Manchester United spilaði síðast í útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu 9. apríl 2014. Þá gaf glæsimark Patrice Evra smá von áður en Mandzukic, Muller og Robben slökktu þann neista. Við tók Evrópulaust tímabil, Meistaradeildarvonbrigðatímabil og svo misgóður árangur í Evrópudeild, reyndar með mjög góðum endapunkti. En hér er liðið loksins komið aftur, í útsláttarkeppni 16 bestu liða Evrópu. Þvílík gleði!
Bæði lið hafa mætt þó nokkrum liðum frá andstæðum löndum en þetta verður þó í fyrsta skipti sem þessi lið mætast. Sevilla hefur aldrei sigrað einvígi í 16-liða úrslitum í Meistaradeildinni eftir að núverandi fyrirkomulag var tekið upp, þetta er 6. sinn sem Sevilla er með í þessari keppni. Þeir tóku einu sinni þátt í mótinu þegar það hét Evrópukeppni félagsliða og komust þá í 8-liða úrslit, tímabilið 1957-58. Sevilla tapaði þá samtals 2-8 gegn verðandi Evrópumeisturum í Real Madrid.
Sevilla er þó sannarlega ekki félag sem er laust við árangur í Evrópu. Liðið vann úrslitaleik UEFA bikarsins 2006 og 2007 og svo eftir að keppnin fékk nafnið Evrópudeildin vann Sevilla hana þrjú ár í röð, 2014-16. Að auki vann Sevilla Barcelona í Ofurbikar UEFA árið 2006. Það er því ljóst að Sevilla er sýnd veiði en ekki gefin í Evrópukeppnum, eins og sum ensk lið hafa reyndar áður fengið að kynnast.
Dómarinn í leiknum verður Frakkinn Clément Turpin og leikurinn hefst klukkan 19:45 annað kvöld, miðvikudag.
Sevilla
Sevilla lenti í 2. sæti E-riðils í Meistaradeildinni með 9 stig, 3 stigum á eftir Liverpool en 3 stigum á undan Spartak Moscow og 6 stigum fyrir ofan Maribor. Liðið endaði með markatöluna 12-12 í sex leikjum, fimm þessara marka komu í tveimur afar skrautlegum jafnteflum gegn Liverpool. Sevilla vann Maribor og Spartak á heimavelli en tapaði illa gegn Spartak í Moskvu og gerði svo jafntefli gegn Maribor á útivelli.
Þetta gengi liðsins rímar ágætlega við gengi þess í deildinni heima fyrir. Sevilla er í 5. sæti deildarinnar, sæti neðar en Real Madrid. En þó er liðið með neikvæðan markamun og markatöluna 31-35 eftir 24 leiki. Þetta er lið sem hefur gengið heilt yfir frekar vel á tímabilinu og getur náð afar góðum leikjum en á það líka til að tapa mjög illa.
Heimavöllur liðsins hefur verið sérstaklega drjúgur, í öllum keppnum hefur Sevilla aðeins tapað 1 leik á Estadio Ramón Sánchez Pizjuán, gert 5 jafntefli en unnið 13 leiki. Eini tapleikur Sevilla á heimavelli kom í deildinni í byrjun janúar, 3-5 tap gegn Real Betis. Síðar í janúar vann Sevilla svo 3-1 bikarsigur á heimavelli gegn Atlético Madrid. Sevilla er raunar komið í úrslitaleik spænska konungsbikarsins, mætir þar Barcelona í apríl.
Markahæsti leikmaður Sevilla á tímabilinu er Frakkinn Wissam Ben Yedder. Hann hefur samtals skorað 17 mörk í öllum keppnum, þar af 6 þeirra í riðlakeppni Meistaradeildarinnar (og 2 þar áður í umspilinu um að komast þangað). Hann hefur samt sem áður verið inn og út úr byrjunarliðinu á tímabilinu en hann byrjaði í síðasta leik og skoraði, í deildarsigri á útivelli gegn Las Palmas.
Ef Ben Yedder byrjar ekki gegn Manchester United þá gæti hinn kólumbíski Luis Muriel fengið sætið. Sá hefur skorað 7 mörk í öllum keppnum og gefið 2 stoðsendingar að auki. Annar eitraður leikmaður Sevilla er kantmaðurinn Pablo Sarabia. Sá hefur aðallega spilað hægra megin en getur leyst af hvaða stöður sem er á báðum vængjum. Hann er stoðsendingahæstur innan liðsins, með 7 stoðsendingar í öllum keppnum. Hann hefur líka verið að bæta sig í markaskorun og er kominn með 6 mörk. Í síðustu 8 leikjum hefur hann skorað 5 mörk og lagt upp 3 svo hann er sjóðandi heitur þessa dagana.
Þrír leikmenn Sevilla eru einu gulu spjaldi frá því að fara í leikbann. Það eru miðvörðurinn Gabriel Mercado, vinstri bakvörðurinn Sergio Escudero og miðjumaðurinn Éver Banega. Banega gæti þó reyndar misst af þessum leik, hann hefur verið meiddur upp á síðkastið.
Sevilla hefur helst verið að sveiflast á milli þess að spila 4-2-3-1 eða 4-3-3 (kunnugleg glíma) en þó reyndar spilað aðrar uppstillingar við og við, eins og 4-1-4-1 eða jafnvel 4-4-2 með báða miðjumennina nokkuð afturliggjandi. Í heimaleiknum gegn Liverpool spilaði liðið eitthvað mitt á milli, það var 4-3-3 en tveir af miðjumönnunum þremur héldu sig meira til baka á meðan einn þeirra hætti sér framar til að styðja við sóknarþrennuna.
Sevilla gæti mögulega stillt liðinu upp einhvern veginn svona til að byrja með:
Nolito hefur þó verið eitthvað tæpur þannig að það er ekki víst að hann byrji. Eitt sem Sevilla gæti þá gert væri mögulega að færa Jesús Navas upp á hægri kantinn, nota Sarabia vinstra megin og finna annan hægri bakvörð. Ef Daninn Simon Kjær er orðinn nógu hress eftir meiðsli gæti hann dottið í miðvörðinn og Mercado fært sig í hægri bakvörðinn.
Manchester United
Okkar menn kláruðu A-riðilinn í efsta sætinu, með 15 stig eftir fimm sigra í sex leikjum. Eins og Sevilla skoraði liðið 12 mörk en fékk hins vegar aðeins 3 á sig, 2 á útivelli og 1 á Old Trafford. Útileikurinn gegn CSKA frá Moskvu var mun auðveldari en flestir bjuggust við en útileikirnir gegn Benfica og Basel strembnari. United náði ekki upp almennilegu og sannfærandi spili í þeim leikjum en náði þó seiglusigri í Portúgal með marki Rashford úr aukaspyrnu. Rashford var klókur að láta reyna á reynslulítinn markmann en markið skrifast þó mest á markmanninn. Engin slík heppni/klókindi voru með liðinu í Sviss þar sem Basel náði að vinna. Þar fékk United þó reyndar færin til að klára dæmið, aðallega í fyrri hálfleik. En ef færanýtingin er ekki nógu góð þá geta lið alltaf refsað og það gerði Basel í lokin. Manchester United var þó með besta liðið í riðlinum og sigurinn var seint í mikilli hættu.
Eftir tapið gegn Newcastle í deildinni var fínt að ná inn góðum bikarsigri gegn Huddersfield um síðustu helgi. Þrátt fyrir að United hafi farið á útivöll, sem getur oft reynst erfitt í enska bikarnum (spyrjið bara Arsenal, Tottenham og Manchester City), þá var sigurinn öruggur. Það var helst að United lenti í vandræðum með VAR-ið.
Lukaku virðist vera byrjaður að finna sig enn betur upp á síðkastið og er nú kominn með 6 mörk og 2 stoðsendingar í síðustu 8 leikjum. Hann er alltaf að verða betri og betri í því að taka þátt í uppbyggingu og spili liðsins. Bæði mörk hans gegn Huddersfield komu eftir skemmtilegt og flott samspil þar sem vörn andstæðinganna var opnuð upp á gátt.
Sevilla er lið sem vill gjarnan spila með varnarlínuna hátt uppi á vellinum. Það gæti reynst Lukaku mjög vel ef hann fær álitlegar stungusendingar til að hlaupa á innfyrir vörnina. Sérstaklega ef leikmenn eins og Alexis Sánchez og Juan Mata eru í byrjunarliðinu, þeir kunna að finna slíkar sendingar. Þá er auðvelt að sjá fyrir sér að slíkur usli sem Lukaku býr til gæti líka opnað upp pláss fyrir leikmenn sem kunna að nýta það, eins og áðurnefndur Mata eða Jesse Linard.
Hins vegar getur þetta Sevilla lið líka skorað mörk og verið hættulegt fram á við. Það kann að halda boltanum, þegar sá gállinn er á þeim, og spilar líka oft upp á skæðar skyndisóknir þar sem leikmenn vita hvað þeir geta og eiga að gera í stöðunni. Það má því ekki hleypa leiknum út í algjöra vitleysu.
Eric Bailly er byrjaður að æfa aftur, það eru miklar gleðifréttir. Hann gæti komið inn í þetta lið og væri það mjög vel séð. Þá er spurning hver myndi byrja við hlið hans. Hvort Mourinho myndi vilja fá sendingargetuna og almenna fótboltagetu Lindelöf eða skallagetu og almennu „verjast einhvern veginn og dúndra frá“ heimspekina í Smalling. Jones er líklega enn meiddur og Rojo sömuleiðis.
Ég ætla að segja að Mourinho stilli upp svona gegn Sevilla:
Smalling gæti vel dottið þarna inn líka, þá fyrir annað hvort Bailly (ef Mourinho treystir honum ekki enn eftir meiðslin) eða Lindelöf (ef Mourinho treystir honum ekki nógu vel yfir höfuð). Síðan mætti Luke okkar Shaw að sjálfsögðu endilega fá sénsinn í byrjunarliðinu, það er bara eitthvað sem segir mér að Young fái frekar sénsinn. Þá er Jesse Lingard einu gulu spjaldi frá leikbanni, eini leikmaður United sem er á slíku hættusvæði.
Það er þó gaman að sjá leikmenn vera byrjaða að æfa aftur. Zlatan Ibrahimovic var t.d. mættur á æfingu í dag, sem og Rashford, Herrera og Pogba. Það er óskandi að fleiri af meiðslalistanum fari að detta inn á æfingar, það eru strembnar vikur framundan. Strembnar en vonandi skemmtilegar líka.
https://twitter.com/utdxtra/status/965977180206436352
Audunn says
Þetta verður mjög áhugavert einvígi, þetta Sevilla lið er algjörlega óútreiknanlegt.
Hafa unnið A.Madrid 2x á þessu ári bæði heima og að heiman en svo eiga þeir það til að gera upp á bak gegn minni spámönnum.
það er nokkuð augljóst að Mourinho ætlar að pakka í vörn í þessum leik, hann er nú þegar búinn að gefa það í skyn. Þannig að maður býst ekki við mikilli skemmtun enda skemmtun ekki té-bolli Mourinho.
Ég er eiginlega og bara nánast í fyrstaskiptið að vona að United lendi undir fljótlega í leiknum svo Mourinho þori að hvertja menn út úr skelinni og sækja.
Annars spái ég 0-0 í afar bragðdaufum leik og að United takist að pota einu á Old Trafford áður en Mourinho leggur rútunni.
Það verður gott að komast áfram og um það snýst þetta allt saman.
Rauðhaus says
Þvílíkur apaheili sem JM er ef þetta er rétt.
Björn Friðgeir says
Fín ákvörðun hjá Mourinho. Pogba nýstiginn upp úr veikindum og tilbúinn á bekknum ef þarf.
Rauðhaus says
Fyrir mér er þetta meira bara staðfesting á því að hann var ekkert veikur. Það var sennilega bara yfirklór.
Lítur allt út fyrir að þeim hefur lent illa saman.