Hver er ykkar skoðun á þessu tímabili með United?
Maggi
Tímabilið yfir heildina verður teljast vonbrigði. Liðinu hefur farið fram í deildinni en það endaði alltof langt á eftir Manchester City. Meistaradeildin var fín fram að Sevilla á Old Trafford en upplegg og spilamennska þar með óskiljanleg. Svo var úrslitaleikurinn í bikarnum svakalega svekkjandi að svo mörgu leyti.
Frikki
Árangurinn var vissulega viðunandi en auðvitað var leiðinlegt að sjá okkur falla úr meistaradeildinni meðan erkifjendurnir fóru alla leið í úrslitin. En annað sætið í deild og úrslit FA-bikarsins eru alls ekki slæmur árangur. Leikmannakaupin voru góð fyrir tímabilið og Sanchez á eflaust eftir að reynast okkur vel þó hann hafi ekki komið inn með þeim látum sem búist var við af honum. Margt jákvætt leit dagsins ljós á þessu tímabili, Lingard tók miklum framförum og Scott McTominay kom sterkur inn og verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni. En sumir voru virkilega langt frá sínu besta t.d. Herrera, Darmian, Blind og fleiri. Það er því ljóst að það þarf að taka til í hópnum og vonandi verður liðið sterkara á næsta tímabili. Spilamennska liðsins var eins og yo-yo en eftir stórkostlega leiki komu stundum leikir sem maður hálfpartinn skammaðist sín fyrir og greinilegt að stjórinn þarf að ná meiri stöðugleika og fjölbreyttari leikmannahóp fyrir næsta tímabil.
Heilt yfir var tímabilið nokkuð gott eins og áður sagði en drepleiðinlegir leikir og gífurlega óvænt úrslit köstuðu full miklum skugga yfir annars þokkalegt tímabil. En framtíðin er björt og leiðin liggur upp á við, svo mikið er víst.
Bjössi
Viðunandi.Annað sætið í deild er besta niðurstaða í fimm ar. Gríðarsárt að tapa bikarúrslitum sem hefðu sannarlega sett plástur á sárið. Samt margt svo erfitt í vetur. Hrikalega erfitt að horfa upp á sigurgöngu City og spilamennskan hjá okkar mönnum í vetur var oft sárlega leiðinleg.
Eins og það var spennandi að fá Alexis Sánchez er ekkert hægt að draga úr því að frammistaða hans hefur verið mjög dræm að frátöldum leiknum gegn City. Þar sýndi hann samt hvers hann er megnugur og við verðum bara að vona hið besta fyrir næsta tímabil.
Það versta við tímabilið er samt kannske hvað það er erfitt að rifja upp góða leiki og skemmtilega. Fyrstu leikir tímabilisins þegar fjórir deildarleikir unnust 4-0 og Lukaku fór á kostum er eins og fjarlægur draumur, sem liðið var endanlega vakið upp af í heimaleiknum á móti City. Jólajafnteflahrinan var síðan það sem endanlega svæfði alla von þó að United hefði aldrei farið neðar en í annað sætið eftir sína leiki eftir það.
Halldór
Heilt yfir frekar óspennandi. Fínasta byrjun en það dugði ekki langt og deildin var búin í desember. Liðið hélt 2. sætinu mjög örugglega, það var bæting frá síðustu árum. En 2. sætið er ekkert afrek, við viljum meira en það. De Gea lét varnarleikinn líta út fyrir að vera betri en hann var. Mörkunum fjölgaði svo sóknarleikurinn var skárri en margir vildu meina. Hvort tveggja þarf þó að bæta fyrir næsta tímabil.
Það var ýmislegt sem ég var ekki nógu ánægður með í leik liðsins en eitt af því sem ég er ánægður með er að liðið er oftar farið að sýna þann karakter að koma til baka eftir að hafa lent undir. Það gerðist nokkrum sinnum í vetur, eitthvað sem við höfum varla séð frá því Ferguson hætti. Það var jafnvel að gerast gegn stóru liðunum. Karakter sem er vonandi hægt að byggja á.
Kristófer
Lítilfjörlegt tímabil eftir þunglamalega knattspyrnu. Ég er einn þeirra sem, í fótboltalegum skilningi, unir því vel að tilgangurinn helgi meðalið. José Mourinho er einn þeirra sem stærir sig hvað mest af þeirri hugmyndafræði, hann er stjóri sem vill mæla árangur í titlum, hann stendur og fellur með því. Titlalaus tímabil undirstrika því alltaf vankanta Portúgalans og árið í ár er engin undantekning, við eigum nokkuð í land á eftir háværu nágrönnunum okkar. Tímabilið var samt ekkert stórslys, 2. sætið er það besta sem við höfum náð í nokkurn tíma og við vorum betri í ár, en við vorum í fyrra. Liðið tók framförum, sem er kannski ekki orðið sem menn vilja heyra þegar José Mourinho og eitt ríkasta félags heims á í hlut, en vonandi helst það áfram næsta haust. Mourinho þarf að vera töluvert nær stóru verðlaunum á næsta tímabili, ætli hann sér ekki að taka poka sinn.
Runólfur
Mín skoðun er að þetta hafi varið ágætis tímabil í heildina. Betur má ef duga skal og vonbrigði hvernig liðið datt út úr bikarkeppnum.
Tryggvi
Þetta var svart/hvítt tímabil. Það voru margir jákvæðir hlutir í gangi. Liðið náði góðum endurkomusigrum. Ákveðnir leikmenn voru að spila mjög vel á löngum köflum, liðið stóð sig vel í stóru leikjunum í deildinni sem skilaði okkar besta „árangri“ þar frá því að Sir Alex hætti. Það er klárlega jákvætt og það er augljóst að Mourinho er að gera ýmsa hluti vel.
Gefið José Mourinho einkunn. 1-10
Maggi
6,5 – hefði hleypt honum í 7-7,5 hefði bikarinn unnist.
Frikki
Ég ætla að gefa honum 7,5 þar sem árangurinn í ár var þokkalegur, enginn afgerandi snilld en langt frá því að vera sú hörmung sem sumir stuðningsmenn vilja meina. Annað sætið í deildinni og úrslit FA bikarsins gefa okkur góð fyrirheit um hvað koma skal og hvert liðið stefnir undir Mourinho. En slöpp frammistaða í meistaradeildinni og deildarbikarnum auk slakrar spilamennsku liðsins inn á milli hindra það að hann fái hærri einkunn.
Bjössi
6. Spilamennskan dregur hann niður þetta árið, og leikirnir og upplagið móti Sevilla var hreint út sagt skelfilegt. Hann er á síðasta séns næsta tímabilog verður að sýna festu og framsýni í leikmannakaupum í sumar. Það er alger krafa að United spili góðan fótbolta, hægt að þola leiðinlegan í stuttan tímaef markmiðið er að sýna árangur, og í vetur slapp þetta til, meistaradeildarsæti
Halldór
6,5. Ákveðnar framfarir en samt enn töluvert sem vantar upp á.
Kristófer
6.
Runólfur
Frá David Moyes til Sir Alex Ferguson þá er Mourinho svona í 2003-2004 tímabilinu. Liðið endaði í 3. sæti, datt út í 16-liða úrslitum en vann reyndar FA bikarinn. Margt líkt og með tímabilinu í ár og ljóst að góðir tímar væru framundan.
Tryggvi
Ég gef honum fimm. Hann rétt slefar yfir fallið og það er aðallega vegna frammistöðunnar gegn Sevilla. Sú viðureign var United til skammar og ótrúlegt að liðið hafi ekki gengið frá þessu fremur slaka liði sem vann varla leik eftir þessa viðureign. í vetur hefur alveg mátt gagnrýna leikmenn United fyrir ýmislegt en tapið gegn Sevilla skrifast alfarið á Mourinho og hvernig hann lagði þessa leiki upp. Það er algjör frumkrafa á stjóra United að hann klári svona einvígi og þarna féll Mourinho á prófinu.
Frammistaða hans í deildinni hífir hann hins vegar upp enda margt gott þar að gerast. Liðið þarf ekki nema að bæta við sig svona 10-20 mörkum á næsta tímabili til þess að verða alvöru contender. Auðvitað hefði svo verið gaman að vinna bikarinn og þá hefði ég skellt 7 eða 7,5 á okkar mann.
Leikmaður ársins. raðið í sæti 1-3
Maggi
- David de Gea
- Nemanja Matic
- Romelu Lukaku
Frikki
- David de Gea er í áskrift að þessu sæti enda hélt hann hreinu oftar en nokkur annar markmaður í deildinni og hélt ótrúlegum boltum úti sem björguðu mörgum stigum fyrir okkur í vetur.
- Romelu Lukaku kemur á eftir honum enda átti hann sitt besta tímabil í Úrvalsdeildinni í ár.
- Í þriðja sæti kemur Pogba en hann átti nokkra leiki þar sem hann sýndi okkur hvers hann er megnugur og gjörsamlega stjórnaði leiknum en hann þarf að gera það mun oftar ef við ætlum að eiga séns á titlinum.
Bjössi
- David de Gea. Ástæðn fyrir árangrinum eins og hann er, ber alla vörnina á herðum sér og bjargar þeim.
- Romelu Lukaku. Frábært fyrsta tímabil. Skoraði fullt af mörkum og vinnur geysivel fyrir liðið. Þarf meiri aðstoð.
- Nemanja Matic. Þrátt fyrir ákveðna galla og þreytu vegna ofspilunar fer hann samt í þriðja sætið. Sem segir kannske meira um hina í liðinu en hann.
Halldór
- David de Gea – einfaldlega besti markmaður í heiminum í dag.
- Romelu Lukaku – flott fyrsta tímabil. Byrjaði mjög vel. Átti svo kafla þar sem markaskorunin dvínaði en þá tikkaði hann samt alltaf reglulega inn með stoðsendingar. Bætti margt í sínum leik eftir því sem leið á tímabilið.
- Nemanja Matic – varð strax mjög mikilvægur í liðinu og sýndi af hverju Mourinho vildi endilega fá hann yfir til United. Þarf þó að vera hægt að hvíla hann við og við, hann hélt ekki alltaf dampi í vetur.
Kristófer
- David de Gea
- Romelu Lukaku
- Jesse Lingard
Runólfur
- David De Gea
- Romelu Lukaku.
- Nemanja Matic.
Tryggvi
- David de Gea. Þarfnast ekki útskýringa
- Jesse Lingard. Hans langbesta tímabil frá því að hann komst í aðallið. Skorar 13 mörk í öllum keppnum, leggur upp slatta og leggur sig allan fram í öllum leikjum. Frábært að hafa uppalinn leikmann eins og hann í hópnum
- Romelu Lukaku. Byrjaði af krafti en datt svo niður áður en hann kom mjög sterkur inn síðustu mánuðina. Skoraði slatta af mörkum og bætti heildarleik sinn mikið þegar leið á tímabilið. Hlakka til að sjá hvað hann gerir á næsta tímabili.
Mestu framfarirnar
Maggi
Scott McTominay held ég bara.
Frikki
Jesse Lingard án nokkurs vafa. Þegar United datt í smá krísu kom hann og átti hvað stærstan þátt í að rétta skútuna af aftur. Átti sitt langbesta tímabil með 13 mörk og 5 stoðsendingar og greinilega tilbúinn fyrir stærra hlutverk en áður. Gríðarlega skemmtilegur leikmaður og með hjartað á réttum stað.
Bjössi
Jesse Lingard. Var nálægt því að komast í 3. sætið hér að ofan. Alltaf þegar hann fékk tækifærið nýtti hann það.
Halldór
Alltaf þegar maður heldur að David de Gea sé búinn að toppa sig þá nær hann að hækka þetta markmannsdæmi upp í 11. Gaurinn er bara ennþá að bæta sig! En hann var reyndar orðinn bestur í heimi fyrir þetta tímabil svo hann á líklega ekki meira skilið en heiðurstilnefningu hér.
Það kitlar dáldið að smella þessu á guttann McTominay. En minn maður Jesse Lingard á þetta mest skilið. Vonandi að hann haldi enn áfram á þessari braut. Orðinn mjög mikilvægur fyrir hópinn.
Kristófer
Scott McTominay. Datt það ekki í hug, í byrjun síðasta hausts, að þessi ágæti drengur yrði í einhverju hlutverki hjá liðinu.
Runólfur
Scott McTominay er sá eini sem kemur til greina.
Tryggvi
Mestu framfarirnar: Scott McTominay
Mark ársins
Maggi
Er frekar hrifinn af sigurmarki Nemanja Matić gegn Crystal Palace.
Frikki
Þó að Smalling markið gegn nágrönnunum í City hafi verið ljúfara en flest önnur mörk og markið sem Valencia skoraði með vinstri fæti hafi komið öllum á óvart og verið glæsilegt þá slær ekkert út markið hans Nemanja Matić gegn Crystal Palace enda gífurlega flottur endir á frábærri endurkomu
Bjössi
Nemanja Matić gegn Crystal Palace. Ævintýraleg negla.
Nefna þarf Valencia gegn Everton og Lingard gegn Watford.
Halldór
Þetta er ánægjulega snúið val. Það fyrsta sem mér datt í hug var sleggjan frá Valencia gegn Stoke. Með vinstri! Vissi varla að maðurinn gæti staðið í vinstri löppina, hvað þá meira.
En ég ætla að gefa Pogba þetta. Jöfnunarmarkið hans gegn Manchester City var fáránlega vel gert og flott mark. Þetta er sá leikmaður sem við viljum sjá í Paul Pogba. Ef hann getur spilað meira svona þá er veisla framundan.
https://twitter.com/HassanKaafiAk1/status/983479646485471232
Kristófer
Nemanja Matić gegn Crystal Palace á Selhurst. Bylmingsskot utan teigs í uppbótartíma og sigurmark í þokkabót. Engin spurning.
Runólfur
Lionel Lingard gegn Watford. Þvílíkt mark.
https://twitter.com/Devils_Latest/status/939111369990983681
Tryggvi
Antonio Valencia gegn Everton á Old Trafford. Stórbrotið mark sem minnti mjög á gamla Valencia þegar hann var upp á sitt besta á hægri kantinum.
Mark ársins: Nemanja Matić
https://twitter.com/Devils_Latest/status/991400056354942976
Leikur ársins
Maggi
2:3 endurkoman gegn City á Etihad.
Frikki
Það þarf lítið að ræða það, þó að United hafi nokkrum sinnum komið til baka úr erfiðum stöðum í vetur þá toppar ekkert leikinn gegn Manchester City. 2-0 undir á einum erfiðasta útivelli Evrópu en samt tókst okkur að snúa taflinu við og sigra 3-2. Tilfinningalegur rússíbani af bestu gerð.
Embed from Getty Images
Bjössi
City á Emptyhad. Ef þeir hefðu aðeins spilað svona í allt vor.
Halldór
Manchesterslagurinn hinn síðari. Endurkoman í síðari hálfleik. Auðvitað átti United að vera komið 4-5 mörkum undir eftir fyrri hálfleikinn en liðið refsaði City fyrir það í síðari hálfleik. Seinni hálfleikurinn sennilega besta frammistaða liðsins á tímabilinu.
Kristófer
Tveir súrsætir leikir koma til greina. Þegar við snerum taflinu við gegn City á útivelli og jafnframt slógum fögnuði þeirra á frest. Það gladdi, ef aðeins í smá stund.
Nafnbótina fær þó undanúrslitaleikur enska bikarsins, þó okkur hafi ekki tekist að fylgja honum eftir. Við fórum á Wembley fyrr á árinu og mættu Tottenham í deildinni. Það kvöldið lögðumst við á bakið eins og hvolpar og fengum hýðingu ólíkt nokkru sem ég man eftir. Þeirri kvöl var ágætlega svarað á stóra sviðinu nokkrum mánuðum síðar í prýðilegum leik.
Gleðipinninn Dele Alli kom Tottenham yfir snemma leiks áður en Alexis Sánchez sýndi sjaldséða takta til að jafna metin. Minn uppáhalds United-maður, Ander Herrera, tryggði svo afar, afar sætan sigur til að halda draumnum um bikar lifandi. Sá draumur rættist ekki en undanúrslitaleikurinn bauð upp á eina af fáum frammistöðum tímabilsins sem virkilega kveiktu einhvern vonar neista. Það býr eitthvað í þessu liði, það þarf bara að sýna það oftar.
Runólfur
2-1 gegn Liverpool á Old Trafford eða 3-2 gegn Manchester City á Emptyhad.
Tryggvi
Sigurinn á City.
Vonbrigði ársins
Maggi
Spilamennskan / sóknarleikurinn
Frikki
Þó að vissulega hafi nokkrir leikir verið gríðarleg vonbrigði eins og að falla úr leik í meistaradeildinni gegn Sevilla og gegn Brighton í deildarbikarnum þá held ég að fyrir mitt leyti þá hafi innkoma Alexis Sanchez verið mestu vonbrigðin mín. Hann virkaði lengi vel eins og hann væri engan veginn í takti við aðra leikmenn, en hefur verið að koma til og var til að mynda frábært í derby-leiknum. Hann hefur ekki enn náð að verða þessi leikmaður hjá okkur sem vinnur leiki upp á eigin spýtur eins og hann var fyrir Arsenal en hef þó fulla trú á að hann slípist inn í liðið og verði gífurlega mikilvægur á næsta tímabili.
Bjössi
Sevilla leikirnir. Eins og ég sagði áðan, skelfilegt upplegg, vonlausir leikir, grátleg úrslit. Í öðru sæti: City á Old Trafford, var á staðnum og sá vonlausan leik í viðbjóðslegu veðri.
Embed from Getty Images
Halldór
Það væri hægt að segja WBA leikurinn strax á eftir sigrinum gegn Manchester City. En það verður bara að vera Sevilla. Öööögh, Sevilla.
Svo voru líka vonbrigði fyrir mig hvað Zlatan kom illa undan meiðslum. Ekki óvænt, vissulega, en vonbrigði samt.
Kristófer
Anthony Martial, Luke Shaw og þeir stuðningsmenn United sem ENN, í blindri trú á ágæti þeirra, kveinka sér yfir því að þessir félagar byrji ekki alla leiki, alltaf. Þetta eru sennilega sömu United-mennirnir sem eru enn í fýlu yfir því að Adnan Januzaj var seldur.
Martial og Shaw eru komnir á endastöð og þurfa að fara. Þeir eru svo sannarlega ekki einu leikmennirnir sem eru ekki nógu góðir, úr nógu er að taka þar. En við þessa tvo bundum við vissulega öll einhverjar vonir, þær eru nú úti. Þeir eru ekki nógu góðir, þessa umræðu þarf ekki að taka aftur.
Leikurinn gegn Sevilla var líka frekar slappur, en ég vil síður rifja þá vitleysu upp.
Runólfur
Hvernig liðið datt út úr Meistaradeild Evrópu og FA bikarnum.
Tryggvi
Að mínu mati er það bara það að hafa ekki náð að veita City neina alvöru samkeppni um þennan titil. Mjög slakt að heltast úr lestinni bara í október/nóvember. Miðað við hvernig City höndlar mótlæti er ég sannfærður um að við hefðum getað veitt þeim alvöru samkeppni hefðum við hangið lengur inni í titilbaráttunni.
Hvað viljið þið sjá gerast í leikmannamálum núna í sumar?
Maggi
Toby Alderweireld, Sergej Milinkovic-Savic, vinstri og hægri bakvörð, hægri kant og annan miðjumann.
Frikki
Fyrst og fremst þarf að stoppa upp í götin sem Carrick og Fellaini skilja eftir sig. Þar á eftir væri mikilvægt að finna sitthvorn bakvörðinn sem geta tekið við keflinu af Young og Valencia þegar að því kemur, Darmian og Shaw virðast bara ekki eiga nokkra leið inn í liðið. Hægri kantmaður er líka staða sem okkur vantar að fylla, Juan Mata er frábær leikmaður gegn liðum sem sitja djúpt og ætla að verjast 95% af leiknum en okkur vantar fjölbreytni þar, helst einhvern öskufljótan sem sækir frekar upp kantinn en inn á völlinn og er með eitraðar fyrirgjafir fyrir Belgann okkar. Miðvörður gæti verið staða sem við þyrftum að fylla í, en ég hef samt góða trú á Bailly og Lindelöf ennþá og þá Smalling með þeim. Jones og Rojo virðast ekki eiga leið í byrjunarliðið.
Bjössi
Reyndan miðvörð, tvo sterka bakverði, tvo miðjumenn og hægri kant í toppklassa. Ég bið um mikið, en þetta er þa sem þarf til að liðði verði almennilegt.Ef ekki verður keypti í allar þessar stöður núna má búast við að þær verði á listanum mínum í uppgjöri næsta tímabils, og þá með verkefni fyrir næsta stjóra.
Fred virðist á leiðinni í vikunni og er styrking á miðjunni, kannske ekki mest spennandi kosturinn samt. Toby Alderweireld væru góð kaup, og með bakverði verður bara að koma í ljós hvað gerist, en ég efast um að Diogo Dalot sé maður sem kastar Ashley Young útúr liðinu strax í haust.
Halldór
Sergej Milinković-Savić! Ekkert myndi gleðja mig meira í þessum sumarglugga en að sjá þann frábæra leikmann koma til Manchester United. Er þó bara mátulega bjartsýnn á það eins og er. Þrátt fyrir að hann hafi verið orðaður töluvert við United þá hef ég lengi haft á tilfinningunni að hann endi annars staðar. En þessi leikmaður á alveg örugglega eftir að verða stórt nafn í boltanum á næstu árum. Ég er sannfærður um að hann muni enda hjá stóru félagi og hjálpa því félagi að vinna stærstu titlana. Þess vegna vil ég sjá hann koma til United.
Embed from Getty Images
En af því sem er líklegra að gerast þá hljómar Fred eins og áhugaverð kaup. Tveir bakverðir, miðvörður á borð við Toby Alderveireld og svo annar miðjumaður til. Því meira sem Alex Sandro er orðaður við okkar menn, því spenntari verð ég fyrir þeirri hugmynd. Síðan er spurning hverjir fara, hvort það þurfi jafnvel að finna annan varamarkmann eða eitthvað svoleiðis. Það kemur þá bara í ljós.
Kristófer
Hreinsa út þá sem eru einskis nýtir. Matteo Darmain, Daley Blind, Marcos Rojo og Phil Jones eru dæmi þar um. Fyrrnefndir tveir þyrftu helst að róa á önnur mið líka og maður veltir því fyrir sér hvort maður eins og Juan Mata geti í raun gengt veigamiklu hlutverki í liðinu.
Fyrir mér er aðalatriðið í raun hverjir fara. Þetta er svo skrítinn og illa samsettur leikmannahópur að það hálfa væri nóg. Auðvitað þarf svo að bæta einhverju við; hægri bakvörð, miðjumanni, sennilega örfættum sóknarmanni líka.
Runólfur
Nýja bakverði og fleiri miðjumenn.
Tryggvi
Mér finnst nokkuð augljóst að vörnin þarfnast endurnýjunar. Það gengur ekki að leik eftir leik sé varnarlínan skipuð af leikmönnum sem Sir Alex keypti. Við erum með uppgjafa og fremur aldna kantmenn í bakvarðarstöðunum og þessar tvær stöður þarf að endurnýja. Miðvarðarstaðan okkar öskrar á einn alvöru leiðtoga sem getur skipulagt vörnina.
Við þurfum miðjumann í stað Carrick og líklega í stað Fellaini þannig að þarna eru komnir tveir. Einn leikmaður sem getur veitt Pogba aðeins meira frelsi væri vel þeginn og hinn miðjumaðurinn má þá vera aðeins meira skapandi enda algjör vöntun á sköpunarkrafti í hópnum.
Þá vantar okkur einhvern á hægri kantinn enda lítil sem enginn breidd þar. Það væri gaman að sjá einhvern alvöru old-school kantmann þar sem getur flengt boltanum fyrir af kantinum á Lukaku.
Við þurfum einhverja 5-6 leikmenn en það verður dýrt, endum vonandi með 4 hið minnsta.
Spá og kröfur fyrir næsta ár
Maggi
Vil sjá liðið bæta sig um 5-10 stig í deildinni. Vinna bikarinn. Undanúrslit í meistaradeildinni. Alla leið í
deildarbikarnum ef Mourinho ætlar sér að nota aðalliðið en ef ekki þá er mér nánast alveg sama.
Frikki
Manchester City mun ekki endurtaka leikinn frá því á þessu tímabili, það er að segja að valta yfir deildina. Ég tel að þrjú lið verði í toppbaráttunni á næsta tímabili, City, United og Liverpool. Tottenham verða nálægt þessum pakka en Chelsea er óskrifað blað sem stendur. Þeir gætu fengið inn Sarri frá Napoli og keypt stórkostlega leikmenn og verið í toppbaráttunni en þeir gætu líka lent í því að missa Hazard og/eða Courtois og þá verða þeir í sömu málum og Arsenal, þ.e.a.s. að berjast um evrópudeildarsæti.
Ég geri þá kröfu að Mourinho byrji næsta tímabil af sama krafti og þetta, við sjáum aftur leikgleðina meðal leikmanna sem ríkti þegar liðið var að skora 4 mörk í leik, Pogba þarf að ná stöðugleika og United þarf að kaupa rétt inn í sumar. Draumurinn væri að fá tvo bakverði og einn miðvörð, tvo miðjumenn og að lokum hægri kantmann eða finna leið til að geta spilað Martial og Rashford oftar.
Auðvitað vil ég líka sjá United spila skemmilegan bolta, en það virðist alveg hafa farið framhjá mörgum fótboltaáhugamönnum að United sýndi flottan bolta inn á milli en svo komu líka leikir sem voru eins og að horfa á málningu þorna. Ég vil sjá stjórann okkar halda leikgleði leikmanna uppi líkt og í fyrra þó að vitaskuld sé José Mourinho þekktari fyrir það að spila varnarsinnaðan bolta. Svo lengi sem hann heldur leikmönnunum okkar við efnið og kemur í veg fyrir svona andleysi eins og sást oft á tíðum á þessu tímabili þá held ég að árangurinn láti ekki á sér standa.
Bjössi
Í fyrra sagði ég „Englandsmeistarar. Fjórðungsúrslit í meistaradeildinni. Og mun betri spilamennska. Allt minna og Mourinho fer.“
Ekkert af þessu rættist. Því fyrsta reyndar var slátrað af City án þess að hægt væri að kvarta alltof mikið. EIns og tímabilið þróaðist fór ég samt aldrei á Mourinho out vagninn, var fljótlega búinn að sætta mig við að hann færi ekki sama hvað ég tuðaði.
Í dag verð ég að segja: Barátta um titilinn fram á næstsíðasta dag í versta falli. Fjórðungsúrslit í meistaradeildinni. Og mun betri spilamennska. Allt minna og Mourinho fer.“
Ein af ástæðunum fyrir að Mourinho er traustur í sessi er að það er ekki augljóst hver ætti að taka við. Ef allt fer í steik á næsta tímabili verður vonandi eitthvað meira af valkostum, en í millitíðinni ætla ég að treysta honum til að kaupa leikmenn sem geta nýst lengur en eitt tímabili, þannig að ekki meira en helmingur sumarkaupanna verði á þessum drauma aldri hans, 29 ára.
Halldór
Einfaldar kröfur: spila betur. Ekki vera dottið úr baráttunni um Englandsmeistaratitilinn í desember. Ekki hrynja veiklulega úr Meistaradeildinni. Fækka andlausum frammistöðum.
Mín spá er að Mourinho finni leið til að láta liðið spila betur.
Kristófer
Að við gerum betur. Liðið verður að komast nær því að keppast um úrvalsdeildina og Meistaradeildina, allt annað væri áfall.
Við endum aftur í 2. sæti á næsta tímabili, þó nær toppnum en áður. Eitthvað spænskt lið gerir okkur svo skráveifu í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu. Framfarir.
Runólfur
Spáin og kröfurnar eru þær sömu. United verður að gefa City almennilega titilbaráttu. Fara lengra í meistaradeildinni og vinna bikar.
Tryggvi
Sama og alltaf. Vera í titilbaráttu fram á síðasta dag og komast eins langt og hægt er í Meistaradeildinni. Ef Mourinho fær aðeins meiri gæði inn í hópinn og leggur örlítið meiri áherslu á sóknarleik ætti United alveg að geta staðið undir þessum kröfum.
SHS says
Ehemm, mæli með að þið kíkið á myndbandið með markinu hans Matic…