Þetta var 1000. leikur Manchester United í ensku úrvalsdeildinni. 500. úrvalsdeildarleikurinn á Old Trafford. Kveðjuleikur Michael Carrick og alveg mögulega kveðjuleikur fleiri leikmanna liðsins. Einn þeirra var þó óvænt fjarverandi. Anthony Martial átti að spila þennan leik, samkvæmt því sem Mourinho sagði eftir West Ham leikinn á fimmtudaginn. Svo varð þó ekki, fyrir leik bárust fréttir af því að Martial hefði mætt á svæðið og keyrt svo í burtu, væri ekki í hópnum. Það kveikti strax alls konar sögur, hvort sem það var að Martial hafi farið í fússi og ósætti við Mourinho, að ólétt kærastan hans væri á leið í fæðingu eða mögulega að hann væri meiddur. Það kom svo seinna í ljós að hann hafði meiðst á æfingu daginn fyrir leik.
Hann missti því af þessum leik en það er spurning hvort hann nái því að mæta allavega á bekkinn á Wembley um næstu helgi. Eða hvort hann sé mögulega búinn að spila sinn síðasta leik fyrir félagið. Við skelltum í létta Twitter-könnun og það er ekki beint hægt að segja að þar sé bjartsýnin í fyrirrúmi, meirihlutinn álítur að Martial spili ekki fleiri leiki fyrir United:
https://twitter.com/raududjoflarnir/status/995659087139557376
Þetta er þó eitthvað sem verður að koma í ljós. Eftir að þessar fréttir höfðu aðeins fengið að malla var komið að því að heiðra Michael Carrick. Hann fékk heiðursvörð þegar hann gekk inn á völlinn, virkilega fallegt að sjá.
Byrjunarliðið hjá Manchester United í kveðjuleiknum hans Carrick var svona:
Varamenn: Pereira, Jones, Shaw (60′), Valencia, Herrera (77′), Pogba (85′), Lingard.
Byrjunarlið gestanna frá Watford var svona skipað:
Varamenn: Bachmann, Prödl, Mariappa (21′), Chalobah (72′), Lukebakio, Deeney (63′), Sinclair.
Fyrir leik fékk Dave okkar de Gea afhendan gullhanskann fyrir að halda oftast hreinu í deildinni í vetur. Hann er vægast sagt mjög vel að þessum verðlaunum kominn.
En það var ekki það eina sem gerðist fyrir leik því eftirlifandi leikmenn Manchester United sem unnu Evrópukeppnina 1968 voru líka heiðraðir sérstaklega fyrir leik, í tilefni þess að nú eru 50 ár síðan þeir unnu keppnina.
https://twitter.com/utdxtra/status/995659926407139328
Leikurinn sjálfur
Það er í sjálfu sér ekkert rosalega mikið sem þarf að ræða varðandi þennan leik. Heilt yfir var þetta klassískur lokaleikur tímabils þar sem ekkert er undir, leikmenn voru ekkert að reyna alltof mikið á sig og allt var bara frekar hægt og rólegt. Eric Bailly kom sterkur inn til að byrja með og Carrick var allt í öllu á miðjunni hjá United. Fram á við gekk ekkert alltof vel að skapa færi og Rashford og félagar fundu sig síður. Watford náði að sama skapi ekki að ógna mikið framan af heldur.
En á 34. mínútu minnti fyrirliðinn Carrick heldur betur á sig. Þá fékk hann boltann aftarlega á vellinum og sá strax hvar Mata gerði sig líklegan til að hlaupa innfyrir vörn Watford. Carrick kom þá með eina af sínum frábæru, löngu sendingum yfir vörnina og beint á Mata. Varnarmenn Watford hikuðu vegna þess að Rashford var að koma úr rangstöðu en Mata var hins vegar ekki rangstæður og náði boltanum. Þá var Rashford kominn á sprettinn við hlið hans, fékk sendingu til hliðar frá Mata og skoraði auðvelt mark framhjá Gomes, sem hafði komið út í Mata. Virkilega vel gert og afskaplega viðeigandi leið fyrir Carrick að kveðja.
https://twitter.com/TheManUtdWay/status/995674970201174016
Besta færi leiksins eftir þetta fékk Watford í lok fyrri hálfleiksins. Þá missti annars mjög góður Eric Bailly alveg af Richarlison í teignum og Watfordleikmaðurinn náði dauðafríum skalla af mjög stuttu færi. Skallinn var fastur og fínn en Romero ákvað þarna að breyta sér í de Gea í smá stund og tók stórkostlega viðbragðsvörslu. Frábærlega gert hjá Romero.
https://twitter.com/Vintage_Utd/status/995677020490215424
Eftir þetta malaði leikurinn áfram eins og góð vél í hlutlausum gír. Ekkert áberandi mikið að frétta en United þó með tökin á leiknum. Ashley Young fékk gult á 57. mínútu og Mourinho ákvað að taka enga sénsa heldur skellti Shaw beint inn á fyrir Young. Spurning hvort Shaw hafi þarna fengið sínar síðustu mínútur hjá Manchester United.
Manchester United átti svo tvær marktilraunir á síðustu 20 mínútunum en hvorug á rammann. Raunar var markið eina tilraun United á rammann í leiknum. Watford átti eina til viðbótar á rammann (tvær í lok fyrri hálfleiks) en ekkert sem olli clean sheet Romero neinum vandræðum. Herrera kom inn fyrir Blind á 77. mínútu.
Þegar 5 mínútur voru eftir var svo komið að stundinni sem allir voru að bíða eftir. Á þeim tímapunkti voru flestir stuðningsmenn Manchester United löngu byrjaðir að kyrja í kór: It’s hard to believe it’s not Scholes. It’s Carrick, you knooow. Það var ekki laust við að það kæmi tár þegar Pogba mætti á hliðarlínuna og fjórði dómarinn lyfti töflunni til merkis um þessa merkilegu skiptingu. Carrick fékk standandi lófaklapp, þakkaði fyrir sig og fór svo af velli í síðasta skipti sem leikmaður. Sigur í kveðjuleiknum.
Pælingar eftir leik
Manchester United endar tímabilið með 81 stig. Það eru jafnmörg stig og Leicester City fékk þegar liðið varð Englandsmeistari. Það er stigafjöldi sem hefði stundum dugað til titils en þó oftar skilað nákvæmlega þessum árangri, 2. sætinu.
Þetta er bæting frá fyrri tímabilum. United er að vísu að tapa fleiri leikjum á þessu tímabili en í fyrra en á móti kemur að liðið gerir 9 færri jafntefli í deildinni, munar mjög miklu um það.
Manchester City náði þó 100 stigum, það verður erfitt fyrir þá að ná sams konar tímabili aftur en það er þó samt ljóst að Manchester United þarf enn að halda áfram að bæta sig til að fara að gera atlögu að deildartitlinum. Sumarglugginn verður mjög mikilvægur.
Rui Faria er að hætta sem aðstoðarstjóri hjá Manchester United. Það eru stórar fréttir, hann hefur alltaf verið lykilmaður í starfsliði Mourinho og það verður fróðlegt að sjá hversu mikið Mourinho á eftir að sakna hans. Mourinho sagði eftir leik að hann myndi ekki ráða sér nýjan aðstoðarstjóra strax heldur endurskipuleggja þjálfarateymið sitt þannig að það væri enginn aðstoðarmaður. Hann sagði þó reyndar líka að Carrick kæmi sterklega til greina í þetta hlutverk í framtíðinni, eftir að Carrick nær sér í tilskilin réttindi:
https://twitter.com/utdxtra/status/995708586415321089
Það verður fróðlegt að fylgjast með þjálfaraferli Michael Carrick, það er alveg ljóst.
1000 leikir í úrvalsdeild
Manchester United hefur nú spilað 1000 leiki í ensku úrvalsdeildinni. Það er ansi gott. Þeir leikir skiptast svona:
- 629 sigurleikir
- 215 jafntefli
- 156 tapleikir
- 1924 mörk skoruð
- 875 mörk fengin á sig
- 13 deildartitlar
Draftmeistari Rauðu djöflanna
Fyrir þetta tímabil ákváðum við í ritstjórn Rauðu djöflanna að prófa nýju draft-deildina í opinberu Fantasy Football deild ensku úrvalsdeildarinnar. Af okkur úr ritstjórninni þá voru 8 með: Björn Friðgeir, Elvar, undirritaður, Kristófer, Magnús, Runólfur Trausti, Sigurjón og Tryggvi Páll.
Eftir nokkrar sveiflur í þessu framan af tímabili endaði þetta á afskaplega öruggum sigri, eins og meðfylgjandi lokastaða sýnir glöggt:
Ég þakka félögum mínum fyrir keppnina og stefni að sjálfsögðu á að verja titilinn að ári. Gleðilegt sumar!
Spurningar fyrir Djöflavarpið?
Við stefnum á að taka upp nýjan þátt af Djöflavarpinu á miðvikudaginn. Ef þið hafið einhverjar sniðugar spurningar fyrir okkur þá megið þið endilega henda þeim í komment hér fyrir neðan.
Kjartan says
Einn athyglisverður punktur sem ég heyrði í dag, í fyrsta skipti frá tímabilinu 1983-84 þreytti enginn leikmaður úr akademíunni frumraun sína í vetur 🤔🤔🤔
Audunn says
Jæja fínt að klára deildina með sigri.
Hef verið að fara yfir veturinn í höfðinu undanfarna daga, get ekki moist að neinni annari niðurstöðu en að þetta sé í heildina búinn að vera mjög lélegt. Gæti mögulega breyst í frekar lélegt ef við vinnum F.A Cup.
Nú munu líklega einhverjir súpa hveljur og segja að annað sætið og úrslit í FA cup sé bara nokkuð góður árangur sem gæti verið frekar góður árangur ef við vinnum FA Cup.
Ætla svo sem ekkert að setja út á þá skoðun, það má alls ekki gera lítið úr FA Cup enda frábær keppni og alltaf gaman að vinna þann bikar á Wembley.
Það eitt og sér má hrósa liðinu fyrir, ekki spurning,.
En það sem dregur þetta allt saman niður eru nokkur atriði sem vert er að nefna.
Nr eitt tvö og þrjú er spilamennska liðsin, hún er alls ekki í samræmi við þá eyðslu sem liðið hefur eytt í leikmenn undanfarin 2 ár sem eru engar smá upphæðir.
Í heildina er spilamennska liðins fyrir neðan allar hellur og óboðleg á köflum og klárlega það sem pirrar mig hvað mest við liðið í dag.
Það hefur heldur betur vantað upp á skemmtanargildið í vetur, Móri ætti að fá inn sterkan sóknarþjálfara sér til aðstoðar, hann er flottur í varnartaktíkinni sjálfur.
Annað sem hefur dregið stemmarann niður er gagnrýni stjórans opinberlega á leikmenn, sérstaklega yngri kynslóð liðsins. Ég skil ekki þá taktík og fæ ekki með neinu móti skilið hvernig í ósköpunum það á að hjálpa til.
Stjórinn hefur farið hamförum í gagnrýni sinni á margt og mörgu eins og leikmönnum og stuðningsmönnum. Það er vægast sagt afar sérstök taktík. Honum hefur tekist að kenna öllum öðrum um léleg úrslit en sjálfum sér, og það ítrekað.
Árangur og spilamennska liðsins í meistaradeildinni voru svo önnur vonbrigði vetrarins, það var átakanlegt að horfa á liðið í rimunni gegn Sevilla þar sem liðið átti heil 4 skot á markið í tveimur leikjum. Enn og aftur var sóknarleikur liðsins í molum og engin taktík í gangi framá við .
Þegar öllu er á botninn hvolft þá fær Móri falleinkun hjá mér, sigur í FA cup mun ekki breyta þeirri skoðun þótt ég muni að sjálfsögðu fagna þeim sigri.
Það verður ennþá meiri pressa á hann á næsta tímabili sem ég spái að verði hans síðasta sem stjóri Man.Utd nema hann nái annaðhvort að vinna deildina eða meistaradeildina.
Svipuð spilamennska og svipaður árangur mun ekki gera neitt annað en að staðfeta það endanlega að það sé full reynt með hann sem stjóra United.
EgillG says
Mjög flott innlegg Audunn, þetta zoomar upp það sem við erum örugglega flestir að hugsa.
Sigurjón Arthur says
Eigum við ekki von á Djöflavarpi ?