinlínis verið hent frá sér og karakterinn virðist hafa verið víðs fjarri. Jafnteflin þrjú yfir jólatörnina voru dýr og tapið gegn Newcastle um síðustu helgi minnti á álíka slæmt tap gegn Huddersfield í október. En það er þó ástæða fyrir því að liðið er í 2. sæti og hefur verið það svona lengi, liðin þarna rétt fyrir neðan hafa nefnilega líka tekið svona daufar frammistöður og hent frá sér stigum.
Manchester United er enn með í enska bikarnum. Næsti leikur er í þeirri keppni, gegn Huddersfield á útivelli. Fari United áfram í þeirri keppni þá mun liðið spila í fjórðungsúrslitum helgina 16.-18. mars og deildarleikur gegn West Ham á útivelli frestast því.
Manchester United er líka að spila í Meistaradeild Evrópu. Leikirnir gegn Sevilla í 16-liða úrslitum hitta nálægt stórleikjum gegn Chelsea og Liverpool. United þykir töluvert sigurstranglegra lið, sé miðað við stuðla veðbanka. Ef liðið fer áfram í Meistaradeildinni þá verða leikirnir í 8-liða úrslitum spilaðir sitt hvoru megin við leikinn gegn Manchester City á Etihad vellinum. Nái United ekki að saxa á forskot City fyrir þann leik þá getur Manchester City tryggt sér Englandsmeistaratitilinn í þeim leik. Það þarf því ekki mikið að gerast til þess að Manchester United gæti þurft að standa heiðursvörð fyrir Manchester City.
Leikjatörn Manchester United á lokaspretti ensku deildarinnar lítur svona út:
- 4 leikir gegn topp 6 liðum
- 3 leikir gegn miðjuliðum
- 4 leikir gegn fallbaráttuliðum
- 6 heimaleikir
- 5 útileikir
Liverpool
- 3. sæti í deildinni
- 54 stig
- 61 mark skorað
- 31 mark fengið á sig
- 10 stig í síðustu 5 leikjum
Framan af tímabili rokkaði Liverpool vel upp og niður töfluna eftir úrslitum hverrar umferðar fyrir sig. Liðið fór úr 9. sæti eftir 1. umferð upp í 2. sæti eftir 3. umferð og aftur niður í 9. sæti eftir 9. umferðina. Aðallega voru þetta rándýr jafntefli sem skemmdu fyrir Klopp og félögum en liðið vann aðeins 3 leiki í fyrstu 9 umferðunum. Mestum parti tímabils hefur liðið þó eytt í 4. sæti deildarinnar og frá öflugum sigri gegn Manchester City um miðjan janúar hefur liðið svo að mestu verið í 3. sæti riðilsins, fyrir utan netta dýfu í 4. sætið eftir tap gegn botnliði Swansea City. Liðið getur spilað einhvern beittasta fótbolta deildarinnar þegar sá gállinn er á því og hefur oftar en ekki endað tímabil vel eftir að Klopp tók við. Það hefur þó líka sýnt að stigin geta flogið út um gluggann, jafnvel í leikjum gegn liðum sem ættu ekki að vera mikil fyrirstaða.
Liverpool er ekki lengur í enska bikarnum, eftir að hafa tapað í 4. umferðinni á heimavelli gegn West Bromwich Albion. Það þýðir að liðið fær 10 daga frí eftir leikinn í Meistaradeildinni gegn Porto þangað til næsti leikur í deildinni fer fram. Að auki á Liverpool leik gegn Watford þegar fjórðungsúrslit bikarsins verða spiluð, Watford er líka dottið út úr bikarnum svo þeim leik verður alveg örugglega ekki frestað. Liverpool gæti þó lent í frestun 21. apríl ef vinir þeirra í WBA ná alla leið í undanúrslit bikarsins.
Liverpool er í Meistaradeild Evrópu og mætir Porto í 16-liða úrslitum. Í þeirri viðureign þykir Liverpool mun sigurstranglegri aðilinn. Fari liðið áfram í keppninni þá mun það leika í 8-liða úrslitum sitt hvoru megin við útileik gegn Everton.
Leikjatörn Liverpool á lokaspretti deildarinnar lítur svona út:
- 2 leikir gegn topp 6 liðum
- 4 leikir gegn meðalliðum
- 5 leikir gegn fallbaráttuliðum
- 5 heimaleikir
- 6 útileikir
Chelsea
- 4. sæti í deildinni
- 53 stig
- 49 mörk skoruð
- 23 mörk fengin á sig
- 7 stig í síðustu 5 leikjum
Chelsea hefur eytt meirihluta tímabilsins í 3. sæti deildarinnar. Og samtals hefur liðið verið 23 umferðir af 27 í einu af efstu fjórum sætunum. Hæst fór liðið í 2. sætið, tók þá það sæti af Manchester United í eina umferð um áramótin. Liðið hefur lengst af virst ætla að sigla þessu Meistaradeildarsæti öruggu í höfn en þó alltaf öðru hvoru sýnt óvenjulega karakterbresti. Til dæmis hefur Chelsea tapað 3 leikjum á heimavelli í vetur, sem er jafn mikið og hin 5 liðin í efstu 6 sætunum til samans (Manchester United, Tottenham og Arsenal hafa tapað einum heimaleik hvert en Manchester City og Liverpool eru taplaus á heimavelli). Vissulega var einn þessara leikja gegn Manchester City en hinir tveir komu gegn Burnley og Bournemouth. Að auki virðist Conte ekki vera á góðum stað þessa dagana og liðið hefur byrjað árið illa með 2 sigra, 2 jafntefli og 2 töp í fyrstu 6 leikjum ársins.
Chelsea á föstudagsleik í bikarnum, heimaleik gegn Hull City. Ef liðið fer áfram þá verður útileik gegn Burnley frestað þann 17. mars. Sá bikarleikur kæmi þá í kjölfarið á erfiðum seinni leik í Meistaradeildinni, á útivelli.
Chelsea er þetta tímabilið, ólíkt meistaratímabilinu í fyrra, í Evrópukeppni. Liðið var ekki beint heppið með andstæðing í 16-liða úrslitum heldur mætir þar spænsku risunum frá Barcelona. Chelsea þykja ekki líklegir til að komast áfram í þeirri viðureign. En ef svo fer að Chelsea fari áfram þá spilar liðið fyrri leikinn í 8-liða úrslitum í kjölfarið á deildarleik á heimavelli gegn Tottenham í byrjun apríl.
Leikjatörn Chelsea á lokaspretti deildarinnar lítur svona út:
- 4 leikir gegn topp 6 liðum
- 2 leikir gegn meðalliðum
- 5 leikir gegn fallbaráttuliðum
- 5 heimaleikir
- 6 útileikir
Tottenham
- 5. sæti í deildinni
- 52 stig
- 52 mörk skoruð
- 24 mörk fengin á sig
- 11 stig í síðustu 5 leikjum
Eftir rokkandi byrjun virtist Tottenham ætla að negla sér í 3. sætið þegar það náði að halda sér í því sæti í 5 umferðum í röð. En eftir tap gegn Manchester United í lok október kom slakur kafli hjá liðinu þar sem það náði aðeins að vinna einn leik af sex. Eftir það var Tottenham aðallega flakkandi á milli 6. og 7. sætis, var jafnvel að missa Burnley uppfyrir sig á töflunni. En fimmta sætið hefur verið hlutskipti liðsins frá því fyrir jól og það hefur náð að saxa á forskot liðanna fyrir ofan á síðustu vikum. Þar hefur aðallega komið til góður árangur liðsins í stóru leikjunum því í síðustu 6 umferðum hefur Tottenham skiptst á að vinna og gera jafntefli. Liðið hefur unnið Manchester United og Arsenal en líka þurft að koma til baka og ná jafntefli gegn West Ham og Southampton eftir að hafa lent undir.
Tottenham er í enska bikarnum og ætti að fara áfram því liðið mætir Rochdale á sunnudaginn í 16-liða úrslitum. Fari liðið áfram þarf að fresta heimaleik gegn Newcastle í deildinni svo Tottenham geti tekið þátt í 8-liða úrslitum.
Tottenham er svo einnig með í Meistaradeild Evrópu. Liðið á áhugaverða viðureign við Juventus framundan. Tottenham hefur sannarlega sýnt það á tímabilinu að það getur keppt við bestu liðin í Evrópu svo þessi viðureign gegn Juventus gæti orðið mjög spennandi. Veðbankar eru flestir með Juventus sem líklegri sigurvegara en það munar þó ekki miklu, Ítalirnir taka líklega stuðlana helst út á Evrópureynsluna. Fari svo að Tottenham komist áfram þá verður fyrri leikur liðsins í 8-liða úrslitum spilaður vikuna eftir útileik gegn Chelsea í deildinni og seinni leikurinn vikuna fyrir heimaleik gegn Manchester City.
Leikjatörn Tottenham á lokaspretti deildarinnar lítur svona út:
- 2 leikir gegn topp 6 liðum
- 3 leikir gegn meðalliðum
- 6 leikir gegn fallbaráttuliðum
- 5 heimaleikir
- 6 útileikir
Pælingar út frá þessari samantekt
Manchester United á flesta heimaleiki eftir af þessum liðum. United á 6 heimaleiki á meðan hin eiga öll 5 eftir. En þrír þessara heimaleikja eru vissulega gegn Chelsea, Liverpool og Manchester City. Svo það segir ekki allt. Heimaleikirnir sem Liverpool á til dæmis eftir eru gegn West Ham, Watford, Bournemouth, Stoke og Brighton. Töluvert léttara prógram á blaði. Það er þó oft þannig að léttu leikirnir á blaði þyngjast þegar út á völlinn er komið.
Manchester United og Chelsea eiga bæði 4 leiki eftir gegn liðum í topp 6 á meðan Liverpool og Tottenham eiga 2 slíka leiki eftir. Það gæti vel munað um það. Þetta virðast þó oftar en ekki vera einmitt leikirnir sem Liverpool og Tottenham eiga auðveldast með að gíra sig í svo kannski væru þau lið alveg til í að eiga fleiri slíka leiki eftir.
Tottenham á flesta græna leiki eftir, leiki gegn liðum sem núna eru í fallbaráttunni. Aftur hljómar það vel á blaði en það getur verið strembið að mæta fallbaráttuliðum í lok tímabils, sem berjast með kjafti og klóm fyrir áframhaldandi veru í deild þeirra bestu. Fjórir þessara leikja hjá Tottenham eru þar að auki á útivöllum sem geta reynst erfiðir.
Það eru ansi mörg lið í fallbaráttunni á þessum tímapunkti, það munar aðeins 3 stigum á 13. og 19. sætinu. Lið hafa flogið upp og niður töfluna í neðri hlutanum með 1-2 góðum eða slæmum úrslitum. Eftir því sem líður á munu einhver þessara liða eflaust rífa sig aðeins frá og jafnvel ná að bjarga sér vel fyrir lokaumferðina, fikra sig yfir í gula flokkinn. Það getur vel verið æskilegra að mæta liðum í gula hlutanum á lokaspretti deildarinnar, liðunum sem hafa ekki að neinu að keppa og ekkert að óttast lengur. Leikmenn sem eru jafnvel farnir að huga að sumarfríunum sínum strax í apríl. Nú eða liðin sem þegar eru fallin.
Liverpool á flest gul lið framundan. 4 af 11 leikjum sem liðið á eftir eru gegn liðum í miðjumoðinu. Þá er ekki ólíklegt að WBA verði fallið þegar Liverpool heimsækir The Hawthorns seinni partinn í apríl og Brighton gæti alveg verið búið að bjarga sér fyrir lokaumferðina. Það er því ljóst að leikjatörnin lítur vel út fyrir Liverpool hvað það varðar.
Liverpool er líka eina liðið í þessari baráttu sem á ekki eftir að mæta Manchester City aftur. Tottenham á eftir heimaleik gegn Manchester City en bæði United og Chelsea eiga eftir að fara á Etihad. Þessir leikir gætu haft áhrif, hvort sem er að lið tapi stigum gegn verðandi meisturunum í City eða nái sér í nítróbúst með sigri á lærisveinum Guardiola.
Öll lið gætu líka lent í því að fá Evrópuleiki inn á milli leikja og auka þannig leikjaálagið hjá sér. Flest liðanna gætu einnig lent í frestuðum leikjum vegna enska bikarsins, Liverpool stendur þar betur að vígi ef bara er tekið tillit til deildarinnar.
Ef við tökum bara allra næstu leiki þá er Tottenham þar í dauðafæri á að setja aukna pressu á liðin fyrir ofan því næstu 4 deildarleikir eru ekki þeir strembnustu sem liðið gæti fengið. Á meðan eiga Manchester United og Chelsea töluvert erfiðara prógram. Þessi lið mætast í næstu umferð og sá leikur er risastór fyrir næstu skref í baráttunni um Meistaradeildarsætin.
Hér hefur verið stiklað á stóru, það er hægt að spá í spilin og reyna að rýna í knattspyrnulegar kristalskúlur eftir svörum við því hvernig þetta mun allt spilast en við vitum að það poppa gjarnan upp atvik og stöður sem erfitt er að sjá fyrir.
Manchester United er áfram í þeirri kjörstöðu að vera í 2. sætinu, efst þessara fjögurra liða sem berjast um þrjú laus sæti í Meistaradeild Evrópu að ári. Vissulega viljum við ekki að liðið fari út í það að verja 4. sætið, miklu frekar að vinna þetta 2. sæti og hafa þann árangur að byggja á fyrir sumarið og næsta tímabil.
Við hentum fram skoðanakönnun á Twitter um það hvar fólk sæi fyrir sér að Manchester United myndi enda í deildinni eftir tímabilið. Niðurstöðurnar úr því voru eftirfarandi:
https://twitter.com/raududjoflarnir/status/963165888210972672
Um helmingur svarenda er bjartsýnn á að Manchester United nái að halda 2. sætinu út tímabilið. Mikill meirihluti hefur greinilega ekki áhyggjur af því að Meistaradeildarsætið sé í mikilli hættu.
Sé markmiðið einungis að komast í Meistaradeildina að ári þarf liðið auðvitað ekki að vera best af þessum liðum, það nægir að vera betra en eitt þeirra. En við viljum auðvitað sjá Manchester United leggja meiri metnað í sitt spil og þennan lokasprett.
Spurningar fyrir Djöflavarpið?
Nokkrir úr ritstjórn Rauðu djöflanna stefna á að eyða rómantísku Valentínusarkvöldi í að taka upp nýjan þátt af Djöflavarpinu. Við höfum ýmislegt að ræða, að venju, en við þiggjum endilega spurningar frá lesendum okkar til að svara í þættinum. Hvort sem er í þyngri eða léttari kantinum. Það má henda á okkur spurningum í kommenti hér fyrir neðan, inni á Facebooksíðunni okkar eða með því að nota myllumerkið #Djöflavarp á Twitter.
EgillG says
Væri til í að heyra hvernig þið sjáið Lindelöf, er hann flopp eða framtíðar leikmaður svona miðað við það að framundan verða væntalega hreinsanir þarna aftast hjá okkur.
Bjarni says
Skemmtileg samantekt, sýnist að það séu allt erfiðir leikir eftir, 4 útileikir á móti fallbaráttuliðum eru ekkert léttari en heimaleikir á móti liðum í kringum okkur + mögulega fleiri leikir í meistaradeild og bikar. Því spái ég af þessum 11 deildarleikjum sem eru eftir þá vinnum við 5-6, jafntefli 3-4 og töpum 2-3 miðað við spilamennskuna undanfarið en menn samt nægan tíma til að girða sig í brók og byrja að berjast fyrir stigunum. Nú reynir fyrst á samheldnina í hópnum og menn átti sig á að vinna hver fyrir annan einsog við gerðum í byrjun leiktíðar. Engin leið að reikna út hvort þetta dugi eða ekki til að komast í meistaradeildina að ári, það mun koma í ljós á endanum. Tökum því sem karlmenn.
GGMU
Audunn says
Vandamál Man.Utd liggur fyrst og síðast í þjálfara liðsins.
Hann er bara kominn á endastöð og ræður ekki við þetta verkefni.
Búinn að eyða svimandi upphæðum í leikmenn, m.a varnarmann sem kemst ekki í liðið þrátt fyrir að leikmaður eins og Smalling sé með allt niðrum sig leik eftir leik.
Taktíkin er afturhalds-taktík og hún er bara ekki að ganga upp.
Liðið spilar afskaplega leiðinlegan og óspennandi fótbolta.
það er lítil sem engin gleði í leik liðsins, allir leikmenn virðast vera hálf pirraðir og þungir.
Þetta er allt svo þvingað og boring.
Sóknarleikurinn og miðjan taktlaus og hæg, vörnin búin að vera úti á túni.
Liðsuppstilling oftar en ekki eitt stórt ? osfr.
Það sem ég tek sértaklega eftir í leik liðsins er að það er lítið sem ekkert um tvöfaldanir úti á vængjunum því það er alveg deginum ljósara að bakverðir liðsins meiga bara fara ákveðið langt fram. Þegar þangað er komið þá stoppa þeir og þar með verður auðveldara fyrir andstæðinginn að verjast sóknum liðsin.
Vængspilið er nánast ekki neitt.
Þjálfarinn verður bara að pakka ofan í töskur og tékka sig útaf hótelinu eftir tímabilið.
Inn má tékka Pochettino í staðinn.
Siggi says
Myndin sem sýnir hvað leiki Tottenham á eftir er sú sama og Liverpool
Björn Friðgeir says
Lagfært!
Helgi P says
Sammála Auðunn reyna allt til að ná í Pochettino
Sigurjón Arthur Friðjónsson, SAF says
Audunn 13. febrúar, 2018 at 14:27
„Vandamál Man.Utd liggur fyrst og síðast í þjálfara liðsins.
Hann er bara kominn á endastöð og ræður ekki við þetta verkefni.
Búinn að eyða svimandi upphæðum í leikmenn, m.a varnarmann sem kemst ekki í liðið þrátt fyrir að leikmaður eins og Smalling sé með allt niðrum sig leik eftir leik.
Taktíkin er afturhalds-taktík og hún er bara ekki að ganga upp.
Liðið spilar afskaplega leiðinlegan og óspennandi fótbolta.
það er lítil sem engin gleði í leik liðsins, allir leikmenn virðast vera hálf pirraðir og þungir.
Þetta er allt svo þvingað og boring.
Sóknarleikurinn og miðjan taktlaus og hæg, vörnin búin að vera úti á túni.
Liðsuppstilling oftar en ekki eitt stórt ? osfr.
Það sem ég tek sértaklega eftir í leik liðsins er að það er lítið sem ekkert um tvöfaldanir úti á vængjunum því það er alveg deginum ljósara að bakverðir liðsins meiga bara fara ákveðið langt fram. Þegar þangað er komið þá stoppa þeir og þar með verður auðveldara fyrir andstæðinginn að verjast sóknum liðsin.
Vængspilið er nánast ekki neitt.
Þjálfarinn verður bara að pakka ofan í töskur og tékka sig útaf hótelinu eftir tímabilið.
Inn má tékka Pochettino í staðinn.“
Ég myndi vilja fá smá umræðu um þetta komment í heild sinni frá Auðunni,
Eiga svona skrif rétt á sér og endurspegla þau kannski viðhorf margra stuðningsmanna Rauðu Djöflana eða ekki ?
Karl Garðars says
Takk fyrir mjög góða samantekt.
Ég er mestmegnis á sama máli og Auðunn fyrir utan eitt “smáatriði” að láta stjórann fara. Ég tel að þjálfarinn treysti ekki vörninni og því finni hann sig knúinn að til að spila þessa taktík. Ekki treysti ég vörninni og skil hann því mæta vel. Alveg sama hvað hver segir þá spilaði Sirinn með þetta upplegg inni á milli og það gerði mann ansi fúlan á köflum.
Nú nenni ég alls ekki PC fólki og myndi oftast nær flokkast sem net tröll með yfirlýsinga- og alhæfingablæti en: Að ræða sérstaklega um “réttmæti” einnar skoðunar/athugasemdar Í hlaðvarpi er kannski aðeins á gráu svæði held ég því hver á rétt á sinni skoðun. Ég myndi aftur hlusta með miklum áhuga ef Auðunn mætti í þáttinn því ég hef mikið gaman af góðum umræðum og sérstaklega gaman af fólki sem er mér ósammála.
Svarthöfði hér væri til í að heyra smá spjall um þessa vörn í heild sinni og þ.m.t þessa tvo vængmanna ellismelli sem búið er að makeshifta varanlega í bakverði og virðast á köflum hvorki geta sótt né varist (góðir gaurar samt). Getum við í alvöru ekki gert betur? Er keisarinn ekki bara böttneiked þegar upp er staðið? Erum við með of marga úrvals breiddar leikmenn í vörninni?
Sigurjón Arthur Friðjónsson, SAF says
já, takk fyrir frábæra samantekt Halldór Marteins :-)
Björn Friðgeir says
Auðunn hefur að sjálfsögðu rétt á sinni skoðun og hann er ekkert einn um þetta.
Án þess að við séum eitthvað að „taka hann fyrir“ þá held ég að við munum örugglega tala um þessa skoðun hans og annarra svona almennt.
Sigurjón Arthur Friðjónsson says
Þetta er líka hugsað sem almenn pæling hjá mér, gaf mér bara þetta leyfi að vitna í Auðunn, mér finnst margir vera komnir á þessa skoðun eða hvað ?
kv,
SAF
Bjarni says
Það sem flestir sem fylgjast með fótbolta hafa áhuga á tölfræðinni í kringum leikinn þá gerði ég óformlega könnun (rætt við þá) um áramót hjá 10 vinum og ættingjum, allt harðir United menn og flestir búnir að upplifa hæðir og lægðir með liðinu í gegnum tíðina. Ekki voru allir sömu skoðunar eins og gengur, 60% af þeim eru eldri en fimmtugt og komu margir af þessum punktum fram sem Auðunn nefnir hér að ofan. Mesta óánægjan var samt dreifð yfir aldur og helst gagnvart ákveðnum leikmönnum, almennu andleysi í leikjum, leiðinlegum fótbolta og fyrirsjánlegum, en nær allir samt jákvæðari að þetta væri miklu skárra en undanfarin ár en vildu samt sjá meira frá liðinu miðað við gæði hjá sumum leikmönnum.
Mesta ánægjan var með að hafa einn besta markmann í heimi milli stanganna og þökkuðu flestir honum fyrir stigasöfnunina.
Óánægðir voru 6 af 10 en restin þokkalega sáttir en biðu samt eftir að liðið færi að blómstra. Hef heyrt í flestum síðan þá en lítið er rætt um fótbolta, af sem áður var. Kannski segir þetta eitthvað um almenna skoðun á liðinu í dag, menn þegja þunnu hljóði en vonast til að Eyjólfur hressist.
Audunn says
Hef snúist í marga marga hringi þegar kemur að Mourinho, og það bara á frekar stuttum tíma.
Á hann að fá lengri tíma, hversu langan, er liðið betur sett með hann í brúnni, eru betri stjórar þarna úti sem hefðu áhuga á að taka við liðinu, þarf hann lengri tíma til að móta sitt lof osfr osfr osfr ???
Ég hef sagt það og ritað að lausnin væri ekki að skipta um stjóra, það er bara skoðun sem ég hafði á þeim tíma. Það er enginn glæpur að skipta um skoðanir þegar að Mourinho kemur enda er hann gífurlega umdeildur maður og alls alls ekki allra.
Hann á klárlega sína kosti og hefur gert ótrúlega hluti sem knattspyrnustjóri í gegnum tíðina, það reyni ég ekki einu sinni að taka frá honum.
Það er margt í hans fari sem ég fíla í botn, hann kemur mér oft til að brosa.
En þetta snýst ekki um það, þetta snýst fyrst og síðast um Man.Utd.
Framtíð þess og nútíð.
Ég er mjög óánægður með hversu ílla gengur að koma liðinu aftur á þann stall sem það á að vera.
Ég er líka mjög óánægður með, og líklega mest óánægður með hversu hrikalega lélegan fótbolta liðið spilar undir stjórn núverandi stjóra.
Þetta er bara ekki það sem lið á borð við United á að bjóða uppá.
Það er búið að eyða svimandi upphæðum í hágæða leikmenn undanfarið og United er meðal dýrusti liða í heimi. Samt erum við að spila eins og smálið á köflum, og það oftar en ekki.
Það vantar bæði þor, dug og sjálstraust. Finnst eins og það sé ekkert þor eða engin hugur í þessu liði lengur. Allt svo flatt, íhaldssamt og agað. Gott að hafa aga en menn eru eins og vélmenni sem eru skíthrædd við að gera mistök. Það sést bara á leikmönnum langar leiðir.
Þegar kemur að Man.Utd liðinu sjálfu þá er ég á því núna að það besta upp á framtíðina að gera væri að losa sig við mourinho í sumar og ráða Pochettino.
Karl Garðars says
Amen.