Það er verulega ánægjulegt að fá loksins tækifæri til að fjalla almennilega um kvennalið Manchester United. Stjórnarmenn áttuðu sig auðvitað á því að lokum hvað það væri glatað að félag eins og Manchester United væri án kvennaliðs og skráðu það því til leiks fyrir komandi tímabil. Liðið mun hefja leik í næst efstu deild auk þess að taka þátt í bikarkeppnum.
Þann 1. ágúst verður leikjaniðurröðun tilkynnt fyrir komandi tímabil í deildinni. Keppni hefst svo í efstu tveimur deildunum helgina 8.-9. september. Liðið verður þó byrjað að spila fyrir það því riðlakeppnin í Continental Cup deildarbikarnum hefst 18.-19. ágúst.
Þjálfarateymið og liðið
Þegar kemur að ráðningamálum hefur kvennalið Manchester United verið mun öflugra á markaðnum en karlaliðið þetta sumarið. Enda ekki óeðlilegt þar sem félagið þurfti að fá inn heilt þjálfarateymi auk þess að fá inn heilan leikmannahóp. Félagið virðist hafa ákveðinn metnað og skýra stefnu í gangi í þessum málum og er gaman að sjá það.
Þjálfararnir
Þegar kom að því að setja saman þjálfarateymi var leitað í ákveðna reynslu og karaktera. Þjálfarateymið lítur svona út:
Knattspyrnustjóri: Casey Stoney
Casey Stoney er nýbúin að leggja skóna á hilluna eftir farsælan 19 ára feril sem leikmaður í fremstu röð. Þessi 36 ára gamli varnarjaxl hóf sinn feril með Arsenal árið 1999, spilaði með Charlton Athletic frá 2002 til 2007, Chelsea frá 2007 til 2011, Lincoln frá 2011 til 2013, fór þá aftur til Arsenal og spilaði þar til 2016 þegar hún kláraði ferilinn með 2 tímabilum hjá Liverpool. Á þessum ferli vann hún deildina tvisvar, enska bikarinn fjórum sinnum og deildarbikarinn fjórum sinnum.
Stoney var fyrirliði enska landsliðsins um árabil og spilaði 130 landsleiki á 17 ára landsliðsferli. Hún tók meðal annars þátt í þremur heimsmeistaramótum og fjórum Evrópumeistaramótum. Hún var líka fyrirliði Bretlands á Ólympíuleikunum í London árið 2012. Þegar Stoney ákvað að hætta að spila fótbolta, í febrúar á þessu ári, var hún ráðin inn í þjálfarateymi Phil Neville hjá enska kvennalandsliðinu.
Þrátt fyrir að svona stutt sé síðan Stoney hætti að spila fótbolta er hún alls enginn nýgræðingur þegar kemur að knattspyrnuþjálfun. Hún var spilandi knattspyrnustjóri hjá Chelsea seinni hluta tímabilsins 2008-09. Hún hefur líka sinnt þjálfun hjá félögum sem hún hefur spilað með, þannig sá hún um þjálfun hjá afrekshópi U12-liðs Arsenal, þjálfaði í U17 hópi Lincoln City, U18 hjá Chelsea og var aðstoðarþjálfari unglingastarfs hjá Charlton Athletic. Að auki vann hún í 2 ár við þjálfun í knattspyrnuskóla David Beckham í London.
Inspirational words from @CaseyStoney. #MUFC pic.twitter.com/RhtQRIajlG
— Manchester United (@ManUtd) June 8, 2018
Aðstoðarþjálfari: Willie Kirk
Willie Kirk er ungur af þjálfara að vera, aðeins um fertugt, en þó með töluverða reynslu af þjálfun. Hann hóf sinn þjálfaraferil hjá Livingston í Skotlandi þar sem hann sá um þjálfun hjá yngri liðum félagsins. Hann færði sig svo yfir til Hibernian, upphaflega sem yngriflokkaþjálfari en var fljótlega ráðinn sem aðalþjálfari kvennaliðs félagsins.
Undir hans stjórn vann Hibernian skoska bikarinn á hans fyrsta tímabili, deildarbikarinn tímabilið á eftir og tveimur árum eftir það endaði liðið í 2. sæti deildarinnar og Kirk var valinn þjálfari ársins í skosku kvennaknattspyrnunni.
Hann hætti hjá Hibernian árið 2014 og var þá ráðinn inn í skoska knattspyrnusambandið í þjálfarastöðu þar (nánar tiltekið High Performance Football Manager, hvernig sem það er svo þýtt yfir á íslenskuna). Eftir eitt ár í þeirri stöðu var hann ráðinn sem yfirþjálfari hjá kvennaliði Bristol City.
Bristol City var þá í næst efstu deildinni á Englandi. Á fyrsta ári með félagið kom Kirk því upp í efstu deildina þar sem það hefur spilað í tvö tímabil síðan, í bæði skiptin endað í 8. sætinu. Willie Kirk ákvað svo í vor að hætta sem þjálfari liðsins og leita á önnur mið, þrátt fyrir að Bristol City hafi viljað halda honum og boðið honum nýjan samning.
Markvarðaþjálfari: Ian Willcock
Markvarðaþjálfarinn Ian Willcock verður fertugur eftir mánuð (27. ágúst). Hann er sjúkraþjálfari að mennt og hefur starfað sem slíkur en einnig unnið sem markvarðaþjálfari frá 2003.
Hann hefur m.a. unnið sem markvarðaþjálfari hjá Carlisle United, Bury, Accrington Stanley, Rochdale og Barnsley.
Frammistöðuþjálfari (e. Performance Coach): Elle Turner
Elle Turner er með doktorsgráðu í íþróttafræði. Síðustu 5 ár hefur hún starfað sem íþróttafræðingur hjá Manchester City og átt stóran þátt í þeirri byltingu sem hefur átt sér stað hjá kvennaliði Manchester City á þeim tíma. Þegar hún byrjaði hjá Manchester City var liðið miðlungslið sem var nýkomið í efstu deild, núna er það topplið sem er líklegt til árangurs í öllum keppnum.
Leikmenn
Leikmannahópurinn sem kemur inn í liðið virkar eins og góð blanda af reynslumeiri leikmönnum og svo yngri og efnilegri leikmönnum. Sérstaka og ánægjulega athygli vekur að félagið leitar töluvert í yngri leikmenn sem æfðu með Manchester United í yngri flokkum, áður en þeir þurftu að yfirgefa félagið til að fá einhvers staðar að spila með aðalliði. Það er gaman að sjá þessa leikmenn koma heim aftur.
Leikmannahópurinn lítur svona út.
Markverðir:
- #1 – Siobhan Chamberlain
Fæðingardagur: 15. ágúst 1983
Kemur frá: Liverpool Ladies
Byrjaði að spila með Chelsea Ladies og hefur spilað í meistaraflokki síðan 1999. Fyrir utan Chelsea Ladies hefur hún spilað með Fulham Ladies, Birmingham City Ladies, Bristol Academy, Vancouer Whitecaps, Arsenal Ladies, Notts County Ladies og nú síðast Liverpool Ladies.
Chamberlain hefur einnig spilað fyrir enska landsliðið. Hún spilaði með yngri landsliðum Englands og fyrsti A-landsleikurinn kom gegn Hollandi í september 2004. Fyrr á þessu ári spilaði hún sinn 50. A-landsleik.
- #13 – Emily Ramsey
Fæðingardagur: 16. nóvember 2000
Kemur frá: Liverpool Ladies
Emily Ramsey er einn af þessum leikmönnum sem er að snúa aftur í uppeldisfélagið sitt. Hún kom inn í yngra starfið hjá Manchester United þegar hún var aðeins 9 ára gömul og var þar í fremstu röð allt þar til hún þurfti að hætta hjá félaginu 16 ára gömul, vegna þess að það var ekkert meira sem United gat boðið henni á þeim tíma.
Ramsey var ekki sátt með það og lét þá skoðun sína í ljós í fjölmiðlum. Meðal annars kom viðtal við hana í Morning Star í október 2016 þar sem hún sagðist vonast til þess að aukinn árangur og metnaður Manchester City hvað kvennalið sitt snerti myndi kveikja í svipuðum metnaði hjá Manchester United. Hún fór svo til Liverpool Ladies þegar hún varð 16 ára en er nú aftur komin til Manchester United.
Emily Ramsey hefur spilað með yngri landsliðum Englands og er hluti af leikmannahópi U20 ára liðs Englands sem fer á HM U20 í Frakklandi í ágúst.
- #22 – Fran Bentley
Fæðingardagur: 26. júní 2001
Kemur frá: Manchester City W.F.C.
Francesca Bentley, oftast kölluð Fran, er annar ungur og efnilegur markvörður sem var í unglingastarfinu hjá Manchester United. Bentley kom fyrst til Manchester United árið 2011 frá Hartford FC og var ávallt í fremstu röð í sínum aldursflokki.
Líkt og Ramsay hefur Bentley gert það gott með yngri landsliðum Englands og hefur síðustu ár verið aðalmarkvörður í U16 og U17 liðum Englands.
Vörn:
- #2 – Martha Harris
Fæðingardagur: 19. ágúst 1994
Kemur frá: Liverpool Ladies
Martha Harris er einn af 7 leikmönnum sem fylgdu þjálfaranum Casey Stoney frá Liverpool. Harris er bakvörður sem getur spilað á hvorum kantinum sem er. Hún kom upp hjá Lincoln Ladies (sem seinna varð að Notts County Ladies) en fór svo yfir til Liverpool árið 2014. Hún hefur verið valinn leikmaður ársins bæði hjá Lincoln og hjá Liverpool, auk þess sem hún var fyrsti leikmaðurinn til að vera valinn efnilegasti leikmaðurinn í kvennafótboltanum af ensku leikmannasamtökunum. Þau verðlaun hlaut hún árið 2014.
Harris á ekki A-landsleik fyrir England en hefur í gegnum tíðina spilað stóra rullu með yngri landsliðum Englands. Hún fór með U19-landsliðinu til Wales árið 2013 þar sem England endaði í 2. sæti á Evrópumóti U19 kvennalandsliða. Árið 2014 fór hún svo með U20-landsliðinu til Kanada til að taka þátt í HM U20. Þar skoraði hún mark í fyrsta leiknum, gegn Suður-Kóreu. Hún á einnig leiki með U23-landsliði Englands.
- #3 – Alex Greenwood (fyrirliði liðsins)
Fæðingardagur: 7. september 1993
Kemur frá: Liverpool Ladies
Alex Greenwood verður fyrirliði liðsins. Hún kemur líka til liðsins frá Liverpool. Greenwood hóf sinn knattspyrnuferil með Everton, eftir að hafa verið í yngra starfi félagsins frá 8 ára aldri. hún spilaði með Everton í 4 ár, tók svo 1 ár með Notts County og 2 tímabil með Liverpool áður en hún gekk til liðs við Manchester United.
Greenwood spilar oftast sem vinstri bakvörður en getur líka vel leyst miðvarðastöðuna. Árið 2012 var hún valinn efnilegasti leikmaðurinn í enskum kvennafótbolta af enska knattspyrnusambandinu.
Alex Greenwood á leiki með U17, U19 og U23 landsliðum Englands og var m.a. fyrirliði yngri landsliðanna. Hún hefur síðan 2014 spilað með A-landsliðinu og var yngsti leikmaðurinn í hópnum sem fór á HM í Kanada 2015 og náði þar í bronsverðlaun. Hún spilaði í 3 leikjum á mótinu, þ.á m. í leiknum um bronsið
- # 4 – Amy Turner
Fæðingardagur: 4. júlíl 1991
Kemur frá: Liverpool Ladies
Amy Turner kemur líka frá Liverpool Ladies. Þessi reynslubolti er miðvörður að upplagi en getur líka spilað í báðum bakvarðarstöðunum. Hún kom upp í gegnum yngra starfið hjá Sheffield Wednesday og Sheffield United. Hún kom inn í aðalliðið hjá Doncaster Rovers Belles árið 2007. Hún hefur að auki spilað með Leeds United, Sheffield og Notts County, auk þess að spila með Hofstra Pride háskólaliðinu í Bandaríkjunum.
Amy Turner gekk í raðir Liverpool Ladies í maí 2017 en náði ekki að spila mikið með liðinu vegna meiðsla. Í janúar á þessu ári spilaði hún sinn fyrsta leik í rúmlega ár eftir erfið meiðsli. Í mars þurfti hún svo að fara í smávegis aðgerð á hné sem styttu tímabilið hennar enn meira. Það er því spurning hvernig tekst til hjá henni að halda sér meiðslalausri. En ef hún nær að haldast heil þá er þetta hörkuleikmaður.
Turner á nokkra leiki með U23 landsliði Englands og 4 leiki með A-landsliðinu. Ef hún hefði ekki lent í þessum slæmu meiðslum má telja nokkuð öruggt að hún hefði fengið séns á að gera aðra miðvarðastöðuna í landsliðinu að sinni.
- #12 – Naomi Hartley
Fæðingardagur: 12. janúar 2001
Kemur frá: Liverpool Ladies
Naomi Hartley er bæði í hópi leikmanna sem er að koma aftur til Manchester United eftir að hafa verið hjá félaginu í yngri flokkum og líka ein þeirra sem kemur frá Liverpool Ladies. Hartley kemur þó upphaflega frá Burnley. Hún byrjaði að spila fótbolta með Burnley Ladies og Blackburn Ladies áður en Manchester United uppgötvaði hana og bauð henni að koma og æfa með félaginu.
Hartley er efnilegur miðvörður og mikill leiðtogi inni á vellinum. Þannig hefur hún verið fyrirliði U17-landsliðs Englands.
- #15 – Lucy Roberts
Fæðingardagur: 11. maí 2001
Kemur frá: Liverpool Ladies
Lucy Roberts kemur sömu leið og Naomi Hartley, í gegnum yngri flokka hjá United og svo núna frá Liverpool Ladies. Þær eru líka samherjar í U17-landsliði Englands, enda báðar fæddar 2001. Hún þykir mjög metnaðarfull og efnileg.
Hún hefur líka Manchester United í blóðinu, langalangafi hennar var Charlie Roberts sem var fyrirliði Manchester United á árunum 1905 til 1913. Hann náði því að vera fyrsti fyrirliði félagsins sem lyfti enska bikarnum auk þess að lyfta tveimur fyrstu deildartitlum félagsins. Þar að auki leiddi hann liðið út á völlinn þegar Manchester United spilaði sinn fyrsta leik á Old Trafford. Hann átti líka stóran þátt, á samt þáverandi stjörnu liðsins Billy Meredith, í að stofna ensku leikmannasamtökin.
- #20 – Kirsty Smith
Fæðingardagur: 6. janúar 1994
Kemur frá: Hibernian
Kirsty Smith kemur frá Skotlandi, þar sem hún spilaði með Hibernian frá 2007 til 2018. Smith er fjölhæfur og snöggur bakvörður sem getur spilað bakvarðarstöðuna á hvorum kantinum sem er.
Smith hefur spilað með A-landsliði Skotlands síðan 2014. Hún spilaði m.a. 7 leiki í undankeppninni fyrir EM í Hollandi 2017, þar á meðal báða leikina gegn íslenska landsliðinu. Að auki á hún leiki fyrir bæði U17 og U19 landslið Skotlands.
Miðja:
- #6 – Aimee Palmer
Fæðingardagur: 25. júlí 2000
Kemur frá: Bristol City
Aimee Palmer er ekki ein þeirra sem kemur úr unglingastarfi Manchester United heldur kemur hún frá Bristol City þar sem hún vann sig inn í aðalliðið vorið 2017. Hún er afturliggjandi miðjumaður með öfluga sendingargetu.
Hún er reynslumikil með yngri landsliðum Englands og skoraði meðal annars í sínum fyrsta leik með U19 landsliðinu. hefur verið að banka á dyrnar á U20 landsliðinu.
- #8 – Mollie Green
Fæðingardagur: 4. ágúst 1997
Kemur frá: Everton Ladies
Samkvæmt þjálfaranum Casey Stoney var Mollie Green einn af fyrstu leikmönnunum sem hún fékk til liðsins. Green spilaði eitt tímabil með Everton en hafði áður spilað 3 tímabil með Liverpool.
Samkvæmt Stoney er Green orkumikill miðjumaður með góða tækni, góðan karakter og góður liðsfélagi í hóp. Einn af þessum miðjumönnum sem geta breytt leikjum. Það er spurning hvort þessi orð þýði að hún sé hugsuð sem öflugur squadplayer en eins og við vitum öll er nauðsynlegt að hafa svoleiðis týpur. Það gæti þó verið að ég væri að oflesa í orðin og kannski sér Stoney hana meira fyrir sér sem fastamanneskju í byrjunarliðinu.
Green á 5 leiki með U19-landsliði Englands.
- #10 – Katie Zelem
Fæðingardagur: 22. janúar 1996
Kemur frá: Juventus
Katie Zelem er frá Oldham og hóf að æfa knattspyrnu 6 ára gömul. Hún byrjaði svo að æfa með Manchester United 8 ára gömul. Hún æfði hjá United í gegnum yngri flokkana en þurfti svo að færa sig yfir til Liverpool Ladies þegar hún komst ekki lengra hjá United. Þar spilaði hún frá 2013 til 2017, þegar hún gekk til liðs við Juventus. Með Juventus varð hún ítalskur deildarmeistari á síðasta tímabili en er nú aftur komin heim til Manchester United.
Zelem er sóknarsinnaður miðjumaður, ekta tía. Jafnfætt og flink, með auga fyrir sendingum og nef fyrir markaskorun en líka mikla vinnusemi.
Zelem hefur spilað með yngri landsliðum Englands frá 2010, allt frá U15 og upp í U23. Hún á enn eftir að spila fyrsta A-landsleikinn en stefnir væntanlega á að ná honum fyrr en síðar.
- #14 – Charlie Devlin
Fæðingardagur: 23. febrúar 1998
Kemur frá: Millwall Lionesses
Charlotte Devlin, betur þekkt sem Charlie, kemur til liðsins frá Millwall Lionesses sem einnig spilar í næst efstu deild. Hún hafði áður spilað fyrir Arsenal og kom upp í gegnum unglingastarfið hjá Arsenal.
Devlin þykir tæknilega fær, sóknarsinnaður miðjumaður sem að auki skorar töluvert. Þannig var hún 5. markahæst í næst efstu deildinni á síðasta tímabili, með 9 mörk í 18 leikjum.
Devlin hefur spilað töluvert með yngri landsliðum Englands.
- #16 – Lauren James
Fæðingardagur: 29. september 2001
Kemur frá: Arsenal
Lauren James er yngsti leikmaðurinn í hópnum, ennþá aðeins 16 ára gömul. Hún kom upp í gegnum yngriflokkastarf Arsenal. Hún spilaði sinn fyrsta leik með aðalliði Arsenal í september 2017 og tók þátt í 5 deildarleikjum liðsins á síðasta tímabili.
Lauren James er efnilegur miðjumaður með góða sendingargetu.
Hún hefur spilað 6 leiki með U17-landsliði Englands. Hún bar fyrirliðabandið í leik gegn Lettlandi í október 2017 í undankeppni EM U17 og skoraði í þeim leik 4 mörk. Alls hefur hún skorað 6 mörk fyrir U17-landsliðið.
- #17 – Lizzie Arnot
Fæðingardagur: 1. mars 1996
Kemur frá: Hibernian
Elizabeth Lizzie Arnot er annar af tveimur leikmönnum sem koma til liðsins frá Hibernian. Hún byrjaði að æfa fótbolta með Edinburgh City og færði sig þaðan yfir til Hutchinson Vale, þar sem hún fékk fyrst séns með aðalliði árið 2011. Hún færði sig yfir til Hibernian árið 2012 og spilaði þar meðal annars undir stjórn Willie Kirk. Hún lenti þó í erfiðum krossbandameiðslum sem héldu henni frá fótbolta í ár en kom aftur til baka eftir meiðsli á þessu ári og vann sig meðal annars inn í skoska landsliðið.
Lizzie Arnot er kantmaður með mikinn hraða, góð að bera boltann upp völlinn og góð í 1-á-1 stöðu. Ef meiðslin há henni ekki þá gæti þetta orðið leikmaður sem kemur með mikla skemmtun inn í liðið og hættu fyrir andstæðinginn.
Lizzie hefur spilað 6 A-landsleiki fyrir Skotland.
- #21 – Millie Turner
Fæðingardagur: 7. júlí 1996
Kemur frá: Bristol City
Millie Turner er einn af leikmönnunum sem snýr nú aftur til Manchester United, eftir að hafa verið í yngri flokkunum. Millie æfði með Manchester United til 2013 þegar hún fór til Everton. Bristol City fékk hana til sín fyrir síðasta tímabil og gerði hana strax að fyrirliða liðsins.
Turner er varnarsinnaður miðjumaður sem hefur líka reynslu af því að spila í vörninni. Hún verst vel en er líka örugg á boltanum.
Hún hefur spilað í gegnum yngri landslið Englands, nú síðast hefur hún verið fastamaður í U23-landsliðinu.
Sókn:
- #7 – Ella Toone
Fæðingardagur: 2. september 1999
Kemur frá: Manchester City
Ella Toone kemur frá Tyldesley sem er ekki langt frá Manchesterborg. Hún æfði með yngri flokkum Manchester United en færði sig yfir til Blackburn Rovers þegar fór að líða að því að hún kæmist í aðallið. Þaðan fór hún til Manchester City árið 2016 og spilaði 2 tímabil með þeim. Alls tók hún þátt í 7 leikjum með Manchester City.
Toone getur spilað hvar sem er í fremstu línunni, hvort sem er á vængnum eða sem fremsti leikmaður.
Hún á 17 leiki með U17 og U19 landsliðum Englands og hefur skorað í þeim 9 mörk. Hún var í undirbúningshóp U20 landsliðsins fyrir HM í ágúst en missti af því að komast í lokahópinn vegna meiðsla.
- #9 – Jess Sigsworth
Fæðingardagur: 13. október 1994
Kemur frá: Doncaster Rovers Belles
Jessica Jess Sigsworth er frá Doncaster og kemur til Manchester United frá Doncaster Rovers Belles. Þar spilaði hún frá 2011, ef frá er talið stutt stopp hjá Notts County árið 2015.
Sigsworth vann næst efstu deildina með Doncaster Rovers Belles á síðasta tímabili, þar sem hún var markahæst í deildinni og skoraði 15 af 52 mörkum liðsins. Sigsworth er markaskorari í gegn, snögg og áræðin og mun án efa koma til með að hrella varnarmenn deildarinnar áfram á þessu tímabili.
Hún á leiki með U17, U19, U20 og U23 landsliðum Englands.
- #11 – Leah Galton
Fæðingardagur: 24. maí 1994
Kemur frá: Bayern München
Leah Galton er frá Harrogate í North Yorkshire. Hún spilaði með nokkrum staðarfélögum á yngri árum en kom svo upp í gegnum Leeds United og spilaði með aðalliði félagsins til 2012. Þá hélt hún til Bandaríkjanna og spilaði í háskólaboltanum með Hofstra Pride á árunum 2012 til 2015. Eftir það spilaði hún með Sky Blue FC í bandarísku atvinnumannadeildinni 2016 til 2017. Í desember 2017 samdi hún við stórliðið Bayern München í Þýskalandi en aðeins þremur mánuðum síðar tilkynnti hún að hún væri hætt að spila fótbolta. Hún hætti svo við að hætta og samdi við Manchester United.
Eins og treyjunúmerið gefur til kynna er Galton örvfætt og spilar á kantinum. Áræðin og sóknarsinnuð, með eitraðar vinstrifótarspyrnur.
Galton á leiki með U17 og U23 landsliðum Englands. Árið 2016 var hún boðuð á æfingar með A-landsliðinu en þurfti að draga sig úr hópnum vegna mjaðmameiðsla.
- #18 – Kirsty Hanson
Fæðingardagur: 17. apríl 1998
Kemur frá: Doncaster Rovers Belles
Kirsty Hanson er þriðji skoski leikmaðurinn í hópnum en hún kemur ekki til liðsins beint frá Skotlandi heldur frá Doncaster Rovers Belles, líkt og Jess Sigsworth. Hanson á það sömuleiðis sameiginlegt með Sigsworth að hafa verið dugleg við markaskorun á síðasta tímabili. Hanson skoraði 11 mörk í deildinni og var í 3.-4. sæti yfir markahæstu leikmenn deildarinnar.
Kirsty Hanson getur spilað á hvorum kantinum sem er og getur leikið varnir grátt með hraða sínum og tækni.
Hún á þó nokkra leiki að baki með yngri landsliðum Skotlands.
- #19 – Ebony Salmon
Fæðingardagur: 27. janúar 2001
Kemur frá: Aston Villa Ladies
Ebony Salmon kom upp í gegnum unglingastarfið hjá Aston Villa og byrjaði að spila með þeim á síðasta tímabili. Salmon er snöggur framherji með hæfileikann til að skora mikið af mörkum.
Salmon hefur spilað með yngri landsliðum og m.a. verið fyrirliði hjá U17-landsliði Englands.
7 of our new signings have previously played for the club at Youth level. They are: @katiezel @emilyramsey_13 @nom_hartley5 @franbentleyy @MillieTurner_ @KirstyHanson3 @ellatoone99 #MUWomen #Mufc pic.twitter.com/4QDxb4y4B5
— Manchester United ladies (@ManUtdLadiesFC) July 16, 2018
Heimavöllurinn
Liðið kemur til með að spila sína heimaleiki á Leigh Sports Village vellinum. Þar spila líka U23 og U18 karlaliðin sína leiki. Að auki spilar ruðningsliðið Leigh Centurions einnig sína heimaleiki í Championship deildinni á þessum velli.
Íþróttasvæðið í Leigh opnaði í lok desember árið 2008 og þarna er bæðin utan- og innanhússaðstæða fyrir hinar ýmsu íþróttir. Manchester United hefur nýtt sér aðstöðuna þarna frá 2014. Á leikvanginum sjálfum er pláss fyrir 12.000 áhorfendur og spilað er á Deso GrassMaster blendingsgrasi.
Liðið mun æfa á The Cliff, vel þekktu æfingasvæði í sögu Manchester United.
Deildin og andstæðingarnir
Deildin sem Manchester United Women Football Club, eða Manchester United W.F.C., kemur til með að spila í heitir núna FA Women’s Championship. Það er nýtt nafn á deildinni, frá 2014 og þar til núna hét deildin FA Women’s Super League 2. Efsta deildin mun þá heita FA Women’s Super League. Breytingarnar á nöfnum koma í kjölfarið á reglubreytingum þar sem enska knattspyrnusambandið gerir úrvalsdeildina í kvennafótboltanum að atvinnumannadeild.
Ellefu lið taka þátt í deildinni, líkt og í efstu deildinni. Síðustu tímabil hefur verið unnið að því að fjölga liðum í deildunum svo það hefur verið á reiki hversu mörg lið hafa unnið sig upp um deildir og hvernig. En það má reikna með að allavega eitt lið vinni sér inn sæti í efstu deild.
Andstæðingarnir í deildinni
Andstæðingar Manchester United W.F.C. á komandi tímabil verða:
- Aston Villa Ladies F.C.
Lið með langa sögu en það var stofnað árið 1973 og þá upphaflega undir nafninu Solihull FC. Þegar Aston Villa óskaði eftir hjálp við að stofna kvennalið þá svaraði Solihull kallinu. Árið 1996 samþykkti liðið svo að breyta nafninu í Aston Villa Ladies og verða opinbert kvennalið Aston Villa. Á síðasta tímabili endaði Aston Villa L.F.C. í 9. sæti af 10 liðum í WSL 2.
- Charlton Athletic Women’s F.C.
Liðið var stofnað árið 1991, undir nafninu Bromley Borough. 1994 til 2000 gekk það undir nafninu Croydon W.F.C. en eftir 2000 hefur það heitið Charlton Athletic W.F.C. Á árunum 2000 til 2007 var liðið eitt það sigursælasta í kvennaboltanum en eftir að karlalið Charlton Athletic féll úr úrvalsdeildinni vorið 2007 lenti félagið í fjárhagserfiðleikum sem urðu til þess að kvennaliðið var lagt niður innan félagsins. Það var réttilega gagnrýnt og náðu aðstandendur kvennaliðsins að halda áfram rekstri liðsins sjálfstætt en það bitnaði á árangrinum. Síðustu ár hefur liðið verið í neðri deildum. Á síðasta tímabili vann liðið suðurhluta C-deildarinnar (sem heitir því skemmtilega nafni FA Women’s Premier League South) og vann svo sigurvegara norðurhlutans í umspili um að komast upp í Championship deildina.
- Crystal Palace Ladies F.C.
Crystal Palace L.F.C. var stofnað árið 1992. Liðið spilaði í suðurhluta C-deildarinnar á síðasta tímabili og endaði þá í 3. sæti deildarinnar, 10 stigum neðar en Charlton Athletic W.F.C. Liðið ákvað þó að sækja um þátttökurétt í Championship deildinni með breyttum relgum. Upphaflega fékk Crystal Palace ekki það sæti sem liðið sótti um en þegar Doncaster Belles Rovers gaf eftir sæti sitt í Championship deildinni 12. júlí sl. var Crystal Palace boðið að taka það sæti, sem þær og þáðu.
- Durham Women F.C.
Durham er eitt af þessum yngri liðum, stofnað árið 2013. Á síðasta tímabili var það eina liðið í efstu deildum kvennaknattspyrnunnar sem stóð alveg sjálfstætt sem kvennalið og hafði aldrei tengst neinu karlaliði. Liðið hefur spilað í næst efstu deild frá stofnun og endað í 4. til 7. sæti á þeim tímabilum. Í fyrra endaði liðið í 4. sætinu, með 35 stig eftir 18 leiki.
- Leicester City Women F.C.
Kvennalið Leicester City var stofnað 2004. Liðið hefur aðallega verið að þvælast í neðri deildum frá stofnun. Það reyndi þó að sækja um að komast inn í Women’s Super League, eða efstu deildina í kvennaboltanum, þegar formið breyttist árið 2011. En þeirri umsókn var hafnað. Leicester City W.F.C. spilaði í norðurhluta C-deildarinnar á síðasta tímabili og endaði þar í 2. sætinu. En liðið sótti um að komast upp í Championship deildina og í þetta skiptið var umsóknin samþykkt.
- Lewes F.C. Women
Liðið var stofnað árið 2002 og er kvennalið knattspyrnufélagsins Lewes F.C. sem var upphaflega stofnað árið 1885. Karlalið félagsins spilar í Isthmian-deildinni, sem er deild í 7.-8. sæti deildarpíramídans í Englandi sem er fyrir hálfatvinnumannafélög í London, austurhluta Englands og suðausturhluta Englands. Kvennaliðið spilaði í suðurhluta C-deildar á síðasta tímabili og endaði þá í 5. sætinu. Umsókn liðsins um sæti í Championship deildinni var samþykkt. Á þessu ári setti Lewes F.C. svokallað Equality F.C. verkefni í gang sem snýst um að leikmenn í karla- og kvennaliði félagsins fái sömu laun fyrir að spila fótbolta.
- London Bees
London Bees var stofnað árið 1975, upphaflega undir nafninu District Line Ladies F.C. Seinna fékk liðið nafnið Wembley Ladies FC, svo Barnet FC Ladies áður en núverandi nafn var tekið upp árið 2014. Liðið tengist knattspyrnufélaginu Barnet FC og kemur frá norðvesturhluta Londonborgar. London Bees voru í WSL 2 á síðasta ári og enduðu í 6. sæti, með 23 stig í 18 leikjum.
- Millwall Lionesses Ladies F.C.
Elsta liðið í deildinni, Milwall Lionesses L.F.C. var stofnað árið 1972. Í efstu 2 deildunum er aðeins eitt lið sem er eldra en það. Millwall ljónynjurnar voru upphaflega alveg sjálfstæðar en á miðjum níunda áratugnum vildi Millwall FC endilega gera ljónynjurnar að hluta af sínu félagi, ekki síst til að sýnast víðsýnt félag en þá átti félagið mjög undir högg að sækja vegna orðspors um bulluskap og óþverrahátt. Kvennahlið félagsins hefur þó verið nokkuð blómleg síðan, sér í lagi þegar kemur að því að þróa yngri leikmenn. Ljónynjurnar hafa líka tvisvar unnið enska bikarinn, árið 1991 og aftur árið 1997. Millwall Lionesses L.F.C. var líka í næst efstu deild á síðasta tímabili og endaði þá í 3. sæti, með 36 stig eftir 18 leiki.
- Sheffield United Women F.C.
Kvennalið Sheffield United hét áður Sheffield United Ladies F.C. en breytti nafni sínu í Sheffield United Women F.C. á þessu ári til að endurspegla þær breytingar sem hafa orðið á yfirbragði kvennaknattspyrnunnar. Liðið spilaði á síðasta tímabili í East Midlands Regional Women’s Football League, sem er fimmta deildin. Liðið sótti svo um að komast í Championship deildina fyrir þetta tímabil og sú umsókn var samþykkt.
- Tottenham Hotspur Ladies F.C.
Liðið var stofnað árið 1985 undir nafninu Broxbourne Ladies. Tímabilið 1991-92 var nafninu breytt í Tottenham Hotspur L.F.C. Liðið hefur verið að spila í neðri deildum en tók þátt í WSL 2 í fyrsta skipti á síðasta tímabili. Þá endaði liðið í 7. sæti, með 22 stig eftir 18 leiki.
Verða leikirnir sýndir?
Það er stór og góð spurning. Það sem við vitum er að MUtv er farið að sýna heilmikið frá liðinu og ýmsu í kringum liðið. BT Sport er með réttinn til að sýna leiki í efstu deildinni en ég hef ekki séð neitt ennþá með Championship deildina. Ef einhver ykkar veit eitthvað þá má viðkomandi endilega henda þeim upplýsingum inn í komment hér fyrir neðan.
Við vonum að sjálfsögðu að sem flestir leikir verði sýndir í beinni á þessu tímabili. Í það minnsta munum við fylgjast vel með genginu og skrifa reglulega pistla um þróun mála.
Bjarni says
Frábær grein hjá þér. Hef trú á þeim kannski meiri trú en á karlaliðinu þessa stundina. Þeir þurfa að girða sig í brók og stjórinn líka á meðan gaman verður að fylgjast með uppbyggingu kvennaboltans hjá UTD.
Sigurjón Arthur says
Podkast frá Rauðudjöflunum um ástandið hjá karlaliðinu væri vel þegið ! Mér sýnist að jafnvel allra hörðustu stuðningsmenn Jose séu að missa trúna 🤔
Hjöri says
Líst vel á þetta, verður eflaust skemmtilegra að fylgjast með þeim, en karlaliðinu.
Stefan says
Mjög skemmtilegt !! Fá endilega sýnda leiki af þessu.
Karl Garðars says
Glæsileg kynning.
Greinilega háleit markmið þarna og verulega gaman að sjá svona ungt þjálfaralið. Við stöndum við bakið á þeim eins og við stöndum við bakið á okkar mönnum í gegnum súrt og salt.
Tek undir með podcastið en við förum nú ekki að míga undir við smá mótlæti. ;-) Stöndum með stjóranum.
Gummi says
Ég myndi standa með hvaða stjóra sem er í heiminum fyrir utan móra þetta er leiðinnlegasti þjálfarinn í boltanum í dag
Magnús Þór says
Það kemur nýr þáttur af Djöflavarpinu fyrir opnunarleikinn gegn Leicester. Meira get ég ekki gefið upp að svo stöddu.