Það er leikur í kvöld og upphitunin er hér, en umræðan snúst núna alfarið um José Mourinho.
Eftir leikinn á þriðjudaginn á José að hafa komið inn í klefa þar sem sumir leikmenn voru hreinlega grátandi og sagðist ætla að taka á sig tapið: „When we win, we all win, when we lose, I lose alone“. Þetta kann að einhverju leyti skýra frammistöðu hans á blaðamannafundinum eftir leikinn þar sem hann talaði meðal annars um þau tvö skipti sem hann sem stjóri hafði slegið út United í meisteradeildinni, nokkuð sem þótti frekar dónalegt og ekki sæmandi manni sem núna væri stjóri United og ætti að koma þeim áfram. En eitt var víst, eftir leikinn var fókusinn fyrst og fremst á Mourinho, en ekki leikmönnum. Rætt var um að Mourinho hefði lagt upp með allt of varnarsinnað taktík, nokkuð sem er ljóst, en lítið talað um að leikmenn hefðu ekki staðið sig vel, þó sumir, eins og Lukaku segðu beint og óbeint að svo hefði verið raunin.
https://twitter.com/UtdClips/status/974665435051380736
Mourinho bætti um betur í gær á blaðamannamannafundi fyrir leikinn í kvöld gegn Brighton og tók undirbúna ræðu og ræddi um arfleifðina sem United státaði sig af. Hann var með undirbúinn miða þar sem listuð voru öll þau skipti þegar United hefur fallið úr meistaradeildinni á undanförnum árum, sem er jú alltaf, eða þá að United hefur ekki verið í meistaradeildinni tvö af síðustu fjórum árum. Hann benti á að síðustu fjögur árin hefði United endað í sjöunda, fjórða, fimmta og sjötta sæti og sagði að þetta væri arfleifðin sem hann hefði tekið við. Reyndar var þetta sjötta sæti undir hans stjórn en hann var ekkert að ræða það! Hann bar það saman við að versta staða City síðustu sjö árin var fjórða sæti og var þar augljóslega að vísa í hversu betra búi Pep Guardiola hefði tekið við.
En hann sagði líka
I am exactly on the same page as the owners, as Mr. Woodward, Mr. Arnold, we are on exactly the same page, we agree on everything, on the investments, that we have what we have, the investments that we are going to do will be season after season. We are exactly on the same page, so life is good.
Fréttamannafundurinn var eins og alltaf í tveimur hlutum, sá fyrri var opinber strax, en síðari hlutinn var fyrir prentblöðin, og ekki mátt birta efni hans fyrr en seint í gær.
Þar hélt hann áfram að tala um að liðið væri hreinlega ekki nógu gott. Hann benti á að hann hefði að sjálfsögðu ekki getað sagt að liðið væri engan veginn nógu gott til að vinna meistaradeildina áður en liðið væri dottið út, en sagði svo að sú væri auðvitað raunin, liðið væri ekki nógu gott. Hann spurði síðan fréttamenn hvort það væri munur að detta út í 16 liða úrslitum eða fjórðungsúrslitum, og vildi þar með meina að það væri lítill sem enginn munur þegar kæmi að framförum og staðhæfði að „margir“ leikmenn Sevilla myndu eiga sæti í liði hans. Þegar horft er á leikmannahóp Sevilla leyfi ég mér samt að efast um það. Og ef svo er í raun, þá ætti að draga upp veskið
Það var ýmislegt fleira sem hann sagði og fjallað er um fyrri hluta fundarins hér og seinni hlutann hér.
Það er alveg óhætt að segja að United stuðningsfólk sé ekki sammála um hvað sé í gangi. Er José að missa það, er hann orðinn stjórnlaus eða er þetta útspekulerað útspil til að taka pressuna af leikmönnum? Ef það var það sem hann gerði á þriðjudaginn, þá er það ekki raunin nú, hann sagði að leikmenn væru hreinlega ekki nógu góður. Pressan á þá til að sýna hvað þeir geta hefur aukist margfalt, og ég segi að það sé gott. Eitt af því sem mörgum hefur fundist undanfarið er að leikmenn séu hreinlega ekki nógu grimmir og gráðugir í leikjum. Er það vegna þess að þeir hafa misst áhugann á að spila fyrir Mourinho? Mourinho nefndi einungis tvö nöfn af þeim sem hann hefur keypt sem hafa staðið sig virkilega vel, Lukaku og Matić. Hvort tveggja fyrrum leikmenn hans. Hvernig bregðast Pogba og Alexis við? Pogba hefur ekki verið að sýna hvað hann getur upp á síðkastið og raddir á samfélagsmiðlum jafnvel frá skynsamari einstaklingum hafa heyrst um að það mætti íhuga að skipta á honum og einhverjum öðrum.
Hvað Alexis Sánches varðar þá eru gömul í hettunni farin að rifja upp kaup á miðju tímabili sem hafa sett góð lið úr skorðum. Fræg dæmi úr sögunni eru kaup Newcastle á Faustino Asprilla í febrúar 1996 og þegar QPR keypti Rodney Marsh vorið 1972 [footnote]Já, ég sagði gömul í hettunni![/footnote]. Það er alveg rétt sem Mourinho sagði í síðustu viku að við dæmum Sánchez næsta vetur en ef hann er ekki standa sig núna, þá verður hreinlega að fórna honum úr liðinu, það gengur ekki að hann sé fastamaður ef liðið er að spila ver fyrir vikið.
Mourinho fór hörðum orðum um þá arfleifð sem honum var fengin í hendur og það er alveg ljóst að hún var ekki góð. En það verður að benda á að hann hefur fengið mikið af peningum í hendurnar og það er ekki ljóst hvort innkaupin hafi öll verið góð. Ibrahimović hefur auðvitað ekkert spilaðá þessu tímabili og Eric Bailly aðeins 10 leiki í deild af 30 (og aðeins 25 í deild í fyrra) og hefði ef hann hefði verið ómeiddur verið fastamaður og a.m.k. verið maðurinn sem bjargaði okkur frá ða horfa endalaust upp á fjögurra manna vörn sem var öll frá tíma Sir Alex. Mkhitaryan var sparkað eftir að hafa verið nær gagnslaus í vetur, þó sum skelli skuldinni þar á Mourinho.
Er það alltaf sök þjálfarans ef kaupin ganga ekki upp? Eins og staðan var þegar hann tók við þá þurfti því sem næst nýtt lið til að keppa á toppi deildarinnar og ég held að öllum kaupum hans hafi verið fagnað, utan Victor Lindelöf sem er jú veðmál á framtíðina.
En að baki allri umræðunni um fréttamannafundinn í gær, og frammistöðuna á þriðjudaginn þá liggur stærsta umkvörtunarefnið sem stuðningsfólk hefur í dag: Lið Manchester United undir stjórn José Mourinho spilar leiðinlegan fótbolta. Það er óumdeilt. Spurningin er eingöngu: Er það ásættanlegt sem hluti af framförum sem gætu átt sér stað ef Mourinho heldur áfram með liðið eða er það óumflýjanlegur hluti af stjórnun hans.
Mourinho hefur skilað betri árangri en Moyes og Van Gaal, og heldur því vonandi áfram með bikar og öðru sæti. Er það nóg til að deyfa leiðindin? Van Gaal spilaði leiðinlegan bolta og endaði í sjötta sæti og bikarinn gat ekki bjargað honum. Það er það sem við vitum. Það sem við vitum líka er að ef Mourinho skilar fyrrnefndu öðru sæti, nú eða bara meistaradeildarsæti, þá er næt útilokað að hann veðri rekinn, að ekki sé talað um ef bikarinn vinnst. Brottrekstur verður ekki með kosningu á Twitter, hann er í höndum eigandanna og Ed Woodward og það bendir allt til að þeir séu ánægðir.
Að auki er allt tal um brottrekstur vitagagnslaust ef ekki er stjóri til staðar að taka við. Eins og staðan er í dag þá eru líklega oftast nefndir Mauricio Pochettino, Carlo Ancelotti og Luis Enrique. Pochettino spilar fallegan fótbolta og fær lítin pening úr að moða, en hefur ekki skilað titlum. Reyndar hjá Tottenham sem eru jú ekki vanir því, en það er vissulega tekin áhætta hjá hverju því liði sem ræður hann. Ef United fær Pochettino sem þjálfara má lofa að minnsta kosti einu ef ekki tveimur tímabilum í að byggja upp liðið og láta að það spila að hans höfði. Hann gæti þó ef allt fer vel orðið langtímaþjálfari. Það er hins vegar ekki hægt að segja um Ancelotti. Ráðning á honum væri aldrei nema til 1-2 ára. Til að bíða eftir Pochettino? Kannske. Að lokum Luis Enrique sem hefur vægast sagt þunna ferilsskrá sem þjálfari, eitt ár hjá Roma, eitt hjá Celta og síðan þrjú ár hjá Barcelona þar sem hann vann þrennu fyrsta árið með besta lið í heimi, síðan tvöfalt og loks ekkert og var látinn hætta.
Enginn þessara þjálfara er með þann þunga á bakvið sig að hægt sé án efa að segja: Ef við rekum José Mourinho og fáum þennan þjálfara mun hann skila árangri og skemmtilegri knattspyrnu.
Á meðan svo er, og á meðan árangurinn er ásættanlegur þá heldur José Mourinho starfinu og það er held ég óhætt að segja að hann viti það. Hvað raunverulega liggur að baki þessari uppákomu hans í gær, er erfiðara að negla niður. En það er orðið alveg óhætt að segja að allt tal um tvö kaup í sumar sé úrelt. Mourinho hlýtur að vilja að styrkja liðið enn meira og nú verður það að vera vörnin og miðjan sem allt kapp er lagt á. Ég hef enn trú á því að með sterka vörn og De Gea í markinu [footnote]De Gea er að bjarga markatölunni okkar, fær á sig mun færri mörk en færin gefa til kynna eins og xG, expected goals tölfræðin mælir[/footnote] þá verði leikur liðsins frjálsari og er tilbúinn í að gefa Mourinho sumarið og langt fram á næsta vetur. Óformleg skoðanakönnun hér á ritstjórninni sýndi að ritstjórar voru á sama máli en þolinmæðin væri engan vegin óþrjótandi. Það er hins vegar vitað að stuðningsfólk er fjarri því allt sammála þessu!.
En stærsta vandamálið sem Sir Alex Ferguson skildi eftir sig er að það vantar styrkari stefnu. Flest lið eru nú komin með „Director of Football“, yfirstjóra knattspyrnumála, sem ráðinn er til lengri tíma og heldur sínu striki hvað sem líður framkvæmdastjórunum. Slík staða hefur lykiláhrif á leikmannakaup og sér til þess að stefna klúbbsins sé skýr. Hjá City var vinur Pep, Txiki Begiristain búinn að sinna því verki síðan 2012 (og það þarf enginn að segja mér að Pep hafi ekki vitað af og stimplað öll kaup amk síðustu tvö árin áður en hann tók við). Hjá United er Ed Woodward í raun í þessari stöðu og ef það er eitthvað sem síðustu fimm ár hafa sagt okkur þá er það að hann er alltof gjarn á að glepjast af stóru nöfnunum þegar kemur að leikmannakaupum frekar en að horfa á heildina. Við sjáum til hvernig kaupin verða í sumar, en ég segi fyrir mitt leyti að ég sé enga ástæðu til að spreða í eitthver stórt sóknarnafn.
En það kemur í ljós í sumar og leikmannaslúður hefur farið í aftursætið, núna snýst þetta um José (og leikinn í kvöld).
Helgi P says
það er bara stutt í það að hann missi klefan ef hann er ekki búinn að nú þegar og það er ótrúlegt hvernig hann getur hrósað matic og lukaku en sleppir De Gea sem er búinn að vera lang lang bestur í þessu liði í mörg ár
Björn Friðgeir says
Þarf að finna það sem hann sagði nákvæmlega en einhver sagði þetta væri í samhengi við keypta leikmenn.
Held það sé óþarfi að hafa áhyggjur af því að hann vanmeti De Gea.
Halldór Marteins says
Mourinho hefur sannarlega ekki sparað hrósið til De Gea að undanförnu. Til dæmis þegar hann lét Real Madrid vita umbúðalaust að þeir ættu bara að snúa sér að einhverjum öðrum markmanni ef þeir hefðu áhuga á að kaupa sér nýjan. De Gea er ekki til sölu. Auðvitað gæti það verið fljótt að breytast en þetta gaf allavega skýrt í ljós hvað Mourinho finnst um hann.
Það hafa annars margir líkt þessari 12 mínútna ræðu Mourinho við „fachts“ ræðuna frá Benitez forðum. Við höfðum nú afskaplega gaman af ræðunni hjá Benitez því það var svo greinilegt þá að hann var að missa hausinn í þessari baráttu. Kannski er þetta svipað hjá Mou núna, það er erfitt að segja akkúrat núna. Hef hins vegar 3 punkta varðandi þetta:
1) það hvort þetta er jákvætt eða neikvætt ræðst af samhengi og framhaldi. Getum ekki metið það almennilega fyrr en við sjáum hvort það geri eitthvað (jákvætt eða neikvætt) fyrir restina af tímabilinu. Þegar Benitez kom með sína ræðu þá versnaði ástandið til muna hjá Liverpool og Benitez eftir hana.
2) Benitez var í miðri toppbaráttu um sigur í deildinni. Gott ef hann var ekki með Liverpool liðið á toppnum. Hann var bara farinn að finna fyrir pressunni frá Fergie og United og höndlaði það ekki. Staðan hjá Mou og United er töluvert önnur. Þýðir ekkert endilega að Mou geti ekki misst hausinn fyrir það, en samhengið er ólíkt og það gæti alveg haft áhrif.
3) Þegar Benitez kom með sína ræðu þá var það afskaplega óvænt, mjög út úr karakter fyrir Benitez. Benitez hefur alltaf verið þessi súper rólegi og yfirvegaði stjóri. Ef eitthvað er þá fer það yfir strikið út í það að vera leiðinlega karakterslaus (ég er auðvitað ekki hlutlaus). Stundum hefur hann ekki náð til leikmanna út af því. Ef þú ert ekki vanur því að reyna að spila sálfræðitaktík á þennan hátt þá held ég að það geti auðveldar sprungið í andlitið á þér. Mourinho er alltaf að þessu, alltaf að stuða menn og setja á svið einhver leikrit fyrir fjölmiðla. Leikmenn hafa talað um þetta, hvernig hann sé annar karakter í alvörunni en hann er fyrir framan fjölmiðla og jafnvel talað um hvernig hann geri þetta markvisst. Það er ekkert óvænt við það þegar Mourinho kemur og gerir eitthvað svona. En aftur, það þarf ekki endilega að vera jákvætt, ræðst af samhengi og framhaldi. Það er hins vegar alls ekki sjálfkrafa neikvætt.
gummi says
burtu með þennan mann það er alveg ótrulegt að bjóða manni uppá þessa knattspyrnu með alla þessa sóknarmenn við eigum alveg að vera á pari við city. svo vil fíblið meina að sevilla sé með mikið betri leikmanna hóp en við enda allir sem ég þekki sem stiðja annað en united eru bara hlæjandi af okkur
Björn Friðgeir says
Hvern á að ráða, Gummi.
gummi says
reyna fá simone eða Pochettino við erum á vondum stað eð móra sem þjálfara hann endar alltaf á þvi að tapa klefanum og Bjössi hvað ert þú eftir að nenna þessum leiðinnlega bolta lengi sem united er að spila núna undir stjóra móra
Björn Friðgeir says
Poch er ekkert að fara að koma si svona.
Og ég er ekkert sannfærður um Simeone eða að hann sé svo skemmtilegur
Og ég er alveg til í að nenna leiðinlegum bolta meðan hann skilar árangri amk til skamms tíma.
Ég færði rök fyrir því hvers vegna við erum illa settir með vörnina sem leiðir til þess að við getum ekki sótt jafn mikið og er til í að bíða að hún verði löguð.
Að reka alla þjálfara á innan við tveimur árum er ekki líklegt til langtímaárangurs.
#InMourinhoWeTrust says
Gummi,
1. Pochettino og Tottenham eru að fara á nýjan völl og því myndi Levy aldrei leyfa Poch að fara, það er ekki möguleiki að fá hann núna í sumar og tel ég afar afar ólíklegt að hann fari sumarið eftir það. Levy er harður.
2. Þú bölvar Móra en vilt síðan fá Simeone??? Simeone varð og er einungis frægur fyrir frábæran varnarbolta. Kom Atletico veit ekki hvað oft í úrslit eða undanúrslit CL með þessum varnarbolta sínum. Þú vilt reka Móra til þess að fá annan varnarsinnaðan þjálfara inn sem þyrfti þá 2-3 ár til að gera liðið að sínu??
Viltu láta reka Móra núna/í sumar?
Helgi P says
ég held að Simeone sé svona 10 sinnum skemmtilegri en Móri þú finnur ekki mikið leiðinnlegri en hann
#InMourinhoWeTrust says
Þetta móra út pack er svo mikið bull. Hvernig væri að bera saman árangur móra og simeone og horfa á nokkra leiki hjá simeone í staðin fyrir að bölva Móra því “þú heldur að simeone sé 10x skemmtilegri”?
Helgi P says
Simeone er nú samt búinn að keppa 2 sinnum við Sevilla í deildinni og vinna 2 0 og svo 2 5 það er bara ótrúlegt að reyna ekki sækja á þetta sevilla lið sem er búnir að tapa mörgum leikjum stórt í vetur
Karl Garðars says
Ég hef akkúrat engar áhyggjur af þessu. Mou er að taka hitann af leikmönnum þó án þess að pakka þeim inn í bómull.
Fergie spilaði drulluleiðinlegan en effektívan bolta á köflum og maður varð brjálaður en maður hafði mikið rangt fyrir sér þá því maður tekur titlana alltaf fram yfir blússandi sóknarbolta.
Sjáið bara púðlurnar með skituna upp á hnakka ár eftir ár í titlaleysi en það er örugglega allt í lagi því það er svo ógeðslega gaman að spila sóknarbolta…. Nei, aldeilis ekki. Þetta ótímabæra og rakalausa Mourinhoout jarm í fólki sem kallar sig stuðningsmenn skemmtir púðlunum örugglega meira þegar upp er staðið.
Ég spyr enn og aftur, hverju hafa pottechino og klopp skilað?
Sigurjón Arthur says
Ég hef þá trú að sannir United stuðningsmen vilji bera sig saman vil lið eins og Barcelona, Real Madrid, Bayern og PSG….og jafnvel Manchester City 😒 og öll þessi lið spila blússandi sóknarbolta og raða reglulega inn titlinum, svo ekki sé talað um skemmtanagildið 😁 Móri er einfaldlega komin á síðasta söludag í alvöru knattspyrnu 😠
Kv, SAF
gummi says
akkuru þá ekki ráða Ancelotti hann er með fullt af titlum sem þjálfari öruglega meira en móri
gummi says
nú er hann á sínu öðru ári hjá united og er byrjaður að missa straustið hjá leikmönum sínum en hvernig verður þetta þá á næsta ári þegar það hefur allt sprungið hjá honum á því þriðja