Eftir alltof langa fjarveru er kvennalið Manchester United loksins snúið aftur á knattspyrnuvöllinn. Liðið fékk ansi erfiðan frumsýningarleik, gegn erkifjendunum í Liverpool sem spila í efstu deild. En þær stóðu sig frábærlega í leiknum og enduðu á að landa verðskulduðum 1-0 sigri.
Fyrir þau ykkar sem viljið frekari upplýsingar um kvennaliðið, leikmenn þess og þjálfarateymi þá má benda á þennan yfirlitspistil sem kom á síðuna um daginn.
Það er meira en að segja það að koma saman heilu liði á einu sumri og gera það tilbúið til að spila fótbolta. Casey Stoney og félagar höfðu því ærið verkefni fyrir höndum þegar þau tóku við þessu liði. Hún leitaði töluvert í sína fyrrum samherja hjá Liverpool, aðstoðarþjálfarinn Willie Kirk náði í tvær skoskar sem hann þekkti úr Hibernian og að auki var leitað mikið í unga leikmenn, þá helst leikmenn sem höfðu æft í yngri flokkum Manchester United.
Það var því temmileg bjartsýni fyrir þennan fyrsta leik, allavega hvað úrslit snerti. Það var augljóst að það væru hæfileikar og gæði í þessu liði en stundum þarf lengri tíma til að spila sig saman. Auk þess sem mótherjinn er nú einu sinni í efstu deild.
Stoney stillti upp sínu fyrsta byrjunarliði svona:
Skiptingar:
45′ – Toone inn fyrir Green
59′ – Galton inn fyrir Hanson
89′ – Devlin inn fyrir James
Leikurinn sjálfur
Leikurinn byrjaði fjörlega. Liverpool spilaði með hápressu og reyndi að vinna boltann hátt uppi á vellinum á meðan Manchester United hélt yfirvegun, spilaði út úr vörninni og nýtti sér hraða liðsins á köntunum. Fyrstu mínúturnar voru fram og til baka en eftir 10-15 mínútur fór United að ná meiri tökum á leiknum. Miðjan studdi vel við vörnina sem leyfði bakvörðunum að bomba duglega fram til að sækja. Sérstaklega var fyrirliði liðsins, Alex Greenwood, spræk í að sækja. Virkilega öflugur leikmaður og þrátt fyrir að hún hafi spilað síðustu 2 tímabil fyrir Liverpool þá lét hún það svo sannarlega ekki stoppa sig í að þjarma duglega að leikmönnum Liverpool.
https://twitter.com/Fristajler/status/1031169360218480640
Eftir hálftíma leik fór Liverpool að komast betur inn í leikinn og liðin skiptust á að hafa yfirhöndina úti á vellinum. Bæði lið spiluðu þó pósitífan bolta og reyndu að sækja vel. Manchester United fór að fá töluvert af föstum leikatriðum, aðallega hornspyrnum. Úr einni slíkri fékk framherjinn Jess Sigsworth nokkuð gott skallafæri en setti boltann framhjá. Hún virðist þó ansi sterk í loftinu og á eflaust eftir að skora þau nokkur skallamörkin í vetur.
Manchester United átti svo tvær langbestu marktilraunir hálfleiksins á síðustu 5 mínútum hans. Fyrst var það Greenwood sem átti frábært skot beint úr aukaspyrnu sem Anke Preuss í marki Liverpool varði mjög vel. Preuss átti svo enn betri markvörslu stuttu síðar þegar Lizzie Arnot átti frábæra stungusendingu á Sigsworth sem stakk sér innfyrir vörn Liverpool. Skotið var fast meðfram jörðinni en Preuss varði. Casey Stoney hefur án efa verið ánægð með þessa byrjun hjá sínu liði.
Hún gerði þó eina breytingu í hálfleik, þá kom hin 18 ára Ella Toone inn fyrir Mollie Green. Þetta var sóknarsinnuð skipting en við það kom smá rót á miðjuna hjá liðinu sem hafði verið mjög traust í fyrri hálfleik. Liverpool átti meira í leiknum til að byrja með í seinni hálfleiknum en náði þó ekki að skapa sér mikið af hættulegum færum. Varnarlína United, með reynsluboltann Siobhan Chamberlain í markinu þar fyrir aftan, réð vel við flest allt sem Liverpool reyndi.
Þegar leikurinn var við það að verða klukkutíma gamall kom önnur skipting, þar sem hin örvfætta og eitraða Leah Galton (sem spilaði síðast fyrir Bayern Munchen) kom inn á kantinn í staðinn fyrir hina skosku Kirsty Hanson. Galton var nýkomin inn á þegar hún fékk frábært marktækifæri, eftir góða vinnu frá Sigsworth, en aftur kom Preuss í veg fyrir mark með góðri markvörslu. Stuttu eftir það var svo komið að okkar markverði að eiga góða vörslu þegar Liverpool komst í eitt af fáum góðu færum sínum í leiknum.
Leikurinn opnaðist svo síðasta korterið þegar bæði lið reyndu að sækja til sigurs. Ef leikurinn hefði endað með jafntefli þá hefði verið farið beint í vítaspyrnukeppni þar sem sigurvegarinn hefði fengið 2 stig en tapliðið í vítaspyrnukeppninni fengið 1 stig. En til þess kom þó sem betur fer ekki.
Á 83. mínútu leiksins átti United virkilega flotta sókn. Greenwood var þá einu sinni sem oftar að keyra upp vinstri kantinn. Hún átti þá sendingu á Galton og hélt hlaupi sínu áfram inn í teiginn. Galton stakk boltanum inn í hlaupaleiðina hjá Greenwood sem gaf fasta og lága fyrirgjöf fyrir markið þar sem Lizzie Arnot lúrði á fjærstönginni og setti boltann í netið. Frábært mark!
https://twitter.com/ManUtdWomenFC/status/1031203853130244097
Strax í kjölfarið munaði litlu að United bætti við marki þegar Kirsty Smith átti flott skot af 20 metra færi sem Preuss náði að verja í slána. Rosalegur leikur hjá þýska markverðinum. 3 mínútum fyrir leikslok var Liverpool mjög nálægt því að jafna með þeirra bestu marktilraun í leiknum. Christie Murray átti þá flotta aukaspyrnu sem hafnaði í stönginni og rúllaði svo meðfram marklínunni en sem betur fer réttu megin við hana og framhjá hinni stönginni. Mjög tæpt. En United kláraði leikinn og fagnaði góðum sigri í fyrsta leiknum. Sigurinn hefði léttilega getað orðið stærri en langbesti leikmaður Liverpool í leiknum var markvörðurinn Anke Preuss. Nuff said.
https://twitter.com/ManUtdWomen/status/1031194464499519488
Pælingar eftir leikinn
Það var verulega gaman að sjá þetta lið spila. Leikur liðsins var heilsteyptari og flottari en ég þorði að vona eftir þetta stuttan tíma, liðið hefur haft 6 vikur til að undirbúa sig frá grunni. Auðvitað hjálpaði það til að þarna er kjarni sem kemur úr sama liði og svo annar kjarni sem þekkist úr unglingastarfi Manchester United. Samt sem áður á þjálfarateymið, og leikmenn sjálfir, hrós skilið fyrir að hafa náð svo langt á svo stuttum tíma.
Strax var hægt að sjá hvað liðið ætlaði sér að gera. Stoney ákvað að nota Millie Turner í miðvörðinn við hliðina á Amy Turner. Millie er að upplagi afturliggjandi miðjumaður sem hefur mjög öfluga sendingargetu. Enda var strax skýrt að markmiðið var að spila sig út úr vörninni, sama hversu mikið Liverpool reyndi að beita hápressu. Og það gekk mjög vel. Varnarlínan var afar yfirveguð og Millie heillaði mig mjög mikið í sínu hlutverki. Turner-tvíeykið gæti orðið gríðarlega öflugt í vetur. Jafnvel á báðum vallarendum því þær eru báðar hættulegar í föstum leikatriðum.
Alex Greenwood er stórkostlegur leikmaður. Ég skil vel að Liverpool-stuðningsmenn séu fúlir að sjá á eftir henni. Ganga jafnvel svo langt að segja að hún sé að svíkja lit með því að yfirgefa Liverpool fyrir Manchester United. En Greenwood var nú ekki nema 2 tímabil hjá Liverpool, er í grunninn Evertonian og við vitum nú öll að það hefur lengi verið fínasta samband á milli United og Everton. Við fáum góða leikmenn frá þeim og þeir taka við leikmönnum sem við viljum ekki lengur eða getum ekki notað. Win-win!
Annar leikmaður sem heillaði mig sérstaklega mikið var Lauren James á miðjunni. Casey Stoney gerði mjög vel í að lokka James frá Arsenal, líklega hefur spilað mikið inn í að hjá United mun James verða lykilleikmaður sem fær mikinn spilatíma. Það hefur Arsenal sennilega ekki getað lofað henni. Arsenal hlýtur þó að sjá mikið á eftir henni því þetta er mjög öflugur leikmaður. Þrátt fyrir að vera yngsti leikmaðurinn í hópnum þá spilaði hún eins og einn sá reynslumesti. Lét finna vel fyrir sér inn á miðjunni, batt vel saman vörn og sókn, var dugleg að finna kantmenn, með öflugar sendingar og bara flottan alhliða leik. Besta lýsingin á henni er að segja að það er mjög viðeigandi að hún sé í treyju númer 16. Fylgist vel með þessari í framtíðinni!
Björt framtíð
Siobhan Chamberlain í markinu er 35 ára og langelst af núverandi leikmönnum í hópnum. Það er gott að hafa reynslubolta þarna á meðan liðið er ungt en fyrir aftan hana í röðinni eru tveir unglingalandsliðsmarkverðir, sem eru fæddar 2000 og 2001. Það þarf því ekki að hafa mjög miklar áhyggjur af aldri Chamberlain hvað þetta varðar. Miðað við frammistöðu Chamberlain í þessum fyrsta leik þá kæmi það manni þó ekkert á óvart ef hún myndi púlla van der Sar á þetta og spila til fertugs.
Restin af liðinu eru ungir leikmenn. Meðalaldur útileikmannanna í leiknum gegn Liverpool var rétt rúmlega 22 ára. Og samt voru flestir elstu leikmenn liðsins með. Lauren James sem stjórnaði miðjunni eins og herforingi er 16 ára! Reyndar bara í rúmlega mánuð í viðbót, en samt! Ella Toone, sem kom inná í hálfleik, er 18 ára. Afar flottur aldur á svona liði, myndi ég segja.
Framundan hjá liðinu
Næsti leikur í deildarbikarnum er strax næsta laugardag. United er í Norðurriðli tvö og spilar þar næst gegn Reading. Reading vann líka sinn leik um helgina og eru því bæði lið með 3 stig. Eftir einfalda umferð fara tvö lið úr hverjum riðli áfram í 8-liða úrslit deildarbikarsins.
Leikurinn á laugardaginn byrjar klukkan 11:00 að íslenskum tíma og verður á heimavelli United liðsins, á Leigh Sports Village vellinum. Vonandi verður öflug mæting á þann leik. Því miður virðist hann ekki ætla að verða sýndur í sjónvarpinu sem er mikil synd og skömm. Ef við fréttum af einhverjum útsendingum þá látum við ykkur vita. Sömuleiðis væri vel þegið að þið mynduð smella kommenti hér að neðan ef þið heyrið af útsendingu frá þessum leik. Þetta lið er sannarlega þess virði að fylgst sé með því.
Sindri says
Frábært! Meira svona!
Bjarni says
Frábær byrjun hjá kvennaliðinu. Greenwood virðist vera algjör gullmoli, verður gaman að fylgjast með henni í vetur. Ekki skemmir fyrir að þær eru flestar stór huggulegar á velli og virðast vera stoltar að spila fyrir félagið og taka þátt í uppbyggingunni.
GGMU
Halldór Marteinsson says
Frábærar fréttir!
MUtv mun sýna leikinn gegn Reading í beinni útsendingu á laugardaginn. Útsending hefst kl. 10:30 að íslenskum tíma, leikurinn sjálfur hefst svo kl. 11:00.