Á morgun munu tveir af risum enskrar knattspyrnu sleikja sárin eftir erfitt tímabil og reyna að gera gott úr því með því að vinna elstu og virtustu bikarkeppni í heimi.
Manchester United reynir þá að vinna sinn þrettánda bikarsigur sem myndi aftur færa félagið upp að hlið Arsenal í fjölda slíkra.
Ellefu fyrstu bikurunum voru gerð góð skil hér fyrir tveimur árum þegar United vann Crystal Palace í bikarúrslitum á eftirminnilegan hátt. Sá sigur batt enda á 12 ára bikarlaust tímabil, það lengsta sem fólk á mínum aldri man, en náði þó ekki að bjarga starfi Louis van Gaal.
Chelsea er annað tveggja liða sem vann United í bikarúrslitum á þeim tíma, og hindraði að United ynni tvennuna 2007, en það er skemmtilegra að rifja upp 1994 þegar United rústaði Chelsea á Wembley og vann tvennuna.
https://www.youtube.com/watch?v=t4kz5g3PtF4
Leiðin á Wembley
Manchester United 2:0 Derby County
Yeovil Town 0:4 Manchester United
Huddersfield Town 0:2 Manchester United
Manchester United 2:0 Brighton and Hove Albion
Manchester United 2:1 Tottenham Hotspur
Leið United í bikarúrslitn var óvenju greiðfær þetta árið, oftar en ekki er það United sem fær erfiða andstæðinga í bikar. En í þetta skiptið var það bara Tottenham sem veitti einhverja mótspyrnu. Sama var reyndar upp á teningnum 2016, hvað það segir um þessi tvö ár sem einu bikarúrslitin frá 2007 skal ósagt látið.
Lið United
Eftir að síðustu leikir í deildinni voru slakir og enginn leikmanna steig þar upp til að krefjast sætis í liðinu í þessum leik er ljóst hvernig liðið verður á morgun
Þetta er sama lið og vann Tottenham á Wembley í undanúrslitunum og mennirnir sem José Mourinho treystir. Eina spurningin er sú hvort Romelu Lukaku verður orðinn heill heilsu en hann er byrjaður að æfa og allt bendir til að hann verði tilbúinn á morgun. Alexis Sánchez og Jesse Lingard verða fyrir aftan Lukaku, menn sem elska að spila á stóra sviðinu, Sánchez með átta mörk í átta leikjum á Wembley. Á miðjunni verða Matić og Pogba og svo Ander Herrera sem allt í einu er farinn að spila eins og hann á að sér.
Vörnin er svo eins og hún er, ekki okkar uppáhalds, en nægilega góð. Það er verkefni næstu vikna að breyta henni, ekki næsta dags.
Chelsea
Norwich City – Chelsea 0-0; Chelsea – Norwich City 1-1, 5-3 e.vítak.
Chelsea – Newcastle 3-0
Chelsea – Hull City 4-0
Leicester City – Chelsea 2-1 e.frl.
Southampton – Chelsea 2-0
Verst varðveitta leyndarmál í boltanum er að Antonio Conte er að stýra Chelsea í síðasta sinn. Eftir góðan sigur í deildinni í fyrra hefur þetta tímabil verið ein hörmung hjá liðinu og það endaði í fimmta sæti, og verður ekki með í Meistaradeildinni á næsta ári. Bikarinn mun bjarga tímabilinu fyrir United, því annað sæti í deild og bikartitill er ekki neitt til að slá hendinni við, en fyrir Chelsea er það varla raunin. Chelsea virtist vera að rétta úr kútnum í apríl með nokkrum sigurleikjum í röð og eygði meira að segja smá von um að stela fjórða sætinu eftir sigur á Liverpool í þriðja síðasta leik. En jafntefli gegn Huddersfield á Stamford Bridge og herfilegt tap á útivelli gegn Newcastle sáu til þess að svo varð ekki.
Liðið virðist afspyrnubrothætt og nú þarf það að stíga upp eftir þessar ófarir og sýna sig gegn United. Hvort það takist undir stjórn stjóra sem sem öllum er sama um að spila fyrir er alls óvíst.
Danny Drinkwater og David Luiz eru meiddir og þá er þetta lið nokkuð öruggt. Willy Caballero hefur leikið bikarleiki fyrir Chelsea en búast er við að Thibaut Courtois taki við af honum í úrslitaleiknum, svipað og De Gea mun standa í marki United. Búist er við að Olivier Giroud verði valinn fram yfir Álvaro Morata sem hefur gengi illa eftir góða byrjun í haust.
Þetta er sterkt lið og fyrir mig erfitt að sjá hvers vegna svo illa hefur gengið í vetur. Leikurinn á morgun ætti að verða erfiður fyrir United, á pappírnum.
Ray Wilkins
Leikurinn á morgun verður í minningu Ray Wilkins sem lést 4. apríl sl. Hann var yngsti fyrirliði Chelsea, kom svo til United, var fyrirliði um tíma og vann bikarinn með United 1983 þar sem hann skoraði glæsilegt mark í fyrri bikarúrslitaleiknum.
Nafn hans verður á auglýsingaskiltum vallarins þegar liðin ganga út, borðar með nafni hans verða á vellinum og hans minnst á skjánum. Ekkja hans, Jackie Wilkins mun síðan afhenda bikarinn.
Leikurinn hefst kl 16:15 á morgun og dómari er Michael Oliver.
Ingi says
Spenntur og stressaður. Heimta sigur! Gífurleg vonbrigði ef við fáum ekkert úr þessu tímabili.
Cantona no 7 says
Vonandi sigur á morgunn.
Vonandi stemmning á Spot.
Vonandi flaggar stjórnin á Spot.
G G M U
Björn Friðgeir says
Lukaku verður líklega ekki með!