Fyrir páskahelgina sem var að enda þá hafði undirritaður aðeins séð Manchester United spila einu sinni og var það í Lundúnum er liðið vann Fulham 1-0 þökk sé marki Wayne Rooney eftir stórbrotnar markvörslur David De Gea. Einnig hafði hann aðeins einu sinni komið á Old Trafford en það var í skoðunarferð sumarið 2005. Því var breytt um páskana 2018.
Leiðin á Old Trafford
Það var eflaust í september á síðasta ári þegar einn af ritsjórum síðunnar ákvað ásamt þremur félögum sínum að nú loksins væri kominn tími til að sjá Manchester United spila á Old Trafford. Eflaust hefðum við farið fyrr í vetur en undirritaður ásamt einum af félögunum ákváðu að reyna finna helgi þar sem þeir gætu séð sín lið í neðri deildunum á Englandi spila líka. Þannig var það ákveðið að páskahelgin 2018 yrði yrði fyrir valinu. Stefnt var að því að sjá Peterborough United heimsækja Rotherham United á föstudeginum langa, á laugardeginum var förinni heitið í Leikhús Draumanna að sjá heimamenn etja kappi við Swansea City og að lokum var farið til Lundúna að sjá Dagenham&Redbridge keppa við lið sem ég einfaldlega man ekki hvað heitir.
Eftir magnaðan endi á leik Peterborough þar sem mínir menn jöfnuðu á 96. mínútu þá var farið á eitt allsherjar skrall sem lauk ekki fyrr en um þrjú eða fjögur um nóttina. Það voru því nokkuð ryðgaðir stuðningsmenn United sem lögðu af stað í fyrirheitna landið upp úr hádegi á laugardeginum – það sem við tók var ein versta leigubílaferð lífs míns þar sem undirritaður sat í raun afturbák í leigubílnum þökk sé þessum stórkostlega uppsettu bílum þarna í Englandi. Svo tók við stutt rölt í gegnum mannhafið og hverri knæpunni á fætur annarri áður en loksins loksins við sáum þetta gígantíska mannvirki sem Old Trafford er.
Áður en leit hófst að hliðinu okkar inn á völlinn sjálfan var ákveðið að kaupa strangheiðarlegan hamborgara [ef hamborgara skyldi kalla] í einum söluturnanna sem umkringja Old Trafford á leikdegi. Hamborgarinn var svo algjör viðbjóður en kókið var fínt.
Eftir það var ákveðið að skella sér í Megastore þar sem það þyrfti nú að versla eins og eina treyju [eftir leik bættust svo derhúfa og trefill við]. Planið var að fá sér eina strangheiðarlega Nemanja Matic #31 treyju en á endanum varð Romelu Lukaku #9 fyrir valinu þó svo að líkurnar á að hann myndi skora í leiknum hafi minnkað töluvert við það að ritstjóri væri merktur honum á leikdegi.
Við tók svo leitin mikla að hliðinu okkar en við vorum staðsettir í Stretford End. Það verður að viðurkennast að við reiknuðum með töluvert betri sætum en eftir að hafa labbað upp líklega lengsta stiga mannkynssögunnar þá komumst við að því að sætin okkar voru svo gott sem upp í rjáfri en það voru aðeins þrjár sætaraðir fyrir aftan okkar röð. Okkur til mikillar skelfingar komumst við líka að því að við vorum aðeins of breiðir fyrir sætin og stefndi í að við þyrftum að sitja á ská til þess að komast almennilega fyrir. Sem betur fer stóðu allir í kringum okkur allan leikinn og því lítið um þrengsli, hins vegar voru fæturnir farnir að kvarta í síðari hálfleik enda nokkuð ryðgaðir eftir skrallið.
Upphitun leikmanna
Þegar við fengum okkur sæti upp í rjáfri var Lukasz Fabianski, markvörður Swansea City, eini maðurinn sem var byrjaður að hita upp. Hann var að fara í gegnum hina hefðbundnu markvarðar upphitun. Allskonar drillur með skotum á fyrirfram ákveðin svæði, uppi og niðri, ásamt því að fá fyrirgjafir héðan og þaðan. Svo kom besti markvörður í heimi út á völlinn við mikið lófatak stuðningsmanna. Hann hitaði upp við Stretford End svo undirritaður gat fylgst vel með. Það sem kom allra mest á óvart var hversu einstaklega róleg upphitunin var. Það voru engar hefðbundnar drillur, engin keyrsla og alls ekkert stress. Ef ekki hefði verið fyrir tvo markmannsþjálfara plús tvo varamarkmenn þá hefði mátt halda að David De Gea væri að hita upp fyrir „Sunday League“ leik.
Eftir létt skokk um teiginn þar sem hann liðkaði sig til þá komu nokkur skot beint á hann og svo færði þjálfarinn sig út að vítateig og tók fleiri skot frá ýmsum stöðum á okkar mann. Þetta ásamt nokkrum krossum og smá teygjum var allt sem þurfti til. Sama má í raun segja um upphitun leikmanna en manni fannst hún helst til róleg. Ef til vill eru þær mismunandi fyrir hvern leik fyrir sig en þetta virkaði allt rosa rólegt og þægilegt. Svipað og leikurinn var síðan.
Besta markvarsla leiksins kom svo í upphitun þegar byrjunarliðið var að skjóta á varamarkmennina eftir að De Gea hafði farið inn í klefa. Joel Pereira klóraði þó frábært skot Jesse Lingard úr samskeytunum en drengurinn virðist vera með gorma fyrir fætur. Það verður að segjast að markmannsdeild United hefur líklega aldrei verið betur mönnuð en Pereira á framtíðina fyrir sér og það sama má segja um menn eins og Sam Johnstone og Dean Henderson.
Manchester United 2:0 Swansea City
Leikurinn hófst svipað og leikur Rotherham og Peterboro en Paul Pogba byrjaði á því að þruma einum löngum fram sem fór rakleiðis í útspark. Við tóku góðar fimm mínútur af reitarbolta en leikmenn Swansea komust einfaldlega ekki nálægt knettinum í upphafi leiks. Heimamenn ógnuðu ef til vill ekki mikið fram að fyrsta markinu en það kom strax á 5. mínútu leiksins þegar Romelu Lukaku þrumaði knettinum, með viðkomu í varnarmanni, í netið. Það var ágætis andrúmsloft á Old Trafford á laugardaginn og markið gerði það enn betra.
Að segja að markið hafi slegið Swansea út af laginu væri ekki rétt þar sem þeir voru einfaldlega aldrei að syngja til að byrja með. Annað markið kom svo á 20. mínútu og það virkaði einstaklega einfalt. Nokkrar sendingar upp völlinn og allt í einu var Alexis Sanchez kominn einn í gegn og staðan orðin 2-0. Eflaust voru þetta bestu mínútur United í vetur en leikmenn Swansea vissu ekki sitt rjúkandi ráð og synd að United skyldi ekki skora fleiri mörk þar sem spilamennska þeirra hefði átt það fyllilega skilið. Það er ef til vill óþarfi að lýsa leiknum í smáatriðum en frá Stretford End leit þetta út eins og leikur manna gegn börnum. De Gea snerti varla boltann í fyrri hálfleik og þegar hann fékk loks að snerta hann þá leið manni eins og Victor Lindelöf hefði einfaldlega gefið á hann út af vorkunn. Lindelöf kveikti all hressilega í áhorfendum með hörku tæklingu um miðbik fyrri hálfleiks en það virtist sem Swansea ætluðu að reyna keyra á Svíann í leiknum frekar en Chris Smalling. Lindelöf hafði fengið að kenna á því þegar framherji Swansea keyrði inn í hann eftir að hann gaf knöttinn upp völlinn. Lindelöf tók svo pirringinn út á Sam Clucas sem lá í dágóða stund þrátt fyrir að tækling Svíans hafi verið fullkomlega lögleg.
Það sem kom mest á óvart var frjálsræði United í leiknum en Juan Mata var gjörsamlega út um allt allan fyrri hálfleikinn. Hann kom sér í stöðu á hægri vængnum þegar Swansea átti föst leikatriði en annars var hann oftar en ekki á miðjum vellinum eða einfaldlega á vinstri kantinum þar sem flest allar sóknir United fóru fram. Á meðan stóð Antonio Valencia einn og yfirgefinn úti á hægri vængnum en ég er nokkuð viss um að hann hafi staðið þar í góðan hálftíma samtals á meðan leik stóð. Þríeykið á bakvið Lukaku var augljóslega í mjög frjálsu hlutverki en ef til vill var lagt upp með að leggja vinstri bakvörð Swansea í einelti, það leit allavega þannig út miðað við tímann sem Valencia eyddi einn úti á hægri vængnum.
Það var samt ljóst að þegar United var í vörn þá höfðu allir sín hlutverk á hreinu en liðið var einstaklega þétt í þessi fáu skipti sem Swansea hélt knettinum. Hlutverk Mata varnarlega var áhugavert en það var greinilegt að United vildi leyfa gestunum að spila úr markmannsútspörkum en um leið og bakverðir liðsins fengu knöttinn þá voru Mata, Sanchez, Lukaku og Jesse Lingard mættir eins og rándýr á þá og leikmenn Swansea spörkuðu í kjölfarið boltanum frá sér.
Það var fljótlega ljóst að Matic og Pogba voru með algert frjálsræði þegar kom að sóknarleik liðsins en eftir að hafa verið nokkuð þétt við miðverðina sína á upphafsmínútum leiksins þó urðu þeir mun sókndjarfari. Þeir fóru oftar en ekki báðir fram á við og leituðu að svæðum til að hlaupa í. Það var einnig áberandi hversu mikið mun sterkari þeir voru en mótherjar sínir en þeir gerðu í því að draga Swansea leikmenn í pressu aðeins til að halda þeim svo frá sér og gefa á svo á næsta mann. Einnig sá maður hvað Pogba er rosalega góður að finna sendingar á milli línanna undir pressu þó svo að hann hafi átt nokkrar skelfilegar upp völlinn. Á góðum degi hefði Pogba samt náð 10. stoðsendingu sinni í deildinni ár en Juan Mata setti knöttinn nánast yfir Stretford End í upphafi síðari hálfleiks eftir fullkomna sendingu Pogba. Það sem Pogba er eflaust orðinn þreyttur á þessu en Zlatan, sem maður hafði nú vonast til að sjá í leiknum þegar miðinn var keyptur, klikkaði á nokkrum slíkum færum á síðustu leiktíð.
Færið hjá Mata og sturlaðar markvörslur David De Gea voru í raun það eina markverða sem gerðist í síðari hálfleik en það kómíska við vörslurnar var að áhorfendur virtust hreinlega ekki reikna með að Swansea gæti skorað. Fyrri varslan var þó mögnuð og í raun synd að hafa verið hinum megin á vellinum því maður áttaði sig einfaldlega ekki á hversu mögnuð varslan var. Það var ekki fyrr en maður sá þetta eftir leik að maður áttaði sig á hversu rosalega vel gert þetta var, sérstaklega í ljósi þess að maðurinn hafði bókstaflega ekkert að gera í fyrri hálfleik.
https://twitter.com/Runolfur21/status/980164641623019522
Síðari hálfleikur fjaraði svolítið út en eftir að De Gea hafði varið frá Tammy Abraham í tvígang virtist öll von Swansea um endurkomu vera úr sögunni og leikmenn United virtust nokkuð sáttir með útkomu leiksins. Vissulega hefðu þeir geta bætt við mörkum en Lukaku, sem var sívinnandi allan leikinn, klúðraði ágætis færi og Marcus Rashford fékk fínt hálffæri sem hann náði ekki að nýta almennilega.
Leiknum lauk svo með einkar þægilegum sigri United og fóru stuðningsmenn flestir sáttir heim á leið. Reyndar fóru fæstir heim strax en margir hverjir ætluðu að bíða eftir leikmönnum fyrir utan völlinn, aðrir fylltu hreinlega Megastore-búðina og enn aðrir fóru beint á næstu knæpu.
Það er erfitt að kvarta yfir 2-0 sigri en við hefðum þó verið til í eins og eitt mark fyrir framan Stretford End en nánast allt sem gerðist í leiknum gerðist hinum megin á vellinum. Við félagarnir göngum þó sáttir frá borði en ferðinni lauk með tveimur sigrum og einu dramatísku jafntefli – varla hægt að biðja um mikið meira en það!
Það er svo ljóst að það verður ekki beðið í 13 ár áður en Old Trafford verður heimsóttur aftur. Þangað til næst vinur, þangað til næst.
https://twitter.com/Runolfur21/status/980370374784364545
Skildu eftir svar